Hoppa yfir valmynd
7. júní 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2007

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

  

í málinu nr. 16/2007

 

Ráðstöfun bílskúrs, kaupréttur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 11. apríl 2007, beindi A, f.h. húsfélagsins X nr. 28, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 2. maí 2007, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar fimmtudaginn 7. júní 2007.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 28, alls tíu eignarhluta. Húsinu fylgja bílskúrar og var gagnaðili eigandi að einum bílskúrnum. Ágreiningur er um sölu umrædds bílskúrs.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að álitsbeiðandi geti gengið inn í kaupsamning vegna umrædds bílskúrs og keypt bílskúrinn.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að stjórn húsfélagsins hafi við athugun eignaskiptayfirlýsingar séð að bílskúr sem tilheyrt hefur húsinu hafi verið seldur aðila utan hússins X nr. 28.

Bendir álitsbeiðandi á að skv. 22. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sé sala bílskúrs eða framsal bílskúrsréttinda til annarra en eigenda í viðkomandi húsi óheimil. Hvorki álitsbeiðanda né öðrum eigendum í húsinu hafi ekki verið gerð grein fyrir sölu á þessum bílskúr.

Þá gerir álitsbeiðandi þá kröfu að hann geti gengið inn í kaupsamning þann er gerður hafi verið 20. júní 2005 um sölu bílskúrsins og þannig eignast bílskúrinn. Samningur sá sé ólöglegur samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þegar hann hafi selt S ehf. í júní 2005 hafi hann eignast bílskúr sem fyrirtækið hafi átt að X nr. 28. Enginn kaupsamningur hafi verið gerður, aðeins afsal skúrsins sem sé þinglýst.

Greinir gagnaðili frá því að honum hafi ekki verið kunnugt um þessi lög varðandi sölu á eignarhlut í fjölbýli og hafi þetta því verið gert í góðri trú. Gagnaðila finnist hins vegar einkennilegt að skjalinu fáist þinglýst þar sem þeim sem annist slíkt ætti að vera kunnugt um að samþykki eigenda íbúða í húsinu þyrfti til.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum, skulu bílskúrar, hvort sem þeir eru innbyggðir í hús, sambyggðir því eða standa sjálfstæðir á lóð þess jafnan fylgja tilteknum séreignarhluta í húsi og er sérstök sala þeirra eða framsal bílskúrsréttinda til annarra en eigenda í húsinu óheimil. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um að eiganda sé jafnframt óheimilt að undanskilja bílskúr eða bílskúrsréttindi við sölu á eignarhluta sínum í fjölbýlishúsi nema hann eigi þar annan eignarhluta.

Í 22. gr. a laga nr. 26/1994 kemur fram að bílskúr í eigu utanaðkomandi aðila sé heimilt að selja aðila utan fjöleignarhússins enda hafi hann boðið eigendum hússins forkaupsrétt og þeir hafnað.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð síðar að lögum nr. 26/1994 er tekið fram um 22. gr. að í ákvæðinu felist sú meginregla að óheimilt sé að ráðstafa bílskúr út fyrir fjöleignarhús. Byggist reglan á því að óeðlilegt sé að bílskúr á lóð fjöleignarhúss sé í eigu einhvers utanaðakomandi, sökum verulegra óþæginda sem af því skapist, meðal annars vegna eignar- og afnotaréttar lóðar, þátttöku í húsfélagi o.fl. Þóttu þessi rök vega þyngra en hagsmunir eigenda af því að hafa frjálsan ráðstöfunarrétt bílskúrs.

Af gögnum málsins er að skilja að fyrrum fyrirtæki gagnaðila, S ehf., hafi verið eigandi umrædds bílskúrs. Við sölu gagnaðila á fyrirtækinu hafi bílskúrnum verið afsalað til hans.

Óumdeilt er að eigendum fjölbýlishússins X nr. 28 var ekki boðinn forkaupsréttur að bílskúrnum við sölu hans eins og ákvæði 22 gr. a laga nr. 26/1994 áskilja. Salan telst því ólögleg. Gagnaðili er hins vegar lögformlegur eigandi bílskúrsins en afsali til hans, dagsettu 10. júní 2005, er þinglýst á eignina. Löggerningur þessi telst því gildur og er það ekki á sviði kærunefndar að kveða á um það að álitsbeiðandi geti gengið inn í samninginn eins og krafa er gerð um í málinu. Húsfundur gæti hins vegar samþykkt að freista þess að fá samninginn ógiltan með dómi ef ekki næst samkomulag um annað. Náist ekki samþykki húsfundar getur hver og einn eigandi, á eigin kostnað og áhættu, staðið að slíkri málshöfðun.

      

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að sala bílskúrs við X nr. 28 til gagnaðila hafi verið ólögmæt. Á hinn bóginn er gagnaðili nú lögformlegur eigandi skúrsins. Það er utan valdsviðs kærunefndar að víkja samningnum til hliðar.

 

Reykjavík, 7. júní 2007

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum