Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2007

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA

   

í málinu nr. 16/2007

 

Endurgreiðsla tryggingarfjár.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 4. september 2007, beindu A og B, hér eftir nefndar álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 18. september 2007, og athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 15. október 2007, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar miðvikudaginn 28. nóvember 2007.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 20. júní 2006, tóku álitsbeiðendur á leigu íbúð í eigu gagnaðila. Um var að ræða tímabundinn leigusamning fyrir tímabilið 1. júlí 2006 til 31. (sic) júní 2007. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

 

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðenda vera:

Að gagnaðili endurgreiði álitsbeiðendum tryggingarfé að fjárhæð 50.000 krónur.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að við undirritun leigusamnings hafi álitsbeiðendur greitt tryggingu að fjárhæð 50.000 krónur og átti hún að vera endurgreidd þegar álitsbeiðendur fluttu út. Þessi fjárhæð hafi hins vegar ekki verið greidd en álitsbeiðendur fluttu út 1. júlí 2007.

 

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að í síðasta samtali sem gagnaðili átti við annan álitsbeiðandann hafi gagnaðili skilið sem svo að hann væri að bíða eftir sundurliðun á kröfum álitsbeiðenda. Gagnaðili telur að skuld álitsbeiðenda við sig nemi 7.140 krónum á mánuði í tíu mánuði. Þessi fjárhæð sé hærri en trygging álitsbeiðenda og ef álitsbeiðendur vilji ekki greiða fyrir allt þá eigi þeir að minnsta kosti að greiða fyrir notkunina.

 

Í athugasemdum álitsbeiðenda kemur fram íbúðin hafi verið auglýst til leigu á 97.000 krónur og allur kostnaður hafi átt að vera innifalinn, nema rafmagn sem álitsbeiðendur hafi greitt sjálfir. Þá hafi álitsbeiðendur greitt tveggja mánaða leigu og 50.000 krónur í tryggingarfé þegar þeir fluttu inn og jafnframt hefðu álitsbeiðendur átt að fá tilbaka tryggingarfé þegar þeir fluttu. Álitsbeiðendur skilji ekki kröfu gagnaðila. Varla hafi rafmagn í sameign verið notað upp á þessa fjárhæð. Þar séu einungis nokkrar geymslur, fyrir utan að þar sé rekið gistiheimili og þurrkari í mikilli notkun. Það hafi heldur engin þrif verið í sameign og hafi álitsbeiðendum skilist að gagnaðila beri að borga lyftuviðhald og viðhald á húsinu. Það hafi sem sagt aldrei nein fjárhæð verið til umræðu fyrir utan 97.000 krónurnar þar til núna þegar álitsbeiðendur vildu tryggingarféð aftur.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 39. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, getur leigusali við upphaf leigutíma krafið leigjanda um tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningi. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. getur trygging meðal annars verið í formi tryggingarfjár sem leigjandi greiðir til leigusala og hann varðveitir.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga skal leigusali að leigutíma loknum segja til svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi áskilnað um það. Ella skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt verðbótum án ástæðulauss dráttar. Leigusala er aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu án þess að gera kröfu í það lengur en í tvo mánuði frá skilum húsnæðis, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna.

Gagnaðili hefur með engu móti sýnt fram á að álitsbeiðendur hafi ekki að fullu leyti efnt leigusamning aðila samkvæmt hljóðan hans. Ber gagnaðila því að skila álitsbeiðendum umræddu tryggingarfé svo sem þeir gera kröfu um.

    

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að skila álitsbeiðendum tryggingarfé að fjárhæð 50.000 krónur.

 

Reykjavík 28. nóvember 2007

 

Valtýr Sigurðsson

Benedikt Bogason

Þórir Karl Jónasson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum