Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 10. júní 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 10/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 18. febrúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. desember 2014, á umsókn um undanþágu/frest vegna tveggja eigna.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærandi sótti um lán hjá Íbúðalánasjóði á árinu 2009 vegna fasteignar B. Kærandi var þá með lán hjá sjóðnum vegna fasteignar C. Kæranda var veitt lán vegna fasteignarinnar B gegn því að hann myndi selja fasteignina C innan tólf mánaða. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 7. október 2014, var kæranda tilkynnt að veittur frestur væri liðinn og því gæti komið til gjaldfellingar lána á annarri eigninni. Kæranda var jafnframt bent á að hægt væri að sækja um framlengingu á fresti gegn afhendingu staðfests söluyfirlits og að hægt væri að sækja um undanþágu frá reglu um eina íbúð. Kærandi óskaði eftir áframhaldandi undanþágu með tölvupósti 24. október 2014 og með tölvupósti 27. október 2014 óskaði kærandi eftir tólf mánaða fresti til að selja fasteignina. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 2. desember 2014, var beiðni um undanþágu til að eiga tvær eignir næstu tólf mánuði synjað og kæranda veittur lokafrestur til 20. febrúar 2015 til að selja eða endurfjármagna veðlán á fasteigninni að Smáragötu 1.      

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 18. febrúar 2015. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 2. mars 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. mars 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fest kaup á fasteign C á árinu 2005 og tekið lán hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna. Á árinu 2009 hafi hann fest kaup á íbúð B og ætlað að flytja í hana og selja fasteignina C. Vegna þrenginga í íslensku efnahagslífi hafi reynst erfitt að selja eignina C og enn haldi margir að sér höndum í fasteignakaupum þrátt fyrir að talsvert hafi birt yfir fasteignamarkaðinum að undanförnu. Það sé fyrst nú um þessar mundir sem flest þau álitamál sem hafi tengst ólögmætum gengislánum og skuldaleiðréttingum séu til lykta leidd.

Kærandi tekur fram að fasteignin C sé dýr og það takmarki kaupendahópinn. Fasteignasali hans hafi tjáð honum að nú sé meira spurt um eignir í þessum verðflokki og því séu bundnar góðar vonir við að eignin seljist á komandi mánuðum. Kærandi fer því fram á að veittur verði frestur í tólf mánuði til að selja eignina en til vara að fresturinn verði eigi skemmri en sex mánuðir. Kærandi bendir á að því fylgi mikið óhagræði og kostnaður að þurfa að taka nýtt lán vegna eignarinnar þegar sala sé í fullum gangi. Þá hafi hann frá upphafi verið skilvís lántaki og aldrei verið í vanskilum. Íbúðalánasjóður hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni af hans hálfu.  

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í afstöðu Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar er vísað til þess að samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 544/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, takmarkist lánafyrirgreiðsla sjóðsins við að sami aðili geti ekki átt á sama tíma fleiri en eina íbúð sem hvíli á lán frá sjóðnum og taka skuli fram í umsókn að íbúð sé ætluð til eigin nota. Í undantekningartilvikum geti sjóðurinn veitt lán út á aðra íbúð, enda sé um að ræða sérstakar aðstæður lántaka og fjölskyldu hans. Stjórn Íbúðalánasjóðs hafi sett sér reglur í þessum efnum í ágúst 2006 og apríl 2008.

Í lánsumsókn kæranda frá árinu 2009 vegna kaupa á íbúðinni B hafi kærandi merkt við reit í umsókninni þar sem hann hafi skuldbundið sig til að selja fasteignina C innan tólf mánaða. Með bréfi sjóðsins 7. október 2014 hafi kæranda verið bent á að veittur frestur væri liðinn en honum jafnframt gefinn kostur á að sækja um framlengingu á fresti gegn afhendingu staðfests söluyfirlits. Þá hafi kæranda verið bent á að hægt væri að sækja um undanþágu um eina íbúð og reglur þar að lútandi nánar tíundaðar. Kærandi hafi með tölvupósti 24. október 2014 óskað eftir áframhaldandi undanþágu frá framangreindum reglum og látið fylgja með staðfest söluyfirlit fasteignasala. Þá hafi hann farið óformlega fram á tólf mánaða frest til að selja eignina með tölvupósti 27. október 2014. Mál kæranda hafi verið afgreitt af lánanefnd einstaklingssviðs á fundi 27. nóvember 2014 þar sem samþykkt hafi verið að veita honum lokafrest til 20. febrúar 2015 til að selja eignina. Þrátt fyrir að kærandi hafi farið fram á undanþágu frá reglu um eina íbúð hafi beiðni kæranda verið túlkuð sem beiðni um áframhaldandi frest til að selja eignina en ekki beiðni um undanþágu þar sem í henni fælist varanleg heimild til að eiga tvær íbúðir. Ákvörðun nefndarinnar hafi því eingöngu snúið að frestinum. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um gjaldfellingu láns enda verði slík ákvörðun ekki tekin nema að undangenginni viðhlítandi rannsókn samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli nýrra upplýsinga í kæru til úrskurðarnefndar hafi nefndin hins vegar á fundi þann 2. mars 2015 ákveðið að framlengja frest kæranda til að selja eignina í sex mánuði eða til 2. september 2015.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um undanþágu/frest vegna tveggja eigna.

Í 21. gr. reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, með síðari breytingum, kemur fram að lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs til íbúðarkaupenda og húsbyggjenda takmarkist við að sami aðili geti ekki á sama tíma átt fleiri en eina íbúð sem á hvíli lán frá sjóðnum og skuli lántaki taka fram í lánsumsókn að íbúð sé ætluð til eigin nota. Í 2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um undanþágu frá framangreindri reglu en þar segir að Íbúðalánasjóður geti í undantekningartilvikum veitt lán út á aðra íbúð enda sé um að ræða sérstakar aðstæður lántaka eða fjölskyldu hans. Þá segir að stjórn sjóðsins setji nánari reglur um skilyrði undanþágunnar.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt lán á árinu 2009 vegna fasteignar B í Reykjavík. Kærandi var þá með lán hjá sjóðnum vegna fasteignar C í Reykjavík og skuldbatt sig til að selja þá fasteign innan tólf mánaða. Kærandi hefur greint frá því að ekki hafi enn tekist að selja fasteignina en hann bindi vonir við að það gerist á komandi mánuðum. Kærandi óski því eftir að veittur verði frestur í tólf mánuði, til vara í sex mánuði, til að selja fasteignina. Að mati úrskurðarnefndarinnar lýtur ágreiningur málsins því eingöngu að framangreindum fresti en ekki að því hvort kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Líkt og fram kemur í greinargerð Íbúðalánasjóðs hefur sjóðurinn samþykkt að framlengja frest kæranda til að selja eignina í sex mánuði, eða til 2. september 2015. Þar sem fallist hefur verið á varakröfu kæranda er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður 

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum