Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 97/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 97/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 18. júní 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin nam 73.399 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 11.010 kr. eða samtals 84.409 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 16. september 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 3. október 2011 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 28. nóvember 2011 samhliða 50% starfshlutfalli hjá B ehf. Kærandi hafði unnið í 100% starfshlutfalli hjá B ehf. á tímabilinu 1. október 2008 til 30. september 2011. Kærandi fékk síðar greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 3.–23. janúar 2012 en þá ekki samhliða hlutastarfi.

Er kærandi þáði atvinnuleysisbætur var í gildi bráðabirgðaákvæði V við lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kveðið var á um undantekningu frá skerðingu atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laganna. Ákvæðið tók til atvinnuleitenda sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli og voru að lágmarki í 50% starfi. Vegna ákvæðisins kom ekki til skerðingar fjárhæð atvinnuleysisbóta kærandans skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistrygginga vegna tekna hans hjá B ehf.


 

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar í desember 2011 þess efnis að kærandi hefði verið í fullu starfi hjá B ehf. á tímabilinu 7. til 19. nóvember 2011. Kærandi var í kjölfarið skráður afturvirkt sem ekki atvinnulaus á umræddu tímabili og skuld myndaðist í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar, samtals að fjárhæð 34.772 kr. Var fjárhæð skuldarinnar birt á greiðsluseðli til kæranda, dags. 9. desember 2011.

Við samkeyrslu gagnagrunna og Vinnumálastofnunar í janúar 2012 kom í ljós að kærandi fékk í október 2011 greidd laun frá C að fjárhæð 129.269 kr. og í nóvember 2011 að fjárhæð að fjárhæð 99.277 kr. Kærandi hafði ekki tilkynnt Vinnumálstofnun um þessar tekjur og var honum tilkynnt að hann skuldaði Vinnumálastofnun vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 51.572 kr. með greiðsluseðli, dags. 16. janúar 2012.

Fyrirtækið sem kærandi starfaði hjá B ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði í desember 2011. Kærandi fékk greitt frá Ábyrgðarsjóði launa óuppgerð laun fyrir nóvember 2011, óuppgerðar orlofsgreiðslur og laun í uppsagnarfresti fyrir tímabilið desember 2011 til febrúar 2012.

Kærandi skrifaði undir yfirlýsingu þess efnis að hann framseldi Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 40. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann hluta kröfunnar sem hann fékk greiddan vegna ógreiddra launa og launa í uppsagnarfresti, að því marki sem sjóðurinn greiddi honum atvinnuleysisbætur. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 3.‒23. janúar 2012 samtals að fjárhæð 52.265 kr. Var sú fjárhæð dregin af greiðslum kæranda frá Ábyrgðarsjóði launa í samræmi við 40. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Heildarskuld kæranda var 86.344 kr. en hann greiddi með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar 12.945 kr.

Vinnumálastofnun bárust fjórir launaseðlar frá C vegna vinnu kæranda fyrir september, október og nóvember 2011. Þá barst stofnuninni skýringarbréf kæranda, dags. 26. júní 2013, þar sem hann óskaði eftir því að skuld hans yrði felld niður eða skýringar gefnar á því hvers vegna hann væri krafinn um endurgreiðslu fyrir tímabilið 1. október til 30. nóvember 2011. Vinnumálastofnun svaraði erindi kæranda 26. júlí 2013 eins og fram kemur í samskiptasögu.


 

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hann hafi í október 2011 starfað hjá B ehf. á D en vegna slæmrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins hafi verið ákveðið að skerða starfshlutfall hans í 50% á móti 50% atvinnuleysisbótum. Þetta hafi staðið yfir í tvo mánuði en þá hafi verið tekin ákvörðun um að taka fyrirtækið til gjaldþrotaskipta. Kærandi kveðst hafa starfað sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá C á þessum tíma og að hann hafi sýnt fram á að hann hafi aflað launanna frá C áður en hann þáði greiðslur 50% atvinnuleysisbóta en ekki hafi verið tekið tillit til þess. Kærandi bendir á að lokið hafi verið við að gera upp þrotabú B ehf. í ágúst 2012 og þá hafi Vinnumálastofnun fengið greiddar 52.265 kr. Kærandi kveðst hafa athugað um leið og honum barst hin kærða ákvörðun, dags. 18. júní 2013, hvernig skuldin væri tilkomin. Kærandi telur að nokkur óvissa ríki um heildarfjárhæð kröfunnar og bendir á að í samtali við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi komið fram að einhver misbrestur hafi orðið á skráningu starfsmanna B ehf. á hlutfalli atvinnuleysis í nóvember 2011 en svo virðist sem leiðrétting hafi ekki farið fram. Þá komi fram í uppgjöri Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið 100% atvinnulaus en ekki 50%.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. nóvember 2013, bendir Vinnumálastofnun á að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. október til 30. nóvember 2011. Í júní 2013 hafi skuld kæranda ennþá verið ógreidd og með bréfi, dags. 18. júní 2013, hafi kæranda verið tilkynnt að hann skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt því ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Vinnumálastofnun bendir á úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012 máli sínu til stuðnings.

 

Vinnumálastofnun bendir á að fyrir liggi í málinu að kærandi hafi starfað hjá B ehf. í fullu starfi á tímabilinu 7.‒19. nóvember 2011, kærandi hafi því ekki getað átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta samhliða fullu starfi, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem þessar upplýsingar hafi fyrst legið fyrir í desember 2011 hafi kærandi fengið af þeim sökum ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu. Því hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun greinir enn fremur frá því að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í október og nóvember 2011 vegna ótilkynntra tekna hans frá C. Tekjur umfram frítekjumark skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálstofnun bendir á að hún hafi fyrst fengið veður af tekjum kæranda frá C við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem framkvæmd hafi verið í janúar 2012. Greiðslur kæranda hafi því verið leiðréttar afturvirkt og af þeim sökum hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Í rökstuðningi fyrir kæru hafi kærandi bent á að hann hafi unnið til þessara tekna áður en hann var skráður atvinnulaus. Kærandi hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur 3. október 2011. Meðfylgjandi kæru hans til úrskurðarnefndarinnar séu launaseðlar vegna vinnu hans fyrir C og staðfesting frá C um þau tímabil sem kærandi hafi unnið fyrir bæinn. Af þeim gögnum telur Vinnumálastofnun það vera ljóst að kærandi hafi verið í vinnu samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

Vinnumálstofnun bendir á að í júní 2013 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og honum hafi verið sent bréf þess efnis 18. júní 2013.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. desember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 18. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

 


 

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að endurkröfu Vinnumálastofnunar á ofgreiddum atvinnuleysisbótum er kærandi þáði á tímabilunum 3.‒31. október og 1.‒6., 7.‒19. og 20.‒28. nóvember 2011 en á þessum tíma þáði kærandi atvinnuleysisbætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis V við lög um atvinnuleysistryggingar sem kom inn í lögin með 1. gr. laga nr. 131/2008.

Er 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis V. með síðari breytingum svohljóðandi:

Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. og 22. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall verið lækkað um 30% hið minnsta og hinn tryggði haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Þessi tímabundna breyting á ráðningarsamningi skal vara í þrjá mánuði í senn. Á þetta við hvort sem hinn tryggði fær greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur eða grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. Aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá fyrir sama tímabil frá vinnuveitanda skulu koma til frádráttar greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði án tillits til frítekjumarks skv. 4. mgr. 36. gr. Hið sama gildir um greiðslur frá öðrum aðilum en vinnuveitanda.“

Fyrir liggur að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á framangreindum tímabilum eins og rakið hefur verið. Með innheimtubréfi til kæranda, dags. 18. júní 2013, var honum bent á að skuldin yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Fyrst í desember 2011 lá fyrir að kærandi hafði starfað hjá B ehf. í fullu starfi á tímabilinu 7. nóvember til 19. nóvember 2011 og gat því ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á þeim tíma skv. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar af leiðandi myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar.

Kærandi starfaði einnig hjá C í október og nóvember 2011 án þess að láta þess getið fyrr en síðar. Atvinnuleysisbætur hans voru af þeim sökum leiðréttar afturvirkt og myndaðist við það skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framanskráðu og eins og fram kemur í gögnum málsins skuldar kærandi 73.399 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 11.010 kr. eða samtals 84.409 kr. sem honum ber að endurgreiða.

 

 


 

 

 

Úrskurðarorð

Kæranda, A, ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 84.409 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum