Hoppa yfir valmynd
4. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 12/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Miðvikudaginn 4. júní 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 12/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með bréfi, dags. 3. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2013, á umsókn hennar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 7. október 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 9. október 2014, með þeim rökum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík um að eiga lögheimili í Reykjavík að minnsta kosti þrjú ár samfleytt áður en umsókn berst. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 4. desember 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði b. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 5. desember 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 3. mars 2014. Með bréfi, dags. 10. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 20. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 14. apríl 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi flutt frá B til Reykjavíkur í október 2013 en hún hafi leigt félagslegt húsnæði þar frá árinu 2005. Hún sé einstæð fjögurra barna móðir og yngsta barn hennar sé enn á hennar framfæri. Árið 2010 hafi hún veikst alvarlega og farið í starfsendurhæfingu. Hún hafi fengið sérstakar húsaleigubætur á B vegna lágra tekna og því hafi hún talið að hún fengi þær líka í Reykjavík. Hún hafi ekki vitað um þriggja ára búseturegluna enda enginn minnst á það við hana. Hún sé nú komin á örorku en vinni 50% starf. Hún hafi ekki neina möguleika á að auka tekjur sínar og nái ekki að standa undir þeirri leigu sem hún þurfi að greiða í dag. Félagsleg staða hennar sé ekki góð, hún sé á barmi örvæntingar vegna stöðu hennar og dóttur sinnar.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærumálsins kemur fram að í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík séu sett fram tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í b-lið sé kveðið á um að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar umsókn sé lögð inn og að minnsta kosti síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé samkvæmt a-lið að veita undanþágu frá lögheimili í Reykjavík í þrjú ár ef umsækjandi hafi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Ráðgjafi geti veitt undanþágu frá lögheimili byggða á faglegu mati ef um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða, sbr. lið 5c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Undanþáguákvæðið sé heimildarákvæði og því sé ekki skylt að veita slíka undanþágu. Þegar kærandi hafi lagt fram umsókn hafi hún verið nýlega flutt til Reykjavíkur og því hafi verið ljóst að skilyrði b-liðar 4. gr. reglnanna hafi ekki verið uppfyllt þar sem ekki sé um að ræða samfellda búsetu í Reykjavík í þrjú ár.

Eins og rakið sé að framan sé í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík að finna heimildarákvæði er varði undanþágur frá skilyrðum 4. gr. reglnanna. Rétt sé að ítreka að umrætt ákvæði 5. gr. reglnanna sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita umræddar undanþágur. Kærandi hafi fram til október 2013 ekki búið í Reykjavík og því hafi það verið mat velferðarráðs að ekki væri unnt að veita undanþágu samkvæmt a-lið 5. gr. reglnanna. Velferðarráð hafi einnig talið að þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda hafi þær ekki verið með þeim hætti að veita bæri kæranda undanþágu frá skilyrði um lögheimili á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna. Við mat á því hvort um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða sé meðal annars litið til þess hvort um sé að ræða félagslega einangrun, takmarkaða félagslega færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértæka erfiðleika, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Ljóst sé að kærandi hafi átt við ýmiss veikindi og erfiðleika að stríða en velferðarráð hafi talið að þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda væru þær ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsókn hennar var synjað á þeirri forsendu að skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík væru ekki uppfyllt. Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 5. gr. reglnanna um að eiga í miklum félagslegum erfiðleikum.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og skal umsækjandi uppfylla öll skilyrðin svo umsókn öðlist gildi. Í b-lið 4. gr. er gert að skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var kærandi búsett á B til 1. október 2013 en þá flutti hún lögheimili sitt til Reykjavíkur. Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur með umsókn, dags. 7. október 2013. Það liggur því ljóst fyrir að kærandi átti ekki lögheimili í Reykjavík síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur barst Reykjavíkurborg.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og eða tekjuviðmið. Á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá lögheimili hafi umsækjandi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði a-liðar séu ekki uppfyllt enda flutti kærandi fyrst til Reykjavíkur í október 2013. Ekki verður miðað við annað en skráningu lögheimilis í þjóðskrá.

Þá er á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna heimilt að veita undanþágu frá lögheimili sé umsækjandi samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er, við mat á því hvort um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða, litið til þess hvort um sé að ræða félagslega einangrun, takmarkaða félagslega færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértæka erfiðleika, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Kærandi hafi átt við ýmis veikindi og erfiðleika að stríða en þrátt fyrir erfiðar aðstæður væru þær ekki með þeim hætti að veita bæri undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna. Ekki hefur verið nánar rökstutt af hálfu Reykjavíkurborgar hvernig aðstæður kæranda voru metnar, sérstaklega með tilliti til framangreindra sjónarmiða. Þá er í gögnum málsins ekki að finna upplýsingar um aðstæður kæranda hvað þessi viðmið varðar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort sú ákvörðun hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 5. desember 2013, um synjun á umsókn A um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum