Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 75/2013.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 75/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði fjallað um rétt hennar til biðstyrks á grundvelli reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem séu þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 64. gr. sem og ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. einnig a-lið 17. gr. laga nr. 142/2012, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Tekin hafi verið sú ákvörðun, vegna höfnunar kæranda á atvinnutilboði hjá B 26. apríl 2013, að fella niður rétt hennar til greiðslu biðstyrks frá og með þeim degi. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 2. gr. framangreindrar reglugerðar.

Kærandi sótti 1. mars 2013 um „Liðsstyrk“ hjá Vinnumálastofnun og var umsókn kæranda samþykkt á fundi hjá stofnuninni 3. apríl 2013. Með umsókn um „Liðsstyrk“ sótti kærandi jafnframt um „Biðstyrk“ sem greiddur er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar og reglugerðar nr. 47/2013.

 

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar 26. apríl 2013 frá C um að kærandi hefði hafnað starfi á B þar sem hún myndi hefja störf á öðrum vinnustað 1. júní 2013.

 

Með bréfi, dags. 21. maí 2013, hafi kæranda verið gefið færi á að skila inn skriflegri afstöðu sinni til höfnunar á atvinnuviðtalinu. Tekið hafi verið fram í bréfinu að afleiðingar þess að hún hafi hafnaði atvinnutilboðinu gætu orðið þær að réttur hennar til greiðslu „biðstyrks“ á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013 féllu niður.

 

Vinnumálastofnun bárust skýringar kæranda í tölvupósti 21. maí 2013. Þar greinir kærandi meðal annars frá því að hún hafi tjáð leiksskólastjóra B að henni hefði boðist starf á D en hefði hvorki skrifað undir ráðningarsamning né hafið störf. Af þessum ástæðum hafi henni ekki boðist starf hjá leikskólanum og þá hafi hún heldur ekki hafnað starfinu. Kærandi greinir frá því að sökum þess að það dróst að gera vaktaplan hafi hún þurft að bíða lengi eftir svari frá D. Kærandi ítrekar að hún hafi engu ráðið um það hvenær hún hæfi störf.

 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafði samband, símleiðis, við E, leikskólastjóra B 3. febrúar 2014. Fram kom hjá leikskólastjóranum að á þeim tíma sem hún tók viðtalið við kæranda hafi hún verið að leita að starfsmanni til sex mánaða. Þar sem kæranda hafi þá boðist annað starf að nokkrum vikum liðnum hafi leikskólastjórinn hafnað því að ráða kæranda í starfið, þar sem það hentaði ekki.

 

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 31. maí 2013 og með bréfi, dags. 5. júní 2013, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun með erindi, dags. 13. júlí 2013, og var henni veittur rökstuðningur Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 25. júlí 2013.

 

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram í kæru að rangt sé að henni hafi verið boðið starf og í starfsviðtal hjá B. Hið rétta sé að kærandi hafi sagt leikskólastjóranum að talsverðar líkur væru á því að hún væri komin með vinnu hjá D sem myndi hefjast í lok maí eða byrjun júní. Kærandi greinir frá því að á þessum tíma hafi hún ekki verið búin að skrifa undir ráðningarsamning og því hafi starfið ekki verið fast í hendi. Leikskólastjórinn hafi ekki minnst orði á það starf sem kærandi eigi að hafa hafnað. Kærandi hafi því ekki verið boðin í starfsviðtal, ekki verið boðið starfið og heldur ekki verið gefin lýsing á starfinu.

 


 

Kærandi vísar til ákvæðis 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 um skilyrði fyrir biðstyrk og að hún hafi uppfyllt á umræddum tíma öll þau skilyrði. Þá hafi hún aldrei hafnað sannanlega atvinnuviðtali sem sé skilyrði þess að fella niður biðstyrk. Kærandi greinir frá því að ljóst sé að hún hafi verið í virkri atvinnuleit þar sem hún hafi fengið starf hjá D að eigin frumkvæði. Þá greinir kærandi frá því að ekkert af þeim atriðum sem tilgreind séu á heimasíðu Vinnumálastofnunar og leiða eiga til þess að biðstyrkur falli niður eigi við um hana. Kærandi gagnrýnir að hafa ekki fengið að sjá afrit af samskiptasögu sinni við Vinnumálastofnun en kærandi óskar eftir því að skoðuð verði samskipti sín við starfsmann Vinnumálastofnunar. Hann eigi að geta staðreynt að kærandi hafi átt samtal við leikskólastjóra B og að henni hafi hvorki verið boðið að fara í starfsviðtal né atvinna. Kærandi fer fram á að fá greiddan biðstyrk fyrir maímánuð 2013 en þá fjárhæð hefði hún átt að fá greidda í byrjun júní samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Kærandi kveðst hafa gert ráðningarsamning við Hrafnistu í júní 2013 og verið launalaus í maímánuði 2013.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. ágúst 2013, bendir stofnunin á bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin greinir frá því að nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt ákvæðinu sé að finna í reglugerð nr. 47/2013. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiða til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar fellur niður. Bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 séu skýr um að ef atvinnuleitandi hafnar boði um starf eða starfstengt vinnumarkaðsúrræði þá falli niður réttur viðkomandi til greiðslu „biðstyrks“ samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI.

 

Vinnumálastofnun bendir á að af fyrirliggjandi gögnum í málinu megi ráða að sökum þess að kæranda bauðst hlutastarf hjá D frá mánaðamótum maí/júní hafi hún hafnað fullu starfi sem henni bauðst hjá B 26. apríl 2013. Í ljósi skýrs orðalags 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 um að hafni atvinnuleitandi sannanlega tilboði um starf skuli greiðslur biðstyrks falla niður, hafi biðstyrkur kæranda verið felldur niður. Vinnumálastofnun bendir enn fremur á að kærandi segi í rökstuðningi sínum fyrir kæru að ekki sé rétt að hún hafi hafnað starfi á leikskólanum og hið rétta sé að henni hafi hvorki verið boðið í atvinnuviðtal né atvinna. Aðspurð hafi hún sagt að talsverðar líkur væru á að hún fengi vinnu á D sem myndi hefjast í lok maí eða byrjun júní en hún hefði það ekki fast í hendi á þessum tímapunkti.

 

Það sé mat Vinnumálastofnunar að upplýsingar þær er kærandi veitti leikskólastjóranum hafi leitt til þess að af ráðningu hafi ekki getað orðið og hafi hún því í umrætt sinn hafnað atvinnutilboði.

 

Þá lítur stofnunin svo á að bráðabirgðaákvæði XI sé ætlað að vera síðasta tilraun til að koma atvinnuleitanda aftur á vinnumarkað enda hafi viðkomandi þegar fullnýtt sér rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þeim sökum leggi Vinnumálastofnun ríka skyldu á herðar atvinnuleitenda að þeir taki þeim störfum sem býðst. Það sé mat stofnunarinnar að fella beri niður rétt kæranda til greiðslu biðstyrks í samræmi við bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013, enda sé að mati stofnunarinnar ekki tækt að atvinnuleitandi sem þiggi greiðslur biðstyrks geti hafnað starfi í fullu stöðugildi sökum þess að honum býðst starf í mun minna starfshlutfalli sem geti fyrst hafist eftir mánuð.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. ágúst 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. sama mánaðar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kærandi látin vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna mikils fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á árinu 2013 geti átt rétt á sérstökum styrk sem nemi fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði til viðbótar en þó aldrei til lengri tíma en að því tímamarki að viðkomandi býðst starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar atvinnuleitanda býðst úrræði skv. 1. mgr. falli niður réttur hlutaðeigandi til styrks skv. 1. mgr. Í reglugerð nr. 47/2013 eru tilgreind nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt framangreindum ákvæðum bráðabirgðaákvæðis XI. Í 2. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiða til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar fellur niður. Er 2. gr. reglugerðarinnar er svohljóðandi:

 

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt fyrir greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar:

a.      Viðkomandi atvinnuleitandi sé þátttakandi í verkefninu Liðsstyrkur og sé þar með reiðubúinn að taka tilboði um starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða atvinnutengda starfsendurhæfingu í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III og IV við reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum.

b.      Viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. einnig 1. gr.

c.       Viðkomandi atvinnuleitandi hafi sótt um styrk samkvæmt reglugerð þessari áður en honum barst síðasta greiðsla atvinnuleysisbóta innan kerfisins skv. VII. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum eða áður en því tímabili lauk sem viðkomandi sætti biðtíma eða viðurlögum.

d.      Viðkomandi atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi.

e.       Viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í atvinnuleit á því tímabili sem hann hefur fengið greiddan styrk á grundvelli reglugerðar þessara í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, þar með talið staðfest atvinnuleit sína í hverjum mánuði með sama hætti og meðan hann taldist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

 

Heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar fellur niður ef skilyrði 1. mgr. fyrir greiðslu styrks eru ekki lengur uppfyllt að mati Vinnumálastofnunar. Hið sama á við hafni viðkomandi atvinnuleitandi sannanlegu tilboði um starf sem og tilboði um þátttöku í tilteknu starfstengdu vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar.“

 

Umsókn kæranda um „Liðsstyrk“ og „Biðstyrk“ var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 3. apríl 2013. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda er skráð 15. apríl 2013 afrit af tölvupósti frá deildarstjóra á D þar sem hún lætur vita að hún hafi haft umsókn kæranda til athugunar og að kærandi muni koma til starfa hjá þeim í lok maí í um 35% vinnu. Í gögnum málsins kemur fram að kæranda hafi staðið til boða starf hjá B en að hún hafi gefið þær skýringar samkvæmt ráðningarviðtalsblaði að hún færi að vinna annars staðar 1. júní 2013. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði hjá leikskólastjóranum á B hafnaði leikskólastjórinn því að ráða kæranda í starf þar sem hún var að leita að starfsmanni til sex mánaða og var ekki tilbúinn til þess að ráða manneskju sem væri búin að ráða sig annað eftir nokkrar vikur. Með vísan til þessa verður því ekki fallist á það að kærandi hafi hafnað starfi þar sem fyrir liggur að henni stóð starfið ekki til boða að sögn leikskólastjórans. Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar er því hrundið. Kærandi á rétt á greiðslu biðstyrks fyrir maímánuð 2013.

 

Kærandi hefur bent á það að hún hafi ekki fengið afrit af samskiptasögu sinni við Vinnumálastofnun og hafi það hindrað hana í að halda fram vörnum gegn ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um þá meginreglu stjórnsýsluréttar að aðili máls eigi rétt á skjölum og öðrum gögnum er varða mál hans og í 13. gr. sömu laga er kveðið á um að aðili máls skuli fá að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Ekki verður séð af gögnum málsins að kærandi hafi fengið afrit af umræddri samskiptasögu við meðferð málsins hjá Vinnumálastofnun og því hefur kærandi ekki getað tjáð sig um efni hennar áður en Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun. Þessi annmarki á málsmeðferð Vinnumálastofnunar leiðir þó ekki til þess hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, þar sem kærandi fékk afrit af umræddri samskiptasögu við meðferð máls hennar hjá úrskurðarnefndinni og henni veittur andmælaréttur. Þá ber einnig að nefna að taka verður tillit til þeirra hagsmuna kæranda af því að fá úr þessu álitaefni skorið sem fyrst.

 

 

Í gögnum málsins, eins og þau komu frá Vinnumálastofnun, er að finna nöfn og upplýsingar um fjóra aðra einstaklinga vegna starfa hjá B og varðar ekki mál þetta. Telja verður birtingu þessa yfirlitsblaðs, án þess að afmá eða hylja persónugreinanlegar upplýsingar þeirra fjögurra atvinnuleitenda sem voru í sömu sporum og kærandi, brot á 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Átelja verður Vinnumálastofnun fyrir þessi mistök.

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. maí 2013 í máli A er hrundið. Kærandi á rétt á greiðslu biðstyrks fyrir maímánuð 2013.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum