Hoppa yfir valmynd
1. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál  nr. 8/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 8/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 31. ágúst 2012. Vinnumálastofnun samþykkti umsókn kæranda á fundi 20. janúar 2013 en hafnaði jafnframt beiðni hans um að eldri viðurlög frá 1. október 2010 á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, féllu niður. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 11. janúar 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 31. ágúst 2012. Vinnumálastofnun sendi kæranda í kjölfarið þrjú bréf öll dagsett 18. september 2012 þar sem óskað var eftir frekari gögnum til að unnt væri að vinna umsókn kæranda. Í fyrsta bréfinu var óskað var eftir því að kærandi fyllti út meðfylgjandi tilkynningu um tekjur eða fyllti út tilkynningu um tekjur rafrænt í gegnum heimasíðu stofnunarinnar. Í öðru bréfinu var óskað eftir gögnum um veikindi en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum stofnunarinnar hafði kærandi átt við veikindi að stríða og á vottorðinu þyrfti að koma fram á hvaða tímabili kærandi hafi verið óvinnufær. Í þriðja bréfinu var óskað eftir vottorði vinnuveitanda, þ.eB.

Vinnumálastofnun barst læknisvottorð kæranda, 2. október 2012, dagsett sama dag. Með bréfi Vinnumálstofnunar, dags. 29. október 2012, var umsókn kæranda hafnað þar sem vottorð vinnuveitanda og tekjuáætlun hafði ekki borist stofnuninni.

Vinnumálstofnun barst tölvupóstur frá félagsmálastjóra B, dags. 7. nóvember 2012. Þar kemur fram að kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð en ekki verið á almennum vinnumarkaði undanfarin misseri. Umsókn kæranda var samþykkt 27. nóvember 2012, en hann fékk þó ekki greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi þar sem eldri viðurlagaákvörðun á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hélt áfram að líða eftir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur.

Kærandi óskaði eftir því í tölvupósti 5. desember 2012, að biðtími samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2010, um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 daga á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar yrði látinn niður falla. Vinnumálastofnun hafnaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 29. janúar 2013.

Kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. janúar 2013 líkt og fyrr greinir en eftir að kærandi lagði inn kæruna tók Vinnumálastofnun mál kæranda fyrir á fundi 20. janúar 2013 og sendi kæranda ákvörðunarbréf í kjölfarið, dags. 29. janúar 2013, þar sem fram kemur að umsókn hans sé samþykkt og að beiðni hans um niðurfellingu eldri viðurlaga frá 1. október 2010 á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefði ekki verið tekin til greina.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hann hafi látið vita símleiðis í nóvember 2010 að vegna veikinda gæti hann ekki stundað atvinnuleit og hafi hann hætt að þiggja bætur í kjölfarið. Telur kærandi að um mistök sé að ræða að setja hann á biðtíma. Þá kveðst kærandi ekki geta hafa orðið við beiðni starfsmanns Vinnumálstofnunar um að senda tilkynningu þess efnis að hann myndi fara af atvinnuleysisskrá.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags, 7. mars 2013, kemur fram að mál þetta varði ákvörðun stofnunarinnar að láta kæranda sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Vinnumálstofnun greinir frá því að ákvörðunin sé frá 7. október 2010 og kærufrestur, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé liðinn.

Vinnumálstofnun greinir jafnframt frá því að eftir að umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi biðtími samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar haldið áfram að líða. Beiðni kæranda um að útistandandi biðtími yrði felldur niður hafi verið hafnað með bréfi, dags. 29. janúar 2013.

Vinnumálastofnun vísar til ákvæðis 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu á viðurlagatíma. Þá greinir stofnunin frá því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki starfað á vinnumarkaði í a.m.k. hálfan mánuð frá því ákvörðun um biðtíma var tekin. Vinnumálastofnun hafi hvorki borist vottorð frá vinnuveitanda né önnur gögn er staðfesti vinnuframlag kæranda á tímabilinu. Af þeim sökum verði ekki fallist á að heimild 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og biðtími kæranda skuli halda áfram eftir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 31. ágúst 2012.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. mars 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. mars 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Úrskurðarnefndin tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 12. ágúst 2013, að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.

 

2.
Niðurstaða

Með tölvupósti 5. desember 2012 óskaði kærandi eftir því að réttaráhrif eldri biðtímaákvörðunar frá árinu 2010 skyldu falla niður. Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálstofnunar 17. desember 2012 var beiðninni hafnað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina í bréfi 29. janúar 2013.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin 17. desember 2012 og lýtur að því að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt en jafnframt var kæranda tilkynnt um að hann ætti eftir að sæta biðtíma, vegna eldri ákvörðunar stofnunarinnar frá árinu 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að um er að ræða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá fundi stofnunarinnar 30. september 2010, um niðurfellingu bótaréttar í 40 daga skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og var ákvörðunin tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. október 2010.

Í ákvörðun Vinnumálstofnunar frá 30. september 2010, kemur fram að þar sem kærandi hafi verið fjarverandi á kynningarfundi væri bótaréttur hans felldur niður frá og með degi ákvörðunar, 1. október 2010, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. janúar 2013. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í 40 daga vegna fjarveru hans á kynningarfundi var eins og fyrr greinir kynnt kæranda í bréfi, dags. 7. október 2010. Í bréfinu kemur skýrlega fram að heimilt er að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og kærufrestur sé þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins, sbr. og 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran barst að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að þessi þáttur kærunnar verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa þessum hlutum kærunnar frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga.

Í 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.

Af gögnum málsins er ljóst að 40 daga biðtími, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. september 2010, var ekki liðinn þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 31. ágúst 2012 og ofangreint ákvæði 3. mgr. 58. gr. laga atvinnuleysistryggingar á ekki við um tilvik kæranda. Var Vinnumálastofnun því rétt að fresta bótagreiðslum til kæranda.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. desember 2012 staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. desember 2012 í máli Aer staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum