Hoppa yfir valmynd
3. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 13/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi frá Vinnumálastofnun, dags. 20. september 2012, var kæranda, A, tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans fyrir tímabilið 1. september til 19. desember 2011. Kærandi sendi inn skýringar og gögn til stofnunarinnar í bréfi, dags. 1. október 2012, þar sem fram kom að hann teldi að um misskilning væri að ræða sem hægt væri að leiðrétta. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2012, var litið svo á að kærandi væri að biðja um endurupptöku málsins og var þeirri beiðni hans hafnað. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. janúar 2013. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 16. janúar 2009. Hann bókaði sig á námskeiðið Brú sem hófst 12. apríl 2011. Kærandi lauk námskeiðinu með fullnægjandi ástundun og í kjölfarið sótti hann um frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun á fundi 28. júní 2011 að hann hefði komist í námið og var honum á fundinum tilkynnt að hann yrði að skila inn staðfestingu vegna námsins. Þegar slík staðfesting bærist myndi stofnunin kanna hvort unnt væri að gera námssamning við hann. Kærandi hafði ekki frekara samband við Vinnumálstofnun. Við hefðbundið eftirlit  Vinnumálstofnunar í desember 2011 kom í ljós að kærandi var skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að vera með námssamning við stofnunina.

 

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. desember 2011, var kæranda sent bréf á heimilisfangið B í Reykjavík, þar sem greint var frá fyrrgreindri samkeyrslu og óskað eftir því að kærandi hefði samband við stofnunina og skilaði inn staðfestingu á einingafjölda frá viðkomandi skóla. Jafnframt var greint frá því að athugasemdirnar yrðu að koma fram innan sjö daga og að öðrum kosti myndi stofnunin taka ákvörðun í máli hans á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Kærandi skilaði ekki inn athugasemdum og í kjölfarið tók Vinnumálstofnun fyrir mál kæranda á fundi 11. janúar 2012. Kæranda var sent ákvörðunarbréf frá fundinum, dags. 12. janúar 2012, á B í Reykjavík. Í bréfinu kemur fram að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá, sem gerð hafi verið skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september til 19. desember 2011 að fjárhæð 671.993 kr. með 15% álagi sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Umrætt bréf kom ekki endursent til Vinnumálastofnunar.

 

Kæranda var sent innheimtubréf frá Vinnumálastofnun 20. september 2012 þar sem kæranda var tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september til 19. desember 2011 að fjárhæð 628.075 kr. með 15% álagi sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu var tilgreint að yrði bréfinu ekki svarað innan 14 daga og ekki borist greiðsla á framangreindri skuld þremur mánuðum frá dagsetningu bréfsins yrði málið sent til Innheimtumiðstöðvar á Blönduósi til frekari innheimtu. Þá var vísað til þess að skv. 6. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væru ákvarðanir Vinnumálastofnunar um ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. sama ákvæðis aðfararhæfar.

 

Kærandi svaraði framangreindu bréfi Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 1. október 2012, og sendi auk þess frekari gögn. Í kjölfarið var kæranda sent bréf, dags. 22. október 2012, þar sem honum var synjað um endurupptöku og er það hin kærða ákvörðun.

 

Skuld kæranda var send í innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi 16. janúar 2013.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki fengið sanngjarnt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Vinnumálastofnun hafi sent honum bréf á rangt heimilisfang þrátt fyrir að hann hafi verið rétt skráður í kerfinu hjá þeim. Af þeim sökum hafi hann aldrei fengið tækifæri til þess að leiðrétta þann samning sem málið fjalli um. Kærandi greinir frá því að rétt sé að hann hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun til að fara í nám. Stofnunin hafi verið með staðfestingu á skólavist hans. Atvik málsins séu þau að Vinnumálastofnun hafi haustið 2011 boðið honum að stunda nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Kærandi kveðst hafa þegið það þar sem stofnunin hafi boðist til að greiða skólagjöldin auk þess að greiða atvinnuleysisbætur áfram á önninni. Kærandi hafi hafið nám við skólann um haustið og stundi nám þar ennþá. Kærandi greinir frá því að upplýsingarnar sem vantaði til að ganga frá málinu hafi verið sendar á rangt heimilisfang og af þeim sökum ekki borist honum. Það hafi ekki verið fyrr en í september 2012 að hann hafi fengið innheimtubréf frá stofnuninni vegna ofgreiddra bóta að honum varð fyrst kunnugt um að samningurinn um námið hafi ekki verið fullfrágenginn. Kærandi hafi strax haft samband við Vinnumálastofnun og óskað eftir endurupptöku málsins og hafi þeirri beiðni verið synjað.

 

Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda sem er meðal gagna málsins má sjá umfjöllun starfsmanna stofnunarinnar 5. maí 2010 auk afrits af tölvupósti frá kæranda dagsett sama dag um að hann sé enn skráður á B en búi í C í Reykjavík. Er þetta í kjölfar þess að 4. apríl 2010 hafði verið sent bréf á heimilisfangið B um boðun kæranda á fund og það bréf kom endursent til Vinnumálastofnunar. Ennfremur er skráð 12. maí 2010 að kærandi búi ekki að B og ekki finnist heimilisfang á kæranda.

 

Bréf Vinnumálastofnunar, dags. 15. desember 2011, þar sem tilkynnt er um samkeyrslu atvinnuleysistryggingaskrár við nemendaskrár og óskað eftir skýringum kæranda og bréf, dags. 11. janúar 2012, um innheimtu sökum ofgreiddra atvinnuleysisbóta eru hvort tveggja stíluð á heimilisfangið B.

 

Samkvæmt upplýsingum sem starfsmaður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða aflaði hjá Þjóðskrá Íslands 23. október 2013 var lögheimili kæranda skráð á B í Reykjavík árið 2010 og til 1. maí 2011, en þá var lögheimilið flutt í D í Reykjavík. Í júlí 2012 var lögheimili kæranda flutt þaðan í E í Reykjavík.

 

 

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. maí 2013, kemur fram að kærandi hafi tekið fram að hann hafi verið fluttur þegar bréf stofnunarinnar hafi verið send honum en Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um breytt heimilisfang kæranda fyrr en 21. apríl 2012 í gegnum „mínar síður.“ Þar sem bréfin hafi ekki komið endursend til Vinnumálastofnunar hafi stofnunin ekki haft tilefni til að efast um að kæranda hefðu borist bréfin og að hann hefði einfaldlega kosið að svara þeim ekki.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að lok skýringarbréfs kæranda, dags. 1. október 2012, hafi stofnunin túlkað sem beiðni um endurupptöku á máli hans og því hafi stofnunin haldið fund um mál hans 17. október 2012. Með bréfi, dags. 22. október 2012, hafi kæranda verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar þess efnis að synja beiðni hans um endurupptöku þar sem stofnunin taldi að skýringar hans breyttu engu um fyrri ákvörðun. Þá greinir Vinnumálastofnun frá því að þar sem innheimtubréfið sé dagsett 12. janúar 2012 sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar liðinn. Þar af leiðandi snúist kæran eingöngu um synjun á endurupptöku.

 

Vinnumálastofnun vísar til ákvæðis 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um heimild stjórnvalda til að taka mál upp að nýju. Þá greinir stofnunin frá því  að henni hafi ekki borist skýringarbréf kæranda fyrr en tæpum níu mánuðum eftir að ákvörðunarbréf stofnunarinnar var sent. Það að kærandi hafi flutt og gleymt að tilkynna breytt heimilisfang til stofnunarinnar geti ekki réttlætt það að tæpum tíu mánuðum síðar skili kærandi inn skýringum. Vinnumálastofnun ítrekar að bréfin til kæranda hafi aldrei komið endursend og því hafi stofnunin ekki haft tilefni til að halda annað en að kærandi hefði fengið þau og þar með hefði  ákvörðun stofnunarinnar verið birt í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, sér í lagi í ljósi ríkrar skyldu kæranda atvinnuleitanda til að upplýsa Vinnumálastofnun, án ástæðulausrar tafar, um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans er varði það að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu gagnvart honum á fullnægjandi hátt, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Upplýsingar um heimilisfang falli hér undir.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að við meðferð á endurupptökubeiðni beri stjórnvaldi að kanna þær röksemdafærslur er liggi að baki beiðninni og meta hvort skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Í tilfelli kæranda hafi hann talið sig hafa misskilið háttalagið við gerð námssamnings við stofnunina og talið að samningurinn hefði verið frágenginn í júní 2011 og skólinn myndi senda staðfestingu á námi hans. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar stendur að kærandi myndi koma með staðfestingu á námi og gera námssamning. Slíkt sé í samræmi við verklagsreglur Vinnumálastofnunar og reglur sem gilda um námssamninga. Það er að ekki sé hægt að gera slíka samninga nema fyrir liggi staðfesting frá skólanum um námið. Kærandi tiltaki enn frekar í skýringarbréfi sínu að hann hafi velt því fyrir sér af hverju honum hafi ekki borist greiðsla vegna skólagjaldanna. Hann hafi þó ekki aðhafst neitt frekar í málinu fyrr en í kjölfar innheimtubréfs Vinnumálastofnunar sem barst honum í september 2012 eða rúmu ári eftir að hann taldi að námssamningurinn hefði verið gerður og hann hóf nám sitt.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að á fundi stofnunarinnar 17. október 2012 hafi skýringarbréf kæranda verið tekið fyrir og var það mat stofnunarinnar að bréfið hefði ekki sýnt fram á að ákvörðunin hefði verið röng eða byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Skýringarbréf kæranda hefði ekki breytt upphaflegri ákvörðun stofnunarinnar þar sem bréfið staðfesti að kærandi hefði stundað nám án þess að vera með námssamning. Til að kæranda hefði verið heimilt að stunda nám samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur hafi hann þurft að vera með námssamning við Vinnumálastofnun, sbr. 1. mgr. 52. gr. og 1. og 2. mgr. 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 12. gr.  laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006, sbr. bráðabirgðaákvæði við reglugerð nr. 12/2009 sem bætt hafi verið við reglugerðina með reglugerð nr. 781/2011 og gilti til 31. desember 2011. Misskilningur kæranda á gerð námssamnings og tómlæti hans í rúmt ár frá því að nám hans hófst geti ekki leitt til þess að skilyrði fyrrgreindra laga og reglugerðar teljist uppfyllt haustið 2011. Því hafi það verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að synja endurupptökubeiðninni.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. maí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. júní 2013. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 6. júní 2013.

 

Í athugasemdum kæranda mótmælir hann því að hafa sýnt af sér tómlæti í heilt ár og greinir frá því að 5. maí 2010 hafi hann upplýst Vinnumálastofnun um rétt heimilisfang. Tölvubréf hans þar sem hann tilkynnir um breytt heimilisfang þennan dag megi finna í samskiptasögu hans við Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun hafi fengið endursent bréf sem stílað var á heimilisfang kæranda að B í Reykjavík, áður en húsið hafi verið fokhelt og augljóst að enginn bjó í því. Í því bréfi hafi hann verið boðaður á fund. Hann hafi ekki mætt á fundinn og skrifað skýringarbréf í kjölfarið.  Tilgreindur starfsmaður hafi ekki talið skýringar hans gildar og hann hafi verið settur á tveggja mánaða biðtíma án atvinnuleysisbóta. Annar tilgreindur starfsmaður hafi skráð nýtt heimilisfang á kæranda. Kærandi telur ljóst að upplýsingar um breytt heimilisfang hans hafi borist stofnuninni. Þá bendir hann einnig á að hann hafi heldur ekki fengið upplýsingar í tölvubréfi og/eða á innri vef Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi því engan vegin verið unnt að kynna sér þetta. Kærandi vísar til tölvubréfs tilgreinds náms- og starfsráðgjafa Vinnumálstofnunar.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hans hjá nefndinni myndi tefjast vegna mikils málaálags nefndarinnar.

 

Starfsmaður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafði samband við kæranda símleiðis, 27. september 2013, og óskaði eftir nánari útskýringu á því hvað kærandi væri að kæra til nefndarinnar. Af hálfu kæranda kom fram að hann væri að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. janúar 2012, sem tilkynnt var með bréfi dags. 12. janúar sama ár, þess efnis að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans. Kærandi hafi ekki vitað af framangreindri ákvörðun og hann hafi fengið tilkynningu í bréfi, dags. 20. september 2012, um að krafan væri komin í innheimtuferli. Þar sem hann hefði ekki vitað af ákvörðuninni fyrr en 20. september 2012 óskaði hann eftir því að mál hans yrði endurupptekið hjá stofnuninni 1. október 2012. Vinnumálastofnun synjaði þeirri beiðni í bréfi, dags. 22. október 2012 en kærandi kvaðst jafnframt kæra þá ákvörðun.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Upphaf máls þessa má rekja til þess að kærandi var skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. bréf Vinnumálastofnunar til kæranda dags. 15. desember 2011. Þar sem kærandi hafði ekki námssamning við stofnunina á því tímabili sem hann stundaði nám var sú ákvörðun tekin að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta og krefjast þess af honum að hann endurgreiddi ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 671.993, sbr. bréf Vinnumálastofnunar til kæranda dags. 12. janúar 2012. Framangreind bréf Vinnumálastofnunar til kæranda voru send á B, 113 Reykjavík.

 

Í málinu liggur fyrir að kærandi upplýsti Vinnumálastofnun um að hann væri ekki búsettur á B heldur væri hann til heimilis C, sbr. færslu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar, dags. 5. maí 2010. Við þetta sama tækifæri veitti kærandi Vinnumálastofnun upplýsingar um farsímanúmer sitt, heimanúmer og netfang. Það liggur jafnframt fyrir að lögheimili kæranda frá 1. maí 2011 til og með 27. júlí 2012 var í D, sbr. vottorð frá Þjóðskrá Íslands, dags. 14. nóvember 2013. Vinnumálastofnun sendi því bréf til kæranda í desember 2011 og í janúar 2012 sem hvorki var skráð lögheimili hans á þeim tíma né það heimilisfang sem kærandi hafði gefið upp sem búsetustað sinn.

 

Fyrir úrskurðarnefndinni hefur Vinnumálastofnun haldið því fram að þessi bréf stofnunarinnar til kæranda í desember 2011 og janúar 2012 hafi verið send á það heimilisfang sem skráð var í gagnagrunni stofnunarinnar og að þau hafi ekki verið endursend. Birting beggja bréfanna hafi því verið fullnægjandi. Á þetta verður ekki fallist.

 

Í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um að stjórnvald skuli tilkynna aðila máls um ákvörðun nema það sé augljóslega óþarft. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila. Engar sérreglur giltu um birtingu ákvarðana Vinnumálastofnunar á þeim tíma sem atvik máls áttu sér stað. Af þessu leiðir að hvorki bréf Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 15. desember 2011, né bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 12. janúar 2012, gátu haft þau réttaráhrif sem mælt var fyrir um. Í ljósi þessa ber Vinnumálastofnun að taka mál kæranda aftur fyrir, enda hafði hann ekki tök á að koma sínum sjónarmiðum að áður en sú ákvörðun var tekin sem tilkynnt var með fyrrnefndu bréfi Vinnumálastofnunarinnar, dags. 12. janúar 2012. Skilyrði endurupptöku málsins er því fullnægt, sbr. fyrsta tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 

Með þessum úrskurði er eingöngu tekin afstaða til þeirrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar að synja kæranda um endurupptöku málsins, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 22. október 2012. Sú ákvörðun er felld úr gildi og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir að nýju.

 

 

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, að synja A um endurupptöku máls síns, er felld úr gildi. Vinnumálastofnun skal taka mál kæranda aftur fyrir.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum