Hoppa yfir valmynd
1. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 37/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. febrúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 25. febrúar 2010. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. október 2008 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn.

Þann 10. júní 2010 var kærandi boðaður til fundar hjá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar að Engjateigi 11 í Reykjavík, sem halda átti þann 15. júní 2010. Kærandi mætti ekki á boðaðan fund og Vinnumálastofnun óskaði eftir skýringum á fjarveru hans í bréfi, dags. 15. júní 2010. Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tjáði fulltrúa stofnunarinnar að hann hefði ekki mætt á boðaðan fund þar sem hann hefði ráðið sig í vinnu frá 1. júlí 2010. Vinnumálastofnun afskráði kæranda í kjölfarið, en kærandi fékk greiddar atvinnuleysistryggingar fyrir júnímánuð árið 2010.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fór fram í septembermánuði árið 2010 kom í ljós að kærandi var með tekjur vegna starfs hjá X í júnímánuði 2010. Kærandi hafði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um tekjur vegna tilfallandi vinnu eða hlutastarfs í júní mánuði 2010, samhliða því að kærandi þáði atvinnuleysisbætur. Með bréfi dags. 8. september 2010, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi gerði grein fyrir tekjum sínum á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Engin gögn bárust frá kæranda.

Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 3. desember 2010. Kærandi hafði engar skýringar fært fram á tekjum sínum í júnímánuði 2010, samhliða því er hann þáði atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun óskaði því eftir launaseðli frá X og að kærandi upplýsti stofnunina um umræddar tekjur á tímabilinu sem um ræðir, júnímánuð 2010. Einnig óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi færði fram vottorð vinnuveitanda frá X. Vinnumálastofnun barst vottorð vinnuveitanda frá X, dags. 7. desember 2010, þar sem staðfest er að kærandi hafi verið í fullu starfi hjá fyrirtækinu frá 1. júní til 28. september 2010. Þann 31. janúar 2011 barst Vinnumálastofnun afrit af launaseðli kæranda vegna starfa hans hjá fyrirtækinu Xí júnímánuði 2010.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. febrúar 2011, segir kærandi að hann hafi hafið störf hjá fyrirtækinu X þann 15. júní 2010, en ekki 1. júní 2010. Segir kærandi að vegna mikillar vinnu á þessu ákveðna tímabili hafi vinnuveitandi hans ákveðið að „gera vel við sig“ og greiða kæranda full mánaðarlaun, þrátt fyrir að hann hafi ekki hafið störf fyrr en júnímánuður var hálfnaður. Kærandi segist ekki hafa þegið atvinnuleysisbætur áður og því hafi hann haldið að skráning á launaskrá hjá vinnuveitanda, myndi skila sér sjálfkrafa til Vinnumálastofnunar og því hefði hann ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um að hann hefði hafið störf hjá fyrirtækinu X. Segir kærandi að hann hafi afskráð sig hjá Vinnumálastofnun um mánaðamótin júní/júlí 2010, þegar honum hafi verið bent á að afskráningar væri þörf. Kærandi segir að þegar honum hafi borist bréf Vinnumálastofnunar um endurgreiðslukröfu stofnunarinnar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta í júnímánuði 2010, hafi hann kannað málið og séð að mistök hafi átt sér stað. Segir kærandi að honum hafi verið bent á starfsmann Vinnumálastofnunar að nafni B. Kærandi segist hafa náð sambandi við B eftir ítrekaðar tilraunir og hann hafi þá samið við B um endurgreiðslu. Kærandi segist hafa látið B í té netfang sitt og hafi B ætlað að senda kæranda upplýsingar um númer á bankareikningi fyrir endurgreiðslu og upplýsingar varðandi möguleika á endurgreiðslu. Segir kærandi að hann hafi ekkert heyrt frá B og fyrrnefndar upplýsingar hafi ekki borist kæranda. Kærandi segist í kjölfarið hafa ítrekað reynt að ná sambandi viðB og hafi skilið eftir skilaboð þar sem B hafi verið beðin um að hafa samband við kæranda, en hún hafi ekki gert það.

Kærandi segir að Vinnumálastofnun hafi sent honum bréf þar sem honum hafi verið tilkynnt að hann hafi ekkert aðhafst í máli sínu hjá Vinnumálastofnun varðandi hinar ofgreiddu atvinnuleysisbætur og að málið væri enn til meðferðar. Segir kærandi að hann hafi í kjölfar bréfsins, gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná sambandi við B, en það hafi engan árangur borið.

Kærandi segist hafa sótt um atvinnuleysisbætur er hann missti starf sitt hjá X en að honum hafi verið synjað um það sökum þess að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur samhliða því að vera í launuðu starfi. Telur kærandi að þar sem hann hafi strax hafist handa við að reyna að leysa mál þetta og hafi ítrekað reynt að ná tali af þeim eina starfsmanni Vinnumálastofnunar sem að sögn kæranda hafði eitthvað um mál hans að segja, telur kærandi að taka eigi mál hans til endurskoðunar. Kærandi segist hafa gengist við mistökum sínum og hafi verið tilbúinn að semja um lok málsins.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða barst tölvupóstur frá kæranda, dags. 11. maí 2011, með athugasemdum hans varðandi greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar í máli hans, dags. 14. apríl 2011. Kærandi segir í skýringarbréfi sínu að hann haldi að upphafsdagur starfs hans hjá X hafi verið 18. júní 2010. Segir kærandi að er hann hafi mætt á skrifstofu Vinnumálastofnunar, hafi honum verið bent á að hann hafi ekki mætt á boðaðan fund. Kærandi segir að hann hafi við það tækifæri skýrt frá því að hann væri að hefja störf í byrjun júlímánaðar 2010, eins og hafi staðið til. Segir kærandi að hann hafi verið beðinn um að mæta í vinnu þann 18. júní 2010, en er hann hafi verið staddur á skrifstofu Vinnumálastofnunar hafi hann ekki vitað hvort vinna hans í júnímánuði 2010 hjá X myndi standa honum til boða út júnímánuð 2010. Kærandi segir að hann hafi gleymt að hafa samband við Vinnumiðlun þar til 7. júlí 2010, hann hafi þá hringt í stofnunina og staðfest að hann hafi byrjað störf en að hann hafi ekki hugsað meira út í þetta eftir það.

Kærandi segir að er hann hafi fengið bréf Vinnumálastofnunar, dags. 8. september 2010, þar sem stofnunin óskaði eftir því að kærandi gerði grein fyrir tekjum sínum á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur, hafi hann farið með bréfið á skrifstofu Vinnumálastofnunar við Engjateig í Reykjavík og honum hafi þar verið bent á að hafa samband við B, starfsmann Vinnumálastofnunar á Skagaströnd.

Kærandi segist hafa skoðað yfirlit yfir bankareikning sinn og hann hafi haft samband við B, en hann og B hafi í sameiningu ákveðið að kærandi myndi endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi ítrekar það sem fram kemur í kæru hans, að honum hafi ekki borist þær upplýsingar frá B sem áttu að gera honum kleift að endurgreiða Vinnumálastofnun. Hann kveðst ekki hafa fengið þær upplýsingar fyrr en 18. mars 2011. Kærandi telur sig hafa gert grein fyrir þeim tekjum sem ágreiningur er um. Kærandi segist hafa gerst sekur um slóðaskap og fáfræði og hann hafi verið tilbúinn að gangast við því sem hann gerði rangt.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. apríl 2010, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vísað er til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og jafnframt til laga nr. 134/2009 um breytingar á atvinnuleysistryggingum, en með þeim lögum voru gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að verknaðarlýsing ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Segir í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Einnig sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum markaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt, samkvæmt 35. gr. a. eða 10. gr. laganna. Segir enn fremur í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé mikilvægur liður í því að sporna við svartri atvinnustarfsemi.

Jafnframt áréttar Vinnumálastofnun ákvæði 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú skylda er lögð á þá sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, eða sæta biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun telur að það liggi fyrir í máli þessu að kærandi hafi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 18. júní 2010, eftir að stofnunin hafi óskað eftir skýringum á því hvers vegna hann mætti ekki á fund hjá stofnuninni sem kærandi var boðaður á. Vinnumálastofnun segir að kærandi hafi við það tækifæri tjáð starfsmanni Vinnumálastofnunar að hann hefði ekki viljað mæta á boðaðan fund þann 15. júní 2010, þar sem hann hefði hug á því að byrja störf 1. júlí 2010.

Vinnumálastofnun vísar til ummæla kæranda í kæru hans til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þar sem kærandi segist hafa hafið störf sem vélamaður hjá fyrirtækinu X þann 15. júní 2010, en kæranda hafi verið greidd full mánaðarlaun fyrir júnímánuð, þar sem vinnuveitandi hans hafi viljað „gera vel við hann“. Vinnumálastofnun vísar til vottorðs vinnuveitanda, X þess efnis að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 1. júní 2010. Stofnunin vísar einnig til ummæla kæranda í kæru hans til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. febrúar 2010, þar sem kærandi segir að þar sem hann hafi ekki þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga áður og því hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að honum væri skylt að tilkynna Vinnumálastofnun þegar hann hæfi störf.

Telur Vinnumálastofnun að öllum ætti að vera ljóst að atvinnuleitandi sem þiggur greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til þess að tilkynna vinnu til Vinnumálastofnunar um leið og hann hefur störf. Telur Vinnumálastofnun að í tilfelli kæranda hafi honum borið að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín deginum áður en kærandi hóf störf, sbr 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt mati Vinnumálastofnunar brást kærandi tilkynningarskyldu sinni í umrætt sinn, jafnvel þó að hann hafi fyrst byrjað störf þann 15. júní 2010, eins og kærandi heldur fram í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi ekki gert tilraun til þess að útskýra það misræmi sem felst í yfirlýsingu hans nú og þeim upplýsingum sem hann veitti fulltrúa stofnunarinnar þann 18. júní 2010, er kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun telur að í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a. laganna, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Verði ekki horft framhjá þeirri staðreynd að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna stofnuninni um vinnu sína heldur hafi kærandi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar eftir að hann hafði byrjað störf hjá fyrirtækinu X og tjáð starfsmanni stofnunarinnar að hann myndi hefja störf hjá fyrirtækinu hálfum mánuði seinna. Telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn veitt Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar.

Að öllu framangreindu er það því niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda og að hann skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telur einnig að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. júní til 30. júní 2010 að fjárhæð 137.553 kr. að frátöldu 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Telur Vinnumálastofnun að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. maí 2011. Athugasemdir bárust frá kæranda í tölvupósti þann 5. maí 2010.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 10. júní 2011, sent afrit af leiðréttri greinargerð Vinnumálastofnunar.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði a innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39.gr.

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að síðarnefndu lögunum var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

Kærandi starfaði hjá X í júní til september 2010. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda frá X hóf kærandi störf 1. júní 2010. Samkeyrsla á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í september 2010 leiddi í ljós atvinnutekjur kæranda í júní 2010 að fjárhæð 340.000 kr. Kærandi hefur í máli þessu orðið margsaga um það hvenær hann hóf störf hjá fyrirtækinu en hann hringdi á skrifstofu Vinnumálastofnunar 7. júlí 2010 og kvaðst hafa byrjað störf 1. júlí 2010. Hann var afskráður og fékk greiddar atvinnuleysistryggingar út júnímánuð 2010.

Í þessu máli verður ekki fallist á að kærandi hafi verið að sinna tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar en telja verður tilfallandi vinnu þá atvinnustarfsemi sem fellur til með óreglubundnum hætti og standi að jafnaði stutt yfir hverju sinni en ekki yfir nokkra mánaða samfellt skeið eins og á við í þessu máli. Af þessum sökum kemur eingöngu til greina að beita 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt.

Þegar 60. gr. laganna er beitt á þessum grundvelli þarf að skýra orðin að „starfa á vinnumarkaði“ með hliðsjón af a- og b-liðum 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er launamaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í b-lið ákvæðisins er sjálfstætt starfandi einstaklingur hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um tekjur í júní 2010 á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júnímánuð 2010. Kærandi var á þessu tímabili launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og starfaði á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af framansögðu er ljóst að kærandi var starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Hann gaf Vinnumálastofnun misvísandi upplýsingar um atvinnu sína og upplýsti stofnunina ekki um að atvinnuleit hans hafi verið hætt. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að með framangreindri háttsemi hafi kærandi brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Á tímabilinu 1. júní til 30. júní 2010 fékk kærandi greiddar 137.553 kr. í atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að fá þá fjárhæð endurgreidda að viðbættu 15% álagi, sbr. 3. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. ml. 2. mgr. 39. gr. sömu laga. Fallast verður á að kæranda beri að endurgreiða 158.186 kr. eins og kveðið var á um í hinni kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. febrúar 2011 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbætur og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 30. júní 2010, samtals að fjárhæð 158.186 krónur.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum