Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 115/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 115/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. febrúar 2011 til 19. maí 2012 en á þeim tíma hafi kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann fékk ofgreitt vegna tekna. Vinnumálastofnun fór fram á að kærandi endurgreiddi 311.548 kr. ásamt 15% álagi, alls 358.280 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettri kæru, móttekinni 22. október 2013. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda líkt og honum hafi verið tilkynnt um með bréfinu, dags. 17. október 2013.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 3. febrúar 2009.

Þann 9. apríl 2010 var kæranda sent bréf vegna þess að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra virtist sem kærandi hafi haft tekjur í janúar 2010, án þess að gera grein fyrir þeim, á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Var kæranda gefinn sjö daga frestur til að skila inn upplýsingum vegna þessa til Vinnumálastofnunar. Í kjölfarið barst stofnuninni tilkynning um tekjur fyrir janúar, febrúar og mars 2010. Vinnumálastofnun bárust ekki frekari tilkynningar um tekjur frá kæranda vegna lífeyrissjóðsgreiðslna fyrr en í desember 2011 þegar gerð var grein fyrir áætluðum mánaðarlegum greiðslum frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun fyrir mánuðina apríl 2010 til nóvember 2011 safnaði kærandi upp skuld á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni. Tekjuáætlun kæranda fyrir desember 2011 til maí 2012 var einnig í nokkrum tilfellum lægri en fjárhæð lífeyrisgreiðslna og safnaði kærandi því upp skuld á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni fyrir þá mánuði. Var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur.

Þegar kærandi hætti að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta, þann 28. júní 2012, nam skuld hans 311.548 kr. ásamt 15% álagi 46.732 kr. eða samtals 358.280 kr.

Þann 17. október 2013 var kæranda sent innheimtubréf vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. febrúar 2011 til 19. maí 2012. Var skorað á kæranda að greiða skuld sína innan 90 daga. Tekið var fram í bréfinu að ef því væri ekki svarað innan 14 daga eða skuld að fullu greidd innan þriggja mánaða yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu. Þann 21. október 2013 óskaði kærandi eftir rökstuðningi á innheimtubréfi Vinnumálastofnunar. Rökstuðningur stofnunarinnar var sendur kæranda með bréfi, dags. 4. nóvember 2013.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann sé ósáttur við að hafa ekki fengið umrædda greiðsluáskorun fyrr. Þetta hafi komið honum mjög í opna skjöldu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. janúar 2014, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Jafnframt bendir Vinnumálastofnuna á að af ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar leiði að það hvíli rík upplýsingaskylda á kæranda að upplýsa stofnunina um allt það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur, þar með taldar greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Þá bendir Vinnumálastofnun á að í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysisbóta vegna tekna umsækjanda. Í ákvæðinu sé meðal annars kveðið á um að tekjur sem kærandi þiggi úr almennum lífeyrissjóði geti skert atvinnuleysisbætur ef þær ásamt öðrum tekjum séu hærri en óskertur réttur hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki. Af þessu ákvæði leiði að ef Vinnumálastofnun berist ekki þær upplýsingar sem kveðið sé á um í ákvæðinu geti kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem honum beri að endurgreiða.

Þar sem ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun vegna lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda hjá stofnuninni hafi safnast upp skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar á sama tíma og kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni. Hafi ofgreiddum atvinnuleysisbótum verið skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samtals hafi verið skuldajafnað í máli kæranda 494.714 kr.

Eftirstöðvar uppsafnaðrar skuldar kæranda nemi nú 358.280 kr. og krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu kæranda á ofgreiddum atvinnuleysisbótum að þeirri fjárhæð sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kynni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi fái ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd sé. Vinnumálastofnun bendir á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 49/2010. Jafnframt bendir stofnunin á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 86/2013 um að það sé á ábyrgð þess sem fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. janúar 2014. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Í máli þessu er til endurskoðunar sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 1. febrúar 2011 til 19. maí 2012.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að hinum tryggða beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ef Vinnumálastofnun berast ekki þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæðinu, en það er svohljóðandi:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Samkvæmt greiðslusögu Greiðslustofu Vinnumálastofnunar fékk kærandi greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það.

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að atvinnuleitandi skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í máli þessu liggur fyrir að á umræddu tímabili fékk kærandi greiddan lífeyri frá Greiðslustofu lífeyrissjóða samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta án þess að hafa upplýst Vinnumálastofnun um það svo sem honum bar skv. 3. mgr. 9. gr. laganna.

Í samræmi við heimild í 3. mgr. 39. gr. laga atvinnuleysistryggingar var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum.

Í greinargerð frumvarpsins til laga um atvinnuleysistryggingar segir um 39. gr. meðal annars að gert sé ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar séu í þeim tilvikum er hann fái hærri greiðslur úr sjóðnum en honum beri. Þetta eigi við um öll tilvik sem kunni að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Mikilvægt sé að frumvarpið heimili skuldajöfnuð við atvinnuleysisbætur er hinn tryggði kann síðar að eiga rétt á en lagt er til að einungis verði heimilt að skuldajafna fjárhæð sem nemur 25% af þeim bótum sem hann á rétt á.

Jafnframt er í greinargerð með ákvæðinu áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 358.280 kr. á tímabilinu 1. febrúar 2011 til 19. maí 2012 og hefur sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki verið vefengdur.

Kærandi segir innheimtu Vinnumálastofnunar hafa komið sér í opna skjöldu og kveðst jafnframt hafa viljað fá þessa ábendingu fyrr. Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar kom fram á þremur greiðsluseðlum, þ.e. í mars, apríl, maí og júní 2012, að við útreikning atvinnuleysisbóta hefði komið í ljós að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og að skuld hefði þess vegna myndast við stofnunina. Innheimtubréf Vinnumálastofnunar er síðan dagsett rúmu ári síðar eða 17. október 2013. Samkvæmt þessu er ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um skuld sína við Vinnumálastofnun þótt vissulega hefði mátt senda innheimtubréfið strax í kjölfar þess að greiðslu atvinnuleysisbóta var hætt, enda hafi honum mátt vera ljóst af greiðsluseðlum að hann væri í skuld við stofnunina. Hér má einnig benda á að dráttur málsins hefur ekki valdið kæranda sérstöku tjóni enda bættust hvorki dráttarvextir né annar kostnaður við skuldina.

Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu á hendur A vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. febrúar 2011 til 19. maí 2012 að fjárhæð 311.548 kr. ásamt 15% álagi 46.732 kr. eða samtals 358.280 kr. er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum