Hoppa yfir valmynd
3. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2010 Endurupptaka

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. júní 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 57/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. febrúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans myndu falla niður frá og með 1. mars 2010 að óbreyttum aðstæðum. Kærandi kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 19. apríl 2010. Hann gerði kröfu um að frá greiddar atvinnuleysisbætur og taldi að Vinnumálastofnun hefði ekki sinnt leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni, sbr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Vinnumálastofnun krafðist þess að hin kærða ákvörðun yrði staðfest. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í málinu þann 7. október 2010 og staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Í kjölfar úrskurðarins leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis með kvörtun og í framhaldi af því beindi umboðsmaður spurningum um málið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. bréf umboðsmanns til nefndarinnar dags. 11. janúar 2011. Með bréfi til umboðsmanns, dags. 10. febrúar 2011, tilkynnti nefndin að málið yrði tekið upp að nýju. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. mars 2011, var tilteknum spurningum beint til Vinnumálastofnunar um málið ásamt því að óskað var eftir frekari gögnum. Vinnumálastofnun svaraði spurningum nefndarinnar og lagði fram frekari gögn, sbr. bréf stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar dags. 4. apríl 2011. Það hefur kærandi einnig gert, sbr. bréf hans til úrskurðarnefndarinnar dags. 19. apríl 2011. Kröfur aðila eru þær sömu og áður, þ.e. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest en kærandi að henni verði hrundið og honum greiddar fullar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2010 að telja.

Með hliðsjón af framangreindri forsögu þykir ástæða til að fjalla ítarlega um málavexti og málsástæður aðila.

Kærandi er arkitekt og stofnaði hann félagið X ehf. árið 2004 ásamt tveimur öðrum arkitektum. Frá stofnun félagsins átti kærandi þriðjungshlut í því ásamt því að sitja í stjórn. Kærandi hefur ekki hafnað þeirri fullyrðingu Vinnumálastofnunar að hann sé einn prókúruhafa félagsins. Samkvæmt yfirlýsingu bókara félagsins var kærandi á launaskrá félagsins frá janúar 2005 til nóvember 2008. Lögð hafa verið fram gögn frá skattyfirvöldum sem sýna staðgreiðslu skatta af launum kæranda sem hann fékk frá félaginu á árunum 2007 og 2008.

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta með rafrænni umsókn þann 30. desember 2008. Við þetta tækifæri var tekið fram hvaða fylgigögn kynni að vanta til að hægt væri að taka afstöðu til umsóknar kæranda og kom kærandi tilteknum fylgigögnum áleiðis til Vinnumálastofnunar í byrjun janúar 2009. Af þessum fylgigögnum skipti eyðublaðið RSK 5.02 mestu máli en það barst Vinnumálastofnun 15. janúar 2009. Ráða má af eyðublaðinu, sem er dagsett 6. janúar 2009, að það hafi verið fyllt út í því skyni að tryggja kæranda greiðslu atvinnuleysisbóta. Samkvæmt eyðublaðinu átti kærandi þriðjungshlut í rekstraraðilanum X ehf., sbr. upplýsingar í dálknum „E Reiknað endurgjald, áætlun framteljanda“.

Framangreind málsatvik verður að tengja við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um atvinnuleysistryggingar í nóvember 2008 en með b-lið 1. gr. laga nr. 131/2008 var ákvæði til bráðabirgða bætt við lög um atvinnuleysistryggingar, sbr. ákvæði VI til bráðabirgða. Á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis, sem gilti upphaflega til 1. maí 2009, var heimilt að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingum atvinnuleysisbætur þótt þeir uppfylltu ekki að öllu leyti skilyrði f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 20. og 21. gr. sömu laga. Þessi breyting hafði í för með sér að undanþága var veitt frá reglum um að sjálfstætt starfandi einstaklingur þyrfti að stöðva atvinnurekstur sinn til þess að geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Til þess að uppfylla skilyrði undanþágunnar þurfti sjálfstætt starfandi einstaklingur meðal annars að leggja fram tilkynningu til skattyfirvalda um verulegan samdrátt í rekstri sem leitt hefði til tímabundins atvinnuleysis. Þessa tilkynningu var meðal annars hægt að gera úr garði með því að fylla út áður nefnt eyðublað RSK 5.02.

Kærandi staðfesti rafræna umsókn sína 13. janúar 2009 og við það tækifæri staðfesti hann meðal annars „að hafa fengið í hendur bækling um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur hvaða gögn þarf að leggja fram með umsókn um atvinnuleysisbætur auk annarra upplýsinga um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur“. Jafnframt staðfesti kærandi með undirritun sinni á umsóknina að „hafa fengið upplýsingar um að ég verði boðaður á kynningarfund, sem skylt er að mæta á“. Samkvæmt boðun á kynningarfund, sem móttekin var af Vinnumálastofnun 15. janúar 2009, var hakað við að kærandi hafi lagt fram staðfest afrit af eyðublaðinu RSK 5.02 og mynd 8B frá skattstjóra, „Reiknuð“ laun fyrir núverandi ár og árið á undan. Neðst á sömu boðun er svohljóðandi texti:

Einungis fyrir sjálfstætt starfandi

Til að viðhalda umsókn um atvinnuleysistryggingar þarf að skila til Vinnumálastofnunar

1. Mynd 8B frá skattstjóra, „Launagreiðandi“. Skilist inn mánaðarlega.

2. Afrit af virðisaukaskattskýrslu RSK 10.01 á tveggja mánaða fresti, staðfest af skattstjóra, innheimtumanni ríkissjóðs eða banka.“

Á grundvelli umsóknar kæranda og þeirra fylgigagna sem hann lagði fram var fallist á umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta. Samkvæmt færslum í samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda á tímabilinu 12. janúar 2009 til 25. janúar 2009 má ráða að starfsmenn Vinnumálastofnunar hafi lagt til grundvallar að kærandi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Með 26. gr. laga nr. 37/2009, sem tók gildi 8. apríl 2009, var bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar breytt með tilteknum hætti, en meðal annars var gildistími ákvæðisins framlengdur til ársloka 2009. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 37/2009 skyldu breytingar þær, sem kveðið var á um í lögunum, ekki gilda um þá sem þegar fengu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði við gildistöku laganna nema breytingarnar myndu leiða til betri réttar fyrir hinn tryggða og skyldi hann þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. júní 2009. Þrátt fyrir þessar breytingar hélt kærandi áfram töku atvinnuleysisbóta án þess að til nokkurra breytinga hafi verið gripið á stöðu hans innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Með 26. gr. laga nr. 134/2009 voru enn á ný gerðar breytingar á bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar, meðal annars var kveðið á um að þeir sem þegar hefðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 skyldu eiga rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Í skjóli síðastnefndu reglunnar tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, með bréfi dags. 8. febrúar 2010, að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar frá og með 1. mars 2010 að telja.

Kærandi andmælti þessari ákvörðun með bréfi, dags. 15. febrúar 2010. Þegar Vinnumálastofnun breytti ekki ákvörðuninni kærði kærandi hana til úrskurðanefndarinnar, sbr. erindi hans dags. 19. apríl 2010. Kæran var meðal annars reist á því að hann hafi frá öndverðu starfað sem launþegi en ekki sem sjálfstæður atvinnurekandi. Hann hafi starfað hjá X ehf. frá því að fyrirtækið var stofnað á vordögum 2004 þar til hann hafi orðið atvinnulaus vegna verkefnaskorts í árslok 2008. Kærandi taldi sig ekki hafa fengið greitt reiknað endurgjald af launum heldur hafi hann greitt almennan tekjuskatt af þeim launum sem fyrirtækið hafi greitt honum. Kærandi taldi vinnubrögð Vinnumálastofnunar aðfinnsluverð og að stofnunin hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar skv. 7. gr. stjórnsýslulaga. Hún hafi heldur ekki sinnt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að ákveða einhliða að kærandi hafi starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. maí 2010, kom fram að samkvæmt þágildandi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi tryggingarhlutfall kæranda, þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 30. desember 2008, byggt á reglum er gilt hafi um sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun hafi verið gert, samkvæmt þágildandi 4. mgr. 19. gr. laganna, að taka mið af skrám skattyfirvalda til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili. Hafi verið litið til þess hvort staðið hafi verið skil á tryggingagjaldi á ávinnslutímabili og ekki horft til þeirra launa sem atvinnuleitandi hafi greitt sér á tímabilinu. Kærandi hafi í framhaldinu verið samþykktur með 100% bótarétt og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn.

Með lögum nr. 37/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum verið breytt og eingöngu þeir sem höfðu starfað við rekstur á eigin kennitölu skilgreindir sem sjálfstætt starfandi einstaklingar innan kerfisins. Breytingin hafi átt við um þá sem sótt hafi um atvinnuleysisbætur eftir 8. apríl 2009. Þeir sem störfuðu hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum hafi þar með lotið reglum um launafólk, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kveðið hafði verið á um lagaskil í bráðabirgðaákvæði VII með lögum nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/2009 hafi þótt ástæða til að leggja til að breytingar þær sem tóku gildi með lögunum hefðu ekki áhrif á rétt þeirra sem þegar fengu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði nema breytingarnar leiddu til betri réttar fyrir hinn tryggða. Hafi þeim sem þegar höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur verið gert að óska leiðréttinga á greiðslum fyrir 1. júní 2009. Framangreindar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi ekki leitt til betri réttar fyrir kæranda og hann hafi heldur ekki óskað leiðréttinga á grundvelli ákvæðisins. Því hafi kærandi áfram verið skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og hafi bótaréttur hans haldist í 100% eins og áður hafi verið ákveðið.

Fram kom af hálfu Vinnumálastofnunar að ágreiningur í máli þessu lyti að því hvort breyting sú sem samþykkt var með lögum nr. 134/2009 á bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Kærandi mótmæli því á þeim grundvelli að hann sé ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur heldur launþegi hjá fyrirtækinu X ehf. Þá komi fram í bréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun þann 19. febrúar 2010 að stofnunin hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar samkvæmt stjórnsýslulögum. Stofnunin fellst ekki á þessa staðhæfingu og telur að kærandi hafi með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2010, verið upplýstur um umræddar lagabreytingar með fullnægjandi hætti.

Vinnumálastofnun taldi að kærandi félli undir bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. 26. gr. laga nr. 134/2009. Í ljósi þess að kærandi hafi fengið greiddar bætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI taldi stofnunin að kærandi hafi átt rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins til 1. mars 2010. Frá og með þeim tímapunkti bar kæranda því að uppfylla almenn skilyrði laganna. Samkvæmt f- og g-lið 18. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að þeir hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 21. gr. laganna. Í samræmi við 21. gr. laganna telji Vinnumálastofnun nægilegt að umsækjendur skili staðfestingu á lokun launagreiðendaskrá frá ríkisskattstjóra. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggi hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi ekki stöðvað rekstur og beri því að synja honum um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2010, og var honum veittur frestur til 5. október 2010 til að koma frekari athugasemdum á framfæri. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dags. 1. október 2010. Eins og þegar hefur verið rakið staðfesti úrskurðarnefndin hina kærðu ákvörðun með úrskurði frá 7. október 2010 en í kjölfar athugasemda sem nefndinni barst frá umboðsmanni Alþingis var málið tekið upp með bréfi, dags. 10. febrúar 2011.

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2011, í tilefni þess að nefndin hafði ákveðið að taka málið fyrir að nýju, var óskað eftir tilteknum gögnum. Einnig var í bréfi óskað eftir upplýsingum um það hvort Vinnumálastofnun hafi tilkynnt kæranda um að hann væri meðhöndlaður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í kjölfar umsóknar hans um atvinnuleysisbætur. Jafnframt var farið fram á að stofnunin upplýsti hvort hún hafi tilkynnt kæranda sérstaklega um þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 37/2009 og þá sérstaklega um það ákvæði laganna sem laut að fresti til 1. júní 2009 til að breyta réttarstöðu sinni úr sjálfstætt starfandi einstaklingi í launamann.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. apríl 2011, kemur fram að meðal gagna málsins sé afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um samdrátt í rekstri fyrirtækisins X ehf. (eyðublað 5.02). Hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að skila slíkri tilkynningu þegar hann hafi sótt um hjá Vinnumálastofnun enda væri hann stofnandi, prókúruhafi og einn þriggja eigenda að fyrirtækinu X ehf. Hefði kæranda átt að vera það ljóst þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 30. desember 2008 að hann teldist sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Fram kemur í bréfi Vinnumálastofnunar að hún veki athygli á öllum lagabreytingum á heimasíðu stofnunarinnar. Hafi lög nr. 37/2009 verið birt á heimasíðu stofnunarinnar. Samkvæmt lögunum hafi þeim sem þegar hefðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur, verið gert að óska leiðréttinga á greiðslum fyrir 1. júní 2009. Tekið er fram að framangreindar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi ekki leitt til betri réttar kæranda er frestur til að óska leiðréttingar hafi runnið út í júní 2009.

Framangreint bréf Vinnumálastofnunar var sent kæranda með bréfi, dags. 11. apríl 2011, og honum gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. apríl 2011, kemur fram að hann hafi talið sig fara að einu og öllu eftir leiðbeiningum Vinnumálastofnunar við útvegun gagna og hafi hann veitt allar nauðsynlegar upplýsingar um aðstæður sínar. Það hafi alltaf legið fyrir að hann ætti 1/3 í fyrirtækinu X ehf. Í eyðublaðinu 5.02 komi fram að fyrirtækið sé rekstraraðilinn og jafnframt sé staðfest að eignaraðild kæranda að fyrirtækinu sé 33,3%. Ekki séu þar neinar upplýsingar um reiknað endurgjald, enda hafi hann ekki greitt slíkt gjald. Í fylgigögnum frá skattstjóra komi einmitt fram að X ehf. séu launagreiðandinn og frá skattstjóra sé einnig að finna staðfestingu á því hvað hann hafði í laun og greidda staðgreiðslu af þeim.

Ekki verði séð að beiðni Vinnumálastofnunar um skil á eyðublaði 5.02 snúist um túlkun á því hvort um sjálfstætt starfandi aðila sé að ræða eða ekki. Það staðfesti einungis að X ehf. sé sjálfstæður rekstraraðili. Kærandi hafi eingöngu verið sagt að það þyrfti að skila eyðublaðinu, en ekki hvers vegna. Ekki hafi verið hægt að gera sér grein fyrir öðru en að Vinnumálastofnun hafi viljað ganga úr skugga um að fyrirtækið væri rekstraraðili og hefði staðið skil á sínum skuldbindingum og hafi kæranda ekki fundist það óeðlileg krafa.

Sú fullyrðing Vinnumálastofnunar að kæranda hefði átt að vera það ljóst að hann teldist sjálfstætt starfandi einstaklingur sé úr lausu lofti gripin og færi Vinnumálastofnun ekki sönnur á að honum hafi verið tilkynnt um slíkt, enda hafi það ekki verið gert. Í þágildandi lögum hafi túlkun á sjálfstætt starfandi einstaklingum verið sú að þeir skuli hafa ráðandi hlut í fyrirtækinu og gert að standa skil á reiknuðu endurgjaldi. Í því ljósi hafi kærandi ekki reiknað með öðru en að hann væri skilgreindur sem launamaður og honum hafi aldrei verið tilkynnt um að svo væri ekki.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að gildi stjórnvaldsákvörðunar sem Vinnumálastofnun tók 8. febrúar 2010. Málsástæður kæranda lúta að því að sú ákvörðun hafi verið röng þar sem hann hafi verið skráður í upphafi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur en ekki sem launþegi. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að meðhöndla kæranda sem sjálfstætt starfandi einstakling var tekin í janúar 2009. Úrskurðarnefndin getur ekki endurskoðað þá ákvörðun nema eitthvað sérstakt komi til enda er fresturinn til að skjóta þeirri ákvörðun til nefndarinnar löngu liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Helsta röksemd kæranda fyrir því að úrskurðarnefndin endurskoði þessa upphaflegu ákvörðun Vinnumálastofnunar er sú að stofnunin hafi ekki tilkynnt honum um hana og hafi bæði þá og síðar brotið á reglum stjórnsýsluréttar um skyldu til að veita leiðbeiningar og rannsaka mál með fullnægjandi hætti, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald tilkynna aðila máls um ákvörðun nema það sé augljóslega óþarft. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hafi tilkynnt kæranda með beinum hætti að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt á þeim forsendum að hann væri sjálfstætt starfandi einstaklingur. Kanna þarf því hvort það hafi verið augljóslega óþarft fyrir Vinnumálastofnun að tilkynna kæranda um að hann fengi greiddar atvinnuleysisbætur sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Almennt séð eru umsóknir launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga meðhöndlaðar með ólíkum hætti, meðal annars með tilliti til þeirra fylgigagna sem leggja verður fram. Þannig verður launamaður að leggja fram vottorð vinnuveitenda til að fá greiddar atvinnuleysisbætur en sjálfstætt starfandi einstaklingur staðfestingu á stöðvun rekstrar. Kærandi var ekki krafinn um vottorð vinnuveitanda, eins og almennt gildir um launamenn. Rafræn umsókn kæranda barst Vinnumálastofnun skömmu eftir að b-liður 1. gr. laga nr. 131/2008 hafði breytt lögum um atvinnuleysistryggingar en á grundvelli ákvæðisins bar sjálfstætt starfandi einstaklingi ekki lengur skilyrðislaus skylda til að leggja fram staðfestingu á stöðvun rekstrar til að hefja töku atvinnuleysisbóta. Þess í stað bar honum að leggja fram vottorð um samdrátt í rekstri.

Í framhaldi af rafrænni umsókn kæranda lagði hann meðal annars fram eyðublaðið RSK 5.02. Einnig fékk hann í hendur boðun á kynningarfund. Þessu til viðbótar ritaði hann undir umsóknina um atvinnuleysisbætur 13. janúar 2009 þar sem hann meðal annars staðfesti „að hafa fengið í hendur bækling um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur hvaða gögn þarf að leggja fram með umsókn um atvinnuleysisbætur auk annarra upplýsinga um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur“. Framangreindum gögnum hefur verið ítarlega lýst hér að framan og á grundvelli þeirra verður fallist á þann skilning Vinnumálastofnunar að kæranda hefði átt að vera það ljóst að hann teldist sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann gekk frá umsókn sinni um atvinnuleysisbætur. Sérstök tilkynning um það efni var augljóslega óþörf í skilningi 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Framangreint leiðir til þess að ekki eru forsendur fyrir hendi að úrskurðarnefndin endurskoði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar í janúar 2009 að meðhöndla kæranda sem sjálfstætt starfandi einstakling í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og veita honum bætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 131/2008. Þess skal þó getið að ákvörðun Vinnumálastofnunar átti sér stoð í lögum, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 19. febrúar 2009 í máli nr. 25/2008 þar sem deilt var um það hvort bótaþegi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur eða launamaður. Niðurstaðan í því máli var sú að kærandi væri sjálfstætt starfandi samkvæmt lögunum, en staða hans var sambærileg stöðu kæranda í þessu máli. Kvartað var yfir niðurstöðu þess máls til umboðsmanns Alþingis sem féllst á að úrskurðurinn samrýmdist lögum. Telja verður að þessi úrlausn úrskurðarnefndarinnar og umboðsmanns Alþingis hafi fordæmisgildi við mat á því hvort kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur í ársbyrjun 2009.

Kærandi hefur einnig kvartað yfir því að hann hafi ekki fengið upplýsingar um breytingar þær sem gerðar voru á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 37/2009. Fallast má á það með kæranda að æskilegra hefði verið að Vinnumálastofnun hefði kynnt öllum atvinnuleitendum sérstaklega um efni laga nr. 37/2009 og ekki síst þann frest sem veittur var í 27. gr. þeirra laga. Hins vegar verður ekki fallist á að Vinnumálastofnun hafi brotið lög með þessu. Breytingarnar á lögunum voru kynntar á heimasíðu stofnunarinnar. Kæranda stóð því til boða að breyta réttarstöðu sinn úr því að vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í að vera launþegi. Hann kaus að gera það ekki. Hann var því áfram sjálfstætt starfandi einstaklingur þrátt fyrir gildistöku laga nr. 37/2009. Jafnframt hefur Vinnumálastofnun bent á að breytingar á stöðu hans hefðu ekki leitt til betri réttar hans til greiðslu atvinnuleysisbóta. Að öllu þessu virtu verður ekki talið að Vinnumálastofnun hafi brotið á leiðbeiningarskyldu sinni í þessum þætti málsins.

Eins og rakið hefur verið hér að framan tók bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar breytingum með a-lið 26. gr. laga nr. 134/2009, sbr. gildandi 2. málsl. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI laga um atvinnuleysistryggingar:

Þeir sem þegar hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 eiga rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Þar sem kærandi þáði greiðslu atvinnuleysisbóta sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 21. nóvember 2008 til ársloka 2009 bar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hans frá og með 1. mars 2010 að telja. Hin kærða ákvörðun var því tekin á réttum lagagrundvelli og verður hún því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta til A falli niður frá og með 1. mars 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum