Hoppa yfir valmynd
17. maí 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2000

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

Mál nr. 9/2000

 

Ákvörðunartaka: Kattahald.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2000, beindi A, X nr. 4, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, erindi til nefndarinnar vegna ágreinings við B, C, og D, öll til heimilis að X nr. 4, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 29. febrúar 2000. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð D, dags. 10. mars 2000, var lögð fram á fundi nefndarinnar 22. mars sl. Á fundi nefndarinnar 13. apríl sl. voru lagðar fram athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 21. mars og 4. apríl 2000, og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 4. Húsið skiptist í átta eignarhluta. Ágreiningur er um kattahald.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé:

Að kattahald sé óheimilt í húsinu þar sem samþykki liggi ekki fyrir.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að haldnir séu kettir í húsinu án þess að samþykki liggi fyrir. Kettirnir gangi lausir í stigaganginum og geri þar þarfir sínar og á svölum hússins. Það lendi því oft á öðrum íbúum að þrífa eftir kettina. Af átta eigendum séu fimm á móti kattahaldi, einn hlutlaus og tveir með ketti. Þá séu tveir íbúar hússins með ofnæmi fyrir köttum.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að hann sé búinn að vera með kött í húsinu síðastliðin þrjú ár án þess að aðrir eigendur hússins hafi gert við það athugasemdir. Í hverfinu sé mjög mikið af hundum og köttum og virðist sem þeim sé hleypt inn í stigaganginn.

 

III. Forsendur

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing, dags. 16. febrúar 2000, þar sem eigendur fjögurra eignarhluta gera kröfu um að kettir sem gangi lausir í húsinu verði fjarlægðir af borgaryfirvöldum. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2000, dregur einn þessara eigenda undirskrift sína til baka.

Samkvæmt 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda til ákvörðunar um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.

Þar sem ekki liggur fyrir samþykki allra eigenda hússins fyrir kattahaldi þá er það álit kærunefndar að kattahald sé óheimilt að X nr. 4.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að kattahald sé óheimilt í húsinu þar sem samþykki allra eigenda liggi ekki fyrir.

 

 

Reykjavík, 17. maí 2000

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum