Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 95/2013

 Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 13. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 95/2013.

 1.      Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem kærandi hefði verið staðin að ræktun og sölu hunda samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kærandi talin hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. apríl til 30. júní 2013 að fjárhæð samtals 368.695 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. september 2013. B hdl. krefst þess, fyrir hönd kæranda, að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og ákvarðað að kærandi eigi rétt til atvinnuleysisbóta frá og með því tímamarki sem greiðslur til hennar voru stöðvaðar. Jafnframt verði Vinnumálastofnun gert að greiða kæranda vangreiddar atvinnuleysisbætur, ásamt vöxtum, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 11. júní 2012 og reiknaðist með 90% bótarétt.

Vinnumálastofnun hafði undir höndum upplýsingar þess efnis að kærandi hefði starfað sjálfstætt við það að rækta og selja hunda án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Henni var því sent bréf, dags. 24. júní 2013, og tekið fram að framangreint gæti farið í bága við 35. gr. a, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og varðað viðurlögum skv. 59. eða 60. gr. laganna. Kæranda var gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Vinnumálastofnun bárust skýringar frá lögmanni kæranda í bréfi dags. 9. júlí 2013, þar sem því er haldið fram að kærandi hafi ekki verið að vinna heldur að sinna áhugamáli sínu. Gerð er grein fyrir kostnaði kæranda við ræktun hennar á „C-hundum“, samtals að fjárhæð 710.577 kr. og jafnframt tekið fram að hún hafi selt fjóra hvolpa fyrir fjárhæðina 590.000 kr.

Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 24. júlí 2013. Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir ákvörðuninni og var hann sendur með bréfi, dags. 12. ágúst 2013.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að því sjónarmiði Vinnumálastofnunar sé hafnað að engu skipti hvort einstaklingar hafi launatekjur af athöfnum sínum, sbr. ákvæði laga og skýrt fordæmi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 163/2011. Bent er á að kærandi hafi áhuga á hundum. Áhugamálið hundar sé stundað með því að eiga hunda, nóta samvista við þá, þjálfa, sýna og rækta hunda. Með ræktun hjá venjulegum hundaáhugamanni sé ekki átt við fjöldaframleiðslu hunda eins og Vinnumálastofnun virðist telja. Ræktun hjá hundaáhugafólki snúi að því að eignast betri afkomendur undan góðum hundi til þjálfunar og sýninga. Þessir afkomendur komi, í fyllingu tímans, í stað foreldrisins enda sé hundsævi töluvert styttri en mannsævi.

Kærandi hafi haft áhuga á að rækta afkomanda undan C tík sinni, sem sé orðin sex ára, en varhugavert sé að tíkur eignist hvolpa eftir ákveðinn aldur. Þetta hafi hún ekki gert áður og hafi eðlilega verið spennt fyrir útkomunni en til þess megi rekja hin tilvitnuðu orð: „I am taking my first steps in breeding and my goal is to breed healthy, beautiful and good tempered dogs.“ Ekki hafi verið um óskipulagt got að ræða enda hafi kærandi viljað eignast afkomanda tíkur sinnar vegna áhugamálsins. Ekki verði hins vegar séð að það skipti máli að lögum að got sé skipulagt eða óskipulagt.

Tekið er fram að kærandi eigi rétt á að stunda tómstundir. Varðandi það hvort um atvinnurekstur hafi verið að ræða verði að meta umfang starfseminnar og hvort hún hafi verið í hagnaðarskyni og skilið eftir tekjur. Rétt sé að horfa til skilgreiningar b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á hugtakinu „sjálfstætt starfandi“ og beitingu skattalaga. Samkvæmt niðurstöðu umboðsmanns Alþings verði að gera allmiklar kröfur til umfangs tómstundastarfsemi til þess að hún teljist atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi snúið að einu goti og því ljóst að ekki hafi verið um reglubundna starfsemi að ræða. Bent er á að sala kæranda á hvolpum hafi ekki verið gerð með það að markmiði að hafa hagnað heldur að draga úr fjárútlátum, meðal annars þar sem hún hafi ekki mikið til skiptanna. Væri kæranda óheimilt að reyna að draga úr kostnaði við áhugamál sitt, þá væri ekki um tómstundastarfsemi heldur góðgerðarstarfsemi að ræða. Það sé ljóst að kærandi hafi ekki hagnast á gotinu heldur hafi hún haft af því kostnað.

Það sé ljóst að umrætt got hafi ekki verið atvinnustarfsemi heldur tómstundastarfsemi. Sú starfsemi kæranda falli ekki undir atvinnustarfsemi eða myndar skattskyldar tekjur, sbr. 61. gr. og 2. mgr. B-liðar 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Af því leiði að kærandi hafi ekki verið að vinna á íslenskum vinnumarkaði. Starfsemi kæranda var ekki reglubundin, umfangið hafi verið hverfandi og starfsemin – að heimilishundurinn eignaðist hvolpa – ekki stunduð í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði.

Greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 4. nóvember 2013. Þar er vísað til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að annar málsliður ákvæðisins taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggi að kærandi hafi ræktað og selt fjóra C hvolpa og þegið fyrir það greiðslu að fjárhæð 590.000 kr. Hafi það verið mat Vinnumálastofnunar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að kærandi teldist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðinu hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 37/2009 og fram hafi komið í athugasemdum með frumvarpinu að „þeir sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjald einu sinni á ári teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna“. Af ummælunum verði ráðið að jafnvel þeir sem sinni smávægilegum sjálfstæðum rekstri teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þrátt fyrir það að ræktun kæranda á hundum hafi verið smá í sniðum hafi reksturinn verið skattskyldur, sbr. b-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hafi kæranda því borið að reikna sér endurgjald, sbr. 58. gr. laga um tekjuskatt og reglur skattyfirvalda um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2013.

Varðandi röksemdir lögmanns kæranda um að skoða þurfi hvort einstaklingur hafi haft launatekjur af athöfnum sínum til að teljast hafa starfað á innlendum vinnumarkaði þá bendi Vinnumálastofnun annars vegar á að í athugasemdum í frumvarpi er varð að 23. gr. laga nr. 134/2009, en með ákvæðinu hafi orðalagi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið breytt eins og það hljóðar í dag, segi meðal annars að ákvæðinu sé ætlað að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 108/2012 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest, en í málinu hafi meðal annars legið fyrir að kærandi hafi ekki þegið nein laun fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi. Þá bendir Vinnumálastofnun einnig á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 157/2012 þar sem ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest, en kærandi í málinu hafi starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og rekstur hans skilað tapi. Það sé því, með vísan til framangreindra úrskurða, orðalags 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda við 23. gr. frumvarps er orðið hafi að lögum nr. 134/2009, ljóst að enginn áskilnaður sé gerður til launa eða að einstaklingur verði að hagnast á vinnu sinni svo hann teljist starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. nóvember 2013. Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi hans, dags. 2. desember 2013.

 2.      Niðurstaða

Vinnumálastofnun stöðvaði greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem stofnunin hafði undir höndum upplýsingar um að kærandi hefði starfað sjálfstætt við það að rækta og selja hunda án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun féllst ekki á skýringar kæranda og taldi hana eiga að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Kærandi er hundaeigandi og áhugamanneskja um hunda. Hún á tík af gerðinni C og ákvað að rækta afkomanda undan tíkinni. Tíkin gaut fimm hvolpum í einu goti. Kærandi seldi fjóra hvolpa fyrir samtals 590.000 kr. en hélt einum þeirra. Að sögn kæranda nam kostnaður við gotið samtals 710.577 kr.

Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á þá skilgreiningu Vinnumálastofnunar í máli þessu að vegna sölu hvolpanna hafi kærandi starfað á vinnumarkaði og að hún væri vegna þess ekki í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um var að ræða eitt stakt got heimilishunds kæranda sem hún heldur vegna áhuga síns á hundum. Ekki verður séð að tilgangur kæranda hafi verið sá að afla með þessu tekna heldur hafi hún einkum verið að sinna persónulegu áhugamáli sínu. Að mati úrskurðarnefndarinnar varðar umrædd háttsemi kæranda ekki við 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 24. júlí 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og að hún skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals að inniföldu 15% álagi 368.695 kr., er felld úr gildi.

 

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Helgi Áss Grétarsson

Hulda Rós Rúriksdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum