Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 77/2012.


Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 14. ágúst 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 77/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 22. ágúst 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 5. júní 2012, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

 

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 5. júní 2012, var skráð fasteignamat á fasteign kæranda að B 13.350.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati var því 14.685.000 kr. Við afgreiðslu á umsókn kæranda lá fyrir kauptilboð í fasteign kæranda upp á 13.000.000 kr. Íbúðalánasjóður byggði því á því að fasteignin væri metin á 13.000.000 kr. og 110% verðmat nam því 14.300.000 kr. Í ljósi þess að fasteignamat var hærra en verðmat var byggt á því. Staða áhvílandi íbúðalána kæranda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 22.428.132 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 7.743.132 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi átti fjögur félög, C. sem metið var á 1.000.000 kr., D. sem metið var á 320.000 kr., E. sem metið var á 1.950.000 kr. og F. sem metin var á 20.000 kr. Þá kom fram í endurútreikningnum að kærandi átti í árslok 2010 bifreið, G, sem metin var á 2.542.387 kr. Veðrými sem kom til frádráttar vegna annarra eigna nam því samtals 5.832.387 kr.

  

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 27. september 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 1. október 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með tölvupósti þann 4. október 2012 bárust úrskurðarnefndinni frekari gögn frá Íbúðalánasjóði.

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Í kæru kemur fram að kærandi telji eignir þær sem hann sé skráður fyrir einskis virði og sumum hafi hann ráðstafað fyrir lítið sem ekkert upp í daglegar þarfir. Kærandi eigi engar eignir til að mæta skuldum og vegna veikinda hafi hann verið tekjulaus með öllu í um sex ár að undanskildum bótum síðastliðin tvö ár. Þær hafi ekki dugað til framfærslu og því hafi hann aðeins safnað auknum skuldum.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum vegna kærunnar kemur fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs hafi byggt á eignastöðu hlutabréfa og bifreiðar eins og kærandi hafi talið þær fram að verðmæti í skattframtali. Verðmat á íbúð kæranda hafi byggt á kauptilboði í íbúðina en þar sem fasteignamat hafi verið hærra hafi það verið lagt til grundvallar útreikningi.

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi við afgreiðslu umsóknar kæranda um niðurfærslu veðlána hjá sjóðnum borið að miða við að verðmæti eigna kæranda sem komu til frádráttar niðurfærslu, hafi verið lægra en gert var.

 

Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnstæður. Auk fasteignar sinnar að B á kærandi bifreið og fjögur félög eins og rakið hefur verið. Af hálfu Íbúðalánasjóðs hefur komið fram að stuðst hafi verið við mat á eignum kæranda í skattframtölum. Kærandi heldur því fram mat Íbúðalánasjóðs sé of hátt og að eignir hans séu í raun verðlausar.

 

Af hálfu úrskurðarnefndar hefur verið á því byggt að ákvörðun Íbúðalánasjóðs um niðurfellingu skulda til samræmis við reglur laga nr. 29/2011 og samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila sé stjórnvaldsákvörðun og því beri að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við ákvarðanatökuna. Hefur Íbúðalánasjóði verið veitt heimild til þess að fella niður skuldir heimila til samræmis við fyrrgreint samkomulag með lögum nr. 29/2011. Ekki hafa verið gefnar út almennar reglur í reglugerð um framkvæmd niðurfærslunnar, þar á meðal um mat á greiðslubyrði lántaka og maka hans, mat á tekjum og verðmat fasteigna, svo sem mælt er fyrir um í 8. mgr. 1. gr. laganna. Af því leiðir sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að upplýsa mál áður en ákvörðun er tekin í því. Þótt fallast megi á að í fyrrgreindum reglum frá 15. janúar 2011 sé ekki að finna undantekningar, getur það eitt og sér ekki leyst Íbúðalánasjóð undan þeirri skyldu að meta verðmæti eigna þegar um þær er deilt eða þegar umsækjandi byggir á því að skráð opinbert mat þeirra sé ekki rétt. Þótt almennt megi styðjast við þær upplýsingar sem fram koma í skattframtölum umsækjenda, ber Íbúðalánasjóði að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast og að meta hvert og eitt mál sérstaklega, eftir atvikum að gefa umsækjanda kost á að sýna fram á raunverð eigna telji umsækjandi eignir rangt metnar í skattframtali. Í máli þessu hefur kærandi hins vegar byggt á því fyrir úrskurðarnefndinni að upplýsingar um eignir hans, sem fram koma skattframtölum, séu rangar. Í fyrrgreindum reglum kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Fyrrgreint verðmat eigna hefur því bein áhrif á það hvort og hversu mikil lækkun skulda verður í hverju og einu tilviki. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í grein 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að fella hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs úr gildi og leggja fyrir Íbúðalánasjóð taka mál kæranda aftur til efnislegrar meðferðar.

 

   

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 5. júní 2012, um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B, er felld úr gildi og vísað heim til nýrrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

                 Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                     Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum