Hoppa yfir valmynd
11. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 12/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. desember 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 12/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að þann 4. mars 2008 samþykkti Vinnumálastofnun umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur frá 6. febrúar 2008. Réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var hins vegar felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, nr. 54/2006, vegna upplýsinga sem fram komu á vinnuveitandavottorði, dagsettu 29. janúar 2008, um starfslok hans hjá X ehf. Með erindi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sem dagsett var 14. mars 2008 en móttekið hjá úrskurðarnefndinni 13. júní 2008, kærði kærandi þessa afgreiðslu Vinnumálastofnunar og krafðist þess að fá greiddar bætur fyrir umrædda 40 daga.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 6. febrúar 2008 í framhaldi af því að hann hætti störfum hjá X ehf. Samkvæmt upplýsingum frá vinnuveitanda sagði kærandi sjálfur upp störfum. Þar sem uppsögn án gildra ástæðna getur leitt til skerðingar á bótarétti var kæranda veittur frestur til að upplýsa um ástæður uppsagnar áður en ákvörðun yrði tekin í máli hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi nýtti ekki rétt sinn til að koma að athugasemdum og því var ákvörðun í máli hans byggð á fyrirliggjandi gögnum. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt en réttur hans til bóta var felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, á þeim grundvelli að hann hefði sjálfur sagt upp störfum án gildra ástæðna, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi dagsettu 6. mars 2008.

Kæra kæranda var dagsett 14. mars 2008 en barst úrskurðarnefndinni þann 13. júní 2008. Í rökstuðningi með kæru sinni fullyrti kærandi að hann hafi ekki sagt upp störfum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur, heldur hafi honum verið sagt upp störfum. Hann sagðist sjálfur hafa sagt upp störfum þann 23. október 2007, en fljótlega eftir uppsögn sína hefði hann óskað eftir áframhaldandi vinnu vegna breytinga á högum sínum. Hann sagðist í framhaldinu hafa gert munnlegt samkomulag við vinnuveitanda sinn um áframhaldandi vinnu til 1. maí 2008. Samkvæmt upplýsingum kæranda var honum hins vegar sagt upp störfum þann 25. janúar 2008 og beðinn um að mæta ekki aftur til vinnu.

Með bréfi Vinnumálastofnunar dagsettu 6. ágúst 2008 var gerð grein fyrir afstöðu stofnunarinnar. Í henni kom meðal annars fram að ákvörðun um frestun atvinnuleysisbóta hafi verið byggð á fyrirliggjandi gögnum er bentu til þess að kærandi hafi sjálfur sagt upp störfum. Þær skýringar sem kærandi hafi gefið fyrir úrskurðarnefndinni hafi því ekki verið kunnar þegar Vinnumálastofnun tók ákvörðun sína. Vinnumálastofnun taldi að réttast hefði verið að kærandi óskaði endurumfjöllunar á umsókn sinni hjá Vinnumálastofnun á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og stofnunin taldi réttast að úrskurðarnefndin vísaði málinu aftur til Vinnumálastofnunar til endurumfjöllunar.

Í bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 16. október 2008, var vakin athygli á því að kærufrestur í málinu hafi runnið út 7. júní 2008 og því teljist kæran hafa borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögbundnum kærufresti. Í bréfinu sagði einnig að heimilt geti verið að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti ef afsakanlegt þykir að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þegar ekki hafði borist svar frá kæranda við bréfi þessu hinn 11. nóvember 2008 var honum sent ítrekunarbréf þar sem honum var enn gefinn kostur á að tjá sig um kærufrestinn og veittur til þess viðbótarfrestur til 2. desember 2008. Bréf kæranda barst 25. nóvember sl. og þar segir:

„I come by this letter try to justify myself about the delay of may first letter. First of all, I sincerely apologize for what seems to be a misunderstanding from my side. Indeed, my poor Icelandic brought me to this situation since I had to work in R for the summer season (salary sheet annexed) and I couldn´t get in contact with my professional advisor. I am currently back in S and I realized I sent my first later with a delay of 6 days, which again I apologize. I am a serious individual and I can guarantee you I would never jepertise my current file if I wasn´t fully aware of the details. Although, looking the situation of crisis we living today and the professional consequences of this, I hope you still can take in consideration my request address to you 6 days late.“

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um ákvörðun.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 daga var tilkynnt kæranda með bréfi dagsettu 6. mars 2008. Almennt má reikna með því að kæran hafi borist kæranda með pósti þann 7. mars 2008 og er upphaf kærufrests miðuð við þá dagsetningu. Kæra kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða barst nefndinni ekki fyrr en 13. júní 2008. Kæra telst nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Almennt má reikna með því að póstsendingar frá S berist innan tveggja til þriggja daga og því þykir líklegt að kæran hafi verið afhent til póstsendingar að loknum kærufresti. Kæranda var í tvígang veitt tækifæri til að koma að athugasemdum sínum um kærufrest í máli þessu og athugasemdir hans bárust nefndinni með bréfi mótteknu þann 25. nóvember síðastliðinn. Í bréfinu staðfestir kærandi að kæra hans hafi borist of seint og því verður að teljast staðfest að kæran hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Kærandi bar því við að ástæða þess að kæra hans barst of seint hafi verið slæm íslenskukunnátta og að hann hafi unnið í R síðastliðið sumar og ekki náð sambandi við ráðgjafa sinn. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi stjórnsýslulögum er tekið sem dæmi um tilvik þar sem afsakanlegt getur talist að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti að lægra stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í máli þessu liggur fyrir að í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dagsettu 6. mars 2008, þar sem tilkynnt var ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar í 40 daga, var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og tilkynnt að kærufrestur væri þrír mánuðir frá móttöku tilkynningar um ákvörðunina. Samkvæmt þessu þykja ekki gildar ástæður til að taka málið til meðferðar þrátt fyrir að kæran hafi borist að loknum kærufresti.

Með hliðsjón af framansögðu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úr­skurðar­orð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum