Hoppa yfir valmynd
22. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2011

Miðvikudaginn 22. júní 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 36/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dagsettri 11. apríl 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 18. mars 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, frá 18. mars 2011, sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 3. maí 2011, er mat á íbúð kæranda að B 16.400.000 kr. Í endurútreikningnum kemur einnig fram að kærandi á bifreið, O að fjárhæð 495.720 kr. og innstæðu á bankareikningi að fjárhæð 2.864.191 kr. Fasteign kæranda miðað við uppreiknað fasteignamat í 110% og aðfararhæfar eignir, þ.e. bifreið kæranda og innistæðu á bankareikningi, nema því samtals 21.400.911 kr. Íbúðalánaskuldir kæranda nema samtals 21.233.913 kr.

 

II. Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda kemur fram að hún fái sem opinber starfsmaður laun sem ættu að greiðast út 1. janúar, útborguð 22. desember, þannig fái hún í raun tvenn mánaðarlaun inn á launareikning sinn í desember. Sú fjárhæð sem sé á reikningi hennar um áramót sé því mun hærri en í venjulegum mánuði og þann 1. janúar hafi hluti þessarar fjárhæðar farið í greiðslu reikninga. Í öðru lagi hafi hún fengið arf sem hún hafi geymt þar sem hún gangi með barn sem áætlað er að fæðist í lok maí 2011. Hún hafi gengist undir glasafrjóvgunarmeðferð og hafi kostnaður af meðferðinni numið 500.000 kr. sem tekið hafi verið af arfi kæranda. Þar sem hún sé einhleyp og barnið getið með gjafasæði hafi hún ekki annan einstakling til að deila kostnaði eða fæðingarorlofi með. Þá hafi arfurinn verið geymdur til þess að standa straum af því tekjutapi sem hún verði fyrir í fæðingarorlofinu. Hún dreifi fæðingarorlofinu yfir níu mánuði en fái aðeins úthlutað sex mánuðum. Greiðslur í fæðingarorlofi séu aðeins 80% af tekjum og auk þess dreift yfir lengri tíma þannig að hún hafi langt frá því nægar tekjur til þess að standa straum af íbúðarlánum og öðrum kostnaði án þess að bæta sér upp tekjurnar með þessum peningum. Henni reiknist til að hún þurfi að leggja til á bilinu 150–200 þúsund krónur á mánuði til að geta staðið undir lánum og framfærslu. Auk þess þurfi hún að kaupa ýmsan búnað fyrir barnið. Kærandi óskar þess að tillit verði tekið til þessara sérstöku aðstæðna þar sem að hún myndi lenda í verulegum greiðsluerfiðleikum í fæðingarorlofinu án þess sjóðs. Hún óskar einnig eftir því að auk Íbúðasjóðslánanna skuldi hún yfir 5 milljón krónur í námslán sem hafi tvöfaldast að upphæð á síðustu árum. Af þessum námslánum þurfi hún að greiða hátt í 300 þúsund krónur á ári. Hún nefnir einnig, varðandi það að bifreið hennar sé aðfararhæf eign, að bíllinn sé atvinnutæki hennar sem hún hafi samning um að nýta og verði að hafa til að geta stundað starf sitt. Loks bendir kærandi á að hún eigi 18 ára gamla dóttur sem stundi menntaskólanám og greiði kærandi menntunarkostnað hennar og uppihald. Þá hafi nýverið verið samþykkt á húsfundi að leggja út í viðhaldskostnað á fasteign hennar, sem enn muni leiða til fjárútláta af hálfu kæranda. Telur kærandi, þegar á allt er litið, óeðlilegt að umsækjandi þurfi fyrst að koma sér í þær aðstæður að geta ekki séð fyrir sér og sínum, áður en hægt er að leiðrétta lán hans.

 

III. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður bendir á að samkvæmt endurútreikningi, dags. 3. maí 2011, sé fasteign miðað við uppreiknað fasteignamat í 110% og aðfararhæfar eignir samtals 21.400.911 kr. en íbúðalánaskuldir samtals 21.233.913 kr.

Eignir séu samkvæmt þessu hærri en skuldirnar og forsendur niðurfærslu því ekki til staðar, sbr. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 svo og með vísan til 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál. Reglur geri ekki ráð fyrir að sjóðurinn meti í slíkum tilvikum aðstæður kæranda við niðurfærslu á veðkröfum og synjun því að mati sjóðsins í samræmi við gildandi reglur.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnistæður. Auk fasteignar sinnar að B á kærandi bifreið sem metin er á 495.720 kr. og innistæðu í banka að fjárhæð 2.864.191 kr. eins og rakið hefur verið. Kærandi hefur ekki mótmælt því að verðmæti eigna sé það sem fram kemur í gögnum málsins, heldur því að óréttlátt sé að taka tilliti til innstæðu á bankareikningi við útreikning kærða. Hefur kærandi bent á sérstakar aðstæður sínar, vegna fæðingar og barnsburðarleyfis, auk þess sem samþykkt hefur verið að leggja út í kostnaðarsamar viðgerðir á fasteign kæranda.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur, auk þess sem ekki er að finna undanþágu í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Af lögskýringargögnum með lögum nr. 29/2011 má að auki beinlínis ráða að ekki hafi verið ætlast til þess að litið yrði fram hjá tilteknum eignum, eða eignum að tilteknu lágmarki, þegar metin yrði niðurfærsla veðskulda. Þá er ekki að finna undanþágu vegna ætlaðs eða væntanlegs kostnaðar eða fjárútláta umsækjanda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 29/2011 og í 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 14. apríl 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum