Hoppa yfir valmynd
22. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 179/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 179/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 19. nóvember 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, Reykjavík, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 14. nóvember 2012 fjallað um töku hennar á sjúkradagpeningum samhliða atvinnuleysisbótum. Tekin hefði verið sú ákvörðun að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá og með 14. nóvember 2012 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún hafi samhliða töku atvinnuleysisbóta þegið greiðslur sjúkradagpeninga. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 19. nóvember 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi lagði inn umsókn um greiðslur atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar 6. júní 2012. Meðal gagna sem kærandi lagði fram í tengslum við umsókn sína var starfshæfnisvottorð, dags. 4. júní 2012, er staðfesti vinnufærni hennar, yfirlit yfir greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði VR og greiðsluseðlar frá Sjúkratryggingum Íslands vegna greiddra sjúkradagpeninga. Umsókn kæranda var samþykkt 27. júní 2012 og reiknaðist hún með 100% bótarétt.

 


 

Tilgreindur starfsmaður starfsendurhæfingarsjóðs VR fór þess á leit við Vinnumálastofnun í bréfi, dags. 22. maí 2012, að gerður yrði samningur um atvinnutengda endurhæfingu kæranda. Slíkur samningur var gerður 7. júní 2012 og undirritaður af hálfu Vinnumálastofnunar og kæranda á grundvelli 6. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, sbr. 12. gr. laga nr. 55/2006. Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fram fór í september 2012 komu fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda í júní 2012 frá Sjúkratryggingum Íslands. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum frá kæranda með bréfi, dags. 9. október 2012.

 

Vinnumálastofnun barst yfirlit yfir greidda sjúkradagpeninga kæranda 24. október 2012. Samkvæmt yfirlitinu hafði kærandi þegið slysadagpeninga í alls 64 daga á tímabilinu frá 29. maí til 31. júlí 2012. Á fundi Vinnumálastofnunar 14. nóvember 2012 var hin kærða ákvörðun tekin líkt og fyrr greinir.

 

Kærandi greinir meðal annars frá því í kæru, dags. 19. nóvember 2012, að þegar hún kom inn á atvinnuleysisbætur hafi hún ekki verið skráð í atvinnuleit heldur hafi tilgreindur starfsmaður VR gert samning hjá Vinnumálastofnun um að hún væri í eins konar sjúkraleyfi hjá Vinnumálastofnun. Kærandi segir að sér hafi yfirsést að réttur hennar hjá Tryggingastofnun ríkisins hafi numið einum mánuði lengur en hjá VR. Kveðst hún ekki skilja af hverju henni sé gert að greiða fyrir júní- og júlímánuð þar sem einungis sex dagar séu inni á þessu tímabili. Kærandi kveðst hafa gert Vinnumálastofnun grein fyrir því hvað hún hefði fengið greitt hjá Tryggingastofnun ríkisins eða um 50.000 kr. Slík fjárhæð sé innan marka og hún hafi gert grein fyrir þessari fjárhæð hjá þjónustufulltrúa. Þar hafi hún fengið þær upplýsingar að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu þar sem ekki væri um að ræða hærri fjárhæð. Þá greinir kærandi frá því að hún hafi tekið skattkortið sitt út hjá Vinnumálastofnun í júlí og sent það svo aftur inn. Hún hafi hringt í stofnunina til að fá það staðfest að skattkortið væri komið og yrði notað áður en greiðsla 1. ágúst 2012 færi fram en svo hafi ekki verið gert.

 


 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. janúar 2013, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

 

Mál þetta lúti meðal annars að 1. mgr. 51. laga um atvinnuleysistryggingar um ósamrýmanlegar greiðslur. Samkvæmt a-lið 14. gr. sömu laga sé það skilyrði fyrir því að teljast tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar að vera fær til flestra starfa. Sé því skýrt kveðið á um það í 51. gr. laganna að greiðslur sem eiga að bæta óvinnufærni að fullu séu ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 6. júní til 31. júlí 2012 en kærandi hafði ekki tilkynnt stofnuninni um greiðslur sjúkradagpeninga á því tímabili.

 

Vinnumálstofnun greinir frá því að 7. júní 2012 hafi verið gerður starfsendurhæfingarsamningur við kæranda. Stofnuninni sé heimilt að gera slíka samninga við atvinnuleitendur sem séu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Í þeim felist að atvinnuleitandi skuldbindur sig til að taka fullan þátt í starfsendurhæfingaráætlun sem hann hefur gert í samvinnu við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og aðra þjónustuaðila, og greiðir Vinnumálastofnun honum á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt á samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Á gildistíma samningsins þarf atvinnuleitandi ekki að stunda virka atvinnuleit en að öðru leyti ber honum að uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, svo sem að teljast vinnufær skv. a-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá sem nýtur slysadagpeninga vegna óvinnufærni ekki vera tryggður samkvæmt lögunum. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 255.200 kr. fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þá greinir stofnunin frá því að ofgreiddum atvinnuleysisbótum hafi verið skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laganna. Þegar greinargerðin hafi verið rituð nemi skuld kæranda 217.765 kr.

 

Jafnframt greinir Vinnumálastofnun frá því að í ljósi þess að kærandi upplýsti stofnunina ekki um greidda sjúkradagpeninga samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi henni verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að á herðum atvinnuleitenda hvíli rík skylda til þess að tilkynna til stofnunarinnar um óvinnufærni og að þeir njóti greiðslna slysadagpeninga, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Í tilfelli kæranda hafi henni borið að upplýsa stofnunina um stöðu sína þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun hafi ekki haft ástæðu til annars við afgreiðslu umsóknar hennar, dags. 6. júní 2012, en að ætla að hún væri vinnufær, enda hafi það verið staðfest með starfshæfnisvottorði, dags. 4. júní 2012. Þá hafi kærandi ekki tilkynnt stofnuninni að hún nyti greiðslna sjúkradagpeninga. Í rökstuðningi sínum fyrir kæru tilgreinir kærandi að hún hafi gert þjónustufulltrúa grein fyrir afgreiðslum sjúkradagpeninga. Hins vegar verði ekki ráðið af samskiptasögu kæranda við stofnunina að sú hafi verið raunin. Verði því að telja að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. laganna.

 

Að öllu framangreindu virtu sé það mat Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að kæranda skuli vera gert að sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að hún skuli endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. sömu laga.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. janúar 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hennar myndi tefjast sökum mikils málafjölda hjá nefndinni.

 

 


 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 6. júní 2012. Meðfylgjandi var meðal annars læknisvottorð, dags. 4. júní 2012, þar sem fram kemur að kærandi hafi náð vinnufærni á ný og hún sé þjónustuþegi hjá VIRK starfsendurhæfingu sem og greiðsluseðlar frá Sjúkratryggingum Íslands vegna greiddra sjúkradagpeninga fram til 28. maí 2012. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar er skráð 21. júní 2012 að kærandi hafi hætt að þiggja sjúkradagpeninga í maí 2012. Þá er skráð 27. júní 2012 að kærandi hafi hringt og greint frá því að hún fái greiðslur frá félagsþjónustunni í einn mánuð. Umsókn kæranda var samþykkt 27. júní 2012 og fékk hún greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. júní 2012.

 

Auk atvinnuleysisbóta þáði kærandi einnig sjúkradagpeninga á tímabilinu frá 29. maí til 31. júlí 2012. Greiðslur sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands eru greiddar á grundvelli laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum. Samkvæmt 32. gr. þeirra laga er eitt af skilyrðum fyrir greiðslu sjúkradagpeninga það að vera algjörlega óvinnufær. Í 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 15. gr. laga nr. 134/2009, um ósamrýmanlegar greiðslur, segir:

 

Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

 

Samkvæmt framangreindu ákvæði átti kærandi ekki tilkall til hvort tveggja sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands og atvinnuleysisbóta á sama tímabili, þ.e. á tímabilinu frá 1. júní til 31. júlí 2012 enda eru báðar greiðslurnar ætlaðar til framfærslu. Enn fremur er ljóst af gögnum málsins að kærandi þáði sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands á sama tíma og hún sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun með umsókn móttekinni 6. júní 2012 og að kærandi greindi frá því 21. júní 2012 að hún hefði hætt að þiggja greiðslur sjúkradagpeninga í maí. Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún hafi átt rétt til sjúkradagpeninga mánuði lengur en greiðslur sem hún þáði frá stéttarfélagi sínu VR.

 

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá, sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann færi greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

Kærandi gætti ekki að þeirri ríku skyldu sinni skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að láta Vinnumálastofnun vita um tekjur þær sem hún fékk greiddar frá Sjúkratryggingum Íslands jafnhliða greiðslu atvinnuleysisbóta.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið uppfyllti kærandi ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma er hún þáði einnig greiðslur sjúkradagpeninga. Vinnumálastofnun var því rétt að láta kæranda sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Skal henni jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 255.200 kr. Enn fremur var Vinnumálastofnun rétt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum við síðar tilkomnar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.

 

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. nóvember 2012 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði frá og með 14. nóvember 2012 er staðfest.

 

Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 255.200 kr. fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum