Hoppa yfir valmynd
23. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2010

Miðvikudaginn 23. mars 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 19/2010:

A

gegn

fjölskylduráði Hafnarfjarðar

 

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar um að greiða honum húsaleigubætur með ávísun eða peningum í stað þess að leggja þær inn á bankareikning.

 

I. Málavextir

Kærandi sótti fyrst um húsaleigubætur í október 2010 og hefur nú sótt um húsaleigubætur fyrir árið 2011. Hann gaf upp bankareikningsnúmer sitt þegar hann sótti um húsaleigubætur í október 2010, en lét þess getið á umsókn fyrir árið 2011 að hann hefði lokað bankareikningnum og óskaði eftir að bæturnar yrðu greiddar með ávísun eða peningum út í hönd. Félagsþjónusta Hafnarfjarðar synjaði þeirri beiðni þar sem ávísanahefti og beinar peningagreiðslur tíðkist ekki hjá Hafnarfjarðarbæ. Félagsþjónustan hefur greitt kæranda húsaleigubætur frá því í október 2010 inn á bankareikning þann sem kærandi tilgreindi í upphaflegri umsókn sinni. Kærandi telur að vegið sé að mannréttindum hans og persónufrelsi með því að þvinga/skylda hann til viðskipta við stofnanir sem hann kæri sig ekki um og hafi hann ákveðið að loka umræddum bankareikningi.

  

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi segir að við umsókn um húsaleigubætur sem hann hafi lagt inn í september 2010 hafi verið tekið fram, bæði á umsóknareyðublaði sem og munnlega af starfsmönnum félagsþjónustunnar, að ein af kröfunum til að uppfylla skilyrði um rétt á bótum væri að gefa upp bankareikningsnúmer þar sem bæturnar skuli lagðar inn. Hann hafi skilað öllum öðrum gögnum og hafi uppfyllt að öllu öðru leyti kröfur um rétt til bóta, en hafi verið þvingaður/skyldaður til að gefa upp bankareikninganúmer svo bætur yrðu greiddar honum. Kærandi kveðst hafa tekið þá ákvörðun fyrir margt löngu að hætta öllum viðskiptum sínum við bankastofnanir og sé það hluti af persónulegu frelsi hans að ákvarða hvort peningar hans fari í gegnum fjármálastofnanir. Með fyrrgreindum skilyrðum félagsþjónustunnar sé verið að skylda og í reynd þvinga hann til að vera í viðskiptum við þriðja aðila, þ.e. bankastofnanir, sem hann kæri sig ekki um og hljóti hann að vera í fullum rétti til þess að hafa þá grundvallarskoðun. Kærandi kveðst ítrekað hafa farið fram á það að fá bæturnar greiddar með ávísun eða peningum, út í hönd, en því hafi þráfaldlega verið neitað og sagt að slíkt væri ekki framkvæmt og jafnvel ekki framkvæmanlegt. Þegar hann hafi borið fram mótbárur með þeim rökum að hann ætti heimtingu á að fá réttmætar bætur milliliðalaust, en ekki gegnum þriðja aðila, hafi verið fátt um svör.

Kærandi kveðst telja að vegið sé að mannréttindum sínum og persónufrelsi með því að þvinga/skylda sig til viðskipta við stofnanir sem hann kæri sig ekki um og hann hafi nú ákveðið að loka þessum bankareikningi. Þar sem hann uppfylli öll skilyrði til bóta þá beri honum að fá þær greiddar á umsömdum ákveðnum tíma, um hver mánaðamót, en finna verði leiðir til að koma þeim til hans milliliðalaust.

 

III. Málsástæður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar.

Í greinargerð Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði kemur fram að félagsþjónustan telji sig ekki hafa getað orðið við þeirri beiðni kæranda að greiða honum húsaleigubætur með ávísun eða með beinum peningagreiðslum þar sem slíkt tíðkist ekki hjá Hafnarfjarðarbæ, hvorki við greiðslu húsaleigubóta né annarra greiðslna, svo sem fjárhagsaðstoð, og varla sé hægt að gera ráð fyrir að opinber aðili hafi tök á að inna slíkar greiðslur af hendi með þeim hætti sem hver og einn umsækjandi óski.

Félagsþjónustan hafi greitt áfrýjanda húsaleigubætur frá því í október 2010 inn á bankareikning þann sem áfrýjandi hafi tilgreint í upphaflegri umsókn sinni og líti svo á að hún hafi innt skyldu sína af hendi og að áfrýjanda sé þar með í sjálfsvald sett hvort hann þiggi greiðsluna eða ekki. Það sé álit félagsþjónustunnar að það sé sveitarfélags að ákveða hvaða greiðslufyrirkomulag sé hagkvæmast við útgreiðslu húsaleigubóta og annarra greiðslna og þar sem greiðslufyrirkomulag af því tagi sem áfrýjandi geri kröfu um tíðkist ekki hjá Hafnarfjarðarbæ verði að synja kröfu hans um greiðslu húsaleigubóta með ávísun eða út í hönd.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þar sem fram kemur að telji umsækjandi á rétt sinn hallað af hálfu félagsmálanefndar við framkvæmd laganna, svo sem við ákvörðun um bótarétt, fjárhæð bóta, niðurfellingu þeirra eða önnur atriði sem þýðingu hafa fyrir hann, geti hann skotið viðkomandi ákvörðun eða afgreiðslu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Um málsmeðferð fari þá samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Kærandi á rétt á greiðslu húsaleigubóta, en til þess að öðlast rétt til þeirra þarf kærandi að leggja fram umsókn um greiðslu þeirra og meðal annars tilgreina bankareikning þar sem leggja á inn bæturnar. Í máli þessu er ágreiningur um með hvaða hætti fjölskylduráð Hafnarfjarðar skuli greiða kæranda húsaleigubætur. Kærandi vill ekki nota þjónustu bankastofnana í því skyni og óskar eftir greiðslu með ávísun eða í peningum. Hafnarfjarðarbær leggur slíkar greiðslur jafnan inn á bankareikning viðkomandi og kveður greiðslur með ávísunum og peningum ekki tíðkast hjá bæjarfélaginu og telur að varla sé hægt að gera ráð fyrir að opinber aðili hafi tök á að inna slíkar greiðslur af hendi með þeim hætti sem hver og einn umsækjandi óskar.

Í 2. gr. laga nr. 138/1997 kemur fram að aðstoð samkvæmt lögunum sé í formi greiðslna til leigjenda sem nefnist húsaleigubætur, og skulu sveitarfélög greiða húsaleigubætur. Í fyrrgreindum lögum kemur ekki fram önnur skylda á hendur sveitarfélagi en sú að greiða skuli bætur, en ekki í hvaða formi þær skuli greiðast. Af lögunum verður enn fremur ekki ráðið að sú skylda hvíli á sveitarfélagi að greiða bætur út með reiðufé eða með ávísun.

Í málinu hefur kærandi vísað til þess að hann telji sér ekki fært að eiga viðskipti við fjármálastofnanir, og að hann verði ekki þvingaður til viðskipta við þær, slíkt sé brot á mannréttindum hans. Hann hefur einnig byggt á því að með fyrrgreindum skilyrðum sé hann þvingaður til þess að vera í viðskiptum við þriðja aðila, þ.e. bankastofnanir, sem hann kæri sig ekki um. Hafnarfjarðarbær hefur hins vegar byggt á því að það sé ákvörðun sveitarfélags hverju sinni að ákveða hvaða greiðslufyrirkomulag sé hagkvæmast við útgreiðslu bóta, svo sem húsaleigubóta. Það greiðslufyrirkomulag sem krafist sé af kæranda hafi ekki tíðkast hjá Hafnarfjarðarbæ um langt árabil en það sé hins vegar skilyrði fyrir útgreiðslu bóta og sé kæranda því í sjálfsvald sett hvort hann þiggi greiðslu bóta með fyrrgreindum hætti eða ekki.

Almennt hefur verið talið að það sé óhagræði að þurfa að greiða fjárkröfur í reiðufé, auk þess sem því getur fylgt nokkur áhætta. Því verður almennt að líta til þess hvort til staðar séu réttmætir og ríkari hagsmunir móttakanda greiðslu af að fá greidda kröfu sína í reiðufé eða ávísun, í stað þess að greitt verði inn á bankareikning sem hann tilnefnir í umsókn sinni.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verði leidd sú skylda af lögum nr. 138/1997 að sveitarfélag greiði út bætur í peningum eða ávísun. Þá tók kærandi við greiðslu húsaleigubóta með fyrrgreindum hætti vegna ársins 2010, en áður hafði hann í umsókn sinni gefið upplýsingar um tiltekinn innlánsreikning. Auk þess liggur fyrir að gerð er sú krafa af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að umsækjendur gefi upplýsingar um innlánsreikning þar sem bætur verði lagðar inn.

Verður því að líta til þess hvort kærandi teljist eiga réttmæta hagsmuni af því að krefjast þess að gerð verði sú breyting á fyrrgreindu greiðslufyrirkomulagi, og að tekið verið upp annað fyrirkomulag á greiðslu bótanna, eins og hann hefur nú krafist. Við mat þess vegast á hagsmunir kæranda, sem telur óþolandi „að eiga viðskipti glæpamenn“ og hagsmunir Hafnarfjarðarbæjar af því hagræði og mikla öryggi sem er samfara útgreiðslu bóta inn á bankareikning með rafrænum hætti.

Sú aðferð að greiða bætur inn á innlánsreikninga í þeim banka sem viðkomandi bótaþegi tilnefnir að eigin vali, og getur síðan fengið útborgað í hvaða útibúi bankans sem er, getur vart talist íþyngjandi að mati úrskurðarnefndarinnar, en hins vegar myndi önnur niðurstaða verða óþarflega íþyngjandi fyrir Hafnarfjarðarbæ. Hún myndi að auki hafa í för með sér verulegt óhagræði og kostnað, sem samhliða áhættu af því að þurfa að hafa verulegar fjáræðir á skrifstofu sveitarfélags hverju sinni við útborgun bóta, kallar á meiri umsýslu við útborgun bóta af hálfu sveitarfélagsins.

Þegar fyrrgreindir hagsmunir eru vegnir saman, er á það fallist að kærandi geti ekki átt réttmæta kröfu til þess að fá greiddar bætur með þeim hætti sem hann hefur krafist. Með vísan til fyrrgreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar í máli A, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum