Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 46/2008

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

   

í málinu nr. 46/2008

 

Krafa um fullskipaða stjórn.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 6. október 2008, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 1–15, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 18. október 2008, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar miðvikudaginn 19. nóvember 2008.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 1–15, alls 48 eignarhluta, sem byggt var árin 1978 og 1979. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í stigagangi X nr. 9. Ágreiningur er um stjórn húsfélagsins.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé:

Að komið verði á fullskipaðri stjórn í húsinu X nr. 1–15.

 

Í álitsbeiðni er bent á að í fjöleignarhúsi með framangreindum íbúðafjölda skuli skv. 66. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, kjósa á aðalfundi þriggja manna stjórn, þ.e. formann og tvo aðra, sem skipta með sér verkum. Auk þessa skuli kjósa jafn marga varamenn.

Kemur fram í álitsbeiðni að í húsinu hagi þannig til að formaður húsfélagsins fari með alræðisvald og virðist sem íbúar séu ofurseldir ákvörðunartöku hans í einu og öllu, enda engir aðrir stjórnarmenn kjörnir á síðasta aðalfundi, en aðeins vitnað til „annarra í stjórn“ og þeir hinir sömu jafnframt varamenn sjálfra sín, svo fráleitt sem það sé.

Þá kemur fram í álitsbeiðni að þegar álitsbeiðandi hafi leitað eftir upplýsingum um stjórnarmenn húsfélagsins, fyrir utan formanninn, hafi engin svör fengist. Hver hafi vísað á annan og engin hafi viljað kannast við að vera stjórnarmaður. Sá sem halda á utan um fjármál húsfélagsins hafi meira að segja ekki kannast við að vera stjórnarmaður, hann væri aðeins starfsmaður stjórnar.

Að lokum kemur fram í álitsbeiðni að augljóst sé að ábyrg og fullskipuð stjórn verði að sitja í húsfélagi sem þessu til að hún geti fjallað á trúverðugan hátt um mál sem snerti hag allra íbúa, oft á tíðum málefni sem snerti fjárhag þeirra í stóru sem smáu. Þá sé það lágmarkskrafa að íbúar geti leitað til fullskipaðrar húsfélagsstjórnar, kalli aðstæður á slíkt. Krefst álitsbeiðandi þess að fullskipaðri stjórn verði komið á sem fyrst.

 

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þessi háttur á skipan í stjórn húsfélagsins hafi verið hafður á í áratugi án vandkvæða og lýst er yfir stuðningi við formann húsfélagsins.

Kemur fram í greinargerð að á næsta aðalfundi sem haldinn verði á vori komandi verði kosið í stjórn samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Að lokum kemur gagnaðili því á framfæri að álitsbeiðandi hafi á undanförnum mánuðum haft í hótunum við réttkjörinn formann húsfélagsins vegna annars máls, sem og gjaldkera. Álitsbeiðandi hafi haft í hótunum að senda lögfræðing á gagnaðila vegna þess en ljóst sé að það hafi ekki borið árangur. Því hafi álitsbeiðandi ákveðið að ná sér niðri á formanni og stjórn húsfélagsins með því að kæra þá leið sem notuð hafi verið við stjórnarkjör.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, skal vera stjórn í húsfélagi sem kosin er á aðalfundi, sbr. þó 1. mgr. 67. gr. Stjórn húsfélags skipa að jafnaði a.m.k. þrír menn og er einn þeirra formaður sem kosinn skal sérstaklega, sbr. 2. mgr. 66. gr.

Í 4. lið fundargerðar aðalfundar sem haldinn var í húsfélaginu X nr. 1–15 þann 16. apríl 2008 kemur fram að einn eigandi gaf kost á sér sem formaður og að sú kosning var samþykkt með lófaklappi. Jafnframt kemur fram í 5. lið fundargerðarinnar að lagt sé til að gjaldkerar í hverjum stigagangi fyrir sig séu stjórnarmenn í húsfélaginu eins og verið hafi. Það var jafnframt samþykkt með lófaklappi. Í 6. lið fundargerðarinnar kemur fram að lagt sé til að varamenn séu stjórnarmenn í hverjum stigagangi fyrir sig og að það hafi einnig verið samþykkt með lófaklappi.

Það er álit kærunefndar að til að fullnægja formkröfum um stjórnarkjör verði að tilgreina nöfn þeirra aðila sem í kjöri eru hverju sinni eða hljóta kosningu. Í þessu tilviki var það ekki gert. Þrátt fyrir að ekki hafi aðrir verið í kjöri telst stjórnarkjörið hafa verið haldið formgalla að þessu leyti og telst því ólögmætt. Af hálfu gangaðila hefur komið fram að úr þessum formgalla verði bætt.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að kosin stjórn hafi verið ólögmæt.

 

Reykjavík, 19. nóvember 2008

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum