Hoppa yfir valmynd
15. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 1/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. október 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum sama dag, fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 4. september 2012. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum næði ekki því lágmarki viðmiðunarfjárhæðar fjármálaráðherra sem kveðið sé á um í 3. gr., sbr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 2. janúar 2013, og krefst þess að hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 4. september 2012. Með bréfi Vinnumálstofnunar, dags. 21. september 2012, var kærandi upplýstur um að stofnunin hefði frestað afgreiðslu umsóknar hans þar sem þau gögn sem stofnunin hefði undir höndum væru ekki nægjanleg til að sýna fram á að vinna kæranda á ávinnslutímabili bótaréttar næði tilskildu lágmarki sem kveðið sé á um í 19. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því væri óskað eftir frekari gögnum frá honum.

Kærandi var talinn sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var því farið með útreikning bótaréttar hans eftir IV. kafla laganna.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2012, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun líkt og fyrr greinir.

 

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram í kæru að um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða og ekki sé tekið tillit til þess að hann hafi verið í námi sex mánuðum áður en hann hóf nám erlendis. Kærandi minnir á markmið laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. gr. þeirra laga. Þá bendir hann á 25. gr. laganna um geymslurétt aðila og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kveðst hafa greitt öll sín gjöld áður en hann hóf nám í frumgreinadeild B en því námi lauk hann í september 2010. Hann hafi síðan í framhaldinu hafið nám í lagadeild skólans og klárað öll prófin í desember sama ár, þ.e. 2010. Kærandi kveðst hafa hafið nám í 3D Animation frá Vancouver Film School í júní 2011 og lokið náminu í júlí 2012. Kærandi telur það fara gegn sanngirnissjónarmiðum að ætla að aðili geti náð lágmarki viðmiðunarfjárhæðar fjármálaráðherra á svo skömmum tíma sem ætlast sé til. Kærandi fer fram á að tekið sé tillit til 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en ekki einungis 19. gr. sömu laga.

 

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráður einstaklingur í atvinnurekstri í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og í atvinnugreinaflokkun ÍSAT nr. 32.99.0 (Önnur ótalin framleiðsla). Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun mat Vinnumálastofnun kæranda í starfaflokk E2 við mat á reiknuðu endurgjaldi. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða leitaði álits ríkisskattstjóra á mati Vinnumálastofnunar um starfaflokk kæranda og samkvæmt upplýsingum frá honum hafði kærandi óverulegar tekjur á árinu 2011 og hafi verið undir þeim mörkum sem þarf til þess að vera á launagreiðendaskrá RSK (215.000). Kærandi hafi upphaflega verið skráður á virðisaukaskattskrá í þessari atvinnugrein og svo á launagreiðandaskrá í flokk E2, en trúlega væri flokkur E4 réttari. Flokkur E er um ýmsa starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnendur. Nánar tiltekið teljast til flokks E menn sem vinna í störfum sem enga fagmenntun þarf til en geta þurft að hafa réttindapróf til að sinna starfinu, svo sem réttindi til að stjórna bifreiðum eða vinnuvélum o.s.frv., og falla ekki undir flokka A til D. Ef stjórnun, svo sem framkvæmdastjórn félags, er aðalþáttur starfsins og starfsmenn með honum eru fleiri en fimm eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimm starfsmanna skal miða reiknað endurgjald við flokka B(1), B(2) eða B(3). Til þessa flokks teljast til dæmis bifreiðastjórar, stjórnendur vinnuvéla, svo og starfsgreinar sem ekki krefjast sérstakrar starfsmenntunar, svo sem hreingerningamenn.

 

Flokkur E skiptist annars vegar í stjórnendur vinnuvéla og hins vegar í önnur ófagleg störf og hvor flokkurinn í tvo undirflokka, auk sérstaks flokks fyrir þá sem eru að hefja starfsemi. Í flokk E4 er miðað við laun að fjárhæð 222.000 kr. og á sá flokkur við aðra menn sem falla ekki undir skilgreiningu annarra flokka sem starfa einir eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna. Í flokki E2 er miðað við 240.000 kr. og á sá flokkur við stjórnanda vinnuvéla, sem réttindi þarf til að stjórna, sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. maí 2013, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Mál þetta lúti að bótarétti kæranda hjá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni 4. september 2012 að námi loknu í Kanada sem hafi hafist 27. júní 2011. Á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2011 hafi kærandi starfað sem sjálfstætt starfandi í skilningi b-liðar 1. mgr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Farið hafi verið eftir IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar um útreikning á bótarétti kæranda þar sem mælt sé fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í 3. mgr. 19. gr. laganna sé mælt fyrir um ávinnslutímabil sjálfstætt starfandi einstaklinga sem reikni sér árlegt endurgjald í stað mánaðarlegs.


 

Vinnumálastofnun leit svo á að starf kæranda félli undir tekjuflokk E2 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og hafi lágmarksviðmiðunarfjárhæðin í þeim tekjuflokki numið 240.000 kr. á mánuði fyrir tekjuárið 2011. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra námu mánaðarlaun kæranda á tímabilinu janúar til desember 2011, 18.000 kr. og sé það 13,3% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í tekjuflokki E2.

Í 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem sé lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum.

Sökum þess að vinna kæranda á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum náði ekki lágmarki viðmiðunarfjárhæðar var umsókn kæranda hafnað á fundi stofnunarinnar 4. október 2012.

Vinnumálastofnun bendir á að í 5. mgr. 19. gr. sé að finna heimild til hækkunar á tryggingahlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings vegna náms sem hefur verið lagt stund á í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur. Námið skuli svara til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi viðkomandi sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Heimild þessi geti einungis komið til hækkunar á tryggingahlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. Vinnumálastofnun bendir á að sökum þess að kærandi teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geti nám hans ekki leitt til aukins bótaréttar, enda geti sú heimild einungis komi til hækkunar á bótarétti sem aðili á fyrir.

Við útreikning á bótarétti kæranda hafi Vinnumálastofnun horft, í samræmi við 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, á síðustu tólf mánuðina áður en sótt var um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur rétt að víkja að því hvort kærandi hafi átt rétt til geymds bótaréttar hjá stofnuninni á grundvelli V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi lagði inn umsókn til stofnunarinnar um greiðslu atvinnuleysisbóta 4. september 2012 hafi hann nýlokið námi í grafískri hönnun í Kanada eða 22. júní 2012 en námið hafi hafist 27. júní 2011 samkvæmt framlögðum gögnum.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé þeim sem telst tryggður samkvæmt lögunum heimilt að geyma bótarétt sinn í 72 mánuði ef hann hverfur frá vinnumarkaði til að stunda nám. Af framlögðum gögnum í máli kæranda megi ráða að kærandi hvarf af vinnumarkaði sem sjálfstætt starfandi til að stunda nám í Kanada. Líkt og rakið hafi verið hafi starf hans sem sjálfstætt starfandi ekki leitt til þess að hann teldist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Af þeim sökum sé ekki hægt að sækja eldri bótarétt í tilviki kæranda.

 

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. maí 2013, og var honum veittur frestur til 13. júní 2013 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.

 

2.
Niðurstaða

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 4. september 2012 en hann hafði lokið ársnámi í Kanada 22. júní 2012. Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili skv. 19. gr.

 


 

Í 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Þar sem kærandi greiddi ekki mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi lengur en í þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum getur ákvæði 2. mgr. 19. gr. ekki tekið til tilviks hans.

 

Í 3. mgr. 19. gr. er kveðið á um að til að reikna út tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári skal finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en að hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Telst hann að fullu tryggður samkvæmt lögunum hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald. Hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á sama tímabili sem eru lægri en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði skal tryggingahlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er bárust til úrskurðarnefndarinnar eftir að greinargerð stofnunarinnar var lögð fram voru mánaðarlegar meðaltekjur kæranda í formi reiknaðs endurgjalds alls 18.684 kr. en ekki 18.000 kr.

 


 

Eins og fram hefur komið var kærandi skráður í atvinnurekstri í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og í atvinnugreinaflokkun ÍSAT nr. 32.99.0 (Önnur ótalin framleiðsla). Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun mat Vinnumálastofnun kæranda í starfaflokk E2 við mat á reiknuðu endurgjaldi, en hann hafði óverulegar tekjur á árinu 2011. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra væri flokkur E4 líklega réttari í tilfelli kæranda. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat úrskurðarnefndarinnar að starf kæranda hafi fallið undir starfaflokk E4 samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald. Á ávinnslutímabilinu náði reiknað endurgjald kæranda ekki þeim lágmarksviðmiðunum sem koma fram í reglum fjármálaráðherra um starfaflokk E4. Af framansögðu er ljóst að reiknað endurgjald kæranda nær ekki tilskildu 25% lágmarki af viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá getur ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistrygginga um nám sem sjálfstætt starfandi einstaklingur stundaði í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um greiðslur atvinnuleysisbóta eingöngu komið til hækkunar á tryggingahlutfalli og þegar af þeirri ástæðu getur ákvæðið ekki átt við í tilviki kæranda.

 

 

Í ákvæði 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og hverfur af vinnumarkaði til að stunda nám, sbr. c-lið 3. gr., getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 72 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum enda hafi hann sannanlega lokið náminu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hætti kærandi í námi í desember 2010 og hóf störf sem sjálfstætt starfandi einstaklingur en hvarf að vinnumarkaði sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í júní 2011 til að hefja annað nám. Af framangreindu má því ráða að ekki er unnt að beita ákvæði 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í tilviki kæranda.

 

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 


 

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn A um greiðslur atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum