Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 1999 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 86/1998

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 86/1998

 

Ákvörðunartaka: Breiðbandið.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 1998, beindi A, X nr. 4, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 4, hér eftir nefnt gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi kærunefndar 9. desember 1998. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 25. janúar 1999, var lögð fram á fundi nefndarinnar 3. febrúar sl. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Um er að ræða fjölbýlishúsið X nr. 4. Á húsfundi sem haldinn var þann 3. nóvember 1998 fór fram kynning á breiðbandi Landsímans. Á fundinn mættu 18 eigendur af 35. Á fundinum kom fram að sjónvarpsmerkið í neðstu íbúðunum væri ekki nægilega gott. Lagt var til að skipt yrði um sjónvarpslagnir milli íbúðanna og tengla til að bæta ástandið og í leiðinni að tengjast breiðbandinu. Tilboð var lagt fram í viðgerðir og endurbætur á sjónvarpskerfinu. Var tilboðið samþykkt með 17 atkvæðum gegn 1 atkvæði álitsbeiðanda.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að samþykkt húsfundar þann 3. nóvember 1998 um breiðbandstengingu sé ólögmæt.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi telur að gagnaðili geti ekki gert honum skylt að taka þátt í kostnaði við breiðbandið. Breiðbandstenging falli ekki undir viðhald hússins.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að gagnaðili telur ákvörðun húsfundar um breiðbandstengingu lögmæta. Gagnaðili bendir á að meginreglan sé sú, að einfaldur meirihluti geti tekið ákvarðanir um sameiginleg málefni og heyri það til undantekninga að aukinn meirihluti eða allir eigendur þurfi að samþykkja ákvörðun. Það leiði af viðteknum lögskýringarreglum og sjónarmiðum að túlka beri undantekningar frá meginreglunni þröngt þannig að jafnan séu líkur á því að til ákvarðana nægi samþykki einfalds meirihluta.

Gagnaðili telur að samþykki allra sé ekki nauðsynlegt til að tengjast breiðbandinu. Hér sé ekki um að ræða óvenjulegan og dýran útbúnað þannig að samþykki allra þurfi til þeirrar ákvörðunar, sbr. 11. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Breiðbandstenging sé langt frá því að teljast óvenjulegur og dýr útbúnaður. Ekki sé um flottheit (lúxus) að ræða. Við mat þess verði að líta til kostnaðar við slíkar tilfæringar, en kostnaður vegna þessa sé óverulegur. Þá verði að gera þær kröfur að sjónvarpslofnet anni eðlilegum sjónvarpsútsendingum.

Gagnaðili bendir á að afstætt sé hvað teljist vera venjulegar sjónvarps- og útvarpssendingar. Lagatúlkun og mat á því hvað sé venjulegt og hvað sé óvenjulegt og hvað falli innan valdsviðs húsfélags og hvað utan þess, sé afstætt. Það sem hafi verið óvenjulegt fyrir örfáum árum kunni að vera orðið venjulegt í dag. Það sé ljóst að tækniþróunin sé alltaf feti á undan lagatúlkuninni að þessu leyti. Þannig hafi erlendar sjónvarpsútsendingar fyrir nokkrum árum talist óvenjulegar, en þykja í dag sjálfsagðar og eðlilegar, eins og t.d. Fjölvarp Íslenska útvarpsfélagsins, sem hafi sambærilegan fjölda rása og breiðbandið. Auk þess sé yfirgnæfandi meirihluti sjónvarpsefnis í Fjölvarpinu og á breiðbandinu hið sama.

Þá bendir gagnaðili á að hluti þeirra tilfæringa sem ágreiningur sé um líti að viðhaldi sjónvarpslagna í húsinu. Sjónvarpsmerki í íbúðum á neðstu hæðum séu ekki nægilega góð og ljóst að lagfæringa sé þörf sjónvarpskerfinu. Núverandi kerfi sé ófullnægjandi og samrýmist ekki nútíma kröfum um fjölmiðla. Þá muni breiðbandið verða lagt að öllum heimilum á landinu og sé grundvöllur tækniframfara í fjarskiptum á næstu árum og telur gagnaðili að sú niðurstaða að samþykki allra þyrfti til þeirrar ákvörðunar að tengjast breiðbandinu hefði mjög hamlandi áhrif á eðlilega tækniþróun.

 

III. Forsendur kærunefndar.

Í 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er að finna reglur varðandi ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum. Meginreglan er sú að til ákvarðana húsfélags þurfi samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur á löglega boðuðum húsfundi, sbr. D-lið 41. gr. Slík ákvörðun er bindandi fyrir aðra íbúðareigendur þrátt fyrir að þeir séu henni mótfallnir. Í A-, B- og C-liðum 41. gr. er að finna undantekningar frá meginreglunni í D-lið.

Húsfundur þar sem mættir voru 18 af 35 eigendum samþykkti með 17 atkvæðum gegn 1 atkvæði að taka tilboði sem lagt var fyrir fundinn um viðgerð á sjónvarpslögnum í húsinu samhliða endurbótum til að tengjast breiðbandi Landsímans.

Samkvæmt því sem upplýst var á fundinum taldist heildarkostnaður kr. 8.785 á íbúð sem gat lækkað í kr. 6.535 ef næsta hús væri einnig með í framkvæmdunum.

Útbúnaður fyrir breiðbandið er ekki venjulegur og áskilinn búnaður í fjölbýlishúsum, gagnstætt því sem er um móttökubúnað fyrir venjulegar sjónvarps- og útvarpssendingar, sbr. ákvæði kafla 8.1.20. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum. Kærunefnd telur því að uppsetning slíks búnaðar og áskrift að sjónvarpsefni í gegnum hann sé slík ráðstöfun að samþykki allra íbúðareigenda þurfi til, sbr. 11. tl. A- liðar 41. gr. Einnig ber að vísa til 12. tl. A- liðar 41. gr. þessu til stuðnings. Hins vegar er eðlilegt að þeir íbúðareigendur sem kjósa að tengjast breiðbandinu og reka það geri slíkt sameiginlega, enda hafi þeir heimild húsfélagsins til þess. Skal þá kostnaði vegna framkvæmdanna haldið aðskildum frá viðgerð á sjónvarpskerfi hússins.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að samþykkt húsfundar þann 3. nóvember 1998 um breiðbandstengingu sé ólögmæt.

 

 

Reykjavík, 3. febrúar 1999.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum