Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 472/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 6. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 472/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090033

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 274/2018 frá 14. júní 2018 var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. apríl 2018 um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Spánar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. júní 2018. Þann 30. júlí sl. barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar nr. 359/2018, dags. 23. ágúst sl., var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað.

Þann 19. september sl. óskaði kærandi öðru sinni eftir endurupptöku sem og frestun framkvæmdar á úrskurði nefndarinnar nr. 274/2018. Með þeirri beiðni fylgdu greinargerð og fylgigögn. Þann 21., 25. og 28. september og 19. og 22. október sl. bárust viðbótarupplýsingar frá kæranda. Þá bárust kærunefnd upplýsingar frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra þann 15. og 22. október sl. Með úrskurði kærunefndar nr. 456/2018, dags. 22. október sl., féllst nefndin á beiðni kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði nefndarinnar nr. 274/2018 þar til nefndin hefði afgreitt síðari beiðni kæranda um endurupptöku, sem nú er tekin til meðferðar. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda þann 5. nóvember 2018.

Kærandi krefst þess að mál hans verði endurupptekið á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá krefst kærandi þess aðallega að kærunefnd feli Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara krefst kærandi þess að málið verði sent Útlendingastofnun til nýrrar meðferðar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 274/2018 frá 14. júní 2018. Í þeim úrskurði hafi nefndin lagt til grundvallar að kærandi væri haldinn ákveðnum andlegum kvillum og hafi m.a. verið með einkenni þunglyndis og áfallastreitu. Nefndin hafi þó ekki metið ástand kæranda svo alvarlegt að hann teldist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hafi Útlendingastofnun komist að sömu niðurstöðu. Kærandi bendir á að þetta mat stjórnvalda hafi byggst á afar takmörkuðum upplýsingum líkt og bent hafi verið á í endurupptökubeiðni kæranda frá 30. júlí 2018. Nú liggi fyrir vottorð sérfræðings þess efnis að kærandi hafi verið lagður inn á geðdeild Landspítala þann 29. ágúst sl. og sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi.

Kærandi telji að íslensk stjórnvöld hefðu komist að þeirri niðurstöðu að hann væri einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, hefðu ofangreindar upplýsingar legið fyrir við mat þeirra og þannig hafi málsatvik breyst verulega. Kærandi telji það nú hafið yfir allan vafa að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í fyrri greinargerð kæranda til kærunefndar sé að finna umfjöllun um mikilvægi þess að einstaklingur teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu við mat á sérstökum ástæðum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af þeirri umfjöllun telji kærandi að íslenskum stjórnvöldum beri að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar.

Fallist kærunefnd ekki á að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar fer kærandi fram á að umsóknin verði send aftur til Útlendingastofnunar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga. Því skuli beint sérstaklega til stofnunarinnar að gæta að ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga með því að kalla eftir áliti sérfræðings á ástandi kæranda að lokinni útskrift hans af Landspítalanum.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 5. nóvember sl., kemur m.a. fram að þó kærandi kunni heilsu sinnar vegna að vera fær um að ferðast erlendis, skv. læknisvottorði frá 17. október sl., sé hann ekki fær um að takast á við aðstæður á Spáni.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með beiðni kæranda um endurupptöku þann 19. september 2018 og með tölvupóstum þann 21., 25. og 28. september sl. fylgdu læknisfræðileg gögn og upplýsingar um kæranda sem ekki lágu fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í málum hans. Fylgigögnin eru m.a. læknisvottorð ritað af sérfræðingi á Landspítalanum, dags. 11. september sl., þar sem kemur fram að kærandi hafi þann 29. ágúst sl. verið lagður inn á geðdeild. Þá kemur m.a. fram í vottorði um nauðungarvistun, dags. 31. ágúst sl., sem yfirlæknir á bráðageðdeild ritar, að kærandi hafi þá talist vera alvarlega þunglyndur og með undirliggjandi geðrofseinkenni.

Frekari gögn bárust frá kæranda þann 19. og 22. október sl., þar á meðal afrit af úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 19. september sl. í máli nr. […]. Í úrskurðinum kemur m.a. fram að þann 29. ágúst sl. hafi kærandi verið nauðungarvistaður á Landspítalanum í þrjá sólahringa. Með ákvörðun sýslumanns þann 31. sama mánaðar hafi vistun hans verið framlengd um 21 dag frá þeim degi að telja. Þann 17. september sl. hafi héraðsdómi borist krafa velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að nauðungarvistun kæranda skyldi framlengd um 12 vikur, sbr. 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfuna og nauðungarvistun kæranda framlengd um 12 vikur frá og með 20. september sl.

Þá hefur kærandi jafnframt lagt fram gögn um dvöl sína á Landspítalanum, dags. 29. ágúst til 15. október sl., auk læknisvottorðs, dags. 17. október sl.

Það er mat kærunefndar þegar litið er til eðlis gagnanna, forsendna úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 274/2018 frá 14. júní 2018 og málsins í heild að fallast beri á að ný gögn og upplýsingar hafi komið fram sem sýni fram á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem liggja fyrir.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

 

IV.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin), en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Spánar er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli. 

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Í úrskurði kærunefndar frá 14. júní 2018 var fjallað um þau gögn sem lágu þá fyrir varðandi heilsufar hans. Með vísan til gagna málsins var lagt til grundvallar að kærandi þjáðist af ákveðnum andlegum kvillum og væri m.a. með einkenni þunglyndis og áfallastreitu. Kærunefnd mat andlegt ástand kæranda þó ekki svo alvarlegt að hann teldist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðaði meðferð máls hans hér á landi, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Líkt og að framan greinir lagði kærandi fram ný gögn með beiðni um endurupptöku þann 19. september sl. Þann 21., 25. og 28. september sl. og 19. og 22. október sl. bárust viðbótarupplýsingar og gögn frá kæranda. Meðal annars er um að ræða læknisvottorð, ritað af sérfræðingi á Landspítalanum, dags. 11. september sl., þar sem kemur fram að kærandi hafi þann 29. ágúst sl., verið lagður inn á geðdeild og þá segir í nauðungarvistunarvottorði, dags. 31. ágúst sl., að kærandi hafi þá talist vera alvarlega þunglyndur og með undirliggjandi geðrofseinkenni. Þá liggur fyrir áðurnefndur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að nauðungarvistun kæranda skyldi framlengd um 12 vikur frá og með 20. september sl.

Þá er greint frá því í gögnum frá Landspítala, dags. 29. ágúst til 15. október sl., að kærandi, sem lagður hafi verið inn vegna geðrofseinkenna, hafi m.a. sýnt af sér undarlega og truflandi hegðun, illa hafi gengið að fá hann til að taka lyf og þá hafi þurft að sprauta kæranda gegn vilja hans. Þá hafi kærandi talið sig heyra ofskynjanir og hugsað um að skaða sjálfan sig. Í gögnum frá 10. til 15. október sl. kemur fram að kærandi virðist hafa sofið betur og að lyfjagjöf hafi verið aukin vegna heyrnarofskynjana. Í læknisvottorði, dags. 17. október sl., ritað af sérfræðingi í geðlækningum, kemur m.a. fram að útskrift kæranda sé fyrirhuguð eftir tvo daga og meðferð hans hafi borið nokkurn árangur. Kærandi hafi að mestu verið samvinnufús við lyfjagjöf en við útskrift sé honum gert að halda áfram inntöku fimm nánar tilgreindra lyfja.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins telur kærunefnd að atriði er varða aðstæður kæranda, þ.e. einkum heilsufar hans, séu nægilega upplýstar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi nýrra gagna málsins er það mat kærunefndar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð á Spáni

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð á Spáni, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·         Asylum Information Database, Country Report: Spain (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018),

·         2017 Country Reports on Human Rights Practices – Spain (United States Department of State, 20. apríl 2018),

·         Asylum Information Database, The detention of asylum seekers in Europe: Constructed on shaky ground? (European Council on Refugees and Exiles, júní 2017),

·         Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Spain (UNHCR, júní 2014),

·         Handbook on European law relating to asylum, borders and immigration (European Union Agency for Fundamental Rights, Council of Europe 2014),

·         Freedom in the World 2017 – Spain (Freedom House, 12. júlí 2017),

·         Amnesty International Report 2017/18 – Spain (Amnesty International, 22. febrúar 2018),

·         Concluding observations on the sixth periodic report of Spain (UN Committee against Torture, 29. maí 2015),

·         Immigration Detention in Spain (Global Detention Project, nóvember 2016),

·         Report to the Spanish Government on the visit to Spain carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment from 14 to 18 july 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 9. apríl 2015) og

·         Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Spain from 3 to 7 June 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 9. október 2013).

Spánn er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda á Spáni leitast þarlend stjórnvöld við að úthluta þeim gistingu í þeirri móttökumiðstöð sem hentar hverjum og einum umsækjanda sem best. Þá er umsækjendum tryggður endurgjaldslaus aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu til jafns við spænska ríkisborgara og aðra einstaklinga sem hafa dvalarleyfi á Spáni. Jafnframt geta umsækjendur, þ.m.t. þeir sem hafa orðið fyrir líkamlegu eða andlegu ofbeldi eða misnotkun, fengið aðgang að sérhæfðari heilbrigðisþjónustu.

Í framangreindum skýrslum er þess þó m.a. getið að í spænskum lögum um alþjóðlega vernd sé ekki kveðið á um sérstaka verkferla með það fyrir augum að greina á byrjunarstigi hvort umsækjendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í framkvæmd geti slík greining þó að vissu leyti farið fram í viðtölum opinberra fulltrúa við umsækjendur, hjá borgaralegum samtökum og í móttökumiðstöðvum. Vegna mikils fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni hafi það þó reynst nokkrum vandkvæðum bundið að greina með fullnægjandi hætti hvort umsækjendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í spænska móttökukerfinu sé þó reynt að meta hvort umsækjendur sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafi einhverjar sérþarfir. Þá sé slíkum umsækjendum sýndur aukinn sveigjanleiki í spænska móttökukerfinu, en þeim geti t.d. verið heimilt að dvelja lengur í móttökumiðstöðum en almennt eigi við. Aftur á móti segir í ofangreindum skýrslum að þau úrræði sem spænska kerfið búi yfir hvað varði umsækjendur í sérstaklega viðkvæmri stöðu séu almenn og nái ekki utan um sérþarfir þeirra sem séu í hvað alvarlegastri stöðu. Þeir umsækjendur geti þó sótt sérhæfðari þjónustu til utanaðkomandi þjónustuaðila.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum varðandi 3. gr. sáttmálans er það einungis í afar sérstökum tilvikum sem flutningur veikra einstaklinga til annars ríkis nær alvarleikaþröskuldi ákvæðisins, n.t.t. þegar sýnt hefur verið fram á að skortur á viðeigandi læknismeðferð í móttökuríki, eða skortur á aðgengi að slíkri meðferð, geri einstakling útsettan fyrir alvarlegri, hraðri og óafturkræfri hnignun á heilsufari sem leitt getur til mikillar þjáningar eða verulegrar skerðingar á lífslíkum, sbr. Paposhvili gegn Belgíu (mál nr. 41738/10) frá 13. desember 2016. Þá benda að mati kærunefndar öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Spáni bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vegna umfjöllunar í viðbótarathugasemdum kæranda frá 5. nóvember 2018 tekur kærunefnd jafnframt fram að í ljósi viðmiða Mannréttindadómstóls Evrópu um einstaklingsbundnar tryggingar vegna endursendinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, einkum í máli Tarahkel gegn Sviss (mál nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2014, Ali ofl. gegn Sviss og Ítalíu (mál nr. 30474/14) frá 4. október 2016 og H ofl. gegn Sviss og Ítalíu (mál nr. 67981/16) frá 15. maí 2018, telur nefndin telur ekki ástæðu til að gera kröfu um að fyrir liggi einstaklingsbundin trygging varðandi móttöku kæranda frá spænskum yfirvöldum.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Af þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggja fyrir í málinu er ljóst að þau andlegu veikindi sem háð hafa kæranda teljast alvarleg, líkt og jafnframt má ráða af áðurnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að kærandi skyldi sæta framlengdri nauðungarvistun í 12 vikur. Til þess er þó einnig að líta að samkvæmt áðurnefndu læknisvottorði, dags. 17. október sl., stóð nauðungarvistun kæranda yfir í mun skemmri tíma en 12 vikur, en kærandi var útskrifaður þann 19. október sl. Er það mat þess læknis sem undirritar vottorðið að meðferð kæranda hafi borið nokkurn árangur en honum sé þó gert að halda áfram inntöku nánar tilgreindra lyfja, m.a. lyfja sem ætluð eru til meðferðar einkenna geðklofa og geðtruflana. Þá liggur fyrir í málinu læknisvottorð, dags. 17. október sl., ritað af sérfræðingi í geðlækningum, þar sem segir að kærandi sé heilsu sinnar vegna fær um að ferðast erlendis. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að kærandi sé á batavegi og að heilsufar hans sé nægilega stöðugt svo unnt sé að flytja hann til Spánar.

Kærunefnd bendir á að þó að kærandi glími við andleg veikindi þá sé ljóst af gögnum málsins að veikindin eru ekki það alvarleg að þau krefjist viðvarandi læknismeðferðar með innlögn á sjúkrahús. Gögn málsins bera enn fremur ekki með sér að kærandi gangist undir meðferð hérlendis sem yrði rofin með flutningi til Spánar. Þá telur nefndin, á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir, að kærandi sem umsækjandi um alþjóðlega vernd á Spáni sem þarlend yfirvöld hafa samþykkt viðtöku á, muni hafa aðgang að almenna heilbrigðiskerfinu þar í landi, m.a. hvað varðar þjónustu sálfræðinga og geðlækna í samræmi við þarfir hans. Að mati kærunefndar er sú heilbrigðisþjónusta og annar aðbúnaður sem bíður kæranda á Spáni fullnægjandi miðað við þá þjónustu og þær aðstæður sem honum standa til boða hér á landi í ljósi aðstæðna hans.

Við mat á því hvort staða kæranda leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki telur kærunefnd að einkum verði að horfa til þess hvers eðlis veikindi kæranda eru og hvort verulegar breytingar muni eiga sér stað á högum hans við flutning til Spánar. Það er mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum. Ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Að öðru leyti og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 27. febrúar 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 27. janúar 2018.

Ráðstafanir vegna flutnings kæranda til Spánar

Eins og að framan er rakið hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu á grundvelli gagna málsins að andlegt heilsufar kæranda sé nægilega stöðugt þó að hann glími við andleg veikindi og hafi þörf fyrir notkun tiltekinna lyfja, sbr. læknisvottorð, dags. 17. október sl. Þá liggur fyrir annað læknisvottorð, einnig dags. 17. október sl., um að kærandi sé fær um að ferðast erlendis. Þá hefur kærunefnd einnig komist að þeirri niðurstöðu að þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, svo sem hvað varðar aðgang að heilbrigðiskerfinu þar í landi, séu fullnægjandi.

Við mat á því hvernig framkvæma beri flutning kæranda telur kærunefnd rétt að líta til þeirra viðmiða sem koma fram í dómi Evrópudómstólsins í máli C.K. og fleiri gegn Slóveníu (nr. C-578/16) frá 16. febrúar 2017. Þar komst dómstóllinn m.a. að þeirri niðurstöðu að þegar flutningur einstaklings til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar skerðir heilsu einstaklingsins verulega eða flutningur verði til þess að valda óafturkræfum skaða á heilsu einstaklingsins kunni það í sjálfu sér að teljast ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. Skipti þá engu hvort umönnun í viðtökuríkinu uppfylli lágmarkskröfur sem Evrópusambandið gerir til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í niðurstöðu dómsins að heimilt sé að flytja einstakling þegar hann geti ferðast en stjórnvöld verði að eyða öllum efasemdum um hvaða áhrif endursending hafi á heilsufar einstaklings með því að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir fyrir flutninginn þannig að flutningurinn fari fram á viðeigandi hátt og núverandi heilsa umsækjanda sé nægilega tryggð. Því sé samstarf við viðtökuríki vegna flutnings á veikum einstaklingi nauðsynlegt, t.d. til að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir, á meðan og eftir flutning. Aðildarríki þurfi því að skipuleggja flutning þannig að einstaklingurinn sé með lyf, búnað eða aðra heilbrigðisþjónustu sem komi í veg fyrir versnandi heilsu viðkomandi. Þá er skylt að tilkynna viðtökuríkinu um ástand þess sem fluttur er svo hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir og aðstoða einstaklinginn við málsmeðferð sína í viðtökuríkinu og veita nauðsynlega umönnun eftir flutninginn.

Í ljósi framangreinds og með vísan til þess að kærandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og hefur þörf fyrir notkun tiltekinna lyfja samkvæmt áðurnefndu læknisvottorði frá 17. október sl. telur kærunefnd nauðsynlegt að þau stjórnvöld sem annast flutning á kæranda miðli upplýsingum um heilsufar hans og t.d. lyfjanotkun til spænskra yfirvalda tímanlega áður en flutningur fer fram, svo þarlend yfirvöld hafi nægilegt ráðrúm til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Miðlun slíkra upplýsinga getur farið fram í samræmi við það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í 31. eða eftir atvikum 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og með notkun þeirra stöðluðu forma sem finna má í viðaukum VI. og IX. í innleiðingarreglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 118/2014 frá 30. janúar 2014.

Frávísun

Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands þann 27. janúar 2018 og sótti hann um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Spánar eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa spænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Spánar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Áður en flutningur á kæranda fer fram er nauðsynlegt að þau stjórnvöld hér á landi sem framkvæma og bera ábyrgð á flutningi kæranda til Spánar geri viðeigandi varúðarráðstafanir fyrir flutning hans og miðli t.d. upplýsingum um heilsufar hans og þörf fyrir lyf til þarlendra yfirvalda, líkt og greinir að ofan.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Árni Helgason                                                                  Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum