Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 31/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 31/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120040

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. desember 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. desember 2017, um að synja henni um dvalarleyfi vegna náms.Kærandi krefst þess að aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. desember sl. verði ógilt og að henni verið veitt heimild til dvalar hér á landi. Til vara krefst kærandi þess að kærunefnd útlendingamála ógildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. desember sl. og geri stofnuninni að endurskoða ákvörðun sína. Þá óskar kærandi eftir því að kærunefnd útlendingamála fresti réttaráhrifum ofangreindrar ákvörðunar í samræmi við ákvæði 104. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi vegna vistráðningar hér á landi með gildistíma frá 28. október 2016 til 28. október 2017. Hinn 26. október 2017 hafi kærandi lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. desember 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 22. desember 2017, en kæru fylgdu athugasemdir kæranda og fylgigagn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, en ákvæðið varði þær aðstæður þar sem útlendingur hefur haft dvalarleyfi hér á landi en sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli. Vísaði stofnunin til þess að samkvæmt 6. mgr. 57. gr. laganna skuli hafna umsókn um dvalarleyfi ef umsækjandi sækir um á nýjum grundvelli án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Í undantekningartilvikum geti Útlendingastofnun þó heimilað umsækjanda, sem ekki uppfyllir fyrrgreind skilyrði, að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Að virtum gögnum málsins taldi Útlendingastofnun að ekki væru fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður sem gætu veitt kæranda undanþágu frá fyrrnefndri meginreglu. Var umsókn kæranda því hafnað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda er byggt á því að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi til að heimila kæranda að dvelja hér á landi þar til ákvörðun hafi verið tekin um umsókn hennar. Vísar kærandi til þess að hún stundi nám hér á landi og verði henni gert að yfirgefa landið meðan umsókn hennar er til meðferðar muni það raska námsframvindu hennar um of. Vorönn skólans hefjist í janúar og myndi það hafa varanlegar afleiðingar á framvindu náms hennar missi hún af fyrstu mánuðum annarinnar eða jafnvel allri önninni. Kærandi byggir á því að hún uppfylli öll skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga. Við þessar aðstæður sé eðlilegt að beitt sé undantekningarákvæði 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Þá bendir kærandi á að hún hafi notið aðstoðar vistfjölskyldu sinnar við umsóknina en hvorki kærandi né vistfjölskylda hennar séu löglærð og að skortur á vitneskju hafi leitt til þeirrar stöðu sem nú sé uppi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga.

Í 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um getur í 64., 66., 67. eða 68. gr. og sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli áframhaldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn liggur fyrir enda sæki útlendingur um nýtt leyfi eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi fellur úr gildi og hefur verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði. Í 6. mgr. 57. gr. laganna segir að sæki útlendingur um dvalarleyfi á nýjum grundvelli hér á landi án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. skuli hafna umsókn af þeirri ástæðu. Í undantekningartilvikum geti Útlendingastofnun þó heimilað umsækjanda, sem ekki uppfyllir fyrrgreind skilyrði, að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Fyrir liggur að kærandi hafði dvalarleyfi hér á landi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga, með gildistíma frá 28. október 2016 til 28. október 2017. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms þann 26. október 2017. Af framangreindu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki þau skilyrði sem lögð eru til grundvallar í 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga og verður því að leggja mat á hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því að heimila kæranda að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin í máli hennar, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í 3. mgr. 51. gr. sé almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því og að ætlunin sé að ákvæðinu verði beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. og 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga mæla bæði fyrir um að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar, þrátt fyrir að ekki séu uppfyllt tiltekin skilyrði þess efnis, ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í því ljósi telur kærunefnd rétt að hafa hliðsjón af athugasemdum við 3. mgr. 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga við mat á 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laganna.

Kærandi byggir á því að verði henni gert að yfirgefa landið meðan umsókn hennar sé til meðferðar muni það hafa varanlegar afleiðingar á námsframvindu hennar. Þá ber kærandi fyrir sig skort á vitneskju um þær reglur sem gilda um umsókn dvalarleyfa hér á landi. Með vísan til fyrrnefndra sjónarmiða sem vísað er til í frumvarpi til laga um útlendinga við mat á því hvað teljist til ríkra sanngirnisástæðna í skilningi 51. gr., sbr. einnig 57. gr., laga um útlendinga er það mat kærunefndar að hagsmunir sem kærandi tilgreinir í tengslum við námsframvindu hennar séu ekki þess eðlis að beita beri undantekningarákvæði 2. málsl. 57. gr. laga um útlendinga. Þá getur vanþekking kæranda á reglum um dvalarleyfi ekki leitt til þess að ákvæðinu verði beitt. Að framangreindu virtu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um dvalarleyfi, sbr. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu kærunefndar er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vísað frá.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins er heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.Kæranda er ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration affirmed.The appellant is not in possession of a permit to stay and shall leave the country within 15 days.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                            Árni Helgason


[...]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum