Hoppa yfir valmynd
5. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2010



Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 55/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 24. mars 2010 ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann er í námi. Það var jafnframt mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 226.790 kr. sem honum beri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laganna. Kærandi vildi ekki una þessu og lagði fram kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem er dags. 12. apríl 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að atvinnuleysisbæturnar séu hans eina framfærsla og að hann eigi ekki rétt á námsláni þar sem hann sé ekki með nógu margar einingar. Hann fái síðan ekki atvinnuleysisbætur þar sem hann sé með of margar einingar. Kærandi telur að það sé ósamræmi í þessu.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 4. nóvember 2009. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá menntastofnana landsins þann 3. mars 2010 kom í ljós að kærandi var skráður í 15 eininga nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2010, segir að skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé einungis heimilt að stunda nám á háskólastigi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Námið sem kærandi stundi sé á framhaldsskólastigi. Gögn málsins sýni að kærandi geti mest lagt stund á 17 eininga nám og hann hafi verið skráður í 15 eininga framhaldsskólanám á vorönn 2010. Þar sem ekki sé um nám á háskólastigi að ræða uppfylli kærandi ekki undanþáguskilyrði 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að kæranda hafi verið tilkynnt í tölvupósti frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar þann 3. mars 2010 að honum væri veittur frestur til að athuga hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir gerð námssamnings en skv. 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki sé Vinnumálastofnun heimilt að gera námssamninga við atvinnuleitendur að nánari skilyrðum uppfylltum. Grundvallarskilyrði þessarar heimildar sé að atvinnuleitandi óski eftir því að slíkur samningur verði gerður við sig. Kærandi hafi aldrei óskað eftir því að fá slíkan námssamning og sé ekki tækt að veita slíka undanþágu afturvirkt.

Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um þær breytingar þegar hann hóf iðnmeistaranám í húsasmíði eins og honum ber skylda til skv. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um heimild stofnunarinnar til að krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir það tímabil er hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar til 19. febrúar 2010. Hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu frá 1. janúar 2010 er hann hóf nám sitt til 19. febrúar 2010 og hafi þar af leiðandi ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma. Ekki verði séð að Vinnumálastofnun sé að kenna um annmarka þessa enda ljóst að kærandi hafi ekki gætt tilkynningarskyldu sinnar og ekki upplýst stofnunina um að hann væri í námi. Einnig hafi hann ekki sótt um gerð sérstaks námssamnings. Enn fremur hafi hann ekki sinnt boðum eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar um útskýringar á námi sínu. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að áframhaldandi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda skuli falla niður og honum gert að endurgreiða stofnuninni hinar ofgreiddu atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. janúar til 19. febrúar 2010 ásamt álagi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. september 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi hóf nám í ársbyrjun 2010 í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Frá þessari meginreglu er vikið í 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef um er að ræða nám á háskólastigi og ýmsum öðrum skilyrðum uppfylltum. Þessi ákvæði eiga ekki við í málinu þar sem nám kæranda var á framhaldskólastigi.

Þrátt fyrir þetta hefði kærandi hugsanlega getað þegið greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða því að stunda nám á framhaldsskólastigi. Skilyrði þess var að hann hefði óskað eftir gerð námssamnings við stofnunina og uppfyllt ýmis skilyrði, sbr. 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009.

Atvinnuleitandi hefur tilteknum trúnaðarskyldum að gegna gagnvart Vinnumálastofnun á meðan hann nýtur greiðslna atvinnuleysisbóta, sbr. til dæmis 3. mgr. 9. gr., 5. mgr. 9. gr., 10. gr., og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þessum ákvæðir leiðir meðal annars að atvinnuleitanda ber að upplýsa Vinnumálastofnun ef breytingar verða á högum hans, meðal annars ef hann hyggst hefja nám eða hefur hafið slíkt nám. Þetta hafði kærandi ekki gert um það leyti sem eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar hóf að skoða mál hans. Hann leitaði ekki heldur í kjölfarið eftir því að gerður yrði við sig námssamningur. Því verður fallist á að Vinnumálastofnun hafi mátt stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans frá og með 20. febrúar 2010.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með hliðsjón af þessu lagaákvæði verður fallist á kröfu Vinnumálastofnunar um að kærandi endurgreiði stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 19. febrúar að upphæð 226.790 kr. að viðbættu 15% álagi.

Niðurstaðan er því sú að hin kærða ákvörðun verður staðfest.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A frá og með 20. febrúar 2010. Jafnframt er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest að A beri að endurgreiða stofnuninni 226.790 kr. að viðbættu 15% álagi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum