Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 8. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 5/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, um ákvörðun sína frá 5. október 2011 þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli þess að 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væri ekki uppfyllt, þar sem hún teldist ekki hafa verið í virkri atvinnuleit, en kærandi hafði hafið rekstur. Hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 30. maí til 19. ágúst 2011 samtals að fjárhæð 291.782 kr. með 15% álagi, sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 9. janúar 2012. Vinnumálastofnun telur ákvörðun sína vera rétta.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 30. maí 2011 sem launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var sent bréf, dags. 7. september 2011, þar sem henni var tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um að kærandi hafi reiknað sér endurgjald fyrir júní 2011 án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Mál kæranda var tekið til meðferðar á ný með tilliti til nýrra gagna. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2011, kemur fram að ekki verði séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 5. október 2011 hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og var hún því staðfest.

 

Í kæru sinni, dags. 9. janúar 2012, greinir kærandi frá því að skráning hennar á staðgreiðsluskrá sé þannig tilkomin að hún hafi verið að vinna að uppsetningu B og hafi hún fengið greitt fyrir þá vinnu sem verktaki. Verkefnið hafi staðið yfir frá 1. mars til 25. maí 2011 og hafi hún unnið við það með starfi sínu í C. Greiðsla fyrir verkið hafi borist 16. júní 2011. Hún hafi greitt staðgreiðslu og tryggingagjald af þessum tekjum 6. júlí 2011 samtals 119.475 kr. Það líti því þannig út að tekjurnar séu fyrir júnímánuð og séu það hennar mistök. Kærandi kveðst skilja hvers vegna henni sé gert að greiða til baka fyrir júní en ekki fyrir júlí og ágúst, þar sem hún hafi engar tekjur haft á þeim tíma. Kærandi kveðst hafa verið að vinna fyrir D til 8. júní 2011 og síðan byrjað í skóla 24. ágúst 2011. Hún hafi skráð sig af atvinnuleysisbótum um leið og hún hafi byrjað í skólanum. Hún telji það óeðlilegt að skráning hennar á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sé ein og sér lögð til grundvallar ákvörðun Vinnumálastofnunar.

 

Í kjölfar fyrirspurnar úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða lagði kærandi fram staðfestingu frá B, dags. 19. desember 2012, þess efnis að hún hefði tekið að sér æfingar og undirbúning afmælishátíðar félagsins árið 2011. Hafi vinnan verið fólgin í því að stýra og stjórna samæfingum fyrir [...]sýningu félagsins. Vinnutíminn hafi verið á tímabilinu mars–maí 2011 og hafi lokið á sýningunni sem hafi verið í lok maí. Greiðsla fyrir verkefnið hafi numið 300.000 kr. Kærandi lagði einnig fram „Tilkynningu um afskráningu af launagreiðendaskrá staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattsskrá“, dags. 19. desember 2012. Þar kemur fram að kærandi skráði sig af launagreiðendaskrá hjá ríkisskattstjóra.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 14. mars 2012, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 30. maí til 19. ágúst 2011.

 

Eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum launamanna sé að launamaður sé í virkri atvinnuleit, sbr. b-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 14. gr. sömu laga sé kveðið á um það hvað teljist vera virk atvinnuleit og í g-lið ákvæðisins segi að atvinnuleitandi megi ekki eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. laganna eigi við. Kærandi hafi ákvarðað sér reiknað endurgjald fyrir júní 2011 og hafi því skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki verið uppfyllt.

 

Kærandi hafi tilkynnt sig til skráningar á launagreiðendaskrá hjá ríkisskattstjóra 12. maí 2011 og hafi hún því verið með opinn rekstur þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur 30. maí 2011. Í f- og g-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að skilyrði sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. b-lið 3. gr. laganna, fyrir töku atvinnuleysisbóta sé að rekstur hafi verið stöðvaður og lögð hafi verið fram staðfesting þess efnis. Umrædd skilyrði gildi jöfnum höndum um launamenn í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og sé launamönnum því óheimilt að opna rekstur samhliða töku atvinnuleysisbóta.

 

Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 30. maí til 19. ágúst 2011. Beri kæranda að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 291.782 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Samkvæmt a-lið lagagreinarinnar telst launamaður tryggður sem uppfyllir það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laganna. Í 14. gr. er fjallað um virka atvinnuleit og samkvæmt g. lið lagagreinarinnar telst sá vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir það skilyrði að eiga ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 30. maí 2011 og fékk greiddar bætur frá þeim tíma til 19. ágúst 2011, en þá voru greiðslu til hennar stöðvaðar á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði tilkynnt sig til skráningar á launagreiðendaskrá hjá ríkisskattstjóra 12. maí 2011.

 

Að mati Vinnumálastofnunar var kærandi með „opinn rekstur“ þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur. Til þess var meðal annars horft að hún hafi reiknað sér endurgjald fyrir júnímánuð. Afstaða Vinnumálastofnunar er þannig á því byggð að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi og hafi því borið að leggja fram staðfestingu á stöðvun rekstrar áður en hún sótti um atvinnuleysisbætur.

 

Úrskurðarnefnd getur ekki fallist á að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi starfaði sem launamaður hjá D 8. júní 2012. Kærandi vann tímabundið verkefni fyrir B og var ráðlagt að endurskoðanda að skrá sig á staðgreiðsluskrá vegna tekna fyrir verkefnið. Hún komst svo að því síðar að hún hefði ekki þurft að skrá sig á staðgreiðsluskrá þar sem aðeins var um tímabundið verkefni að ræða.

 

Kærandi skráði sig á launagreiðandaskrá um miðjan maí, um tveimur vikur áður en hún varð atvinnulaus. Tilgangurinn var sá að telja tekjur fyrir hið tilfallandi verkefni fram sem verktakagreiðslur. Staðfest hefur verið af hálfu verkkaupa að hinu tímabundna verkefni var sannarlega lokið fyrir lok maí 2011. Greiðsla fyrir verkefnið barst hins vegar ekki fyrr en 16. júní 2011 og hún greiddi staðgreiðslu og tryggingagjald af þessum tekjum 6. júlí 2011.

 

Af gögnum málsins virðist ljóst að skráning kæranda á launagreiðandaskrá var algjörlega bundin við það tímabundna verkefni er hún vann fyrir B. Gögn málsins benda einnig til þess að hún hafi í raun verið launamaður, en hún starfaði við C og var launamaður hjá D. Það bendir því ekkert til þess að kærandi hafi verið „sjálfstætt starfandi“ í skilningi laganna og þvert á móti benda gögn málsins til þess að hún hafi í reynd verið launamaður í skilningi laganna.

 

Miðað við þær sérstöku aðstæður sem eru í þessu máli verður ekki talið að meðhöndla beri kæranda sem sjálfstætt starfandi einstakling, heldur sem launamann.

 

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. október 2011 um að krefja A um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum á tímabilinu 30. maí til 19. ágúst 2011 er felld úr gildi. Kærandi á rétt til atvinnuleysisbóta frá 8. júní til 19. ágúst 2011.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum