Hoppa yfir valmynd
26. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. mars 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 35/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. desember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 26. nóvember 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 3. nóvember 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi sem var ódagsett, en móttekið 12. desember 2008. Kærandi fór fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá og með 3. nóvember 2008. Af hálfu Vinnumálastofnunar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi er lærður smiður og hann starfaði sem eftirlitsmaður hjá X frá 1. janúar 2000 til 31. maí 2008. Í vottorði vinnuveitenda kom fram að kærandi sagði upp sjálfur. Af hálfu kæranda kom einnig fram að hann hafi sjálfur sagt upp störfum vegna þess að hann hafi viljað breyta til. Kærandi kveðst ekki hafa getað fengið vinnu vegna aðstæðna í samfélaginu og hafi hann því sótt um atvinnuleysisbætur þann 3. nóvember 2008.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. nóvember 2008, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu á umsókn hans hafi verið frestað vegna upplýsinga um starfslok sem fram kæmu á vottorði vinnuveitanda, dags. 5. nóvember 2008. Fram kom í bréfinu að líkur væru á að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. 

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 8. desember 2008, var honum tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum 26. nóvember 2008 fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Umsóknin hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá X væri réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknarinnar. Ákvörðun þessi var sögð tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en það væri mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum starfslokanna teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og því væri bótaréttur hans felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir.

Kærandi kærði þessa ákvörðun með kæru dags. 18. nóvember 2008. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi starfað hjá X samfleytt í átta ár og hafi hann viljað breyta til. Miklar breytingar í samfélaginu hafi valdið því að hann hafi ekki getað fengið aðra vinnu. Hann kveðst hafa ákveðið að aðstoða börn sín við húsbyggingar þeirra þar til hann fengi vinnu. Þetta hafi hann gert í ákveðinn tíma eða þar til hann hafi staðið frammi fyrir því að sækja um atvinnu og síðan atvinnuleysisbætur. Kærandi vonar að hann hljóti skilning og jákvæðar undirtektir.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. febrúar 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 segi um 1. mgr. 54. gr. að erfitt geti reynst að telja upp endanlega þau tilvik sem gætu fallið undir 1. mgr. 54. gr. og sé því lagareglan matskennd og var Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður hvers máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Skuli stofnunin því líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að skýra þröngt í þessu samhengi og þar af leiði að færri tilvik en ella falli þar undir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Því beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi sjálfviljugir upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður.

Vinnumálastofnun taldi óumdeilt að kærandi hafi sagt upp starfi sínu. Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi sagt upp störfum vegna þess að hann vildi breyta til og hefja störf annars staðar. Hafði kærandi hug á því að athuga atvinnumöguleika sína við byggingu álvers á Suðurnesjum án þess að vera kominn með neitt fast í hendi. Sá vilji kæranda að breyta til og leita vinnu annars staðar geti ekki talist gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda væri þá reglan að öllu leyti tilgangslaus. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að lagaskilyrði standi ekki til þess að víkja frá meginreglu 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að ástæða sú er kærandi gaf fyrir uppsögn sinni teljist ekki gild ástæða í skilningi laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2008, sent afrit af gögnum og athugasemdum Vinnumálastofnunar um málið og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 9. mars 2008. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild ástæða í skilningi nefndrar lagagreinar. Kærandi sagði sjálfur upp starfi sínu hjá X og af hans hálfu kemur fram að hann hafi gert það vegna þess að hann vildi breyta til. Það að segja starfi sínu lausu í því skyni að breyta til, án þess að hafa annað starf í hendi, telst í þessu máli ekki gild ástæða skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. nóvember 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum