Hoppa yfir valmynd
22. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 24/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 29. janúar 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit að kærandi, A, greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin nam 1.062.765 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 159.415 kr. eða samtals 1.222.180 kr. Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. desember 2010 til 19. október 2011 en hann uppfyllti ekki á þeim tíma almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, ódagsettu en mótteknu 12. febrúar 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar sem fram fór í apríl 2012 kom upp að kærandi hefði starfað við akstur leigubifreiða á árunum 2010 til 2011 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun óskaði í kjölfarið með bréfi, dags. 16. apríl 2012, skýringa vegna framangreindra upplýsinga og skyldu skýringar berast bréfleiðis eða með tölvupósti. Engar skýringar bárust frá kæranda. Með bréfi, dags. 1. júní 2012, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hann skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. sömu laga fyrir tímabilið 12. desember 2010 til 19. október 2011 að fjárhæð samtals 1.222.180 kr. Með innheimtubréfi, dags. 29. janúar 2013, var þess farið á leit við kæranda að hann endurgreiddi skuld sína við Vinnumálastofnun innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar samkvæmt innheimtubréfinu með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða, ódagsettu en mótteknu 12. febrúar 2013. Kærandi biður í bréfinu um að tekið sé tillit til meðfylgjandi gagna. Er þar einkum um að ræða launamiða kæranda og skilagreinar vegna staðgreiðslu af launum.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. maí 2013, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði þá ákvörðun stofnunarinnar sem tilkynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 29. janúar 2013, um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar hans. Skuld kæranda við Vinnumálastofnun megi rekja til þess að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 12. desember 2010 til 19. október 2011 að fjárhæð samtals 1.222.180 kr. Kæranda hafi fyrst verið tilkynnt um skuld hans við Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 1. júní 2012. Því sé þriggja mánaða kærufrestur vegna þess liðinn skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að vísa beri frá þeim hluta kærunnar er varði réttmæti skuldamyndunarinnar.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 12. desember 2010 til 19. október 2011 að fjárhæð samtals 1.222.180 kr. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 18. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna gríðarlega mikils málafjölda hjá nefndinni.


 

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 12. desember 2010 til 19. október 2011 að fjárhæð samtals 1.222.180 kr. en á þeim tíma uppfyllti hann ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann starfaði á sama tíma við akstur leigubifreiða. Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Kæranda ber því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. desember 2010 til 19. október 2011 að fjárhæð 1.062.765 ásamt 15% álagi eða samtals 1.222.180 kr.

 

 


 

 

Úrskurðarorð

Kæranda, A, ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir 12. desember 2010 til 19. október 2011 að fjárhæð 1.062.765 ásamt 15% álagi eða samtals 1.222.180 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum