Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 130/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. júlí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 130/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna um slíkt til stofnunarinnar. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 17. september 2011 til 22. febrúar 2012, samtals að fjárhæð 157.772 kr. Kærandi fer fram á að ákvörðunin verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. september 2011.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar sem fram fór í apríl 2012 kom upp að kærandi hefði starfað við akstur leigubifreiða á árunum 2011 og 2012 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var kærandi að leysa af við akstur leigubifreiðar á tímabilinu 19. september 2011 til 24. janúar 2012. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 16. apríl 2012, eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim tekjum er kærandi hafði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Þann 24. apríl 2012 barst tölvupóstur frá kæranda með skýringum hans.

Með bréfi, dags. 1. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans skyldu stöðvaðar þar sem kærandi hefði verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það jafnframt niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 157.772 kr. með 15% álagi fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi mætti á fund hjá Vinnumálastofnun 4. júní 2012 til að skýra mál sitt frekar og óska eftir endurupptöku á máli sínu. Jafnframt skilaði kærandi inn yfirliti yfir tekjur og kostnað hjá sér vegna leigubifreiðaaksturs árið 2011. Í kjölfarið var mál kæranda tekið fyrir að nýju og með bréfi, dags. 13. júní 2012, var kæranda tilkynnt að ný gögn í máli hans hefðu ekki breytt niðurstöðu stofnunarinnar og væri því ákvörðunin frá 1. júní staðfest.

Í kæru, móttekinni 23. júlí 2012, bendir kærandi á að um sér að ræða ófullnægjandi upplýsingar til hans varðandi tekjuöflun með atvinnuleysisbótum. Það hafi aldrei verið ætlunin að stunda vinnu með bótum án þess að gefa það upp. Kærandi kveðst ekki vera sáttur við aðgerðir Vinnumálastofnunar og sé í vandræðum fjárhagslega eftir að lokað hafi verið á bætur til sín.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. ágúst 2012, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á 60. gr. laganna og að í athugasemdum með 23. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, segi að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiða til þess að atvinnuleitandi telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun vísar til ákvæða 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar og bendir á að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 7. september 2011. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um tilfallandi vinnu kæranda við leigubifreiðaakstur á þeim tíma sem hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Henni hafi fyrst verið kunnugt um störf kæranda við reglubundið eftirlit og samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar í apríl 2012. Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi sagt að hann hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar varðandi tekjuöflun samhliða atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun vilji í því skyni vekja athygli á því að á kynningarfundum hjá stofnuninni, í bæklingi sem allir umsækjendur fá afhentan þegar þeir staðfesta rafræna skráningu sína og á heimasíðu stofnunarinnar séu veittar upplýsingar um það að tilkynna þurfi allar þær tekjur eða aðrar breytingar sem verði á högum atvinnuleitanda er tengist vinnufærni og möguleikum þeirra á að taka starfi. Af skýru orðalagi 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hvíli sú skylda á kæranda að upplýsa Vinnumálastofnun um allar tilfallandi tekjur, hversu litlar sem þær séu.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi starfað við akstur leigubifreiðar á meðan hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning frá kæranda vegna vinnu hans. Það ætti að vera öllum ljóst að atvinnuleitanda sem þiggur greiðslu atvinnuleysisbóta beri skylda til að tilkynna vinnu til Vinnumálastofnunar um leið og hann hefur störf. Það eigi jafnt við um störf sem séu tilfallandi, hlutastörf eða í því tilfelli sem viðkomandi hafi hætt atvinnuleit að öllu leyti. Í tilfelli kæranda hafi honum því borið að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín, deginum áður en hann hóf störf, sbr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hann skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig sé það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilunum 19.–25. september, 3., 4., 17. og 18. október, 26.–31. október, 7., 8., 14. og 15. nóvember, 19. og 20. desember, 22.–31. desember árið 2011 og 1., 2., 16., 17., 23. og 24. janúar árið 2012 að fjárhæð 157.772 kr. að meðtöldu 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þau tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. september 2012. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sendi kæranda bréf, dags. 13. nóvember 2012, þar sem hann var upplýstur um tafir á málinu vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá nefndinni og að vonir stæðu til að ljúka máli hans sem fyrst.

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Með 4. gr. laga nr. 103/2011 voru gerðar orðalagsbreytingar á 1. málsl. ákvæðisins. Af þeim breytingum leiðir að ef atvinnuleitandi lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Ekki verður fallist á að Vinnumálastofnun hafi sýnt fram á að kærandi hafi með vísvitandi hætti leynt upplýsingum í skilningi 1. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Á hinn bóginn þarf að taka til skoðunar hvort háttsemi kæranda leiði til þess að brotið hafi verið á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sá málsliður hefur verið túlkaður á þann veg að tiltekin hlutlæg skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að hægt sé að beita ákvæðinu og skipti þá huglæg afstaða atvinnuleitenda ekki máli. Þetta þýðir með öðrum orðum að beita eigi þessum málslið þegar (1) atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og (2) einnig þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a. Þá segir í 35. gr. a:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 17. september 2011 til 22. febrúar 2012 alls 157.772 kr. en innifalið í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. júní 2012 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 157.772 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum