Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                     

Miðvikudaginn 20. ágúst 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 18/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

B hefur f.h. A, með bréfi, mótteknu þann 24. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 11. desember 2013, á umsókn hennar um húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 29. október 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 13. nóvember 2013, með þeim rökum að leigusali væri með lögheimili í íbúð kæranda. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 11. desember 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um greiðslu húsaleigubóta skv. 6. gr. laga nr. 138/1997.

Vakin er athygli á að um húsaleigubætur gilda lög nr. 138/1997. Velferðarráð hefur ekki heimild til að víkja frá settum lögum.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 11. desember 2013. Þann 20. desember 2013 fór kærandi fram á rökstuðning vegna ákvörðunar velferðarráðs og var hann veittur með bréfi, dags. 16. janúar 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, mótteknu þann 24. mars 2014. Með bréfi, dags. 26. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 5. maí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. maí 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 12. maí 2014, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. maí 2014. Með bréfi, dags. 23. maí 2014, bárust athugasemdir frá Reykjavíkurborg og voru þær sendar kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2014. Með bréfi, dags. 3. júní 2014, bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 11. júní 2014. Með bréfi, dags. 20. júní 2014, bárust viðbótarathugasemdir frá Reykjavíkurborg og voru þær sendar kæranda með bréfi, dags. 25. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. júní 2014, var óskað eftir gögnum frá kæranda og með bréfi, mótteknu 30. júní 2014, bárust athugasemdir frá kæranda vegna beiðni úrskurðarnefndarinnar.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er greint frá því að kærandi hafi tekið á leigu efri hæð raðhúss en eigandi þessi leigi út báðar hæðir hússins og leigjendur neðri hæðarinnar fái greiddar húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg. Í rökstuðningi velferðarráðs sé vísað til þess að leigusali kæranda sé með lögheimili í eigninni og því hafi verið litið svo á að hann væri búsettur á efri hæðinni þar sem jarðhæðin væri í útleigu. Velferðarráð hafi því talið að lögheimili kæranda væri í sömu íbúð og lögheimili leigusala. Slíkar staðhæfingar standist ekki en allt eins sé hægt að leggja til grundvallar að leigusali sé búsettur á neðri hæð hússins. Þá sé í rökstuðningi velferðarráðs vísað til þess að 2. tölul. 6. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, girði fyrir rétt til greiðslu húsaleigubóta þar sem líta verði svo á að leigusali njóti réttar til vaxtabóta á meðan hann sé enn með lögheimili í umræddu húsnæði. Að mati kæranda geti Reykjavíkurborg ekki byggt á því að leigusali kæranda sé búsettur í því rými sem kærandi hafi á leigu eingöngu með vísan til lögheimilisskráningar leigusala. Það sé ekki á ábyrgð leigutaka að lögheimilisskráning ótengds einstaklings sé rétt og kærandi hafi sýnt fram á með óyggjandi hætti að leigusali sé ekki búsettur í umræddu húsnæði, hvað þá í því rými sem hann leigi. Lög um húsaleigubætur taki ekki á neinn hátt mið af lögheimilisskráningu leigusala, í 2. tölul. 6. gr. laganna sé aðeins vísað til búsetu einhvers sem hugsanlega njóti vaxtabóta.   

Í athugasemdum kæranda er vísað til bréfs Reykjavíkurborgar, dags. 16. janúar 2014, þar sem sé staðhæft að vegna erfiðrar stöðu á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu hafi Velferðarsvið Reykjavíkurborgar í framkvæmd miðað við að leigusala sé heimilt að vera með lögheimili í húsnæði en leigja frá sér hluta þess, svo sem kjallara eða bílskúr þar sem sérstök íbúð hafi verið útbúin. Þá er ítrekað að leigjendur á neðri hæð hússins fái greiddar húsaleigubætur frá sveitarfélaginu en það húsnæði teljist hvorki kjallari né bílskúr. Hvorug hæð hússins geti talist rétthærri til greiðslu húsaleigubóta og því hafi Reykjavíkurborg brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins með synjun á umsókn kæranda um húsaleigubætur.

  

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og því verði litið svo á að umrætt skilyrði sé uppfyllt á meðan leigusali sé enn með lögheimili í umræddu húsnæði. Samkvæmt 2. tölul. 6. gr. laga um húsaleigubætur sé réttur til húsaleigubóta ekki fyrir hendi ef umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum njóti réttar til vaxtabóta. Ekki sé kveðið á um undantekningar sem heimili að vikið sé frá framangreindu skilyrði og því sé Reykjavíkurborg óheimilt að greiða húsaleigubætur til kæranda.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er vísað til þess að leigusala sé unnt að vera með lögheimili í húsnæði en leigja frá sér hluta þess húsnæðis. Þar sé ekki að finna neina vísbendingu um heimild fyrir leigusala að leigja út húsnæði í heild en samt sem áður hafa þar lögheimili. Í þessu máli leigi leigusali út fasteign með einu fastanúmeri í tveimur hlutum en kjósi að skrá þar lögheimili sitt. Ekki verði séð að slíkt samræmist þeirri framkvæmd sem vísað sé til í bréfi Reykjavíkurborgar frá 16. janúar 2014. Reykjavíkurborg hafni því að framangreind framkvæmd sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins enda sé um að ræða úrræði borgarinnar til að bæta erfiða stöðu á húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg sé ekki skylt að veita slíka undanþágu heldur sé einungis um heimild að ræða sem sé að jafnaði einungis veitt um hluta húsnæðis.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um húsaleigubætur.

Í 4. gr. laga um húsaleigubætur er kveðið á um rétt til húsaleigubóta. Þar segir í 1. mgr. að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigi íbúðarhúsnæði til búsetu og eigi þar lögheimili. Þá segir í 5. mgr. 4. gr. að um frekari skilyrði fyrir bótarétti og greiðslu bótanna fari samkvæmt nánari fyrirmælum laganna. Í 6. gr. laga um húsaleigubætur er kveðið á um atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta; þar segir:

Réttur til húsaleigubóta er ekki fyrir hendi:

1. ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr með honum er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri,

2. ef umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum nýtur réttar til vaxtabóta,

3. ef leigusamningur er til skemmri tíma en sex mánaða.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 2. tölul. 6. gr. laganna væri ekki uppfyllt.

Í 1. tölul. 6. gr. laga um húsaleigubætur er gerður greinarmunur á hugtökunum húsnæði og húsi. Ef umsækjandi leigir til að mynda kjallaraíbúð í húsi þar sem leigusali býr einnig og leigusalinn er skyldmenni umsækjanda, eða einhvers sem býr með honum í kjallaraíbúðinni, er réttur til húsaleigubóta ekki fyrir hendi. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur því hús, með einu fastanúmeri, haft að geyma fleiri en eitt húsnæði. Í 2. tölul. 6. gr. laganna er eingöngu vísað til hugtaksins húsnæði. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/1997 segir um 2. tölul. 6. gr.:

2. tölul. kveður á um áhrif eigna á bótarétt. Ef einhver þeirra er í íbúðinni býr nýtur réttar til vaxtabóta á hvorki hann né aðrir leigjendur íbúðarinnar rétt til húsaleigubóta, óháð því hvort rétthafi sækir um þær eða ekki. Þeir sem njóta vaxtabóta geta því ekki valið um það hvort þeir sæki um húsaleigu- eða vaxtabætur eftir því hvor kosturinn er hagstæðari.

Að framangreindu virtu girðir það því ekki fyrir rétt til húsaleigubóta ef eigandi húss, sem leigir til dæmis út kjallaraíbúð, nýtur réttar til vaxtabóta svo fremi sem hann er ekki búsettur í sama húsnæði og leigutaki. Að mati úrskurðarnefndarinnar er þessi skilningur í samræmi við þau skilyrði sem Reykjavíkurborg hefur sett til réttinda til húsaleigubóta endranær, en samkvæmt greinargerð Reykjavíkurborgar hefur þess ekki verið krafist að hluti húsnæðis sem í útleigu er sé skráð sérstöku fastanúmeri. Reykjavíkurborg bar því að leggja sérstakt mat á hvort kærandi væri búsett í sama húsnæði og leigutaki hennar, en samkvæmt gögnum málsins býr hann í bílskúrnum sem tilheyrir húsinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi fært fullnægjandi sönnur fyrir því að hún hafi ekki verið búsett í sama húsnæði og leigusali hennar, en samkvæmt leigusamningi, dags. 19. október 2013, leigði kærandi íbúð á efri hæð hússins. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um húsaleigubætur á þeirri forsendu að skilyrði 2. tölul. 6. gr. laga um húsaleigubætur væri ekki uppfyllt.

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 11. desember 2013, um synjun á umsókn A um húsaleigubætur er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum