Hoppa yfir valmynd
4. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                          

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 4. júní 2014 var tekið fyrir mál nr. 7/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Ísafjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 17. febrúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Ísafjarðarbæjar, dags. 4. febrúar 2014, á umsókn hennar um húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Ísafjarðarbæ með umsókn, dags. 7. janúar 2014. Með bréfi, dags. 9. janúar 2014, var kæranda greint frá því að fjölskyldusviði Ísafjarðarbæjar hefðu borist upplýsingar um að fleiri byggju í íbúð kæranda en fram kæmi í umsókn hennar. Þá var kærandi beðin um að gera grein fyrir því hvort upplýsingarnar væru réttar. Kærandi vísaði ákvörðuninni til félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar sem tók málið fyrir á fundi þann 21. janúar 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Lögð fram greinargerð starfsmanns þar sem einstaklingur kærir afgreiðslu félagsmálateymis á umsókn viðkomandi um húsaleigubætur.

Félagsmálanefnd staðfestir afgreiðslu félagsmálateymis á umsókn um húsaleigubætur.  

Niðurstaða félagsmálanefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 4. febrúar 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 17. febrúar 2014. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Ísafjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lægju fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Ísafjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 10. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. mars 2014, var bréf Ísafjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 30. mars 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi legið undir aðdróttunum frá Ísafjarðarbæ um að barnsfaðir hennar byggi hjá henni. Henni hafi verið neitað um húsaleigubætur vegna þessa en hún vísi því enn og aftur á bug. Barnsfaðir hennar hafi umgengnisrétt við dóttur þeirra en sé búsettur í B. Hann komi reglulega að hitta dóttur sína og stundum versli hann fyrir kæranda vegna veikinda hennar. Hún telji að félagsmálanefnd geti ekki skikkað hana í sambúð með einum né neinum. Hún eigi enga ættingja á Ísafirði og barnsfaðir hennar sé sá eini sem geti hjálpað henni.

 

III. Sjónarmið Ísafjarðarbæjar

Í greinargerð Ísafjarðarbæjar er greint frá því að vegna samskipta kæranda við fjölskyldusvið Ísafjarðarbæjar síðustu ár telji félagsmálanefnd ljóst að barnsfaðir kæranda hafi fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði. Hann sé með skráð lögheimili í B þar sem tveir synir hans eigi einnig lögheimili. Á skrifstofu B hafi verið greint frá því að hann hefði aðsetur hjá unnustu sinni og barnsmóður á Ísafirði en vegna X ætti hann lögheimili í B. Kæranda hafi verið sent bréf þann 9. janúar 2014 þar sem hún hafi verið beðin um að gera grein fyrir hvort fyrirliggjandi upplýsingar vegna umsóknar hennar um húsaleigubætur væru réttar. Kærandi hafi sent erindi til félagsmálanefndar þar sem hún hafi óskað eftir endurskoðun á afgreiðslu félagsmálateymis en afgreiðsla félagsmálateymis á umsókn um húsaleigubætur hafi verið staðfest.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Ísafjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 7. janúar 2014, um húsaleigubætur.

Í 9. gr. laga um húsaleigubætur segir að reikna skuli samanlagðar tekjur allra þeirra sem lögheimili eiga eða hafa skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði. Ísafjarðarbær synjaði umsókn kæranda um húsaleigubætur á þeirri forsendu að sambýlismaður og barnsfaðir hennar væri búsettur í sömu íbúð og hún. Kærandi fullyrðir að barnsfaðir hennar hafi ekki haft fast aðsetur á heimili hennar og hefur lagt fram vottorð frá Þjóðskrá Íslands um lögheimili hans.   

Samkvæmt gögnum málsins átti barnsfaðir kæranda ekki lögheimili á heimili hennar á þeim tíma sem umsókn var lögð fram hjá Ísafjarðarbæ. Þá hefur Ísafjarðarbær ekki lagt fram gögn er sýna fram á að barnsfaðir kæranda hafi haft fast aðsetur á heimili hennar á þessum tíma. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Ísafjarðarbæ hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um húsaleigubætur á þeirri forsendu að barnsfaðir hennar væri búsettur á heimili hennar.

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og lagt fyrir Ísafjarðarbæ að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar, dags. 4. febrúar 2014, um synjun á umsókn A um húsaleigubætur er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum