Hoppa yfir valmynd
10. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 71/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 71/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 3. febrúar 2009 eftir að hafa misst vinnu sína þann 1. febrúar 2009. Umsóknin var samþykkt með 100% bótarétti á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 26. febrúar 2009. Vinnumálastofnun taldi viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda vera frá júní 2008 til og með nóvember 2008 skv. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. júlí 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem arkitekt hjá Arkís ehf. frá maí 2007 til mars loka 2008, er hann sagði upp störfum samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 1. febrúar 2009. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi ekki átt ótekið orlof við starflok. Hann starfaði síðan hjá Apparati ehf. frá apríl byrjun 2008 til janúarloka 2009 er honum var sagt upp vegna samdráttar samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 3. febrúar 2009. Í bréfi frá Arkís ehf., dags. 28. september 2009, sem kærandi lagði fram síðar ásamt leiðréttu vottorði vinnuveitanda, kemur fram að kærandi hafi átt ótekna 20,5 orlofsdaga við starfslok hjá Arkís ehf. sem hann fékk greidda við starfslok. Í erindi kæranda kemur fram ósk hans um að atvinnuleysisbætur hans verði endurreiknaðar í ljósi tekjutengingar. Hann óskar þess að júlí verði ekki reiknaður með þegar meðaltal launa síðastliðinna sex mánaða er fundið heldur verði reiknað frá maí mánuði 2009. Kærandi skipti um vinnustað 1. apríl 2008 og hann kveðst ekki hafa verið búinn að vinna sér inn orlofsréttindi á nýjum vinnustað en eldri vinnuveitandi hafi greitt honum orlof við starfslok. Hann hafi því farið í launalaust leyfi í júlí 2008 og hafi á þeim tíma nýtt orlofsgreiðslur frá fyrri vinnuveitanda.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. september 2009, kemur meðal annars fram að kærandi hafi lýst yfir óánægju sinni með það hvernig tekjutenging hans hafi verið reiknuð og hafi hann óskað þess að laun hans samkvæmt launaseðli frá mars 2008 frá Arkís ehf. yrðu virt til hækkunar. Þar sem laun kæranda í mars 2008 hafi ekki náð yfir það tímabil sem tekjutenging tekur mið af hafi laun fyrir þann tíma ekki verið virt til hækkunar á tekjutengdum atvinnuleysisbótum kæranda.

Vinnumálastofnun vitnar í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að sá er telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna skuli öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafi verið greiddar í samtals tíu virka daga nema annað leiði af lögum þessum. Enn fremur er vitnað til 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar kemur meðal annars fram að tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skuli nema 70% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við sex mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Kærandi hafi orðið atvinnulaus 1. febrúar 2009. Viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda sé því frá júní 2008 til og með nóvember 2008 í samræmi við 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hvorki tekjur fyrir maí 2008 né laun vegna vinnu kæranda í mars mánuði 2008 falli innan þess tímabils sem tekjutenging skv. 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistrygginga nái til.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. október 2009. Kærandi sendi bréf, dags. 2. október 2009 ásamt frekari gögnum. Í bréfi kæranda ítrekar hann sjónarmið sín og kröfur í málinu.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í samtals tíu virka daga nema annað leiði af lögunum. Í 1. ml. 2. mgr. 32. gr. laganna segir að tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skuli nema 70% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við sex mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Í 4. mgr. 32. gr. segir að útreikningur á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur umsækjanda úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Af skýru orðalagi 32. gr. laganna er ljóst hvaða tímabil og upplýsingar ákvarða tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Engin heimild er veitt til að taka tillit til launagreiðslna sem samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum voru greiddar utan áðurnefnds viðmiðunartímabils. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning vegna tekjutengdra atvinnuleysisbóta kæranda er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A varðandi viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna vegna tekjutengdra atvinnuleysisbóta kæranda er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum