Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 432/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 432/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110043

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. nóvember 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. febrúar 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 22. júní 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 18. nóvember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 3. desember 2020 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna veikinda sinna þar sem hann muni ekki hljóta fullnægjandi læknismeðferð þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 22. júní 2020. Þar hafi kærandi greint frá því að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt, Nígeríu, vegna veikinda sinna. Hann hafi greinst með hvítblæði í Benínborg árið 2014 og hafi reynt til þrautar að fá viðeigandi meðferð og lyf, en án árangurs. Kærandi vísar í greinargerð sína til Útlendingastofnunar, dags. 10. júlí 2020, hvað varðar almennar aðstæður í Nígeríu.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum hans. Kærandi telur að ekki nægi að tiltaka að tekið hafi verið tillit til aðstæðna hans heldur hafi stofnuninni borið að rökstyðja með hvaða hætti honum standi til boða viðeigandi meðferð í heimaríki við hvítblæði og hvaða áhrif rof á meðferð hans hér á landi myndi hafa áhrif á heilsufar hans.

Kærandi byggir aðalkröfu sínu á því að hann eigi það á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til Nígeríu vegna þeirra mannréttindabrota sem viðgangist þar í landi og vegna almenns hættuástands sem orsakist af hryðjuverka- og glæpahópum. Þá telji kærandi að hann eigi mögulega á hættu að verða fyrir skaða í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Kærandi vísar til c-liðar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að aðilar sem ekki fari með ríkisvald geti verið valdir að ofsóknum. Kærandi óttist glæpa- og hryðjuverkahópa og telji að nígerísk stjórnvöld hafi ekki getu til að að stemma stigu við starfsemi þeirra og vernd yfirvalda sé því ekki raunhæfur möguleiki. Þá telji kærandi að síðari hluti ákvæðis 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga geti einnig átt við vegna aðstæðna í heimaríki kæranda enda ríki þar eldfimt ástand og átök séu daglegt brauð.

Kærandi byggir varakröfu sína á því að hann hafi ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum. Líkt og komi fram í framlögðum heilsufarsgögnum glími kærandi við langvinnt mergfrumuhvítblæði (e. Chronic myelogenous leukemia, CML). Kærandi hafi nýverið hafið lyfjameðferð hér á landi vegna veikindanna sem hann telji óforsvaranlegt að rjúfa. Þá telji kærandi að með endursendingu hans til heimaríkis væri virt að vettugi sú staðreynd að lífslíkur hans færu þverrandi án aðgengis að viðeigandi meðferð og eftirfylgni. Rekja megi háa dánartíðni krabbameinssjúklinga í Nígeríu til skorts á sérfræðimeðferðum við krabbameinslækningum, slæmum aðbúnaði og starfsmannaeklu. Þá verði að líta til þess hvaða áhrif Covid-19 veiran og það ástand sem hún hafi skapað hafi á stöðu hans í heimaríki sem einstaklingur með hvítblæði. Þá er einnig byggt á því að kæranda skuli veitt mannúðarleyfi vegna almenns ástands í Nígeríu. Í því sambandi er vísað til umfjöllunar um bágborið ástand mannréttindamála í Nígeríu í ofangreindri greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að hann sé nígerískur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé nígerískur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Nigeria (US Department of State, 13. mars 2019);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Nigeria (US Department of State, 11. mars 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Country Background Note - Nigeria (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • DFAT Country Information Report – Nigeria (Australian Government - Department of Foreign Affairs and Trade, 9. mars 2018);
  • EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 21. ágúst 2017);
  • EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018); 
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, 4. júní 2017);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2020 – Nigeria (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Nigeria National Cancer Control Plan (Heilbrigðisráðuneyti Nígeríu, 2017);
  • Upplýsingar á vefsíðu krabbameinsfélagsins um hvítblæði (upplýsingar sóttar á heimsíðu 14. desember 2020 https://www.krabb.is/fraedsla-forvarnir/krabbamein-a-o/oll-krabbamein/bradahvitblaedi);
  • Nigeria: A pandemic and a weak health system (Good Governance Africa, 22. júlí 2020);
  • Upheaval in cancer care during the Covid-19 outbreak (ecancermdicalscience, 1. apríl 2020);
  • The World Factbook – Nigeria (Central Intelligence Agency, 24. nóvember 2020);
  • World Report 2020 – Nigeria (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).
  • Upplýsingar af vefsíðu Interpol (www.interpol.int);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html) og
  • Covid-19 vefsíða nígerískra heilbrigðisyfirvalda (https://covid19.ncdc.gov.ng/).

Nígería er sambandslýðveldi með um 214 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslum EASO frá 2017 og 2018 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun lögreglumanna sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla.

Fram kemur í ofangreindum gögnum, t.a.m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019, að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og þrátt fyrir að störf umboðsmannsins verði að einhverju leyti fyrir áhrifum vegna afskipta stjórnvalda þá sé um að ræða virkt úrræði fyrir borgara Nígeríu. Þá kemur fram að ýmsar eftirlitsnefndir starfi í Nígeríu sem almenningur geti beint kvörtunum sínum til s.s. mannréttindanefndin(e. The National Human Rights Commission (NHRC) sem hefur það hlutverk að rannsaka meint brot gegn mannréttindum. Þá geti almennir borgarar beint kvörtunum til umboðsmannsins í Nígeríu ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð stjórnvalda. Jafnframt geti almenningur leitað til nígeríska lögregluráðsins (e. The Nigerian Police Council) og framkvæmdastjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í þrjú stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stig sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu en heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum en aðgengi sé þó betra á þéttbýlli svæðum landsins. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.

Samkvæmt ofangreindri skýrslu hafi margir þættir áhrif á aðgengi krabbameinssjúklinga að viðeigandi heilbrigðismeðferð í Nígeríu, s.s. efnaleysi og fjarlægð frá þjónustu. Þar sem engin stofnun sérhæfi sig í krabbameinsmeðferðum séu krabbameinssjúklingar meðhöndlaðir á heilbrigðisstofnunum starfræktum á vegum ríkisins (e. tertiary health institutions), en þær stofnanir séu misvel til þess útbúnar að bjóða upp á slíka meðferð. Í áætlun nígeríska ríkisins varðandi krabbamein fyrir árin 2018-2022 (e. National Cancer Control Plan) kemur fram að um 72 þúsund manns deyi á ári hverju úr krabbameini í Nígeríu og að ríflega 100 þúsund greinist með krabbamein árlega. Einhver árangur hafi náðst síðustu ár en hann sé einkum í tengslum við vitund almennings um sjúkdóminn og hvatningu til þess að koma á heilbrigðisstofnanir til skoðunar sem og aukinni fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks. Bæta þurfi við fjármagn til þess að hægt sé að efla þjónustu, meðferðir og lífslíkur krabbameinssjúklinga í landinu. Einungis séu þrjár nothæfar geislameðferðarvélar í landinu vegna þess að ekki sé nægilegt eftirlit með gæðum þeirra tækja sem keypt séu inn á sjúkrahúsin í landinu ásamt því að ekki séu gerðar áætlanir um viðhald og eftirlit með þessum vélum. Þá leiði skortur á birgjum, mismunandi gæði lyfja og ógagnsæi í verðlagningu þeirra til þess að framboð lyfja til lyfjameðferða er takmarkað og af verri gæðum en æskilegt sé.

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2019 kemur fram að Evrópusambandið og alþjóða fólksflutningastofnunin (IOM) starfi saman að sérstöku átaksverkefni er lúti að endursendingu fólks til Nígeríu. Fólksflutningastofnunin í samstarfi við ýmsar innlendar stofnanir s.s. innflytjendaþjónustu Nígeríu (e. Nigerian Immigration Service), nefnd ríkisins fyrir flóttamenn, innflytjendur og fólk á innri flótta (e. the National Commission for Refugees, Migrants and Internally Displaced Persons), NAPTIP, almannavarnir ríkisins og ETAHT (e. Edo State Taskforce against Human Trafficking) veiti ýmsa þjónustu vegna móttöku og aðlögunar einstaklinga sem snúi aftur til Nígeríu. Grunnþjónusta sé veitt, m.a. ferðir áfram til heimabæjar eða þorps, símar til frekari samskipta, matur, skammtíma húsnæði, heilbrigðisþjónusta og vernd. Þá sé einstaklingum með sérþarfir jafnframt vísað til heilbrigðisstofnana, sálfræðinga, í ráðgjöf og veitt aðstoð við fjölskyldusameiningu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Líkt og að ofan er rakið byggir kærandi umsókn sína á því að hann hafi ekki aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og lyfjum í heimaríki vegna veikinda sinna.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu nígerískra yfirvalda eða annarra aðila í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Nígeríu sé ótryggt á sumum svæðum, þá einkum í norðurhluta landsins. Þótt hryðjuverkahópar starfi í landinu er það engu að síður mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem nefndin hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í Benínborg, sem kærandi kveðst hafa búið í, séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur borið fyrir sig að honum muni ekki standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta í heimaríki, þ. á m. aðgangur að lyfjum sem séu honum lífsnauðsynleg. Kærandi kvaðst hafa greinst með hvítblæði árið 2014 í heimaríki sínu. Hann hafi hvorki fengið rétt lyf eða meðferð í heimaríki og þá hafi hann sífellt verið krafinn um háar greiðslur fyrir þá þjónustu sem hann hafi sótt sér vegna veikinda sinna.

Við meðferð málsins hefur kærandi m.a. lagt fram komunótur frá Göngudeild blóð- og krabbameinslækninga, dags. 15. október til 17. nóvember 2020, þar sem kemur fram að kærandi hafi verið greindur með langvinnt hvítblæði (e. Chronic myelogenous leukemia, CML). Kærandi hafi ekki verið í meðferð við sjúkdómnum sl. tvö ár og hafi hvítum blóðkornum hans farið fjölgandi. Sérfræðingur í blóðlækningum hafi ekki talið neina ástæðu til að bíða með að hefja meðferð og hafi kæranda verið ávísað lyfjum þann 16. nóvember sl. (Imatinib) sem hann þurfi líklega að taka ævilangt. Þá kemur fram að kærandi skuli vera undir símaeftirliti á tveggja vikna fresti og mæta til læknis að nýju eftir þrjá mánuði í nýtt viðtal og endurmat.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi er í meðferð og hefur verið ávísað lyfjum hér á landi við hvítblæði. Þrátt fyrir að lyfið Imatinib, sem kærandi þarf á að halda við sjúkdómi sínum, sé á lista yfir aðgengileg lyf í Nígeríu þá verður ekki annað ráðið af skýrslum en að framboð á lyfjum í ríkinu sé ótryggt og að gæði lyfja sem í boði séu geti verið ófullnægjandi. Ennfremur sé lyfjaverð hátt og einstaklingar eigi því erfitt með að kaupa þau lyf sem þeir þurfi á að halda. Þá benda gögn ennfremur til þess að álag á heilbrigðiskerfi heimaríkis kæranda hafi aukist vegna Covid-19 faraldursins þar í landi og þá hafi krabbameinssjúklingar einkum átt erfitt með sækja sér lyf og meðferðir á heilbrigðisstofnunum. Er það því mat kærunefndar að ekki sé hægt að fullyrða að kærandi muni í raun hafa greiðan aðgang að þeirri lyfjameðferð sem honum er nauðsynleg til þess að stemma stigu við því að sjúkdómur hans fari versnandi. Að því virtu og í ljósi þess að um lífshættulegan sjúkdóm er að ræða telur kærunefnd ekki forsvaranlegt að rjúfa nýhafna meðferð kæranda hér á landi. Þá verður ekki annað ráðið en að kærandi sé, sökum sjúkdómsins, í sérstökum áhættuhópi sýkist hann af SARS-CoV-2 veirunni.

Þessar sérstöku aðstæður kæranda eru að mati kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, þess eðlis að kærandi telst hafa sýnt fram á að hann hafi ríka þörf fyrir vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíða kæranda í heimaríki. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til þess hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hefur haft á heilbrigðiskerfið í Nígeríu. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate in the case of the appellant related to his application for international protection is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                          Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum