Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 101/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 101/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2010, var kæranda, A, tilkynnt að samkvæmt framlögðum gögnum hefði hún byrjað í sérstöku átaksverkefni hjá sveitarfélaginu B 4. janúar 2010 og að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar fyrir þann tíma þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur til 19. mars 2010, samtals 54 virka daga, sem yrði innheimt skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um heimild til að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 15. júní 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi kveðst hafa byrjað að vinna í sérstöku átaksverkefni hjá sveitarfélaginu B 4. janúar 2010 og fengið greidd laun þaðan frá þeim tíma. Vegna mistaka Vinnumálastofnunar hafi hún fengið greiddan hluta af bótum, að fjárhæð 90.000 kr., frá stofnuninni en fjárhæðin hafi breyst frá fullum bótum í 90.000 kr. Kærandi greinir frá því að hún hafi talið að greiðslurnar væru á grundvelli samkomulags Vinnumálastofnunar og sveitarfélagsins B. Því hafi hún ekki gert athugasemdir við þessar greiðslur en síðar hafi komið í ljós að um væri að ræða mistök af hálfu Vinnumálastofnunar. Kærandi greinir jafnframt frá því að hún sé enn í atvinnuátaki hjá sveitarfélaginu B en tíminn renni út 31. júlí 2010. Kærandi kveðst vinna 100% vinnu en fái engar greiðslur fyrir vinnu sína vegna þessa máls. Að lokum greinir kærandi frá því að þetta séu alfarið mistök Vinnumálastofnunar og stofnunin hafi ekki rétt til að skerða bætur til hennar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22 desember 2010, kemur fram að starf kæranda hafi verið hluti af starfsþjálfunarsamningi skv. 3. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Sökum mistaka hjá stofnuninni hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hún starfaði hjá sveitarfélaginu B. Á sama tíma hafi Vinnumálastofnun greitt sveitarfélaginu B, á grundvelli samnings, því sem nam atvinnuleysistryggingum kæranda. Starfsþjálfunarsamningur kæranda hafi runnið út 1. ágúst 2010.

Vinnumálastofnun vísar til 3. gr. reglugerðar um starfsþjálfunarsamninga. Þar sé kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að gera samning um að fyrirtæki eða stofnun ráði atvinnuleitanda sem skráður sé atvinnulaus hjá stofnuninni í starfsþjálfun. Sé um þríhliða samning milli Vinnumálastofnunar, atvinnuleitanda og atvinnurekanda að ræða og Vinnumálastofnun skuldbindi sig til að greiða þær atvinnuleysisbætur sem atvinnuleitandi kann að eiga rétt á beint til fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem ræður starfsmann á grundvelli ákvæðisins.

Vinnumálastofnun greinir frá því að kærandi hafi undirritað samning um starfsþjálfun á grundvelli 3. gr. reglugerðarinnar þann 4. janúar 2010 og hafið störf hjá sveitarfélaginu B sama dag. Þau mistök hafi orðið við afgreiðslu málsins að samningurinn hafi ekki verið skráður í tölvukerfi stofnunarinnar. Af þeim sökum hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hún starfaði hjá sveitarfélaginu B, á sama tíma og Vinnumálastofnun greiddi sveitarfélaginu B á grundvelli samningsins. Kærandi hafi því bæði fengið greidd laun fyrir störf sín og atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslum enda hafi atvinnuleysisbótum hennar verið ráðstafað til sveitarfélagsins B á grundvelli fyrrgreinds samnings. Kærandi hafi því ekki mátt eiga von á því að Vinnumálastofnun greiddi henni atvinnuleysisbætur á meðan hún starfaði hjá sveitarfélaginu B.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi segi í kæru að hún sé í 100% vinnu hjá sveitarfélaginu B en fái nær engar greiðslur fyrir vinnu sína vegna þessa máls. Vinnumálastofnun segir að óljóst sé hvað kærandi sé að meina með þessu en samkvæmt gögnum hafi kærandi fengið greidd laun fyrir vinnu sína hjá sveitarfélaginu B. Enn fremur mótmælir Vinnumálastofnun því sem fram kemur í kæru um að kærandi hafi eingöngu fengið hluta af bótum að fjárhæð 90.000 kr. frá Vinnumálastofnun þann tíma sem hún hafi verið á starfsþjálfunarsamning. Vinnumálastofnun tekur fram að kærandi hafi fengið fullar bætur þann tíma sem hún hafi ranglega verið að fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Með undirritun samnings um starfsþjálfun á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 12/2009 hafi Vinnumálastofnun skuldbundið sig til að greiða sveitarfélaginu B, á samningstímanum, því sem nam atvinnuleysisbótum kæranda. Hafi kæranda verið ljóst að henni yrðu ekki greiddar atvinnuleysisbætur ofan á laun hennar frá sveitarfélaginu B. Vinnumálastofnun telur að af kærunni megi ráða að kærandi hafi virst gera sér grein fyrir því að hún hafi ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga á tímabilinu en telji engu að síður að henni beri ekki að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Vísar stofnunin til ummæla kæranda þar sem segir „Þar sem þetta er alfarið mistök Vinnumálastofnunar þá tel ég að þeir eigi engan rétt að skerða bætur mína[ar]“.

Vinnumálastofnun vísar í ákvæði 2. og 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skyldu til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur og heimild Vinnumálastofnunar til að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Að lokum greinir Vinnumálastofnun frá því að ekki sé gerð krafa um 15% álag þar sem ástæður mistakanna megi rekja til Vinnumálastofnunar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og frekari gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Kærandi nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða

Óumdeilt er að kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á sama tíma og hún starfaði hjá sveitarfélaginu B samkvæmt samningi um starfsþjálfun skv. 3. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Var alls um að ræða 54 virka daga.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem er tryggður samkvæmt lögunum og fengið hefur hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í athugasemdum um ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, kemur fram að gert sé ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar og að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Ekki verður fallist á þær röksemdir kæranda að henni beri engin skylda til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna þess að hún hafi tekið á móti greiðslum atvinnuleysisbótanna í góðri trú. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefur Vinnumálastofnun rétt til að fá ofgreiddar atvinnuleysisbætur endurgreiddar í tilvikum sem þessum. Í þessu máli er ekki farið fram á að kærandi greiði álag enda viðurkennir Vinnumálastofnun að mistökin fyrir ofgreiðslunni megi rekja til sín. Aðferð Vinnumálastofnunar við að endurheimta hið ofgreidda fé styðst við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framanrituðu og þeim rökum, sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. maí 2010 í máli A um að endurkrefja hana um fjárhæð atvinnuleysisbóta fyrir 54 virka daga er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum