Hoppa yfir valmynd
11. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 11. desember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 49/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur lagt fram kæru, dags. 23. september 2013, til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála vegna umsóknar hans um endurútreikning lána hjá sjóðnum. Með bréfi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, dags. 24. september 2013, var kæran framsend úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

 

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 21. júní 2011, var skráð fasteignamat á fasteign kæranda að B 18.200.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati var því 20.020.000 kr. Við afgreiðslu á umsókn kæranda var aflað verðmats frá löggiltum fasteignasala, og var íbúðin metin á 14.000.000 kr. og 110% verðmat nam því 15.400.000 kr. Þar sem fasteignamat var hærra var miðað við það við afgreiðslu umsóknar kæranda. Staða áhvílandi íbúðalána kæranda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 23.982.840 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 3.962.840 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi átti í árslok 2010 tvær bifreiðar, C sem metin var á 850.305 kr. og D sem metin var á 19.368 kr. Til frádráttar niðurfærslu lána kom einnig tjaldvagn í eigu kæranda sem metinn var á 450.000 kr. Veðrými sem kom til frádráttar vegna annarra eigna nam því samtals 1.319.673 kr.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 25. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 18. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 23. október 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi kveðst mjög ósáttur við 110% leiðina en hann hafi ekki fengið neitt niðurfellt þar sem hann hafi verið með lánið í frystingu eftir bankahrunið. Fasteignin sé nú komin á nauðungarsölu.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi fengið afgreiðslu hjá sjóðnum í samræmi við ákvæði laga nr. 29/2011. Við útreikninga hafi verið miðað við fasteignamat þar sem það hafi verið hærra en verðmatið á fasteigninni og við mat á aðfararhæfum eignum hafi verið stuðst við skattframtal.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Kærandi sótti um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Umsókn kæranda var samþykkt með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 21. júní 2011.

 

Í 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál skal kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála lögð fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun Íbúðalánasjóðs. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 21. júní 2011 en ákvörðunin var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála með erindi, dags. 23. september 2013. Kæran var framsend úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, dags. 24. september 2013. Liggur þannig fyrir að kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Kæra í máli þessu barst að liðnum rúmum tveimur árum frá því að ákvörðun var tilkynnt kæranda. Kærunni verður því vísað frá.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, á ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. júní 2011, um endurútreikning lána er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum