Hoppa yfir valmynd
18. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Miðvikudaginn 18. júní 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 21/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A lagði fram kæru, dags. 10. apríl 2014, til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála vegna ákvörðunar Íbúðalánasjóðs, frá 13. mars 2014, um synjun á beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð. Með tölvupósti þann 14. apríl 2014 var kæran framsend úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um frystingu og skuldbreytingu hjá Íbúðalánasjóði vegna náms og tekjulækkunar. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá Íslandsbanka, virtist greiðsluvandi ekki vera fyrir hendi. Með bréfi, dags. 14. apríl 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og frekari gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 8. maí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 9. maí 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Með tölvupósti þann 26. maí 2014 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Íbúðalánasjóði og bárust þau með tölvupósti þann 27. maí 2014.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar hafi verið hafnað þar sem hún sé með leigukostnað á móti leigutekjum af íbúð sinni. Hún sé í námi og því ekki með fullar tekjur. Hún hafi ekki tök á því að fara á leigumarkaðinn í Reykjavík.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins hafi hafnað umsókn um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika þar sem leigutekjur kæranda og vaxtabætur dugi fyrir afborgunum lána. Nefndin hafi talið að það rúmist hvorki innan tilgangs laga um húsnæðismál né reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, að fresta greiðslum lána þegar umsækjandi búi ekki í eign og hafi tekjur af henni (húsaleigu og vaxtabætur) sem dugi til að greiða af veðkröfum á eigninni. Auk þess falli tekjulækkun vegna náms ekki undir skilyrði fyrir greiðslufrestun samkvæmt reglugerð nr. 584/2001. Því hafi ekki verið unnt að fallast á frestun greiðslna. Íbúðin sé yfirveðsett og það blasi við að skuldavandi muni aukast við frestun greiðslna.

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Í 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 3. tölul. 4. gr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda samkvæmt greiðslumati sé umfram greiðslugetu.

Í greiðsluerfiðleikamati umboðsmanns skuldara, dags. 24. febrúar 2014, var fjárhagsleg staða kæranda við gerð matsins þannig að mánaðarlegar tekjur hennar námu 317.967 krónum, mánaðarleg útgjöld 158.734 krónum og greiðslugeta því 159.233 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 200.814 krónum og fjárþörf kæranda var því 41.581 króna umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðsluerfiðleikamatinu var farið yfir áætlaða stöðu kæranda á meðan úrræðum yrði beitt og var miðað við að mánaðarlegar tekjur hennar væru 317.967 krónur, mánaðarleg útgjöld 158.734 krónur og greiðslugeta því 159.233 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 64.506 krónum og afgangur því 94.727 krónur. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur kæranda yrðu 368.285 krónur, mánaðarleg útgjöld 158.734 krónur og greiðslugeta því 209.551 króna. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða næmi 171.613 krónum og afgangur því 37.938 krónur. Í greiðsluerfiðleikamatinu var gert ráð fyrir breyttri greiðslubyrði af yfirdráttaskuld hjá B að fjárhæð 1.640.291 króna. Við gerð matsins var greiðslubyrði kæranda vegna yfirdráttaskuldarinnar 67.496 krónur en 17.496 krónur á meðan úrræðum yrði beitt. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamatinu er mánaðarleg afborgun kæranda af veðkröfu Íbúðalánasjóðs 94.661 króna. Þar sem kærandi ætti afgang að fjárhæð 94.727 krónur á meðan úrræðum yrði beitt er það mat úrskurðarnefndarinnar að greiðslubyrði hennar vegna veðkröfu sjóðsins rúmist innan greiðslugetu. Að því virtu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 3. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 um greiðslubyrði umfram greiðslugetu en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 13. mars 2014, um synjun á umsókn A um greiðsluerfiðleikaaðstoð, er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum