Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 145/2013

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. ágúst 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 145/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 17. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá stofnuninni hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september 2011 til 19. nóvember 2011 en á þeim tíma hefði kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hefði fengið skráninguna ofgreitt vegna tekna. Samtals sé skuldin 139.078 kr. með 15% álagi. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. desember 2013. Kærandi fer fram á að Vinnumálastofnun dragi ákvörðun sína til baka. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðuninni um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur þann 26. janúar 2009 og var skráður atvinnulaus hjá stofnuninni til 30. desember 2011.

Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta fékk kærandi launagreiðslur frá bæjarsjóði B og C-kaupstað. Í þeim tilvikum sem greiðslurnar námu hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta gerir ráð fyrir þá komu þær til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi skilaði launaseðlum vegna vinnu sinnar til Vinnumálastofnunar en þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun safnaði kærandi upp skuld á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni. Var kæranda tilkynnt um fjárhæð skuldar sinnar með greiðsluseðlum. Var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi hætti að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta þann 30. desember 2011 nam skuld kæranda 139.078 kr. með 15% álagi að fjárhæð 18.141 kr.

Þann 17. október 2013 var kæranda sent innheimtubréf vegna ógreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. september 2011 til 19. nóvember 2011 og skorað á hann að greiða skuld sína innan 90 daga. Tekið var fram að ef bréfinu væri ekki svarað innan 14 daga eða skuld að fullu greidd innan þriggja mánaða yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu.

Í erindi kæranda, dags. 10. desember 2013, greinir hann meðal annars frá því að honum hafi aldrei, síðan hann hætti á atvinnuleysisbótum, verið tilkynnt að hann gæti verið í skuld við Vinnumálastofnun. Kærandi taldi að öllum samskiptum hans við Vinnumálastofnun væri lokið og að liðnum tveimur árum sé haft samband við kæranda og honum tjáð að það sé ekki þannig, heldur standi hann í skuld við stofnunina.

Kærandi hringdi í Greiðslustofu Vinnumálastofnunar í kjölfarið og þar var því haldið fram að kæranda hefði verið tilkynnt þetta og að slík tilkynning hefði birst á yfirlitum inni á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi kveðst aldrei hafa séð þau yfirlit og hafi heldur ekki haft ástæðu til að fara inn á þá síðu undanfarin tvö ár. Kærandi bað um að fá uppgefið lykilorð svo hann gæti skoðað þessa tilkynningu, en hafi verið neitað um það.

Kærandi bendir á að síðustu samskipti hans við Vinnumálastofnun voru síðla árs 2011 og sé því langt um liðið síðan þau áttu sér stað. Þeim lauk með kæru frá kæranda og Vinnumálastofnun hafi dregið til baka úrskurð sem byggður hafi verið á hreinum getgátum. Kærandi gerði námssamning við stofnunina sumarið 2011 og þeim samningi hafi verið rift þangað til kærandi lagði fram kæru og þá fyrst hafi stofnunin staðið við sinn hluta samkomulagsins. Greiðslur atvinnuleysisbóta hafi fallið niður frá ágúst til desember og hafi kærandi þurft að hafa talsvert fyrir því að fá stofnunina til þess að standa við gefin loforð. Eftir það hafi kærandi ekki þegið neinar atvinnuleysisbætur og sé honum til efs að hann muni nokkurn tímann þiggja nokkuð frá stjórnsýslunni nema í neyð.

Kærandi hafi nánast verið tekjulaus fyrri hluta ársins 2012 en þá hafi hann kúvent lífi sínu og hafið nám. Kærandi reyndi eftir bestu getu að bjarga því sem bjargað yrði, frysta lán og semja um fresti. Þrátt fyrir það hafi húseign kæranda verið auglýst á nauðungaruppboði í ágúst 2012. Vaxtabætur og fyrsta raunverulega launagreiðsla sem kærandi fékk fyrir verslunarmanna-helgina 2012 hafi bjargað kæranda og fjölskyldu hans. Kærandi hafi hvergi fengið eftirgjöf á dráttarvöxtum né almennum vöxtum, ekki fengið niðurfelldar skuldir eða innheimtukostnað og ekki hafi ein einasta króna verið afskrifuð. Kærandi hafi sjálfur og í samstarfi við fólkið sitt, greitt allt sem greitt hafi verið.

Kærandi fari fram á að Vinnumálastofnun dragi til baka þessa ákvörðun sína og telji undarlegt að stofnunin komi fram með þessa kröfu núna. Kæranda telji stofnunina hafa sýnt af sér tómlæti allan þennan tíma líða án þess að birta honum þessa kröfu, fyrir utan það að hann dragi stórlega í efa lögmæti þess. Síðan samskiptum hans lauk við stofnunina hafi kærandi skilað inn skattskýrslu tvívegis og stofnunin sjálf ætti undir eðlilegum kringumstæðum einnig að hafa skilað ársskýrslu í tvígang á sama tímabili. Allan þann tíma hafi þessi meinta skuld ekki borið á góma, verið birt kæranda, tilkynnt honum eða tjáð.

Kærandi fari enn fremur fram á það að úrskurðarnefndin finni í samskiptasögu hans þær tillögur sem hann sjálfur bar fram til lausnar á atvinnumálum sínum, um að hefja nám árið 2010. Lausn sem hafi ekki verið Vinnumálastofnun þóknanleg, en hefði orðið til þess að kærandi hefði komist í virka fulllaunaða vinnu heilu ári áður en raunin varð.

Kærandi bendir á að hann láti fylgja með greinargerð sem hann hafi tekið saman árið 2011 vegna kæru sinnar þá til úrskurðarnefndarinnar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. febrúar 2014, er bent á lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Tekjur umfram frítekjumark skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Sökum þess að kærandi hafði ekki skilað inn tekjuáætlun til stofnunarinnar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar. Var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldjafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur.

Samtals hafi verið skuldajafnað í máli kæranda að fjárhæð 454.620 kr.

Eftirstöðvar uppsafnaðrar skuldar kæranda nemi nú 139.078 kr. að viðbættu 15% álagi og krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu kæranda á ofgreiddum atvinnuleysisbótum á þeirri fjárhæð sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Bendi Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 49/2010. Jafnframt bendi Vinnumálastofnun á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 86/2013 um að það sé á ábyrgð þess sem fær greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. febrúar 2014. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. febrúar 2014. Í athugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að hann telji greinargerð Vinnumálastofnunar gagnlega að því leyti að hún setji samskiptasögu hans við Vinnumálastofnun í ákveðna tímaröð og styðji þá skoðun kæranda og túlkun að hann hafi ekki hallað neinum sannleik í málinu sem stofnunin hafi haft uppi gegn kæranda og krafið hann um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta.

Í málatilbúnaði Vinnumálastofnunar hafi komið fram að kærandi hefði skilað inn launaseðlum. Það sé rétt og þessum launaseðlum hafi verið skilað inn þrátt fyrir að kærandi hefði verið tekinn af bótum þegar hann átti að vera í námi samkvæmt samningi við sömu stofnun. Þetta var kallað „vinnandi vegur“ þegar Vinnumálastofnun sjálf hafði frumkvæði að slíkum aðgerðum.

Kærandi bendi sérstaklega á málsgreinina „Þar sem A er á synjun færði ég þá ekki inn“ á blaðsíðu 2 í samskiptasögu stofnunarinnar og þar sé átt við launaseðlana. Kærandi telji að samkvæmt orðanna hljóðan þýði þetta það að launaseðlar frá kæranda hafi ekki verið færðir inn þegar kærandi hafði verið tekinn út af sakramentinu. Út af þessu kærði kærandi ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar á haustmánuðum 2011 og þá eigi meint brot kæranda að hafa verið framin.

Þá átti kærandi sig heldur ekki á því hvað átt sé við með tekjuáætlun í bréfum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar. Kæranda vitanlega hafi hann aldrei verið beðinn um að gera tekjuáætlun. Honum var fullkunnugt um að í reglum stofnunarinnar væri ákveðið frítekjumark og að færi hann yfir það kæmi til skerðingar ábótum. Kærandi var ítrekað búinn að gera grein fyrir hvaða tekjur hann væri að fá og að þær væru mismunandi hverju sinni, ekki greitt fyrir sumt af því sem hann var að inna af hendi og auk þess hafi hann verið varamaður í nefndum á þessu tímabili og átt erfitt með að sjá fyrirfram hvað hann fengi greitt og hvenær.

Þegar samskiptum kæranda og Vinnumálastofnunar hafi verið að ljúka var ljóst að kærandi fengi engar bætur eftir fyrstu önn í námi og þess vegna skilji kærandi ekki hvers vegna stofnunin gat ekki lokið þessu án þess að búa til skuld hjá kæranda sem hann sé að fá í bakið tveimur árum eftir að þessum samskiptum átti að vera að fullu lokið. Kæranda séð það óskiljanlegt með öllu nema Vinnumálastofnun hafi ekki fært launaseðlana inn þrátt fyrir að hann teldi sig hafa skilað þeim. Vinnumálastofnun ætti að sjá sóma sinn í því að láta þetta niður falla nú þegar og sitja uppi með skömmina fyrir sín eigin mistök.

Kærandi geri alvarlega athugasemd við meðferð persónuupplýsinga sem sé að finna í útprentun á samskiptasögu sinni við stofnunina. Stofnunin hafi birt upplýsingar um samskipti kæranda við Vinnumálastofnun á árinu 2002 sem komi þessu máli ekkert við. Með þessu telji kærandi stofnunina hafa brotið lög um meðferð persónuupplýsinga og misbeitt aðstöðu sinni í þeim eina tilgangi að kasta rýrð á kæranda fyrir að veita réttmæta andstöðu við því ofríki sem hún hyggist beita kæranda í þessu máli. Kærandi eins og aðrir sem séu á vinnumarkaði ávinni sér rétt til atvinnuleysisbóta hafi hann verið í fullri vinnu í ákveðinn tíma, sem og hann var.

Enn fremur geri kærandi athugasemdir við innheimtukostnað upp á 15% sem sé lagður ofan á meinta kröfu um endurgreiðslu. Þessari endurgreiðslukröfu hafi aldrei verið komið á framfæri við kæranda og það komi hvergi fram í samskiptasögunni góðu að það hafi verið gert. Hvergi sé að finna stafkrók um það. Það sé andstætt öllum lögum að setja innheimtukostnað á kröfu sem ekki hafi verið komið á framfæri við greiðanda. Þessi innheimtukostnaður eigi engan rétt á sér.

Kærandi fari þess á leit við úrskurðarnefndina að hún hlutist til um að það fari fram einhver opinber rannsókn á fjárreiðum Vinnumálastofnunar og að það verði farið ofan í saumana á því hvernig standi á því að stofnunin komi fram með fjárkröfur á hendur skjólstæðingum sínum löngu eftir að máli þeirra á að vera lokið og þau endanlega afgreidd.

2. Niðurstaða

Í máli þessu er til endurskoðunar sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 1. september 2011 til 19. nóvember 2011.

Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt vegna tekna og er 1. mgr. greinarinnar svohljóðandi:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslur frá bæjarsjóði B og C-kaupstað á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi skilaði launaseðlum vegna vinnu sinnar en þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun safnaði hann upp skuld á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Um þá skuld var kæranda tilkynnt með greiðsluseðlum. Virðist ágreiningurinn í máli þessu helst lúta að því hvort stofnuninni sé heimilt að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur svo löngu eftir að kærandi hætti að þiggja bæturnar.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og er ákvæðið svohljóðandi.

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð frumvarpsins til laga um atvinnuleysistryggingar segir um 39. gr. meðal annars að gert sé ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar séu í þeim tilvikum er hann fái hærri greiðslur úr sjóðnum en honum beri. Þetta eigi við um öll tilvik sem kunni að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Mikilvægt sé að frumvarpið heimili skuldajöfnuð við atvinnuleysisbætur er hinn tryggði kann síðar að eiga rétt á en lagt er til að einungis verði heimilt að skuldajafna fjárhæð sem nemur 25% af þeim bótum sem hann á rétt á.

Í samræmi við heimild í 3. mgr. 39. gr. laga atvinnuleysistryggingar var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum.

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 139.078 kr. á tímabilinu 1. september 2011 til 19. nóvember 2011 og hefur sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki verið vefengdur.

Kærandi undrast að Vinnumálastofnun sé unnt að leggja fram kröfu tveimur árum eftir að hann hætti að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi telur stofnunina hafa sýnt af sér tómlæti allan þennan tíma og dregur jafnframt í efa lögmæti hennar.

Á síðustu greiðsluseðlunum sem kæranda voru sendir, þ.e. í október, nóvember og desember 2011, kemur fram að kærandi hafði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og að skuld hefði þess vegna myndast við stofnunina. Innheimtubréf Vinnumálastofnunar er síðan dagsett tæpum tveimur árum síðar eða 17. október 2013. Samkvæmt þessu er ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um skuld sína við Vinnumálastofnun þótt vissulega hefði stofnuninni verið í lófa lagið að senda innheimtubréfið í kjölfar þess að greiðslu atvinnuleysisbóta var hætt. Þrátt fyrir þann drátt sem varð á innheimtu skuldar kæranda vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta þá er það ekki slíkur annmarki að ógilda beri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiðsluna því kærandi skuldar stofnuninni eftir sem áður.

Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði.

Kærandi gerði athugasemdir við 15% álagið þar sem endurgreiðslukröfunni hefði aldrei verið komið á framfæri við kæranda og telur hann það andstætt lögum.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum og er í 2. mgr. ákvæði um 15% álag á endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta sem er svohljóðandi:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa er engin heimild til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra bóta.

Þá fer kærandi fram á það að úrskurðarnefndin fyndi tillögur hans í samskiptasögunni sem hann bar fram til lausnar á atvinnumálum sínum. Einnig fer kærandi fram á það að úrskurðarnefndin hlutist til um að fram fari opinber rannsókn á fjárreiðum Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Samkvæmt ákvæðinu felst það því ekki í hlutverki nefndarinnar að fjalla um ofangreindar kröfur kæranda, enda liggja ekki fyrir ákvarðanir Vinnumálastofnunar um það efni. Því er þeim kröfum kæranda vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að endurkrefja hann um ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt að fjárhæð 139.078 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 18.141 kr. er staðfest.

Kröfum kæranda um að finna tillögur hans í samskiptasögu og að fram fari opinber rannsókn á fjárreiðum Vinnumálastofnunar er vísað frá.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum