Hoppa yfir valmynd
29. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 29. október 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 15/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. júlí 2008, var kæranda, A, tilkynnt um frestun á afgreiðslu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur, sem móttekin var 30. júní 2008. Um væntanlega ákvörðun Vinnumálastofnunar var að ræða og byggðist þessi afgreiðsla á því að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hún uppfyllti ekki tiltekin skilyrði 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Með erindi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sem var móttekið 22. júlí 2008, kærði kærandi þessa afgreiðslu Vinnumálastofnunar og krafðist þess að umsókn hennar yrði tekin til greina. Vinnumálastofnun krefst þess að afgreiðsla málsins verði staðfest.

Kærandi hafði ásamt öðrum einstaklingi átt bókhaldsfyrirtækið X ehf. sem stofnað var í ársbyrjun 2008, en fyrir þann tíma hafði kærandi verið launþegi. Kærandi var skráður eigandi og launþegi X ehf. Þegar fyrirséð var að rekstur fyrirtækisins myndi dragast verulega saman sótti kærandi um atvinnuleysisbætur í lok júní 2008. Staðfesting á stöðvun rekstrar fylgdi ekki með umsókn kæranda til Vinnumálastofnunar og meðal annars af þeim sökum tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, með bréfi dags. 21. júlí 2008, að fresta þyrfti afgreiðslu erindis hennar. Kæranda var bent á að hún gæti komið að skýringum og andmælum vegna væntanlegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar innan sjö daga frá 21. júlí 2008 að telja.

Eins og áður segir móttók félags- og tryggingamálaráðuneytið þann 22. júlí 2008 rafpóst frá kæranda sem innihélt meðal annars kæruna í máli þessu. Ráðuneytið sendi nefndarmönnum þessi gögn í bréfpósti og bárust þau þann 28. júlí 2008 en það var síðasti dagurinn sem kærandi gat komið á framfæri skýringum og andmælum við væntanlega ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í samráði við formann nefndarinnar sendi einn nefndarmanna kæranda rafpóst til að upplýsa hana um að kæran gæfi til kynna að Vinnumálastofnun hefði ekki tekið endanlega ákvörðun í málinu og því þyrfti væntanlega að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var bent á að koma skýringum sínum að við Vinnumálastofnun áður en stofnunin tæki endanlega ákvörðun í málinu.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. september 2008, var gerð grein fyrir afstöðu stofnunarinnar. Þar kom meðal annars fram að með bréfi til kæranda, dags. 1. ágúst 2008, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið hafnað. Sú ákvörðun grundvallaðist á að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 18. gr. sömu laga.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. september 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar frá 30. júní sl. hefði verið tekin til greina þar sem fullnægjandi gögn um stöðvun atvinnurekstrar hefðu borist stofnuninni. Greiðsla atvinnuleysisbóta til kæranda hófst 1. október 2008 og miðaðist upphafstími bótanna við 5. september 2008 en þá fékk Vinnumálastofnun í hendur fullnægjandi gögn um stöðvun rekstrar fyrirtækis kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Af síðastnefnda ákvæðinu leiðir að æðra sett stjórnvald skal vísa erindum frá hafi lægra sett stjórnvald ekki tekið stjórnvaldsákvörðun í máli.

Hinn 22. júlí sl., þegar kæran var móttekin, hafði engin stjórnvaldsákvörðun verið tekin af hálfu Vinnumálastofnunar. Með hliðsjón af því verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úr­skurðar­orð

Máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

 Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum