Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2011

Hinn 10. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 32/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 20. apríl 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 12. apríl 2011 á beiðni kæranda um undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Krefst kærandi þess að sér verði veitt umrædd undanþága.

 

I. Málavextir og málsmeðferð.

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með umsókn, dags. 1. júlí 2010. Með bréfi þjónustumiðstöðvar Breiðholts til kæranda, dags. 19. ágúst 2010, var honum tilkynnt að umsókn hans hafi verið synjað, en skv. b-lið 4. gr. reglna um sérstakar húsaleigubætur og félagsleg húsnæði skal umsækjandi eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst, en kærandi uppfylli ekki þessi skilyrði. Í greinargerð Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 6. maí 2011, kemur fram að kæranda hafi verið bent á að unnt væri að sækja um undanþágu frá skilyrðinu og í framhaldinu hafi hann óskað eftir slíkri undanþágu. Í bréfi þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 26. ágúst 2010, hafi honum verið synjað um undanþáguna. Málið hafi verið endurupptekið á þjónustumiðstöð að beiðni kæranda og honum synjað að nýju af þjónustumiðstöð þann 30. nóvember 2010 á þeim forsendum að hann uppfyllti ekki skilyrði um þriggja ára búsetu, sbr. b-lið 4. gr. reglna um sérstakar húsaleigubætur og félagslegt húsnæði. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til velferðarráðs með bréfi dags. 6. desember 2010, en velferðarráð staðfesti synjunina 14. desember 2010.

Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins hjá velferðarráði með bréfi, dags. 30. mars 2011, á grundvelli breyttra aðstæðna, en íbúðin hafi verið seld á uppboði og hann bíði útburðar. Velferðarráð endurupptók mál kæranda og afgreiddi það á fundi sínum 12. apríl 2011 þar sem synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur var staðfest.

Í greinargerð þjónustumiðstöðvar Breiðholts vegna umsóknar kæranda um félagslegt leiguhúsnæði, dags. 6. desember 2010, kemur fram að kærandi hafi lánað kunningja sínum fé og hafi því ekki átt fyrir því að greiða af íbúð sinni þegar tekjur hans hafi skerst. Kærandi sé með tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði en það sé verið að draga af honum 25.000 kr. á mánuði vegna ofgreiðslu, en það sé vegna áætlunar sem hann hafi ekki getað fengið leiðrétta þar sem skatturinn telji hann og son hans hafa haft meira fyrir sölu nokkurra bifreiða en þeir hafi gefið upp. Kærandi hafi í þessum viðskiptum lánað nafn sitt á bílana og hafi þeir seldir með hagnaði en enginn kostnaður hafi verið færður á móti þeim hagnaði. Fram kemur að kærandi nái ekki að leiðrétta þessa áætlun. Kærandi hafi selt íbúð í Garðabæ fyrir um ári frá ritun greinargerðarinnar og hafi keypt íbúð í B sem hafi nú verið seld á uppboði og sé komin í eigu Íbúðalánasjóðs. Kærandi hafi fengið tilboð um að leigja íbúðina af sjóðnum á 90.000 kr. með hússjóði, í júní 2010. Hann hafi ekki getað þinglýst samningnum fyrr en í september þar sem íbúðin hafi alltaf verið á hans nafni. Kærandi hafi ekki greitt leiguna enda hafi hann ekki haft bolmagn til þess og nú sé hann krafinn um að flytja út eða greiða leigu frá upphafi eða síðan í júní 2010. Hann sé krafinn um að flytja út fyrir 1. janúar 2011. Hann ætli að óska eftir fresti þar til hann finni annað húsnæði.

Í tilvitnaðri greinargerð þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 6. desember 2010, kemur fram að tillaga ráðgjafa á þjónustumiðstöð Breiðholts hafi verið að synja erindi kæranda þar sem hann eigi ekki samfellda búsetusögu í Reykjavík og ekki sé um mikla félagslega erfiðleika að ræða. Fram kemur að það sé spurning hvort mæla eigi með erindinu til velferðarráðs í ljósi sérstöðu málsins. Kærandi virðist framtakslaus og einhvern veginn hafa glatað öllu sínu síðustu árin. Einnig hafi reynst erfitt að leiðrétta tekjur hans til jafns við aðra lífeyrisþega.

Í síðari greinargerð þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 30. mars 2011, kemur fram að kærandi eigi von á útburði á næstu vikum. Hann hafi leitað eftir lengri fresti en ekki fengið. Ráðstöfunartekjur hans séu rétt um 120.000 kr. á mánuði eftir skatt og áðurnefndar endurgreiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins leyfi ekki leigu á almennum markaði án ríflegs stuðnings. Heilsa kæranda hafi einnig leitt til þess að lyfja- og sjúkrakostnaður sé töluverður. Þrátt fyrir ítarlega leit á almennum markaði hafi kærandi ekki fundið íbúð undir 100.000 kr. á mánuði sem þýði húsnæðiskostnað upp á um 85.000 kr. með rafmagni eftir að þegnar hafi verið almennar húsaleigubætur. Til ráðstöfunar yrðu þá um 35.000 kr. til að standa straum af lyfjakostnaði og fyrir fæði og klæði. Sú fjárhæð sé langt undir öllum framfærslumörkum.

Kærandi flutti lögheimili sitt til Reykjavíkur þann 19. maí 2010, en í greinargerð þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 30. mars 2011, kemur fram að hann hafi þó búið í Reykjavík frá miðju ári 2009. Kærandi er uppalinn á Rangárvöllum en flutti þaðan 14 ára gamall og hann hefur, samkvæmt gögnum málsins, meðal annars búið í Keflavík, Reykjavík, Hafnarfirði og á Flateyri. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá flutti kærandi til Reykjavíkur árið 1998 og til Hafnarfjarðar 1999. Síðan flutti hann til Reykjavíkur árið 2006 og til Garðabæjar árið 2007. Loks flutti hann lögheimili sitt til Reykjavíkur 19. maí 2010.

Kærandi er 75% öryrki. Íbúð sem hann átti að B er nú komin í eigu Íbúðalánasjóðs.

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi búið að B frá árinu 2003 að undanskildu einu ári, en honum hafi láðst að flytja lögheimili sitt.

Eins og fram hefur komið óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með bréfi, dags. 30. mars 2011, á grundvelli breyttra aðstæðna. Í bréfinu kemur fram að hann bíði eftir útburði sem muni eiga sér stað á næstu vikum. Málið verði dómtekið á næstu dögum en ekki hafi fengist lengri frestur hjá Íbúðalánasjóði á fyrirtökunni. Kærandi kveður ráðstöfunartekjur sínar vera um 120.000 kr. á mánuði eftir skatt og endurgreiðslu til Tryggingastofnunar ríkisins. Þessar tekjur leyfi ekki greiðslu húsaleigu á almennum markaði án ríflegs stuðnings. Kærandi segir heilsu sína einnig hafa leitt til þess að lyfja- og sjúkrakostnaður sé töluverður. Þá hafi hann, þrátt fyrir ítarlega leit á almennum markaði, ekki fundið íbúð þar sem leigugreiðslur eru lægri en 100.000 kr. á mánuði sem þýði húsnæðiskostnað uppá um 85.000 kr. með rafmagni eftir að tekið hafi verið tillit til húsaleigubóta. Til ráðstöfunar yrðu þá um 35.000 kr. til þess að standa straum af lyfjakostnaði og fyrir fæði og klæði. Sú fjárhæð sé langt undir öllum framfærslumörkum.

 

III. Málsástæður kærða.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með áorðnum breytingum, upphaflega samþykktar í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004 með síðari breytingum.

Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar kemur fram að í 4. gr. reglnanna eru sett fram nánar tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þarf að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í b-lið 4. gr. reglnanna sé fjallað um að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar lögð er inn umsókn og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé skv. a-lið að veita undanþágu frá þriggja ára reglunni ef umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Einnig geti ráðgjafi veitt undanþágu, sbr. b-lið sömu greinar, byggðu á faglegu mati á því hvort um mikla félagslega erfiðleika er að stríða, sbr. lið 5 c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.

Velferðarráð telur að kærandi sé með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að kæra ákvörðun velferðarráðs frá 12. apríl 2011 þar sem mál kæranda frá 14. desember 2010 var endurupptekið.

Velferðarráð bendir á að kærandi hafi flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur 19. maí 2010 og uppfylli því ekki skilyrði b-liðar 4. gr. um að hafa átt lögheimili í Reykjavík a.m.k. síðustu þrjú ár áður en umsókn berst. Kærandi sé uppalinn á Rangárvöllum en hafi flutt þaðan 14 ára gamall og hafi meðal annars  búið í Keflavík, Reykjavík, Hafnarfirði og á Flateyri. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi flutt til Reykjavíkur 1998 en flutt til Hafnarfjarðar 1999. Hann hafi síðan flutt til Reykjavíkur 2006 og eftir það til Garðabæjar 2007 þar sem hann hafi búið þangað til hann flutti lögheimili sitt til Reykjavíkur 19. maí 2010. Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna þar sem kærandi hafi ekki búið stóran hluta ævi sinnar í Reykjavík og flutt tímabundið úr sveitarfélaginu á grundvelli þeirra ástæðna sem taldar eru upp í ákvæðinu.

Velferðarráð hafi heldur ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna þar sem kærandi eigi við fjárhagslega erfiðleika að etja en ekki sé unnt að líta svo á að hann eigi við mikla félagslega erfiðleika að ræða, sbr. lið 5 c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 27. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík, sem tóku gildi 1. mars 2004. Samkvæmt VII. kafla reglnanna fer málsmeðferð eftir ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og ákvæðum laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir búsetu í félagslegri íbúð, en ágreiningur er um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að veita kæranda undanþágu frá því skilyrði framangreindra reglna að hafa verið búsettur í Reykjavík þegar sótt er um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst með þeim hætti sem heimilað er í 5. gr. reglnanna.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild. Umsækjandi þarf að uppfylla öll þar til greind skilyrði a–e-liða til þess að umsókn öðlist gildi. Í b-lið 4. greinarinnar er gerð krafa um að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Í gögnum þessa máls kemur fram að samkvæmt Þjóðskrá hafi kærandi flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur 2006 og eftir það til Garðabæjar 2007 þar sem hann hafi búið þangað til hann hafi flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur 19. maí 2010. Kærandi heldur því fram að hann hafi búið lengur í Reykjavík en upplýsingar þessar gefa til kynna þar sem honum hafi láðst að flytja lögheimili sitt til Reykjavíkur þegar hann flutti þangað. Kærandi hefur ekki stutt þessa fullyrðingu sína neinum gögnum, en samkvæmt upplýsingum í skjölum málsins virðist hafa verið tilkynnt um breytt lögheimili kæranda samtals fjórum sinnum frá árinu 2003. Þann 11. ágúst 2005 var lögheimili kæranda flutt frá C að D í Garðabæ, þann 23. janúar 2006 frá C að B í Reykjavík, þann 1. september 2007 frá B að D í Garðabæ og þaðan að B þann 19. maí 2010.

Í 5. gr. a áðurnefndra reglna kemur fram að heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili þegar umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Enn fremur er hægt að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. reglnanna skv. b-lið sömu greinar þegar umsækjandi er samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1.

Eins og rakið hefur verið verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði 5. gr. a reglnanna um undanþágu frá skilyrðum 4. gr. þar sem hann hefur ekki búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar og ekki liggur fyrir að hann hafi flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu.

Í b-lið 5. gr. reglnanna kemur fram að veita megi undanþágu frá framangreindum reglum eigi umsækjandi við mikla félagslega erfiðleika að etja. Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar er tekið fram að kærandi eigi við fjárhagslega erfiðleika en ekki sé unnt að líta svo á kærandi eigi við mikla félagslega erfiðleika að etja. Hefur kærði vísað til liðar 5 c í matsviðmiði í fylgiskjali 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að af gögnum málsins megi ráða að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 5. gr. framangreindra reglna. Þá verður, samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu ráðið, að kærandi uppfylli ekki hið matskennda viðmið b-liðar 5. gr. reglnanna eins og hér stendur á. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 15. desember 2010, er kæranda bent á að hann getið skotið ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og skuli það gert innan fjögurra vikna. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011. Úrskurðarnefndin heitir nú úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála samkvæmt lögum nr. 66/2010.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 12. apríl 2011 í máli A er staðfest. 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 Margrét Gunnlaugsdóttir                    Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum