Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 84/2012

Miðvikudaginn 27. febrúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 84/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Ísafjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 8. október 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Ísafjarðarbæjar, dags. 31. ágúst 2012, á beiðni hennar um húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi býr í Ísafjarðarbæ og hefur þegið húsaleigubætur hjá sveitarfélaginu frá árinu 2006. Í desember 2011 sendi Ísafjarðarbær þiggjendum húsaleigubóta hjá sveitarfélaginu bréf þar sem auglýstur var frestur til að sækja um húsaleigubætur fyrir árið 2012. Í bréfinu kom einnig fram að staðfest afrit af skattframtali 2012 vegna tekna árið 2011 yrði að berast sveitarfélaginu um leið og því hefði verið skilað til ríkisskattstjóra.

 

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Ísafjarðarbæ með ódagsettri umsókn, mótt. 16. janúar 2012. Þar sem kærandi hafði þegið húsaleigubætur frá sveitarfélaginu á árinu 2011 var umsókn hennar ekki samþykkt skriflega en þess í stað voru henni greiddar bæturnar án sérstakrar tilkynningar. Þann 25. apríl 2012 var á heimasíðu sveitarfélagsins birt auglýsing þar sem húsaleigubótaþegar voru minntir á að skila þyrfti staðfestu afriti af skattframtali eigi síðar en 25. maí 2012. Kærandi skilaði skattframtali til sveitarfélagsins þann 16. ágúst 2012. Sveitarfélagið felldi því niður greiðslur húsaleigubóta til hennar í júlí og ágúst. Með bréfi til félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 15. ágúst 2012, óskaði kærandi eftir því að fá greiddar húsaleigubætur fyrir þessa tvo mánuði. Félagsmálanefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum þann 28. ágúst 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Lagt var fram erindi frá einstaklingi þar sem óskað er eftir greiðslu húsaleigubóta fyrir júlí og ágúst en viðkomandi gleymdi að skila inn afriti af skattframtali á tilsettum tíma.

 

Félagsmálanefnd hafnar erindinu með vísan til laga um húsaleigubætur. Félagsmálanefnd vísar jafnframt til bréfs um afgreiðslu umsóknar um húsaleigubætur þar sem umsækjendur voru minntir á að skila inn skattframtali ársins 2012 þegar það lægi fyrir.

 

Niðurstaða félagsmálanefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 31. ágúst 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 8. október 2012. Með bréfi, dags. 11. október 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Ísafjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Ísafjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 18. október 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. október 2012, var bréf Ísafjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 31. október 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með tölvupósti þann 11. febrúar 2013 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari upplýsingum frá Ísafjarðarbæ og bárust þær með tölvupósti þann 12. febrúar 2013.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst hafa gleymt að skila skattframtali til sveitarfélagsins í júní 2012 og hafi því ekki fengið greiddar húsaleigubætur fyrir júlí og ágúst 2012. Hún bendir á að breyting hafi orðið á afgreiðsluferli vegna greiðslu húsaleigubóta en áður hafi fjölskyldusviði verið gefin heimild til að nálgast afrit af staðfestu skattframtali. Þrátt fyrir að þessi breyting hafi verið kynnt hafi kærandi gleymt að skila inn skattframtalinu. Kærandi kveðst vera öryrki og því muna töluvert um bæturnar.

 

 

III. Sjónarmið Ísafjarðarbæjar

 

Í athugasemdum sveitarfélagsins vegna kærunnar kemur fram að beiðni um leiðréttingu á húsaleigubótum fyrir mánuðina júlí og ágúst 2012 hafi verið synjað með vísan til 10., 11., og 14. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Jafnframt hafi verið vísað til bréfs frá fjölskyldusviði Ísafjarðarbæjar frá desember 2011 þar sem tilgreint hafi verið um skil á skattframtali ársins 2012 vegna greiðslu húsaleigubóta.

 

Í athugasemdum Ísafjarðarbæjar vegna fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar eru rakin almenn atriði um afgreiðslu húsaleigubóta hjá sveitarfélaginu. Kemur þar fram að þegar ný umsókn berist og öll tilskilin gögn liggi fyrir sé umsóknin tekin til afgreiðslu. Umsækjendum séu send bréf þar sem afgreiðsla sé tilkynnt, þ.e. hvort sem fyrir liggur samþykki eða synjun. Litið hafi verið þannig á að húsaleigubótaþegar endurnýi umsóknir um áramót og þá séu ekki send út bréf með tilkynningu um afgreiðslu heldur séu bæturnar greiddar út á reikning viðkomandi á tilsettum tíma, þ.e. ef engin breyting sé á útreiknuðum rétti. Leiði endurútreikningur um áramót í ljós að umsækjandi eigi ekki rétt á húsaleigubótum, til dæmis vegna tekna, sé það tilkynnt bréflega. Hið sama eigi við þegar nýju skattframtali hafi verið skilað inn og breytingar á tekjum og/eða eignum hafi áhrif á bótarétt. Skil á nýju skattframtali miðist við lokafrest einstaklinga til framtalsskila hjá ríkisskattstjóra sem sé í apríl ár hvert að viðbættum tveimur mánuðum frá þeim tíma. Auglýsing þess efnis sé birt á heimasíðu Ísafjarðarbæjar. Skili húsaleigubótaþegi ekki inn nýju skattframtali fyrir síðasta ár fyrir auglýstan skiladag, falli greiðslur niður á þeim grundvelli að fylgigögnum umsóknar hafi ekki verið skilað.

 

Þá kemur fram í athugasemdunum að kærandi hafi fyrst sótt um húsaleigubætur þann 1. desember 2005. Frá þeim tíma hafi hún fengið endurnýjun á húsaleigubótum um hver áramót og hafi ekki gert athugasemdir um framkvæmd afgreiðslu. Jafnframt hafi hún skilað inn nýju skattframtali fyrir auglýstan tíma ár hvert. Þann 16. janúar 2012 hafi kærandi sótt um endurnýjun á greiðslum húsaleigubóta vegna ársins 2012. Þar sem um endurnýjun á umsókn hafi verið að ræða og ekki hafi orðið breyting á fjárhæð húsaleigubóta hafi ekki verið sent út bréf eða tilkynning um afgreiðslu umsóknar heldur hafi bæturnar verið greiddar inn á reikning kæranda. Í bréfi til allra sem fengu húsaleigubætur 2011, dagsettu í desember sama ár, hafi komið fram að skila þyrfti inn skattframtali 2012 vegna tekna 2011 þegar það lægi fyrir. Í auglýsingu sem birt hafi verið á heimasíðu Ísafjarðarbæjar þann 25. apríl 2012 hafi bótaþegar verið minntir á skil á staðfestu afriti af skattframtali. Auglýstur skilafrestur hafi verið 25. maí 2012. Kæranda hafi ekki verið sent bréf eða tilkynning þegar húsaleigubætur hafi fallið niður í júlí og ágúst 2012. Litið hafi verið svo á að hún hafi fengið leiðbeiningar og fulla vitneskju um að skila bæri nýju skattframtali til að uppfylla skilyrði 10.–15. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með bréfi dagsettu í desember 2011, og síðan með auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins, dags. 25. apríl 2012.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Ísafjarðarbæ hafi borið að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir júlí og ágúst 2012 en sveitarfélagið felldi niður greiðslur í framangreindum mánuðum þar sem kærandi skilaði ekki skattframtali 2012 fyrir auglýstan frest.

  

Af athugasemdum Ísafjarðarbæjar má ráða að greiðslur til kæranda hafi verið felldar niður á grundvelli þess að kærandi hafi ekki skilað nauðsynlegum fylgigögnum með umsókn. Í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildir umsóknin til ársloka. Í 4. mgr. sömu greinar segir að umsækjandi skuli gefa allar þær upplýsingar sem krafist er á umsóknareyðublaði og nauðsynlegar eru að öðru leyti til að staðreyna megi bótarétt hans. Umsókn skulu meðal annars fylgja ljósrit af skattframtölum þeirra sem lögheimili eiga í íbúðinni fyrir síðasta ár, staðfest af ríkisskattstjóra, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna. Í 12. gr. laganna segir að sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn, sbr. 10. og 11. gr., eða umsækjandi gefur að öðru leyti ekki nauðsynlegar upplýsingar og skýringar, skal umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan tveggja mánaða. Sinni hann þeim tilmælum ekki kemur umsókn hans ekki til álita eða frekari meðferðar. Þá segir í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, að sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn koma bætur ekki til greiðslu í næsta mánuði á eftir, en réttur til bóta miðast hins vegar við umsóknartíma, berist fullnægjandi gögn síðar. 

 

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að benda á að í ljósi þess að Ísafjarðarbær taldi að umsókn kæranda hafi ekki fylgt nauðsynleg gögn hefði sveitarfélaginu í samræmi við 12. gr. laga um húsaleigubætur borið að gera kæranda grein fyrir því og gefa henni kost á að bæta úr því innan tveggja mánaða. Almennt bréf til allra húsaleigubótaþega og almenn auglýsing á vef sveitarfélagsins verður ekki talið fullnægjandi í þessu samhengi.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að umsókn kæranda um húsaleigubætur fyrir árið 2012 var samþykkt hjá Ísafjarðarbæ. Ákvörðun sveitarfélagsins er stjórnvaldsákvörðun og felur í sér samþykki sveitarfélagsins á því að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir almanaksárið 2012, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur. Það liggur því ljóst fyrir að sveitarfélagið hefur talið umsókn kæranda fullnægjandi og að öll nauðsynleg fylgigögn hafi fylgt með, sbr. 12. gr. laganna. Enn fremur er bent á að í 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna er ekki gerð krafa um að bótaþegi leggi fram nýtt skattframtal hjá sveitarfélaginu þegar því hefur verið skilað til ríkisskattstjóra. Þá verður ekki séð að önnur ákvæði laganna eða reglugerðar sem sett hefur verið með stoð í lögunum leggi svo ótvíræða skyldu á bótaþega. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Ísafjarðarbæ hafi verið óheimilt að fella niður greiðslur til kæranda á miðju bótatímabili á grundvelli þess að fylgigögnum umsóknar hafi ekki verið skilað. Úrskurðarnefndin telur því rétt að leggja mat á það hvort sveitarfélaginu hafi verið heimilt að fella niður greiðslur til kæranda á öðrum grundvelli. Í umsóknareyðublaði um húsaleigubætur hjá Ísafjarðarbæ er gert ráð fyrir því að umsækjendur veiti samþykki fyrir því að sveitarfélaginu sé heimilt að afla upplýsinga um tekjur og eignir hjá skattayfirvöldum og launagreiðendum. Sú yfirlýsing var ekki undirrituð af kæranda í máli þessu.

 

Í 15. gr. laganna er gerð grein fyrir þeim tilvikum sem leitt geta til brottfalls bótaréttar. Segir þar meðal annars í 1. mgr. að réttur til húsaleigubóta falli niður ef skilyrðum laga um húsaleigubætur er ekki lengur fullnægt. Í 6. mgr. 15. gr. kemur fram að félagsmálanefnd sé heimilt að fella niður greiðslur bóta, stöðva bótagreiðslur eða greiða bætur beint til leigusala ef leigjandi vanrækir upplýsinga- og tilkynningarskyldu sína skv. 14. gr. eða hefur að öðru leyti gefið rangar eða villandi upplýsingar sem máli skipta og þýðingu hafa um bótarétt hans. Önnur ákvæði 15. gr. laganna um brottfall réttar til húsaleigubóta eiga ekki við í máli þessu.

 

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram í málinu sem leiði til þess að kærandi verði ekki talin fullnægja skilyrðum laga um húsaleigubætur þrátt fyrir að hún hafi ekki skilað skattframtali 2012 fyrir auglýstan frest. Niðurfelling Ísafjarðarbæjar á greiðslu bóta til kæranda verður því ekki byggð á 1. mgr. 15. gr. laganna. Í 14. gr. laga um húsaleigubætur er kveðið á um að bótaþegi skuli tilkynna viðkomandi sveitarfélagi þegar í stað um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt hans til húsaleigubóta og á bótafjárhæð. Í máli þessu hefur ekkert komið fram um að breytingar hafi orðið hjá kæranda sem henni hafi borið að tilkynna né að hún hafi gefið rangar eða villandi upplýsingar. Því til stuðnings má nefna að þegar kærandi hafði skilað inn skattframtali 2012 fékk hún á ný greiddar húsaleigubætur og því ljóst að hin nýju gögn hafa ekki leitt í ljós breytingar á högum kæranda. Niðurfelling bótanna verður því ekki byggð á 6. mgr. 15. gr. laganna. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að réttur kæranda til húsaleigubóta hafi ekki fallið brott og Ísafjarðarbæ því óheimilt að fella niður greiðslur á húsaleigubótum til kæranda á grundvelli ákvæða 15. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Ísafjarðarbæ að greiða kæranda húsaleigubætur vegna þeirra tveggja mánaða sem kærandi fékk ekki greiddar bætur.

 

Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Ísafjarðarbæjar að endurskoða verklag vegna greiðslu húsaleigubóta í samræmi það sem að framan greinir og gæta að því að það sé í samræmi við lög og reglugerð um húsaleigubætur.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar, dags.  31. ágúst 2012, um synjun á beiðni A, um greiðslu húsaleigubóta fyrir júlí og ágúst 2012 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að greiða henni húsaleigubætur vegna þessara tveggja mánaða.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum