Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 117/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 20. júní 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 117/2013.

 1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 27. júní 2013 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Fyrir lágu skýringar kæranda á námslokum. Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til námsloka hans hjá Háskólanum í Reykjavík og geti kærandi fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum eftir að hann hafi starfað samfellt í 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur, með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. september 2013. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði leiðrétt. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 9. apríl 2013.

Þann 12. desember 2010 sætti kærandi niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði vegna ófullnægjandi mætingar á námskeið, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 20. janúar 2010 sætti kærandi niðurfellingu bótaréttar í þrjá mánuði vegna ófullnægjandi mætingar á námskeið, sbr. 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi mætti 23. apríl 2013 og staðfesti rafræna umsókn sína um atvinnuleysisbætur og skilaði meðal annars inn vottorði um skólavist frá Háskólanum í Reykjavík. Á því vottorði var tekið fram að kærandi hefði verið skráður í nám á vorönn 2013 en hefði þann 9. apríl 2013 verið skráður úr námi að hans eigin ósk. Jafnframt skilaði kærandi inn skýringarbréfi á ástæðum námsloka sinna. Með bréfi, dags. 8. maí 2013, var kæranda sent bréf vegna námsloka hans hjá Háskólanum í Reykjavík og honum gefið tækifæri á að skila inn frekari skýringum vegna þessa, en engar frekari skýringar bárust.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, 6. júní 2013. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. júní 2013, var kæranda tilkynnt að vegna námsloka hans hjá Háskólanum í Reykjavík væri bótaréttur hans felldur niður þar til hann hefði starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 55. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu er tekið fram að kærandi hafði áður sætt niðurfellingar bótaréttar í þrjá mánuði vegna fjarveru á námskeið.

Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. september 2013, greinir kærandi frá því að í byrjun apríl 2013 hafi hann neyðst til þess að sækja um fjárhagsaðstoð hjá Vinnumálastofnun. Allir pappírar hefðu verið lagðir tímanlega inn en eftir mánuð á skrá hafi kærandi fengið synjun vegna þess að hann hætti í námi til að komast á launaskrá, að ráðum fulltrúa Vinnumálastofnunar þess efnis að það væri eina leiðin fyrir hann til að komast á skrá og hann hafi nauðsynlega þurft á peningunum að halda. Þar af leiðandi hafi kærandi sótt um hjá þjónustumiðstöð Breiðholts í maí. Fyrstu mánaðamótin hafi kæranda ekkert fengið greitt frá Vinnumálastofnun og safnaði hann skuldum fram að miðjum júlí, en þá hafi Vinnumálastofnun greitt skuldaðan mánuð eins og launaseðill sýni. Sökum þessa seinagangs hafi kærandi ekkert fengi greitt frá þjónustumiðstöðinni í byrjun ágúst sem setti kæranda aftur á byrjunarreit og nú sé svo komið að kærandi sé að fara að missa leigusamninginn sinn sökum þess að vera alltaf mánuði á eftir með leigugreiðslur. Krafa kæranda er sú að hann fái þennan mánuð greiddan, hvort sem það komi í hlut Vinnumálastofnunar eða þjónustumiðstöðvarinnar að greiða, þá finnist kæranda óréttlátt að þetta bitni á þeim sem ekki eigi sök. Þetta mál hafi gert síðasta hálfa ár mjög erfitt og kæranda vanti einhvern til að taka upp hanskann fyrir sig því hingað til hafi hann fengið tvisvar synjanir án útskýringa. Vonar kærandi innilega að úrskurðarnefndin muni sjá sína hlið málsins, hann vanti sárlega þennan pening og yrði mjög þakklátur ef þetta yrði leiðrétt.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. janúar 2014, kemur fram að mál þetta lúti að 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð við frumvarp það er varð síðar að lögunum sé í umfjöllun um 1. mgr. 55. gr. vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvaða ástæður geti talist gildar ástæður fyrir því að hætta störfum. Í greinargerðinni segi við 1. mgr. 54. gr. að erfitt geti reynst að telja með tæmandi hætti hvaða ástæður séu gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna. Sé lagareglan því matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur fellur að umræddri reglu. Stofnunin skuli líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi falli færri tilvik en ella þar undir. Í dæmaskyni sem gildar ástæður í skilningi laganna séu til dæmis nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda.

Vinnumálastofnun bendir á að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem misst hafa starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra er segja starfi sínu upp eða hætta námi að þeir hafi til þess gildar ástæður.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi verið skráður í nám við Háskólann í Reykjavík á vorönn 2013. Í vottorði frá skólanum komi fram að kærandi hafi sjálfur sagt sig úr námi. Í skýringarbréfi kæranda, mótt. 23. apríl 2013, hafi kærandi tekið fram að ástæður þess að hann hafi hætt námi við Háskólann í Reykjavík hafi verið sú að námslánin hafi ekki dugað honum og því hafi hann farið að leita að vinnu. Þegar enga vinnu hafi verið að fá hafi hann sótt um atvinnuleysisbætur. Hafi námslok vegna fjárhagslegra örðugleika ekki verið taldar gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. niðurstöður úr fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 30/2009 og 70/2010. Verði ekki séð að þær ástæður sem kærandi hafi fært fyrir úrsögn sinni úr námi séu á nokkurn hátt frábrugðnar öðrum ástæðum er lúta að fjárhag námsmanns eða að breyttar forsendur hafi verið fyrir áframhaldandi námsþátttöku kæranda.

Í ljósi þessara atriða sé það mat Vinnumálastofnunar að ástæður kæranda fyrir námslokum teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þar sem kærandi hafði tvisvar áður sætt niðurfellingu bótaréttar, bæði skiptin vegna ófullnægjandi mætingar á námskeið, þá hafi verið um að ræða niðurfellingu bótaréttar kæranda í þriðja sinn. Í 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ítrekunaráhrif þegar atvinnuleitandi sætir viðurlögum eða biðtíma í þriðja sinn.

Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skilyrði þess að atvinnuleitandi samkvæmt lögunum geti öðlast nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna áður en fyrra tímabili sé lokið. Til þess þarf atvinnuleitandi að hafa starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt orðalagi 4. mgr. 61. gr. laganna séu viðurlög við því að atvinnuleitandi sé látinn sæta viðurlögum eða biðtíma í þriðja sinn þau að hann missi þann rétt sem hann eigi ótekinn af líðandi greiðslutímabili skv. 29. gr. og þurfi að starfa samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann eigi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta aftur.

Þar sem um hafi verið að ræða niðurfellingu bótaréttar til kæranda í þriðja sinn þá eigi regla 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við í máli hans. Kærandi eigi því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 31. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. janúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að eðlilegra þyki að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skiptir þá ekki hvenær á námsönn hlutaðeigandi hættir námi. Gert er ráð fyrir að vottorð frá hlutaðeigandi skóla um að hann hafi hætt námi fylgi umsókninni.

Jafnframt er vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins. Þar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ástæða sú, sem kærandi hefur fært fram fyrir því að hann hætti háskólanámi, þ.e. fjárhagserfiðleikar, sé ekki gild í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í máli þessu er um að ræða niðurfellingu bótaréttar í þriðja sinn. Fyrstu tvö skiptin vegna ófullnægjandi mætingar á námskeið en nú vegna þess að kærandi hætti í skóla. Í 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Í 4. mgr. greinarinnar segir:

Endurtaki atvik sig sem lýst er í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

Samkvæmt 31. gr. laganna hefst nýtt tímabil skv. 29. gr. þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hefur ekki starfað í a.m.k. 24 mánuði samfellt á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Ber því í ljósi alls framangreinds, sem og röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, telur úrskurðarnefndin rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. júní 2013 í máli A um synjun um greiðslur atvinnuleysisbóta og niðurfellingu bótaréttar hans í 24 mánuði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum