Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 98/2012.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

 

 

Miðvikudaginn 11. september 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 98/2012:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 20. desember 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. október 2012, um synjun á greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi festi kaup á fasteigninni B og tók yfir lán Íbúðalánasjóðs C í maí 2012. Í kjölfar atvinnumissis árið 2012 kveðst kærandi hafa tekið fæðingarorlof meðan hann leitaði að nýrri vinnu. Umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði var samþykkt frá 14. ágúst 2012. Vegna erfiðleika við að greiða af láni Íbúðalánasjóðs leitaði kærandi til Íslandsbanka sem sá um útbúa greiðsluerfiðleikamat og senda umsókn um greiðsluerfiðleikaaðstoð til Íbúðalánasjóðs, dags. 4. október 2012. Með bréfi, dags. 4. október 2012, synjaði Íbúðalánasjóður umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð á þeim grundvelli að samkvæmt nefndu greiðsluerfiðleikamati væri frestun afborgana á láni Íbúðalánasjóðs ekki til þess fallið að leysa skuldavanda kæranda.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 3. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var farið þess á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 14. janúar 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 15. janúar 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Með tölvupósti, dags. 17. janúar 2013, bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst 2013, var óskað eftir frekar gögnum frá Íbúðalánasjóði. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2013, bárust nefndinni frekari gögn í málinu. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst 2013, var af hálfu úrskurðarnefndarinnar þess farið á leit að Íbúðalánasjóður veitti nefndinni upplýsingar um það hvort sjóðurinn hafi orðið við beiðni kæranda um lánssamning. Að auki var óskað eftir afriti af beiðnum kæranda þess efnis sem og afriti af greiðslumati sem fram fór þegar kærandi yfirtók lánið í maí 2012. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2013, bárust nefndinni umbeðin gögn frá Íbúðalánasjóði og voru þau kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. ágúst 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi heldur því fram að hann uppfylli öll skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði. Kærandi gerir athugasemdir við að sjóðurinn hafi byggt á því að hann hefði ekki greiðslugetu til að greiða afborganir af láninu þegar það kæmi úr frystingu. Hvorki kærandi né Íbúðalánasjóður viti þó hvaða tekjur hann muni hafa eftir þrjú ár eða þegar frystingu verði aflétt. Einnig gerir kærandi athugasemdir við að hann geti ekki fengið greiðsluáætlun fram í tímann frá sjóðnum þar sem enginn viti hver næsta afborgun verði. Þá kveðst kærandi ekki hafa fengið lánasamning við yfirtöku lánsins þrátt fyrir að hafa ítrekað óskað eftir því. Telji hann það eitt og sér vera brot á íslenskum lögum um neytendalán.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að synjun sjóðsins hafi byggst á greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka, dags. 3. október 2012, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamatinu hafi greiðslustaða kæranda eftir úrræði verið neikvæð og þar með hafi skilyrðum 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 ekki verið fullnægt. Íbúðalánasjóði hafi því borið að hafna erindinu.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

Í athugasemdum sem bárust frá kæranda vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi ekki fengið lánasamning, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þess efnis hjá sjóðnum. Telur kærandi það eitt og sér vera brot á lögum um neytendalán. Samkvæmt 33. gr. laga um neytendalán, nr. 33/2013, geta neytendur skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni tengda neytendalánum til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Verður því ekki sérstaklega vikið að framangreindri málsástæðu kæranda.

 

Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 4. október 2012, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til kærunefndar húsnæðismála. Umrædd ákvörðun er hins vegar kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála skv. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

 

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

 

Í 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati sem unnið var af Íslandsbanka og liggur fyrir í málinu, yrði staða kæranda eftir lok greiðsluerfiðleikaaðstoðar neikvæð og greiðslubyrði hans myndi því ekki rúmast innan greiðslugetu.

 

Í greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka frá 3. október 2012 kemur fram að mánaðarleg útgjöld kæranda voru 128.311 kr. Fjárhagsleg staða kæranda við gerð matsins var þannig að mánaðarlegar tekjur hans námu 168.000 kr., mánaðarleg útgjöld 128.311 kr. og greiðslugeta því 39.689 kr. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 177.472 kr. og fjárþörf kæranda var því 137.783 kr. umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðslumatinu var enn fremur farið yfir áætlaða stöðu kæranda á meðan úrræðunum yrði beitt og var miðað við að mánaðarlegar tekjur hans væru 252.848 kr., greiðslugeta 61.000 kr. og afgangur því 63.537 kr. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur kæranda yrðu 3,5% hærri eða 261.697 kr. Að frádregnum mánaðarlegum útgjöldum yrði greiðslugeta kæranda því 133.386 kr. en mánaðarleg greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða 171.015 kr. Staða kæranda yrði því neikvæð um 37.629 kr. og því myndi greiðslubyrði kæranda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu.

 

Líkt og áður hefur komið fram byggir kærandi á því að hann hafi verið í tímabundnum erfiðleikum vegna atvinnumissis og töku fæðingarorlofs. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 skal við mat á greiðslugetu, ef ástæða greiðsluerfiðleika er tímabundin tekjulækkun, miða við tekjur umsækjanda áður en til tekjulækkunar kom. Í gögnum málsins liggur fyrir greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði þar sem fram kemur að áætluð útborgun á mánuði í fæðingarorlofi kæranda sé 168.475 kr. Þar kemur einnig fram að meðaltekjur kæranda á tímabilinu febrúar 2011 til janúar 2012 hafi verið 256.960 kr. Líkt og að framan er rakið var við mat á því hvort skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar væru uppfyllt miðað við að tekjur umsækjanda væru 252.848 kr. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóður hafi réttilega miðað við tekjur umsækjanda áður en að til tekjulækkunar kom, líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001. Þar sem greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða hefði ekki rúmast innan greiðslugetu hans, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, átti kærandi því ekki rétt á greiðsluerfiðleikaaðstoð. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. október 2012, um að synja beiðni A, um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                 Gunnar Eydal

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum