Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 104/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. júlí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 104/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem kærandi hafi verið að vinna sem leigubílstjóri samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 10. apríl til 28. ágúst 2010 samtals að fjárhæð 288.335 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag sem verður innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 19. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta 2. júní 2010.

 Með bréfi, dags. 16. apríl 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að við samkeyrslu gagnagrunna stofnunarinnar og Vegagerðarinnar hafi komið upp að kærandi hefði starfað við akstur leigubifreiða á árinu 2010 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Óskað var eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim tekjum er hann hafði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Bréfið, sem stílað var á það heimilisfang sem kærandi gaf upp kom endursent til Vinnumálastofnunar.

 Með bréfi, dags. 1. júní 2012, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun þess efnis að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans skyldu stöðvaðar þar sem kærandi hefði verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það jafnframt niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 288.335 kr. að meðtöldu 15% álagi fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 Í samskiptasögu á milli Vinnumálastofnunar og kæranda er greint frá því 11. júní 2012 að ákvörðunarbréfið hafi verið endursent og ekkert annað heimilisfang hafi fundist hjá kæranda.

 Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki haft vitneskju um málið fyrr en á þeim tíma sem hann kærði ákvörðunina. Kærandi kveðst vera með nýtt tölvupóstfang og hafi hann verið staddur úti á landi en ekki á því heimilisfangi sem pósturinn var sendur á. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun að hann mætti hafa tekjur upp að ákveðnum frítekjumörkum og hafi hann ekki unnið fyrir hærri fjárhæð.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. júní 2012, vísar Vinnumálastofnun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bendir á að í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

 Vinnumálastofnun greinir frá því að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. desember 2008. Síðan umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi hann fengið einhverjar tilfallandi tekjur og tilkynnt þær til stofnunarinnar. Af því sé ljóst að kærandi hafi vitað um skyldu sína til þess að tilkynna um tilfallandi tekjur af leigubílaakstri.

 Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um tilfallandi tekjur kæranda við leigubílaakstur á þeim tíma sem hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Stofnuninni hafi fyrst verið kunnugt um störf kæranda við reglubundið eftirlit og samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar í apríl 2011. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi greini frá því í kæru að hann hafi talið að hann mætti hafa tekjur í kringum um 50.000 kr. án þess að það skerði rétt hans til bóta. Umrætt frítekjumark sem kærandi ræði um sé í 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af skýru orðalagi 35. gr. a og 9. gr. sömu laga hvíli sú skylda á kæranda að upplýsa Vinnumálastofnun um allar tilfallandi tekjur, hversu lágar sem þær séu. Það að tekjurnar hafi ekki náð frítekjumarki 4. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breyti engu um þá skyldu kæranda.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. júlí 2012. Afrit af greinargerðinni var einnig send kæranda í tölvubréfi, dags. 16. júlí 2012, og kæranda veittur frestur til 15. ágúst 2012 til að koma að athugasemdum eftir beiðni hans um að frestur yrði lengdur. Engar athugasemdir bárust hins vegar frá kæranda.

 Með bréfi, dags. 13. nóvember, tilkynnti úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kæranda um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni vegna gríðarlegs málafjölda.

 

2.

Niðurstaða

 

Kæranda var tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2012, að stofnunin hefði á grundvelli heimildar í 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar aflað gagna frá Vegagerðinni um þá aðila sem starfað hafi við akstur leigubifreiða í afleysingum. Samkvæmt þeim gögnum hafi kærandi starfað við akstur leigubifreiða á árinu 2010 og á sama tíma hafi hann þegið atvinnuleysisbætur frá stofnuninni. Í bréfinu er kærandi einnig meðal annars upplýstur um að brot gegn 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar kunni að valda viðurlögum skv. 59. eða 60. gr. sömu laga og honum gefinn kostur á að skila inn skýringum og athugasemdum. Í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar við kæranda er skráð 20. apríl 2012 að umrætt bréf Vinnumálstofnunar hafi verið endursent til stofnunarinnar. Ekkert er í gögnum málsins um að Vinnumálastofnun hafi reynt að nýju að senda kæranda bréf eða tilkynna honum með öðrum hætti að mál hans væri til meðferðar hjá stofnuninni. Hin kærða ákvörðun var send til kæranda með bréfi, dags. 1. júní 2012, en samkvæmt samskiptaskránni má ráða að það bréf var einnig endursent til Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð Vinnumálstofnunar kemur fram að bréfin hafi verið send á lögheimili kæranda sem jafnframt sé það sama og skráð heimilisfang kæranda hjá Vinnumálastofnun. Kærandi gaf upp annað húsnúmer en skráð lögheimili hans er á og er því ljóst að Vinnumálastofnun sendi ekki bréfin á skráð lögheimili kæranda.

 Af gögnum málsins verður ekki séð að kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin hjá Vinnumálastofnun og því var andmælaregla stjórnsýsluréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, brotin. Þá verður heldur ekki séð að hin kærða ákvörðun hafi verið kynnt kæranda með fullnægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, en bréf, dags. 1. júní 2012, var einnig endursent til Vinnumálstofnunar enda ekki sent á lögheimili kæranda. Er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að þessir annmarkar á málsmeðferð Vinnumálastofnunar séu þess eðlis að úrskurðarnefndin geti ekki lokið málinu með efnislegri niðurstöðu. Hin kærða ákvörðun verður því ómerkt og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir nýju.


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun í máli A er ómerkt og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir að nýju.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum