Hoppa yfir valmynd
9. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 211/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 211/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. nóvember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hún verið stödd erlendis frá 29. september til 12. október 2010 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að þar sem hún hafi látið hjá líða að veita upplýsingar um dvöl sína erlendis skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi stofnunin tekið ákvörðun um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá degi ákvörðunar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. nóvember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun þann 6. september 2010.

Þann 1. október 2010 gerði Vinnumálastofnun tilraunir til þess að boða kæranda í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Reyndist ekki unnt að ná í kæranda í gegnum skráð símanúmer hennar hjá stofnuninni. Kæranda var í kjölfarið send skilaboð um að mæta á fund hjá stofnuninni. Kærandi tjáði Vinnumálastofnun síðar að hún hefði dvalist erlendis á þeim tíma er fundur átti að fara fram og þann 15. október 2010 skilaði hún inn flugfarseðlum sem staðfestu brottfarar- og heimkomudag.

Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir á fundi stofnunarinnar þann 28. október 2010 og kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 3. nóvember 2010, sú ákvörðun stofnunarinnar að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda fyrir það tímabil sem kærandi dvaldist erlendis, frá 29. september til 12. október 2010, þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili. Vinnumálastofnun tók einnig ákvörðun um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í tvo mánuði frá degi ákvörðunar með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sendi erindi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. nóvember 2010, en sonur kæranda færir þar fram skýringar fyrir hennar hönd. Í erindinu kemur fram að á því tímabili er kærandi hafi verið í útlöndum hafi hún verið að fylgja syni hans, barnabarni kæranda, í heimsókn til hans, en hann sé búsettur í Asíu þar sem hann stundi meistaranám. Kærandi sé 60 ára að aldri og hafi skráð sig í fyrsta sinn hjá Vinnumálastofnun þann 1. september 2010. Því hafi kærandi ekki áttað sig á því hvernig kerfið virkar er hún fór í umrædda ferð. Henni hafi orðið á mistök, en aðstæður hennar skýri þau mistök, ekki hafi verið um einbeittan brotavilja að ræða heldur einfeldni og klaufaleg mistök af hálfu kæranda.

Vinnumálastofnun barst bréf frá Starfsendurhæfingu hjá stéttarfélögunum á Suðurlandi (Virk), dags. 10. nóvember 2011, þar sem ráðgjafi í starfsendurhæfingu staðfestir að kærandi hafi verið í ráðgjöf hjá Virk með góðum árangri. Ráðgjafinn telur að Vinnumálastofnun eigi að endurskoða ákvörðun sína svo kæranda verði gert kleift að einbeita sér að því að finna starf á nýjum vettvangi.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda beri skylda til þess að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, segi meðal annars að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig er mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða.

Vinnumálastofnun telur ljóst að kærandi hafi verið stödd í útlöndum á tímabilinu 29. september til 12. október 2010. Bendir Vinnumálastofnun á að í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga, að vera í virkri atvinnuleit. Jafnframt sé það gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrirfram um þessa utanlandsferð sína, líkt og henni bar skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til ummæla kæranda í kæru hennar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. nóvember 2010, um að hún hafi „ekki áttað sig alveg á því hvernig þetta kerfi virkaði“. Vinnumálastofnun vísar til heimasíðu stofnunarinnar þar sem vakin sé athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi. Einu undanþágur frá skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna í VIII. kafla laganna. Vinnumálastofnun segir jafnframt að sérstaklega sé vakin athygli á framangreindum atriðum á kynningarfundum stofnunarinnar og þeim sem huga að ferð til útlanda á sama tíma og þeir eru skráðir í atvinnuleit hjá stofnuninni sé bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu stofnunarinnar fyrir brottfarardag. Vinnumálastofnun vekur jafnframt athygli á því að í þeim tilvikum er Vinnumálastofnun sé tilkynnt um slíkar ferðir fyrirfram sé atvinnuleitanda gerð grein fyrir því að hann fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann dvelur erlendis, nema fyrir liggi E-303 vottorð hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun vísar til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 111/2010, í máli nr. 95/2010 og máli nr. 84/2010 og telur að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Telur Vinnumálastofnun að kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, 3. nóvember 2010, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Niðurstaða Vinnumálastofnunar var því sú að kærandi skuli sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það er enn fremur niðurstaða stofnunarinnar að kærandi fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar [skv. 14. gr.] eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma ea viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hefur staðfest að hún var stödd erlendis frá 29. september til 12. október 2010, en hún tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili. Kærandi hefur fært fram þær skýringar að henni hafi ekki verið kunnugt um að atvinnuleitendum beri skylda til að tilkynna fyrir fram til Vinnumálastofnunar um utanlandsferðir. Engum gögnum er til að dreifa sem styðja þessa fullyrðingu. Fram hefur komið í máli Vinnumálastofnunar að veittar séu upplýsingar um þessi atriði á kynningarfundum stofnunarinnar. Einnig verður til þess að líta að tíðkanlegt er að launþegar upplýsi vinnuveitendur sínar um fjarvistir vegna dvalar erlendis en réttarsamband atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar er um sumt eðlislíkt því sem er á milli launþega og vinnuveitanda. Þessu til viðbótar hafa um nokkurt skeið verið veittar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Í ljósi framanritaðs og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram um þennan þátt málsins, verður talið að Vinnumálastofnun hafi veitt kæranda fullnægjandi leiðbeiningar í skilningi 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, verður talið að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrirfram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Að auki ber kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún þáði á meðan hún var stödd erlendis og uppfyllti ekki skilyrði um greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. nóvember 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði og endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 29. september til 12. október 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum