Hoppa yfir valmynd
11. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 61/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 61/2013.


1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 19. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri hafnað á grundvelli 30. gr. laga um atvinnuleysisbætur þar sem minna en 24 mánuðir væru liðnir frá því að fyrra bótatímabili hans lauk og því geti nýtt bótatímabil ekki hafist að nýju. Kærandi vildi ekki una þessu og telur að sér hafi verið synjað um eftirstöðvar bótaréttar sem nemi 6,5 mánuðum. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í desember 2008. Hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 29. maí 2012 eða samtals í 41,50 mánuð. Fór síðasta greiðsla atvinnuleysisbóta fram 2. júlí 2012. Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 8. júlí 2013.

Fram kemur í kæru að kærandi hafi verið á atvinnuleysisskrá í um það bil 3,5 ár og hafi hann verið með 48 mánaða bótatímabil. Í lok maí 2012 hafi honum verið boðin átaksvinna til eins árs hjá Reykjavíkurborg og hafi hann þegið það. Hafi hann þá átt eftir 6,5 mánaða bótarétt og hafi ráðgjafi tjáð honum að hann mundi halda þeim bótarétti þegar átaksvinnunni lyki í maí 2013. Þegar átaksvinnunni hafi lokið hafi kærandi viljað fara aftur á atvinnuleysisskrá enda hefði hann treyst því að hann ætti eftir 6,5 mánuði á atvinnuleysisbótum. Það hafi komið kæranda á óvart að eftirstöðvar bótaréttarins hafi verið felldar niður. Hafi hann enga tilkynningu fengið þess efnis. Honum hafi verið tjáð að hann hefði fengið sent bréf en starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi ekki getað sýnt honum afrit af því bréfi. Kærandi kveðst ekki skilja að hægt sé að fella niður bótarétt aftur í tímann, bótarétt sem hafi verið staðfest að hann ætti rétt á þegar hann kæmi úr átaksvinnunni.

Kærandi óskaði, 11. september 2013, eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar fyrir ákvörðun sinni. Í rökstuðningum, dags. 16. september 2013, er vísað til 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er fjallað um lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar. Samkvæmt ákvæðinu sé bótatímabil atvinnuleysisbóta þrjú ár eða 36 mánuðir og skuli upphaf tímabilsins hefjast þegar Vinnumálastofnun tekur á móti umsókn um atvinnuleysisbætur. Með lögum nr. 153/2010 hafi nýtt ákvæði til bráðabirgða, bráðabirgðaákvæði X, bæst við lög um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt hafi verið fyrir um aukinn bótarétt þeirra sem fyrst hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008. Í því hafi falist greiðsla atvinnuleysisbóta í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er tímabili skv. 1. mgr. 29. gr. hafi lokið að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Ákvæðið hafi verið í gildi til 31. desember 2012.

Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju með umsókn 8. júlí 2013 hafi bráðabirgðaákvæðið verið fallið úr gildi og þar sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í rúmlega 41 mánuð hafi bótatímabil hans skv. 29. gr. laganna verið liðið undir lok. Hafi honum þá borið að ávinna sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju í samræmi við 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 30. gr. laganna þurfi 24 mánuðir að hafa liðið frá því að atvinnuleitandi fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur enda hafi hann starfað í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili hafi lokið og misst starf sitt af gildum ástæðum. Kærandi hafi síðast lokið töku atvinnuleysisbóta 29. maí 2012 og þurfi 24 mánuðir að hafa liðið frá því tímamarki svo hann geti öðlast rétt til atvinnuleysisbóta að nýju. Þar sem ekki hafi liðið 24 mánuðir frá því kærandi fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur og þar til hann sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 8. júlí 2013 hafi á fundi Vinnumálastofnunar 16. ágúst 2013 verið tekin sú ákvörðun að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Bent er á að í erindi kæranda komi fram að hann telji að felldur hafi verið niður bótaréttur sem hann hafi átt án þess að hann hafi verið látinn vita af þeirri niðurfellingu. Með tölvupósti frá kæranda, 30. ágúst, hafi fylgt afrit af greiðsluseðli til hans sem útgefinn hafi verið af Vinnumálastofnun vegna tímabilsins 20. maí til 19. júní 2012. Á þeim greiðsluseðli standi að ónýttur réttur á bótatímabili væri 6,5 mánuðir en nýttir mánuðir væru 41,5 mánuðir. Eins og tekið hafi verið fram hafi bráðabirgðaákvæði X fallið úr gildi 31. desember 2012. Eftir það hafi kærandi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í lengri tíma en 36 mánuði og þar sem hann hafi þegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 41,5 mánuði hafi bótaréttur hans verið fullnýttur skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun skorti lagaheimild til þess að geta samþykkt umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þar sem bráðabirgðaákvæði X, sem hafi framlengt bótatímabil atvinnuleitenda tímabundið um 12 mánuði, sé fallið úr gildi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. febrúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2. Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í desember 2008 og 29. maí 2012 hafði hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 41,5 mánuð. Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það hversu lengi atvinnuleysisbætur eru greiddar og hljómar ákvæðið svona:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins [sem og sá tími er viðurlög skv. XI. kafla standa yfir].1) Hið sama á við um þann tíma þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr., og um þann tíma er tilfallandi veikindi standa yfir skv. 5. mgr. 14. gr.“

Með lögum nr. 153/2010 kom nýtt ákvæði til bráðabirgða, bráðabirgðaákvæði X, við lög um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt var fyrir um tólf mánaða viðbótarbótarétt til þeirra sem fyrst fengu greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008. Ákvæðið var í gildi til 31. desember 2012.

Kærandi féll undir þetta ákvæði meðan það var í gildi, en þegar hann sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 8. júlí 2013 hafði bráðabirgðaákvæðið fallið úr gildi og þar sem kærandi hafði þá þegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 41,5 mánuð hafði bótatímabil hans skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar liðið undir lok. Kæranda bar því að ávinna sér rétt innan atvinnuleysisbótakerfisins að nýju skv. 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kveðst ekki hafa fengið tilkynningu um niðurfellingu bótaréttar eða um aðrar breytingar á rétti sínum. Á greiðsluseðli atvinnuleysistrygginga, dags. 2. júlí 2012, sem sendur var kæranda kemur fram að heildarréttur hans á bótatímabilinu hafi verið 48 mánuðir, nýttur réttur á bótatímabilinu hafi verið 41,50 og ónýttur réttur hafi verið 6,50 mánuði. Eins og fram hefur komið var í lögum nr. 153/2010 mælt fyrir um aukinn bótarétt til handa þeim sem fyrst fengu greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008 og var ákvæðið í gildi til 31. desember 2012. Um var að ræða tímabundna framlengingu bótaréttar um tólf mánuði sem féll síðan úr gildi 31. desember 2012 eins og fram hefur komið. Lög nr. 153/2010 voru birt í samræmi við lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, og öðluðust gildi 1. janúar 2011 og voru því bindandi fyrir alla frá og með þeim degi. Af þeim sökum getur kærandi ekki borið fyrir sig að honum hafi ekki verið kunnugt um framangreint ákvæði.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn A frá 8. júlí 2013 um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum