Hoppa yfir valmynd
12. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 114/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 114/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. október 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 20. október 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi fékk vinnu nokkrum dögum síðar og var skráður af atvinnuleysisbótum 22. september 2008 og kláraði því ekki að taka út fyrrgreindan 40 daga biðtíma. Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur 10. maí 2010. Umsókn kæranda var samþykkt 7. júlí 2010 en þar sem kærandi hafði ekki starfað samfellt í 24 mánuði frá því hann var fyrst skráður atvinnulaus hélt eldra bótatímabil áfram að líða skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafði áður sætt biðtíma á sama tímabili fékk kærandi ekki greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 7. júlí 2010. Kærandi krefst þess að fá greidda tekjutengingu. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að hann hafi aldrei þegið atvinnuleysisbætur þegar hann skráði sig fyrst atvinnulausan þar sem hann hefði fengið vinnu nokkrum dögum síðar. Honum hafi heldur ekki verið tjáð á þeim tíma að hann ætti ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysistryggingum. Kærandi greinir frá því að hann hafi orðið atvinnulaus í maí 2010 og skráð sig atvinnulausan tíunda þess mánaðar en hafi ekki fengið greidda tekjutengingu. Kærandi telur sig eiga rétt á tekjutengingu þar sem hann hafi aldrei fengið greiðslur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. desember 2010, er vísað í 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að þegar tímabil skv. 29. gr. haldi áfram að líða er hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr. Jafnframt er vísað í 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu.

Þá kemur fram að í athugasemdum með 32. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, segi að eingöngu sé gert ráð fyrir að atvinnuleitandi öðlist rétt til tekjutengingar í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Sá sem komi aftur inn í kerfið án þess að hafa unnið sér rétt á nýju bótatímabili, sbr. 3. mgr. 29. gr. um atvinnuleysistryggingar, eigi því ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum. Enn fremur segi í frumvarpinu: „Þegar fyrra tímabil heldur áfram þegar umsækjandi sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinn skv. 1. mgr. Hið sama á við þurfi hinn tryggði að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum skv. X. kafla frumvarpsins.“

Í greinargerðinni kemur fram að skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar haldi tímabil skv. 1. mgr. 29. gr. áfram að líða þegar sá tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað skemur en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir því að nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili lýkur að fullu er að hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig sé því gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum, hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr. 32. gr. laganna eða þurft að sæta biðtíma á bótatímabilinu. Þá segir að ljóst sé að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus milli 10. og 22. september 2008 þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan biðtími leið.

Samkvæmt 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fellur biðtími niður hafi atvinnuleitandi starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Því hafi biðtími vegna viðurlagaákvörðunar frá 2008 verið felldur niður er umsókn kæranda frá 10. maí 2010 var samþykkt. Engin slík heimild til að endurvekja heimild til greiðslu tekjutengingar sé enda skýrt kveðið á um að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum hafi hinn tryggði þurft að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum skv. X. kafla laganna. Til þess að kærandi geti öðlast rétt til atvinnuleysistrygginga á grundvelli 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi hann því að hafa áunnið sér rétt til nýs bótatímabils skv. 29. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingum um vinnusögu kæranda hafi hann ekki starfað á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði frá því að hann var síðast skráður atvinnulaus. Skilyrði 31. gr. fyrir því að nýtt tekjutengt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili lýkur að fullu sé því ekki uppfyllt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um atvinnuleysisbætur 10. september 2008. Hann útvegaði sér starf tæpum tveimur vikum síðar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. október 2008, var kæranda sent bréf þar sem honum var gerð grein fyrir því að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið frestað. Ástæðan fyrir þessari málsmeðferð var sú að fyrrverandi vinnuveitandi kærandi hafði fullyrt að kæranda hafi verið sagt upp vegna trúnaðarbrests. Ekki liggur fyrir í málinu bréf frá kæranda um að hann hafi andmælt fyrirhugaðri ákvörðun. Hinn 23. október 2008 var ákveðið á fundi Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur en fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga. Þegar kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur í maí 2010 var þeirri ósk hans hafnað að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur en að öðru leyti fékk hann fullar atvinnuleysisbætur.

Mál þetta lýtur meðal annars að túlkun 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú meginregla gildir að atvinnuleitandi öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sá fyrirvari er gerður við beitingu þessa ákvæðis að annað þurfi að leiða af lögunum til að atvinnuleitandi missi rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Í þessu sambandi skiptir meðal annars máli svohljóðandi 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

„Þegar tímabil skv. 29. gr. heldur áfram að líða er hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.“

Ljóst er að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur í maí 2010 var innan sama tímabils og umsókn hans um atvinnuleysisbætur 10. september 2008, sbr. 29. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Einnig liggur fyrir að hann hafði aldrei þegið atvinnuleysisbætur áður en hann sótti um í maí 2010. Samkvæmt þessu uppfyllir kærandi skilyrði þess að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur nema annað komi til. Í því sambandi verður að horfa til svohljóðandi 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

„Hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skal ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu.“

Þegar túlka á þetta ákvæði í þessu tiltekna máli verður að horfa til þeirra reglna sem 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefur mælt fyrir um en ljóst er að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. október 2008 var tekin á grundvelli þágildandi fyrstu málsgreinar þess ákvæðis. Við mat á réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar verður að líta til 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

„Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma skv. 1. mgr. stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr.“

Telja verður að kærandi hafi uppfyllt skilyrði þessa ákvæðis þegar hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur í maí 2010 enda hafði hann útvegað sér vinnu löngu áður en ákvörðunin frá 23. október 2008 var tekin.

Skýra verður 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar svo að kærandi hafi því ekki sætt biðtíma eftir atvinnuleysisbótum enda skipti ákvörðunin í október 2008 hann engu máli að lögum þar eð hann hafði þegar útvegað sér vinnu. Það stenst ekki skoðun að atvinnuleitandi sem útvegar sér sjálfur vinnu, án þess nokkurn tíma að þiggja atvinnuleysisbætur, skuli standa verr að vígi vegna þess eins að hann sótti um atvinnuleysisbætur á tilteknum tímapunkti. Kærandi hefði sem dæmi í lok september 2008 eða byrjun október 2008 getað afturkallað umsókn sína um atvinnuleysisbætur hefði honum komið til hugar að umsókn hans þýddi skerta möguleika í framtíðinni á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Með hliðsjón af framanrituðu verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og fallast á þá kröfu kæranda að hann fái greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem hann sótti um atvinnuleysisbætur í maí 2010.

 

Úrskurðarorð

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. júlí 2010 um að greiða A ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur. A á rétt á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði frá og með 10. maí 2010 að telja.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum