Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 74/2011

Miðvikudaginn 2. nóvember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 74/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 14. júní 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dags. 16. maí 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. maí 2011. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá umboðsmanni skuldara, dags. 2. maí 2011, sem liggur fyrir í málinu, ætti greiðsluerfiðleikafyrirgreiðsla að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 548/2001. Hins vegar er á því byggt að skekkja sé í útreikningum umboðsmanns skuldara þar sem við breytingu á lögum um tekjuskatt nr. 164/2010 frá 28. desember 2010 reiknast vaxtabætur hér eftir af greiddum vöxtum. Því uppfylli kærandi ekki það skilyrði að greiðslubyrði rúmist innan greiðslugetu eftir aðgerðir eins og áskilið er skv. 4. gr. reglugerðar nr. 548/2001. Kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð með hinni kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs sem kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 16. maí 2011. Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hans. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð þar sem greiðslubyrði væri umfram greiðslugetu, samkvæmt framansögðu.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 15. júní 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 30. júní 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. júlí 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 11. ágúst 2011.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi segir niðurstöðu Íbúðalánasjóðs um að synja honum og fjölskyldu hans um greiðsluaðlögun hafa komið verulega á óvart. Telur kærandi að fjölskylda hans hafi staðið sig vel í því að vinna í sínum skuldamálum þar til sparifé þeirra hafi verið uppurið um síðustu áramót. Þá segir kærandi að hann og maki hans hafi þurft að kljást við atvinnuleysi síðan í febrúar árið 2010. Einnig segir kærandi að fjölskyldan hafi misst húsnæði sitt sem þau hafi verið búin að gera upp frá grunni, í jarðskjálftanum í maí 2008. Í kjölfarið hafi tekið við endalausir flutningar milli leiguhúsnæðis þar til fjölskyldan hafi fest kaup á núverandi húsnæði sínu að B í október 2008. Kærandi segir að þá hafi tekið við endalaus veikindi fjölskyldunnar sem séu enn að hrjá þau, en veikindin hafi verið rekin til leyndra galla í fasteigninni með leka og þremur gerðum af myglusveppum. Kærandi segir að fjölskyldan hafi þurft að leggja út í kostnaðarsamar viðgerðir vegna þessara galla á fasteigninni, en kostnaður hafi farið fram úr áætlun. Því telji kærandi að synjun Íbúðalánasjóðs hafi verið ósanngjörn þar sem greiðsluerfiðleikaaðstoð af því tagi gæti bjargað þeirra málum.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að kærða hafi verið synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð þar sem breytingar hafi orðið á lögum um tekjuskatt, með lögum nr. 164/2010 frá 28. desember 2010, og því sé greiðsluerfiðleikamat umboðsmanns skuldara rangt hvað varðar greiðslubyrði eftir lok úrræða. Mánaðarlegar tekjur kæranda áætlist því ekki 496.702 kr. heldur um 50.000 kr. lægri og þar með rúmast greiðslubyrði ekki innan greiðslugetu eftir skuldbreytingu eins og áskilið sé í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 548/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda verið hafnað.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluaðstoð vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði rúmaðist ekki innan greiðslugetu. Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 548/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjenda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá umboðsmanni skuldara yrði greiðslubyrði kæranda umfram getu hans og uppfyllti hann því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar á því tímabili er Íbúðalánasjóður synjaði umsókn kæranda. Í máli þessu liggur fyrir að samkvæmt greiðsluerfiðleikamati umboðsmanns skuldara, dags. 2. maí 2011, voru eftirstöðvar lána í hans nafni 24.745.788 kr. Hefur skuldastaða kæranda breyst í kjölfar þess að lífeyrissjóðslán sem kærandi tók í sínu nafni fyrir hönd tengdaforeldra sinna hefur nú verið fært yfir á nafn tengdamóður hans samkvæmt fyrirliggjandi skuldskeytingareyðublaði, dags. 19. júlí 2011. Ber því að líta til þess að fjárhagslegar forsendur og greiðslubyrði kæranda hafa því breyst, en eftirstöðvar þess lífeyrissjóðsláns sem um ræðir voru á tímapunkti greiðsluerfiðleikamats umboðsmanns skuldara alls 4.407.175 kr., en mánaðarlegar afborganir námu 32.196 kr. Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá kæranda varðandi umrædda skuldskeytingu þann 11. ágúst 2011, en frestur kæranda til þess að koma athugasemdum og gögnum á framfæri til úrskurðarnefndarinnar rann út þann 19. júlí 2011. Kærandi hefur veitt þær skýringar að skuldskeytingin hafi beðið afgreiðslu sýslumannsins á C sem færði inn skuldskeytinguna þann 11. ágúst 2011, en ekki var hægt að ganga endanlega frá skuldskeytingunni þar til skiptum á dánarbúi tengdaföður hans lauk. Verður því að telja að dráttur kæranda á því að skila gögnum sé afsakanlegur.

Breyttar fjárhagslegar forsendur kæranda virðast gefa tilefni til þess að taka beri umsókn hans til meðferðar að nýju, en ekki er unnt að bæta úr því á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Því sé nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til Íbúðalánasjóðs til löglegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun í máli A er felld úr gildi og málinu vísað aftur til Íbúðalánasjóðs til löglegrar meðferðar.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum