Hoppa yfir valmynd
26. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 54/2012.

 

 

 Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 54/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 2. nóvember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem kærandi hafi verið við vinnu hjá B. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi kærði ekki þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Kærandi sótti aftur um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn 9. janúar 2012. Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri hafnað þar sem hann hefði ekki starfað á innlendum vinnumarkaði frá því að ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafði verið tilkynnt honum. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana með erindi, dags. 22. mars 2012. Hann krefst þess að fá aftur greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. nóvember 2009. Í eftirlitsferð fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, 14. september 2011, var komið að kæranda við störf hjá fyrirtækinu B. Kærandi skráði sig af atvinnuleysisskrá 21. september 2011 og tjáði stofnuninni að hann hefði hafið störf 20. september 2011. Kæranda var sent erindi 18. október 2011 þar sem honum var tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði verið í vinnu hjá B. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Óskað var eftir skýringum kæranda, en þær bárust ekki. Kæranda var í kjölfarið tilkynnt með bréfi 2. nóvember 2011 að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til hans vegna framangreindra starfa kæranda. Í erindinu kom fram að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 

Eins og fram hefur komið sótti kærandi aftur um greiðslur atvinnuleysisbóta 9. janúar 2012. Þeirri umsókn var hafnað með bréfi 29. febrúar 2012 þar sem hann hafði ekki starfað á innlendum vinnumarkaði frá því að ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginga hafði verið tilkynnt kæranda. Mál þetta hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða lýtur að þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. febrúar 2012.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. maí 2012, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta varði meðal annars viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið birt kæranda með bréfi 2. nóvember 2011. Frestur til að kæra þá ákvörðun hafi því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 22. mars 2012. Muni umsögn Vinnumálastofnunar því ekki lúta að þeim þætti máls kæranda.

 

Með bréfi 29. febrúar 2012 var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri hafnað. Var synjunin byggð á eldri viðurlagaákvörðun stofnunarinnar enda hafði kærandi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði í tólf mánuði frá því að sú ákvörðun var birt kæranda.

 

Kærandi hafi sætt viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginga 2. nóvember 2011. Í viðurlagaákvæði 60. gr. laganna felist ekki einungis stöðvun á greiðslum atvinnuleysisbóta heldur sé viðkomandi atvinnuleitanda einnig gert að starfa á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. tólf mánuði áður en hann geti aftur átt rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi ekki starfað þann tíma sem 60. gr. laganna áskilji og beri Vinnumálastofnun því að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Þar til kærandi hafi starfað í a.m.k. tólf mánuði frá því að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. nóvember 2011 var tilkynnt honum, eigi kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

 

Niðurstaða

 

Hin kærða ákvörðun í máli þessu varðar þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda frá 9. janúar 2012 um atvinnuleysisbætur, á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem hann hafði þá ekki starfað að minnsta kosti í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að ákvörðun um viðurlög skv. 60. gr. sömu laga var tekin 2. nóvember 2011.

 

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39.gr.

 

Kærandi hafði ekki starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði þegar hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur. Eins og berlega kemur fram í tilvitnaðri 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar átti hann því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hann sótti um þær 9. janúar 2012. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. febrúar 2012 í máli A þess efnis að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað að minnsta kosti í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að ákvörðun um viðurlög skv. 60. gr. sömu laga var tekin 2. nóvember 2011, er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum