Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 76/2011

Miðvikudaginn 2. nóvember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 76/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 16. júní 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 20. maí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 20. maí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 21.550.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 24.000.000 kr samkvæmt mati löggilts fasteignasala frá fasteignasölunni D., sem fram fór þann 4. maí 2011. Áhvílandi á íbúðinni voru 29.501.164 kr. Í endurútreikningnum kemur einnig fram að kærendur eru eigendur bifreiðanna X metin á 191.321 kr., Y metin á 138.510 kr., Z metin á 207.000 kr. og Æ metin á 2.325.510 kr. með veðrými sem nam 1.326.397 kr. Einnig komu bankainnstæður kærenda til frádráttar niðurfærslu lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði, alls 45.091 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. maí 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 10. ágúst 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. ágúst 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum þann 22. ágúst 2011.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra niðurstöðu útreikninga vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfalli af verðmæti fasteignar. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála segjast kærendur hafa sótt um endurútreikning áhvílandi lána hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupa þeirra á fasteigninni að C. Þá segja kærendur að þau geri kröfu um að forsendur til grundvallar útreikningi sjóðsins verði endurskoðaðar.

Kærendur festu kaup á fasteigninni að C í maímánuði 2008, sem framtíðarheimili fjölskyldunnar. Þá segja kærendur að þau hafi fjármagnað fasteignakaupin með meirihluta sparifjár síns, en einnig hafi þau tekið lán hjá Íbúðalánasjóði og Byr hf., ásamt erlendu gengistryggðu láni hjá Arion banka hf. með lánsveði í fasteign í eigu þriðja aðila sem tilheyri fjölskyldu þeirra. Kærendur segja að höfuðstóll erlenda lánsins hafi upprunalega verið 6.000.000 kr. og þau hafi greitt af láninu þar til lögum um greiðsluaðlögun hafi verið breytt á þá vegu að ekki hafi lengur verið heimilt að greiða af lánum. Þá segja kærendur að staða umrædds láns hafi verið 10.000.000 kr. um síðustu áramót, en endurútreikningur á láninu samkvæmt lögum nr. 151/2010 hafi lækkað höfuðstólinn í 6.400.000 kr., en kærendur segjast ekki hafa samþykkt þann endurútreikning.

Kærendur segjast hafa sótt um greiðsluaðlögun þann 6. apríl 2010 en umsókn þeirra hafi verið samþykkt af umboðsmanni skuldara þann 4. febrúar 2011. Kærendur gera kröfu um endurskoðun á verðmati fasteignar þeirra að C, á þann veg að miðað verði við skráð fasteignamat eignarinnar en ekki við mat löggilts fasteignasala á vegum Íbúðalánasjóðs. Þá telja kærendur að leiða megi líkur að því að fasteignamat sé líklegt söluvirði fasteigna á landsbyggðinni. Kærendur vísa til reglugerðar nr. 406/1978, um fasteignamat, sbr. 1. mgr. 8. gr., en þar segir að „mat fasteignar í heild skal miðað við það gangverð, umreiknað til staðgreiðslu, sem líklegt er að hún mundi hafa í kaupum og sölum“.

Þá segja kærendur að ef ekki verði fallist á að miðað verði við skráð fasteignamat eignar, krefjist þau til þrautavara að tekið verði tillit til láns þeirra hjá Arion banka hf. sem áhvílandi láns og leiðrétting lánanna verði 110% miðað við verðmat hússins. Kærendur segjast sannanlega hafi tekið umrætt lán hjá Arion banka hf. til að fjármagna kaup á húsinu að C og vegna þess láns hafi hluta sparnaðar þeirra ekki verið varið í fasteignakaupin, en sá sparnaður hafi nánast allur tapast í efnahagshruninu 2008. Þá segja kærendur að þau hafi ákveðið að taka umrætt lán hjá Arion banka hf. (sem þá var Kaupþing) þar sem umrætt lán hafi verið kynnt þeim sem góður kostur með lítilli áhættu til langs tíma.

Kærendur krefjast þess einnig að aðrar aðfararhæfar eignir þeirra komi ekki til frádráttar við niðurfærslu lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði, en um sé að ræða tvær ökufærar bifreiðar og tjaldvagn. Kærendur segja að vegna staðsetningar þeirra og fjölskyldustærðar sé nauðsynlegt fyrir þau að eiga tvo bíla og önnur bifreiðin þurfi að rúma sjö einstaklinga. Þá segja kærendur að þau hafi fest kaup á sjö manna bifreið sinni árið 2007 og þau hafi fjármagnað helming kaupanna, eða 1.600.000 kr., með sparifé sínu og erlendu láni hjá SP fjármögnun, en staða lánsins sé nú 1.000.000 kr. Önnur bifreið þeirra sé lítil, árgerð 1996 og metin á 80.000 kr. Einnig sé tjaldvagn í þeirra eigu metinn á 80.000 kr. en þriðju bifreiðina segja þau vera óökufæra af árgerð 1996 sem sé ekki á skráningarnúmerum og sé líklega ónýt.

Þá segja kærendur að bankainnstæða þeirra þann 1. janúar 2011 hafi verið um 800.000 kr. sem eingöngu hafi verið til staðar þar sem kærendur séu í greiðsluaðlögun og sé því skylt að leggja fyrir fé sem ekki sé notað til framfærslu fjölskyldunnar. Þau hafi tekið út séreignarsparnað síðan í marsmánuði 2010 sem hafi verið lagður inn á reikning þeirra. Því telji þau að ekki sé réttlætanlegt að draga bankainnstæðu frá leiðréttingu lána hjá Íbúðalánasjóði.

Kærendur segja jafnframt að ef ekki verði tekið tillit til þessara röksemda, krefjist þau til þrautavara að tekið verði tillit til athugasemda þeirra varðandi aðrar aðfararhæfar eignir. Í framtali þeirra árið 2011 sé verðmæti bifreiða þeirra og tjaldvagns skráð töluvert hærra en raunverulegt verðgildi þeirra. Því segjast kærendur hafa fengið bifreiðasala hjá Bílasölu E til að meta söluvirði eignanna og leggja fram afrit af verðmati því til staðfestingar. Samkvæmt áðurnefndu mati bifreiðasala, dags. 26. maí 2011, er Æ bifreið kærenda metin á 1.600.000 kr., Y bifreið kærenda er metin á 80.000 kr., X bifreið kærenda er talin verðlaus og eingöngu hæf til að seljast á því sem nemur andvirði úrvinnslugjalda bifreiða, eða 15.000 kr. Í matinu kemur einnig fram að tjaldvagn í eigu kærenda með skráningarnúmerinu Z er metinn á 80.000 kr. Kærendur krefjast endurskoðunar á verðmati bifreiða í samræmi við verðmat Bílasölu E. Þá segja kærendur að ef ekki verið fallist á þær röksemdir, krefjist þau til þrautavara að bankainnstæður þeirra að frádregnum launum til tveggja mánaða komi ekki til frádráttar niðurfærslu lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði.

Þá segja kærendur að ef ekki verði fallist á þær röksemdir, þá krefjist þau til þrautavara endurskoðunar á útreikningi vegna leiðréttingar á þann veg að tekið verði tillit til kreditkortaskuldar þeirra, þ.e. niðurfelling verði hækkuð í samræmi við skuldina. Kærendur segja að umrædd skuld væri þegar greidd ef ekki hefði komið til breyting á lögum um greiðsluaðlögun. Kærendur segja umrædda kreditkortaskuld vera 478.782 kr.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála barst bréf frá kærendum, dags. 22. ágúst 2011. Þar gera kærendur athugasemdir við að Íbúðalánasjóður hafi lýst afstöðu sinni til málsins þann 10. ágúst 2011, en veittur frestur til þess rann út þann 4. júlí 2001. Þá gera kærendur einnig athugasemdir við það sem fram kemur í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar varðandi bifreið kærenda, Æ. Kærendur vísa til vefs Bílgreinasambandsins þar sem skráð viðmiðunarverð bifreiðarinnar Æ hafi verið 1.542.000 kr. þann 21. ágúst 2011. Kærendur vísa jafnframt til þess að bifreiðin sé skemmd eftir óhapp, en tjónið hafi verið metið á alls 200.000 kr., einnig sé lakk bifreiðar illa farið eftir grjótkast sem er metið til 200.000 kr. lækkunar á verði bifreiðar. Það sé mat kærenda að ef bíllinn yrði seldur, væru umboðslaun bílasala u.þ.b. 80.000 kr. og telja kærendur að draga ætti þá fjárhæð frá verðmæti bílsins sem aðfararhæf eign til frádráttar niðurfærsla lána hjá Íbúðalánasjóði.

Þá segja kærendur einnig að bifreið þeirra X sé óökufær og það svari ekki kostnaði að gera við umrædda bifreið sem kærendur hafi ákveðið að selja í endurvinnslu, virði bifreiðarinnar sé því í samræmi við framlagt mat Bílasölu E, eða 15.000 kr. Kærendur óska eftir því að miðað verði við verðmat Bílasölu E við útreikning á skerðingu vegna niðurfærslu lána, að undanskildu mati á bifreið þeirra Æ, en þar verði miðað við viðmiðunarverð Bifreiðasambandsins að frádregnum skemmdum og umboðslaunum bílasala, samtals 480.000 kr. Ef ekki verði fallist á þær kröfur kærenda, fara þau fram á að stuðst verði við verðmat Bílasölu E frá 26. maí 2011 við verðmat bifreiða í eigu þeirra.

Kærendur árétta að skv. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, beri úrskurðarnefndinni að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að erindið berst henni og fara því fram á skjóta afgreiðslu málsins.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að skv. 1. gr. laga nr. 29/2011, um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, skuli Íbúðalánasjóður miða útreikninga við það sem hærra er, markaðsverð eða fasteignamat, og í máli kærenda sé viðmiðið verðmat fasteignasala. Aðrar aðfararhæfar eignir sem skerða niðurfærslu lána séu bankainnstæða, bifreiðir og tjaldvagn. Þá segir Íbúðalánasjóður að verðmæti bifreiða hafi verið kannað á vef Bílgreinasambandsins, en þann vef styðjist bílasalar almennt við þegar þeir verðmeti einstaka bifreiðir. Ekki sé að finna skráð viðmiðunarverð fyrir bifreiðarnar X og Y, en viðmiðunarverð bifreiðarinnar sé 2.814.000 kr. Það sé mat Íbúðalánasjóðs að ef reiknað sé með verðgildi bifreiðanna Æ og Y sem samtals 155.000 kr. eins og kærendur telji það vera og viðmiðunarverð bifreiðarinnar Æ á vef Bílgreinasambandsins lagt til grundvallar, þá yrði reiknuð skerðing á sömu forsendum ívið hærra, eða kr. 2.221.978 kr., en því megi segja að samtala á verðmæti annarra eigna í niðurstöðu útreikninga sé raunhæf og þar með sú skerðing sem reiknuð hafi verið á niðurfærslu lána.

 

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Að gefnu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að henni ber að fara eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð kærumála og er nefndinni óheimilt að úrskurða í máli sem ekki telst að fullu upplýst, en mikilvægur liður í því er að kærða sé gefið færi á því að lýsa afstöðu sinni til kærunnar. Því verður ekki fallist á þá kröfu kærenda að bréf Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar verði ekki hluti af gögnum máls og er úrskurður nefndarinnar byggður á skjölum málsins eins og þau liggja fyrir nefndinni, en þau hafa áður verið kynnt málsaðilum.

Í máli þessu er ágreiningur um verðmat íbúðar kærenda og bifreiðar í tengslum við niðurfærslu láns Íbúðalánasjóðs sem hvílir á íbúð kærenda. Kærendur telja verðmat fasteignar þeirra ekki gefa rétt mat af raunvirði hennar og hafa byggt á því að miða eigi við opinbert skráð fasteignamat fasteignarinnar, sem þau telja að endurspegli raunverulegt verðmæti fasteigna á landsbyggðinni.

Eins og fram hefur komið hefur við mat fasteignar kærenda verið byggt á mati löggilts fasteignasala sem aflað var af hálfu kærða svo sem heimilt er samkvæmt framangreindum reglum, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögun nr. 44/1998. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skuli miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar skal hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Í lið 1.3 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að við mat á verðmæti fasteigna skuli miðað við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem sé hærra. Ef kröfuhafi telji skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignarinnar kalli hann eftir verðmati löggilts fasteignasala á sinn kostnað. Svo sem að framan greinir nýtti kærði sér þessa heimild og leitaði til löggilts fasteignasala sem gaf vottorð um verðmæti fasteignarinnar sem sagt er dagsett 5. apríl 2011, en í vottorðinu kemur fram að það hafi verið byggt á skoðun fasteignarinnar þann 4. maí 2011, og er það sagt gefið að teknu tilliti til stærðar, ástands fasteignar kærenda sem og markaðsaðstæðna. Verður því að fallast á þá málsmeðferð sem viðhöfð var í máli kærenda þegar metið var verðmæti fasteignar kærenda, enda ekkert fram komið um að verðmat fasteignarinnar hafi verið haldið göllum, og verður því framangreint verðmat fasteignarinnar lagt til grundvallar við meðferð umsóknar kærenda.

Kærendur hafa einnig fært fram þau rök að við endurútreiknun lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði eigi einnig að taka tillit til láns þeirra hjá Arion banka hf. vegna fasteignakaupanna, en umrætt lán er með lánsveði í fasteign í eigu þriðja aðila. Einnig gera kærendur kröfu til þess að taka eigi tillit til kreditkortaskuldar þeirra. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem Íbúðalánasjóði var veitt heimild til þess að taka við afgreiðslum eftir hinni svokölluðu 110% leið, kemur fram að Íbúðalánasjóði sé heimilt að færa niður veðkröfur í eigu sjóðsins. Þessi regla er enn fremur áréttuð í lið 1.1 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, þar sem fram kemur að heimild til niðurfærslu taka eingöngu til áhvílandi veðskulda. Er því ljóst að Íbúðalánasjóði var hvorki heimilt að líta til láns kærenda hjá Arion banka hf. við útreikning á veðsetningarhlutfalli af verðmæti fasteignar þeirra né kreditkortaskuldar þeirra. Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber kærða að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur frá fyrrgreindum skilyrðum. Þar kemur skýrt fram að niðurfelling lána verður miðuð við þau lán sem hvíla á þeirri eign sem um ræðir og verður því ekki fallist á framangreindar málsástæður kærenda.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram við afgreiðslu umsókna um niðurfærslu lána skuli lækka fjárhæð niðurfærslu eigi umsækjandi aðrar aðfararhæfar eignir. Bankainnstæða kærenda kom til frádráttar niðurfærslu láns þeirra hjá Íbúðalánasjóði, auk tiltekinna lausafjármuna. Kærendur hafa gert kröfu um að umræddar bankainnstæður komi ekki til frádráttar niðurfærslu, þar sem þau séu í greiðsluaðlögun og hafi því verið skylt að leggja fyrir fé sem ekki hafi verið notað til framfærslu fjölskyldunnar. Í skýru orðalagi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði, kemur fram að aðfararhæfar eignir í skilningi laga um aðför, nr. 90/1989, komi til frádráttar niðurfærslu. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnistæður. Er ekki að finna heimild til handa Íbúðalánasjóði til þess að veita undanþágu frá þessu skilyrði og ber að líta á bankainnistæður sem aðfararhæfa eign sem kemur til frádráttar niðurfærslu lána hjá Íbúðalánasjóði. Skiptir þar ekki máli hvort umsækjandi hafi óskað eftir greiðsluaðlögun eftir lögum nr. 101/2010. Er því fallist á að litið verði til bankainnstæðna kærenda við afgreiðslu umsóknar þeirra.

Svo sem fram hefur komið eiga kærendur þrjár bifreiðar og tjaldvagn, en í endurútreikningi Íbúðalánasjóðs í máli kærenda, dags. 20. maí 2011, er miðað við skráð verð bifreiða í skattframtali að frádregnu 10% söluverði. Kærendur öfluðu verðmats frá bifreiðasölu og gera kröfu um að skerðing á niðurfærslu lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði verði miðuð við framlagt mat bifreiðasölunnar á verðmæti bifreiðanna X og Y, en að stuðst verði við viðmiðunarverð sem kærendur tilgreindu með vísan til upplýsinga vef Bílgreinasambandsins við verðmat á bifreið þeirra með skráningarnúmerinu Æ.

Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. ágúst 2011, kemur fram að Íbúðalánasjóður virðist hafa gert könnun á verði bifreiðanna þriggja á vef Bílgreinasambandsins, sem kærði tilgreinir sem vefinn bilko.is, að því er virðist í kjölfar þess að kæra var borin fram til kærunefndarinnar.

Úrskurðarefndin hefur áður ítrekað tekið afstöðu til framangreindrar málsástæðu. Af hálfu úrskurðarnefndar hefur verið á því byggt að ákvörðun Íbúðalánasjóðs um niðurfellingu skulda til samræmis við reglur laga nr. 29/2011 og samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila sé stjórnsýsluákvörðun og að fylgja beri málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við ákvarðanatökuna. Hefur Íbúðalánasjóði verið veitt heimild til þess að fella niður skuldir heimila til samræmis við fyrrgreint samkomulag með lögum nr. 29/2011. Ekki hafa verið gefnar út almennar reglur um framkvæmd niðurfærslunnar, þar á meðal um mat á greiðslubyrði lántaka og maka hans, mat á tekjum og verðmat fasteigna, svo sem mælt er fyrir um í 8. mgr. 1. gr. laganna.

Þá hefur úrskurðarnefndin einnig tekið fram að kærði geti ekki komist undan þeirri skyldu að meta verðmæti eigna þegar um þær er deilt eða þegar umsækjandi byggir á því að skráð opinbert mat þeirra sé ekki rétt. Þótt almennt megi styðjast við þær upplýsingar sem fram koma í skattframtölum umsækjenda, ber Íbúðalánasjóði að meta hvert og eitt mál sérstaklega, eftir atvikum að gefa umsækjanda kost á að sýna fram á raunverð eigna telji umsækjandi eignir hans rangt metnar við beitingu 2. mgr. 1. gr. nr. 29/2011. Það er jafnframt álit úrskurðarnefndarinnar að í því sambandi dugi ekki að afla upplýsinga um verðmæti eigna eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Þá virðist sem sú könnun sem fram fór af hálfu kærða hafi verið gerð á vefnum bilko.is, en það er heimasíða fyrirtækis sem býður upp á hjólbarðaþjónustu. Vefur Bílgreinasambandsins er hins vegar bgs.is.

Kærði áréttar að viðmiðunarverð bifreiðanna X og Y sé ekki að finna á vef Bílgreinasambandsins, en þar sé að finna skráð viðmiðunarverð bifreiðarinnar Æ, sem samkvæmt kærða er töluvert hærra en það viðmiðunarverð sem kærendur hafa tilgreint sem viðmiðunarverð bifreiðarinnar á sömu vefsíðu. Kærði tilgreinir þó ekki hvaða forsendur eða upplýsingar lágu að baki því verðmati sem Íbúðalánasjóður tilgreinir í bréfi sínu, dags. 10. ágúst 2011, eða með hverjum hætti það telst ítarlegra en framlögð vottorð löggilts bifreiðasala sem kærendur hafa lagt fram í málinu og byggð eru á skoðun bifreiðanna.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fyrrgreind aðferð kærða við mat á verðmæti bifreiða kærenda og þess hvort fyrir hendi sé aðfararhæf eign í skilningi fyrrgreindra reglna, uppfylli ekki þær kröfur sem gera verður til kærða til þess að meta raunverulegt verð þeirrar eignar sem telst aðfararhæf samkvæmt framansögðu. Úrskurðarnefndin telur að í ljósi mótmæla kærenda og þeirra upplýsinga sem fram koma í gögnum málsins, að kærða hafi verið rétt að kanna nánar raunvirði bifreiðanna í tengslum við afgreiðslu umsóknar kærenda. Það telst ekki hafa verið upplýst nægjanlega við meðferð umsóknar kærenda. Þetta atriði skiptir verulegu máli þar sem fyrrgreint verðmat eigna hefur bein áhrif á það hvort og hversu mikil lækkun skulda verður við afgreiðslu umsóknar kærenda. Tilefni virðist því til að rannsaka mál kærenda betur og ekki er talið unnt að bæta úr því á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Því er nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað þetta atriði varðar og vísa málinu aftur til Íbúðalánasjóðs til löglegrar meðferðar.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kærenda, dags. 20. maí 2011, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og að kærendur hafi fjögurra vikna frest til þess að kæra. Kærufrestur er nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun í máli A og B er felld úr gildi og málinu vísað aftur til Íbúðalánasjóðs til löglegrar meðferðar.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum