Hoppa yfir valmynd
28. mars 2007 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 28. mars 2007

Ár 2007, miðvikudaginn 28. mars, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 11/2006:

 

Jóhanna Jónsdóttir,

Jón Erlendsson,

Björn Erlendsson,

Halldóra Erlendsdóttir

og Hákon Erlendsson

gegn

Vegagerðinni

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

 

ÚRSKURÐUR

 

 

Úrskurð þennan kveða upp Jóhannes Bjarni Björnsson, hæstaréttarlögmaður, formaður matsnefndar eignarnámsbóta, ad hoc, skv. skipunarbréfi dags. 18. maí 2006, ásamt meðnefndarmönnunum, Jóhannesi Karli Sveinssyni, hæstaréttarlögmanni og Óskari Sigurðssyni, hæstaréttarlögmanni, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu, skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

I.  Aðild:

Eignarnámsþolar í máli þessu eru taldir: 

Jóhanna Jónsdóttir kt. 020422-5649, Furugerði 1, Reykjavík, sem situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn Lárus Óskarsson, og fer með 23,33% eignarhluta í jörðinni Selskarð

og

Jón Erlendsson, kt. 290440-4329, Haukanesi 9, Garðabæ,

Björn Erlendsson kt. 210545-3529, Aðallandi 15, Reykjavík,

Halldóra Erlendsdóttir, kt. 220447-2789, Blásölum 24, Kópavogi og

Hákon Erlendsson, kt. 210550-4719, Kambaseli 28, Reykjavík,

 

sem skv. framlagðri erfðafjárskýrslur áritaðri af sýslumanninum á Seyðisfirði þann 10. 3. 1997, fengu frá móður sinni Katrínu Jónsdóttur, sem sat í óskiptu dánarbúi eftir mann sinn Björn Erlendsson, 1/3 eignarhluta dánarbúsins í jörðinni Selskarð að jöfnu. Samkvæmt því er eignarhluti hvers þeirra 1/12 hluta jarðarinnar Selskarðs.

 

Eignarnemi er talin vera:

Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.

 

II. Matbeiðni og  kröfugerð:

Með matsbeiðni dags. 22. mars 2006 fór Páll Arnór Pálsson, hrl., fram á það að Matsnefnd eignarnámsbóta tæki fyrir kröfur umbj. hans, eigenda jarðarinnar Selskarðs, þess efnis að stöðvaðar yrðu framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar í Garðabæ, þar sem þær brytu gegn „beitarréttareign” jarðarinnar Selskarðs auk þess sem Vegagerðinni væri gert að greiða fullt gjald fyrir brot gegn sömu eign. Matsbeiðendur byggðu heimild sína til þess að óska eftir fyrirtöku málsins hjá Matsnefnd eignarnámsbóta á 6. gr. laga nr. 11/1973.

 

Við fyrstu fyrirtöku á málinu þann 14. júní 2006 féllu matsbeiðendur frá kröfu um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

 

Endanlegar kröfur eignanámsþola, eins og þær voru skýrðar við fyrirtöku málsins þann 27. febrúar 2007 eru að eignarnema verði gert að greiða fullt verð til eignarnámsþola, hlutfallslega í samræmi við eignarhlutdeild þeirra í landinu Selskarði, fyrir missir beitarréttar á landspildu þeirri sem málið varðar auk bóta fyrir missir leigutekna frá júlí 2005 til úrskurðardags. Þá krefjast eignarnámsþolar dráttarvaxta frá úrskurðardegi til greiðsludags auk alls málskostnaðar, þ.m.t. allan kostnað Jóns Lárussonar og Björns Erlendssonar við gagnaöflun og meðferð máls á frumstigi og jafnframt allan lögmannskostnað samkvæmt reikningi.

 

Eignarnemi gerir eftirfarandi kröfur:

 

Aðalkrafa eignarnema er að málinu verði vísað frá matsnefnd eignarnámsbóta.

Til vara  krefst eignarnemi  þess að öllum kröfum eignarnámsþola verði hafnað.

Til þrautavara krefst eignarnemi þess að honum verði gert að greiða mun lægri bætur en krafist er, að álitum, sem taki mið af þeim kostnaði sem eignarnámþolar yrðu fyrir, ef þeir yrðu að greiða fyrir samsvarandi beitarrétt annars staðar, að frátöldum girðingarkostnaði og öðrum kostnaði við viðhald á viðkomandi landi.  

 

Þá gerir eignarnemi kröfu til þess að honum verði úrskurðaður málskostnaður samkv. reikningi vegna alls kostnaðar af  meðferð málsins fyrir matsnefndinni hvort sem niðurstaðan verður sú að aðal- eða varakrafa hans verði tekin til greina.

 

III.  Andlag eignarnámsins:

 

Eignarnámsþolar krefjast eignarnámsbóta vegna missis beitarréttar við tvöföldun á Reykjanesbraut frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Kaplakrika í Hafnarfirði, á þeim kafla þar sem eignanámsþolar telja sig eiga beitarrétt. Samkvæmt skýringum eignarnámsþola markast þessi kafli í vestri af svæði nálægt gatnamótum Reykjanesbrautar og Hamrabergs, en í austri af línu sem dregin er milli Stóra Króks og Miðaftanshóls, en hún liggur nálægt mörkum nýs verslunarsvæðis í landi Urriðavatns. Stærð þess lands sem eignarnemar telja sig eiga beitarrétt á og fer undir breikkun Reykjanesbrautar á þessum kafla, ásamt helgunarsvæði, er samtals 11.034 m2 skv. framlögðu korti eignarnema þann 9. mars 2007. Að auki telja eignarnámsþolar að við mat á bótum eigi að taka  tillit til lands sem er utan veghelgunarsvæðis vegarins sunnanmegin, sem ónýtist að mati eignarnámsþola til beitar vegna þess að vegurinn lokar mögulegri aðkomu að því. Telja eignarnámsþolar það landssvæði sem ónýtist til beitar sé samtals um 5.5 hektarar.

 

IV.  Málsmeðferð:

Mál þetta hófst með matsbeiðni dags. 22. mars 2006 þar sem Páll Arnór Pálsson, hrl., fór fram á það að matsnefnd eignarnámsbóta tæki fyrir kröfur umbj. hans, eigenda jarðarinnar Selskarðs. Í umræddu bréfi taldi lögmaður matsbeiðenda að formaður og varaformaður nefndarinnar væru vanhæfir til að fara með beiðni hans vegna aðkomu þeirra að matsmáli nr. 7/2004 sem varðaði kröfu um bætur fyrir missi á beitarétti vegna tvöföldunar á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

 

Með bréfi dómsmálaráðherra dags. 18. maí 2006 var Jóhannes Bjarni Björnsson, hrl., skipaður formaður matsnefndar eignarnámsbóta ad hoc til þess að fara með mál þetta. Með vísan til ákv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kvað formaður til setu í nefndinni við meðferð málsins þá Jóhannes Karl Sveinsson, hrl. og Óskar Sigurðsson, hrl. 

 

Málið var tekið fyrir þann 14. júní 2006 og voru sættir með aðilum reyndar án árangurs. Var eignarnámsþolum veittur frestur til 3. júlí 2006 til að skila greinargerð. Frestur eignarnámsþola var síðan framlengdur í tvígang að beiðni lögmanns þeirra og með samþykki lögmanns eignarnema. Skiluðu eignarnámsþolar sameiginlegri greinargerð ásamt gögnum þann 12. september 2006. Með bréfi dags. 21. september var lögmanni eignarnema veittur frestur til að skila  greinargerð til 31. október 2006, en sá frestur var síðan framlengdur til 30. nóvember 2006, með samþykki lögmanns eignarnámsþola. Lögmaður eignarnema skilaði greinargerð ásamt gögnum þann 30. nóvember 2006.  Aðilar skiluðu frekari gögnum í janúar 2007 til nefndarinnar að beiðni formanns hennar. Boðað fyrirtaka í málinu þann 1. febrúar 2007 féll niður vegna forfalla.

 

Málið var tekið fyrir að nýju þann 27. febrúar 2007.  Var þar ákveðið af hálfu nefndarinnar að ekki væri þörf á sérstakri vettvangsskoðun þar sem nefndarmenn þekktu vel til vettvangs. Einnig að það væri mat nefndarinnar að ekki væri þörf á munnlegum málflutningi, enda hefðu aðilar gert ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum með skriflegum hætti. Var málið tekið til úrskurðar með fyrirvara um framlagningu á gögnum frá aðilum sem nefndin fór fram á.

 

Með bréfi lögmanns eignarnámsþola dags. 9. mars 2007 voru lögð fram umbeðin gögn er skýra eignarheimildir Erlendsbarna. Með bréfi dagsettu sama dag sendi lögmaður eignarnema umbeðinn uppdrátt af því svæði sem deilt er um í málinu. Með bréfi dags. 16. mars 2007 gerðu eignarnámsþola athugasemdir við bréf lögmanns eignarnema dags. 9. mars 2007.

 

V.  Málsatvik:

 

Ágreiningur í máli þessu snýst um meinta skerðingu á óbeinum eignarréttindum eignarnámsþola, beitarrétti, sem þeir telja að tilheyri jörðinni Selskarð. Telja eignarnámsþolar að við tvöföldun á Reykjanesbrautinni á vegarkafla frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi til  Kaplakrika í Hafnarfirði hafi vegurinn að hluta farið yfir landsvæði þar sem jörðin Selskarð á beitarrétt. Telja eignarnámsþolar því að með veglagningunni hafi þeir orðið fyrir tjóni vegna missis  beitarréttar. Eignarnámsþolar fara saman með eignarráð yfir 56,66% af jörðinni Selskarð, sem er innan bæjarmarka Garðabæjar og liggur að bæjarmörkum Álftaneskaupstaðar.

 

Beitarréttur jarðarinnar Selskarðs á umræddu landsvæði byggist á afsali, dags. 29. maí 1912, sem þinglýst var 7. júní 1912. Samkvæmt umræddu afsali seldi ráðherra Íslands, skv. heimild í lögum nr. 50/1907 um sölu kirkjujarða, ábúanda jarðarinnar, Jóni Felixsyni, jörðina Selskarð. Í afsalinu segir svo um beitarrétt jarðarinnar: 

 

„Jörðin selst með öllum gögnum og gæðum, og réttindum, til lands og sjávar sem hún undanfarandi tíð hefur átt og notað. Henni fylgir ekkert land afskipt, annað en tún hennar innan ummerkja, en henni fylgir réttur til mótaks í mómýri vestan Hraunsholtslækjar til afnota á jörðinni sjálfri og hagbeit fyrir jarðarfénaðinn í hinu óskipta beitilandi Garðahverfisbúa, og er jarðeiganda skylt að sætta sig við hver þau skipti hins óskipta lands sem gerð kunna að verða af réttum hlutaðeigendum milli núverandi Garðakirkjujarða að Selskarði meðtöldu“.

 

Í málinu hefur verið lögð fram matsgjörð Páls Stefánssonar og Guðna Jónssonar á jörðinni Selskarði dags. 14. maí 1911, vegna umsóknar ábúanda um kaup á jörðinni. Í matinu segir svo um beitarrétt jarðarinnar:

 

„Þess skal getið að jörðinni fylgja engar engjar, eða afskift beitiland annað en túnið, en beitiland er sameiginl. við aðrar jarðir í Garðahverfi.”

 

Einnig hefur verið lögð fram umsögn Jens Pálssonar, umráðamanns kirkjujarðarinnar Selskarðs, dags. 28. febrúar 1912 um fyrrgreint mat og beiðni ábúanda um kaup á jörðinni, segir þar svo um beitarrétt jarðarinnar:

 

„Það er sameiginlegt öllum Garðakirkjujörðum, nema Vífilstöðum, að því er til engja kemur, að eiga ekkert afskift land annað en túnin, en heimilt er ábúendum jarðanna beit í hinu óskifta landi fyrir eigin fénað þeirra, en eigi er þeim heimilt að ljá öðrum mönnum beit í því, né taka skepnur til göngu í það af öðrum. Réttur til þess hefur jafnan borið umráðanda landsins einum....  ...Þetta Garðakirkjuland, sem frá upphafi hefur verið óskift milli kirkjujarðanna og notað þannig til sameiginlegrar fénaðarbeitar af ca. 20 ábúendum Garðakirkjujarða, liggur þannig og er þannig á sig komið, að erfitt er að skifta því upp milli kirkjujarðanna eftir hundraða-afsali þeirra svo að jafnarðarskifti yrðu, og svo að hverju býli yrðu jafn drjúg afnot af sinni úthlutuðu sneið, sem samnotin hafa verið... ...Loks lít ég svo á að í kaup- og afsals-bréfinu ef til kemur þurfi að kveða skýrt á um:

... 1. Að jörðin sé seld með sömu gögnum og gæðum og réttindum til lands og

        sjávar sem hún undanfarandi ár hefur notið, ...

... 4. hagbeit fyrir jarðarfénaðinn í hinu óskifta beitilandi Garðahverfisbúa. ...”

 

Með lögum nr. 13/1912, um sölu á eign Garðakirkju af kaupstaðarstæði Hafnarfjarðar og nokkrum hluta af öðru landi hennar, var landstjórninni veitt heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstað hluta af hinu óskipta landi Garðakirkju, eins og það var nánar skilgreint í lögunum.

 

Með afsali, dags. 30. ágúst 1913, afsalaði ráðherra Íslands til Hafnarfjarðarkaupstaðar, með vísan til heimildar í lögum nr. 13/1912, hluta af landi Garðakirkju, innan þeirra marka sem 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna hafi mælt fyrir um. Í afsalinu sagði m.a. svo:

 

„Núverandi ábúendum Garðakirkjujarða í Garðahverfi og jörðinni Selskarði er áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu svo sem verið hefur.“

           

Með stefnu birtri þann 14. maí 1914, höfðaði þáverandi eigandi jarðarinnar Selskarðs, mál á hendur Magnúsi Guðmundssyni, fjármálaráðherra Íslands f.h. ríkissjóðs eða kirkjujarðasjóðs, þar sem hann krafðist hlutdeildar í kaupverði Hafnarfjarðarkaupstaða á áðurnefndu landi úr óskiptu landi Garðahverfisbúa.  Í dómi gestaréttar Reykjavíkur sem upp var kveðinn þann 29. desember 1920, var ekki fallist á kröfur eiganda Selskarðs, en þar kemur fram að óumdeilt sé milli aðila að jörðinni Selskarði fylgdi beitarréttur í hinu selda landi svo sem áskilið var í afsali til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Dómi þessum var ekki áfrýjað.

 

Þann 28. júlí 1927 var þinglýst á manntalsþingi Garðahrepps samkomulagi eigenda og ábúenda prestsetursins Garða og þáverandi ábúenda Garðakirkjujarða og eigenda Selskarðs, samkomulagi um skiptingu og nýtingu beitiréttar á “óskiptu beitilandi Garðakirkjulands”. Kemur fram í samkomulagi þessu að það sé bindandi fyrir alla aðila og að það skuli hvíla á jörðunum sem kvöð um aldur og ævi. Samkvæmt samkomulagi þessu átti heildarbeit sameigenda að miðast við 1500 sauðkindur (stórgripir taldir jafngildi 10 sauðkinda) og hlutur Selskarðs í hinum sameiginlega beitarrétti var beit fyrir sem nam 55 sauðkindum, hlutdeild 55/1500 eða 3,66% af sameiginlegum og óskiptum beitarrétti. Eignarnámsþolar hafa talið að samkomulag þetta nái ekki til þess lands sem selt var Hafnarfjarðarkaupstað skv. afsali dags. 30. ágúst 1913.

 

Með samningi frá mars 1978 milli Garðabæjar og Hafnarfjaðarkaupstaðar um breytingu á lögsagnarmörkum var samið svo um milli þessara sveitarfélaga að landspildu, sem nær yfir mest allt það land sem um er deilt í máli þessu, skyldi afsalað frá Hafnarfjarðarkaupstað til Garðabæjar. Ekki er minnst á beitarrétt í samningi þessum.

 

Með samningi frá því í nóvember 1986 milli Garðabæjar og Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, eiganda jarðarinnar Urriðavatns, um breytingu á landamerkjum jarðarinnar Urriðavatns, var um það samið að land það sem í máli þessu er deilt um, skuli teljast innan landamerkja jarðarinnar Urriðakots. Ekki er minnst á beitarrétt þriðja aðila yfir landinu í afsalinu.

 

Með afsali dags. 22. september 1994 afsalar Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa til Vegagerðarinnar landspildu að flatarmáli samtals 18.520 m2, sem farið hafði undir vegstæði Reykjanesbrautar í landi Urriðavatns.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum mótmæltu eignarnámsþolar á árinu 2003 breikkun og færslu á Reykjanesbraut suður fyrir kirkjugarðinn í Hafnarfirði. Jafnframt liggur fyrir að eignarnámsþolar hafi leitað eftir atbeina sýslumannsins í Hafnarfirði til þess að stöðva framkvæmdir á þessu svæði þar sem þeir töldu þær fara í bága við beitarréttindi sín. Hafnaði sýslumaðurinn í Hafnarfirði þeirri málaleitan og rökstuddi í bréfi dags. 5. nóvember 2003, sjá skjal nr. 37.

 

Jón Lárusson, sonur eignarnámsþola, Jóhönnu Jónsdóttur, þingfesti mál á hendur Vegagerðinni, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 18. desember 2003. Miðuðu dómkröfur hans að því að fá viðurkenndan beitarrétt jarðarinnar Selskarðs, skv. afsali til Hafnarfjarðarkaupstaðar þann 30. ágúst 1913 og stöðvun á framkvæmdum í Hafnarfirði á því svæði sem jörðin nyti beitarréttar. Málið var fellt niður í þinghaldi hinn 14. apríl 2004 með svofelldri bókun í þingbók:

 

„Stefnda, Vegagerðin, mótmælir ekki að jörðin Selskarð eigi beitarrétt samkvæmt þinglýstu afsali 30. ágúst 1913 um kaup Hafnarfjarðarkaupstaðar á landi samkvæmt landamerkjum, eins og þau eru afmörkuð í 1. gr. laga nr. 13/1912.  Hins vegar telur Vegagerðin að umræddur réttur hafi ekki verið nýttur af stefnanda svo að fjárhagslega þýðingu hafi haft fyrir hann.  Þá telur Vegagerðin einnig að umræddan rétt hafi ekki mátt nýta vegna reglna opinbers réttar um beit og skipulagsmál og hafi rétturinn af þeirri ástæðu ekki getað haft fjárhagslega þýðingu fyrir stefnanda og þannig verið rýmt út.  Þá vekur Vegagerðin athygli á því að stefnandi hafi ekki mótmælt þeim reglum opinbers réttar sem hér um ræðir.

 

Af hálfu stefnanda er tekið fram að ágreiningur aðila muni verða borinn upp fyrir matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt IX. kafla laga nr. 45/1994, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

           

Samkomulag er með aðilum um að málið falli niður án kostnaðar.

           

Af hálfu réttargæslustefnda er tekið fram að engin afstaða sé tekin til ágreinings aðila, en fallið er frá kröfu um málskostnað.

           

Málið er fellt niður.“

 

Í samræmi við ofangreinda bókun lagði eignarnámsþoli Jóhanna Jónsdóttir fram beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta um bætur vegna skerðingar á beitarrétti á um 6,7 ha landi sem fór undir færslu og tvöföldun á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, mál nr. 7/2004. Með úrskurði dags. 1. nóvember 2004 hafnaði matsnefnd eignarnámsbóta kröfu eignarnámsþola um bætur.

 

Með bréfi dags. 16. desember 2004 til bæjarstjórans í Garðabæ mótmælti Jón Lárusson því að framkvæmdaleyfi fyrir breikkun Reykjanesbrautar í Garðabæ yrði gefið út fyrr en samningar við eigendur Selskarðs um bætur fyrir beitarrétt lægju fyrir. Í málinu liggja fyrir nokkur bréfaskrif umboðsmanna eigenda Selskarðs við eignarnema og samgönguráðuneytið þar sem þeir hafa uppi mótmæli við breikkun Reykjanesbrautar og krafist er stöðvum framkvæmda og samninga, án árangurs.

 

Sumarið 2005 settu Jón Lárusson og Björn Erlendsson upp beitarhólf við Reykjanesbraut innan lögsagnarumdæmis Garðabæjar við lögsögumörk Hafnarfjarðar. Var gerður leigusamningur dags. 8. júlí 2005 um beitarhólfið. Með bréfi bæjarverkfræðings Garðabæjar dagsettu sama dag var þeim gert að fjarlægja umrætt beitarhólf fyrir 19. júlí 2005. Er eigendur beitarhólfsins urðu ekki við kröfu bæjaryfirvalda um að fjarlægja girðingar voru þær fjarlægðar af bæjaryfirvöldum með aðstoð lögreglu þann 20. júlí 2005. Umrætt beitarhólf var á því landssvæði sem deilt er um í máli þessu.

 

Þann 21. október 2005 gaf bæjarverkfræðingur Garðabæjar út framkvæmdaleyfi til handa Vegagerðinni fyrir breikkun á Reykjanesbraut frá Fífuhvammsvegi að Álftanesvegi. Jarðvegsframkvæmdir við breikkunina hófust í upphafi árs 2006 og mun vera stefnt að verklokum í ágúst 2007.

 

Með bréfi lögmanns eignarnámsþola dags. 16. janúar 2006 er þess farið á leit við eignarnema að gengið yrði til samninga um bætur vegna fyrirhugaðrar tvöföldunar Reykjanesbraut á kaflanum frá Fífuhvammi í Kópavogi að Kaplakrika í Hafnarfirði.

 

Með bréfi dags. 22. mars 2006 lagði lögmaður eignarnámsþola ágreining aðila fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Þann 10. mars 2007 lagði eignarnemi fram kort af hinu umdeilda svæði þar sem stærð landsins og lega var sýnd. Samkvæmt framlögðu korti eignarnema er stærð hins stækkaða veghelgunarsvæðis á því svæði sem eignarnámsþolar telja sig eiga beitarrétt samtals 11.034 m2.

 

Samkvæmt upplýsingum eignarnema í bréfi dags. 9. mars 2007 eru eignarheimildir hans á Reykjanesbrautinni á þessu svæði byggðar á samningum við eigendur lands á hverjum stað. Eru það annars vegar þau sveitarfélög sem vegurinn liggur um og hins vegar eigandi jarðarinnar  Urriðavatns. Að því leyti sem vegurinn liggur um land Urriðavatns fékk eignarnemi afsal fyrir því landi dags. 22. september 1994, sem fór undir veginn fyrir breikkun, en eignarnemi segir að viðræður við eiganda Urriðavatns, um bætur fyrir það svæði sem tvöföldunin nær til, Urriðavatnslandi standi yfir. Þrátt fyrir að þeim viðræðum sé ekki lokið hefur eigandi landsins gefið eignarnema leyfi til þess að hefja framkvæmdir í landi þeirra auk þess sem fyrir liggi framkvæmdaleyfi hvort tveggja frá bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði og Garðabæ.

 

VI. Sjónarmið málshefjanda, eignarnámsþola:

 

Eignarnámþolar byggja á því að á eignarnema hvíli sérstakar skyldur skv. lögum nr. 11/1973 sem hann hafi sniðgengið, svo sem að leita samninga við rétthafa um bætur ella leggja málið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Eignarnámsþolar byggja á því að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sé enginn skyldaður til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, til þess þurfi lagafyrirmæli og fullt verð komi fyrir. Enginn vafi leiki á því að beitarréttur teljist eign í skilningi stjórnarskrárinnar og að eignarnámsþolar eigi því að fá fullar bætur vegna missis réttarins. Eignarnámsþolar leggja á það áherslu að eignarréttur þeirra sé virkur eignarréttur sem takmarkar eignarrétt Hafnarfjarðarbæjar og er þar að auki eldri.

 

Með framkvæmdum Vegagerðarinnar telja eignarnámsþolar að þeir hafi verið sviptir eignarrétti í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Eignarnámsþolar hafi verið útilokaðir frá að nýta eignina undir beitarrétt.

 

Eignanámsþolar hafna því að beitarréttur þeirra hafi eða geti fallið niður fyrir tómlæti þeirra eða þá að notkunarleysi valdi því að hann sé ekki nokkurs virði og ennfremur að nýting grunneignarréttarhafa á hluta lands hafi rutt honum út.  Byggja eignarnámsþolar á því að þinglýstur eignarréttur falli ekki niður fyrir tómlæti eða notkunarleysi og óheimil nýting annars aðila á þinglýstum réttindum leiðir ekki til þess að þau glatist hinum rétta eiganda.  Telja eignarnámsþolar ekki að Hafnarfjarðarbær hafi hefðað beitarréttinn af þeim því bærinn hefur ekki nýtt beitarréttindin þannig að það hafi útilokað not eignarnámsþola. Þá halda eignarnámsþolar því fram að Hafnarfjarðarbær byggi ekki á því að bærinn hafi hefðað beitarréttindi eignarnámsþola.  Einnig halda eignarnámsþolar því fram að  eigendur Selskarðs hafi nýtt beitarréttinn og telja að lesa megi út úr opinberum gögnum að hann hafi verið leigður út á árunum 1966-1967.

 

Beitarrétti í óskipta landinu voru ekki sett takmörk fyrr en með  yfirlýsingu ábúenda og eigenda jarða í Garðakirkjulandi, dags. 25. nóvember 1926, en það var rúmum 13 árum eftir að afsalið var gert 30. ágúst 1913.  Áður hafði beitarrétti fyrir jarðarfénaðinn ekki verið settar neinar skorður eða takmarkanir og á jörðin Selskarð því ótakmarkaðan beitarrétt í landspildunni sem seld var út úr óskipta landinu 1913. Á landinu sem selt var Hafnarfjarðarbæ á Selskarð ein jarða beitarrétt enda var eingöngu ábúendum annarra jarða áskilinn beitarréttur og þeir eru horfnir af sjónarsviðinu. Ekki kemur fram í afsali til Hafnarfjarðarbæjar að bærinn fái beitarrétt, en honum var haldið eftir fyrir jörðina Selskarð og ábúendurna.

 

Eignarnámsþolar hafna því að beitarréttur þeirra hafi fallið niður þar sem hann sé ítak sem falli undir lögin nr. 113/1952 og ítakinu hafi ekki verið lýst á þann máta sem skilyrt er skv. lögunum.

 

Landið sem selt var Hafnarfjarðarkaupstað úr landi Garðakirkju, er nefnt landspilda í 1. gr. laga nr. 13/1912.  Í afsali frá 30. ágúst 1913 er fasteignin nefnd lóð eða landspilda.  Lóð eða landspilda þessi hefur aldrei verið skilgreind sem jörð eða bújörð heldur er um að ræða annað landsvæði.  Í 3. gr. jarðalaga nr. 65/1976 er sérstaklega getið um jarðir sem slíkar.  Auk þess er í sömu grein sérstaklega getið um jarðarhluta, afréttarlönd, öræfi og landspildur.  Í lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. er landspilda skilgreind sem ákveðinn hluti lands sem afmarkaður hefur verið.

 

Skilyrði eru um það í lögum um lausn ítaka af jörðum nr. 113/1952, bæði í heiti laganna og samkvæmt 2. gr. laganna, að viðkomandi fasteign, sem lýsa á ítaki í, sé jörð. Beitarréttur Selskarðs hafi ekki verið skilgreindur sem ítak í landspildu í eigu þriðja aðila vegna þess að hann var fyrir á eigninni þegar hún var seld og honum var haldið eftir við söluna. 

 

Eignarnámsþolar telja að skilgreina megi rétt þann sem Hafnarfjarðarkaupstaður keypti sem grunneignarrétt (grundejendom) en hann er miklum takmörkum háður þegar annar aðili er eigandi fyrir að helstu afnotum landsins með ráðandi rétt. Beitarréttur Selskarðs var aðaleignarrétturinn í landspildunni 1913 eftir söluna þar sem landið var beitarland.  Beitarréttur Selskarðs er takmarkandi réttur fyrir Hafnarfjarðarkaupstað á landspildunni en umráðum Selskarðs eru ekki skorður settar.  Beitarréttur Selskarðs er í vörslu eigenda Selskarðs á hverjum tíma eins og alltaf hefur verið og hann er undir umráðum eigenda Selskarðs en ekki í vörslu eða undir umráðum Hafnarfjarðarkaupstaðar. 

 

Í afsalinu frá 30. ágúst 1913 er eignin nefnd beitarréttur eins og verið hafði en ekki ítak.  Beitarrétturinn hefur í gegnum tíðina aldrei verið nefndur annað en beitarréttur og honum var þinglýst á spilduna sem ævarandi rétti eiganda Selskarðs.  Rétturinn hefur aldrei verið afmáður úr veðmálabókum.  Augljóst er að lög nr. 113/1952 eiga ekki við ítak í öðrum fasteignum en jörðum fyrir utan það, sem að ofan er greint, að eignarréttur þessi er í heimildum nefndur beitarréttur en ekki ítak.  Selskarð átti Garðakirkjuland tiltölulega fyrir þ.á.m. aðalréttinn, þ.e. beitarréttinn eins og verið hafði, sem var undanskilinn við söluna.

 

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er ekki getið um að lóð eða landspilda þessi sé jörð.  Í „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá 1861, sem vísað er til í landskiptalögum nr. 46/1941, er ekki getið um að þessi landspilda sé jörð.  Í síðari jarðaskrám eða fasteignamötum er hvergi getið um lóð eða landspildu þessa sem jörð.  Þá er landið ekki skilgreint sem jörð í þinglýsingarbókum.

 

Í landamerkjaskrá um „Merki á landi Garðakirkju” er lóð eða landspildu þessari eigi lýst sem jörð.  Í merkjalýsingunni er hins vegar getið um að innan merkja Garðakirkjueignar sé Garðakirkjujörðin Vífilstaðir.  Ennfremur er getið um jarðirnar Setberg, Hofsstaði, Hagakot og Akurgerði og svo einnig Garðakirkjujarðir.  Í afsalinu til Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 1913 eru tún innan ummerkja, þ.e. Hamarskotstún innan girðinga og Undirhamarstúnsblettur undanskilin sölunni.  Óskipt sameign (efra land) Garðakirkju, Garðakirkjuland, hefur aldrei sem slíkt verið skilgreind sem jörð. 

 

Við skipti á öllu heimalandi Garðatorfu 1932-1935 kom Hafnarfjarðarkaupstaður ekki að landskiptum vegna lóðar eða landspildu þessarar sem hann keypti 1913 á sama hátt og allar jarðir Garðakirkju.  Þetta var vegna þess að það var ekki jörð sem Hafnarfjarðarkaupstaður keypti heldur lóð eða landspilda úr óskiptu Garðakirkjulandi, sbr. afsalið.

 

Í dómi Gestaréttar Reykjavíkur frá 29. desember 1920 er getið um að landsstjórnin hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað „nokkuð af landi” Garðakirkju.  Dómurinn skýrir einnig eignarrétt Selskarðs í lóð eða landspildu þessari samkvæmt sama afsalinu.  Í dóminum segir að Selskarð sé talin sérstök jörð og það væri óhugsandi ef henni hefði ekki fylgt annað land en túnið og réttur til mótaks og beitar. 

 

Þar sem ekki var um að ræða jörð, heldur kaupstaðarlóð sem sveitarfélag á, bar eigendum Selskarð eigi skylda til að lýsa ítaki, sbr. lög nr. 113/1952, auk þess hefur aldrei verið litið á beitarréttareignina sem ítak.  Eigendur Selskarðs höfðu ekki lagaheimild samkvæmt lögum nr. 113/1952 til að lýsa yfir ítaki og enga jörð (bújörð) til að lýsa ítaki í.  Af þessum ástæðum lýstu eigendur Selskarðs ekki yfir ítaki í landspildunni.

 

Beitarréttareignin hefur því aldrei verið afmáð eða aflýst úr þinglýstum skjölum og bókum, sbr. 5. gr. 2. mgr. laga nr. 113/1952.  Þinglýst afsal um þennan eignarrétt er enn í fullu gildi.  Hafnarfjarðabær hefur aldrei reynt að leysa beitarréttareignina af landspildunni, sbr. 7. gr. laga nr. 113/1952, enda ekki um ítak að ræða eða jörð. 

 

Það sem tekur af öll tvímæli í þessu máli, og staðfestir að lög nr. 113/1952 eiga ekki við um beitarrétt Selskarðs, er greinargerð sem fylgdi þingskjali 189.  Frumvarpi til laga [132. mál] um lausn ítaka af jörðum.  Frá landbúnaðarnefnd, síða 512, en þar segir um 2. gr. laganna:

 

„Eigi þykir ástæða til að heimila lausn á ítökum í aðrar fasteignir en jarðir.  Lögin taka því ekki til ítaka í kaupstaðarlóðir eða í afrétti, sem sveitarfélög eiga”. 

 

Auk þess ber ekki síður að geta þess, að þann 10. apríl 1963 var á Alþingi samþykkt þingsályktun. Með tillögunni til þessarar þingsályktunar  fylgdi greinargerð en þar segir:

 

„Lög nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum, voru sett til að koma reglu á ítök í bújarðir og gefa jarðeigendum tækifæri til að leysa þau af, ef því bæri undir”.

 

Hér kemur einnig skýrt fram að lögin áttu við ítök í jarðir og bersýnilega ítök í bújarðir þar sem lögin voru sett til að koma reglu á ítök í bújarðir eins og að ofan greinir.  Það var lóð eða landspilda, en ekki jörð, eða bújörð, sem komst í eigu sveitarfélagsins Hafnarfjarðarkaupstaðar 30. ágúst 1913 og var jörðinni Selskarði áskilinn beitarréttur eins og verið hafði í sinni eigin eign en ekki nein ítök í annarri jörð.  Beitarréttur eða eignarréttur jarðarinnar Selskarðs hefur aldrei verið ítak í Garðakirkjulandi.  Jörðin Selskarð átti og á enn tiltölulega óskipt Garðakirkjuland, þ.m.t. allan nýtingarrétt.

 

Gerð var bókun um samkomulag 14. apríl 2004 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur milli Vegagerðar ríkisins og eiganda jarðarinnar Selskarðs á þann veg að Vegagerðin mótmælti ekki því að jörðin Selskarð ætti beitarrétt samkvæmt þinglýstu afsali 30. ágúst 1913 um kaup Hafnarfjarðarkaupstaðar á landi samkvæmt landamerkjum, eins og þau eru afmörkuð í 1. gr. laga nr. 13/1912.  Til viðbótar komu fullyrðingar frá lögmanni eignarnema um að rétturinn væri lítils virði og fleira í þeim dúr sem skiptir ekki máli því dómkrafa málsins var um viðurkenningu réttarins á beitaréttinum og þurfti þá ekki að reka málið lengur. 

 

Dómsáttin var endir þrætu og Vegagerðin gekkst inn á hana fyrir þrýsting dómarans, sem taldi blasa við að krafa stefnanda næði fram að ganga um viðurkenningu á beitarrétti Selskarðs enda hafði Vegagerðin ekkert í höndum sem hnekkt gat þinglýstum rétti Selskarðs.  Meira að segja Hafnarfjarðarbær hélt að sér höndum en var þó réttargæslustefnt og fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar var viðstaddur sáttargerðina.  Eignarnámsþoli á ekki að þurfa að eyða kröftum sínum og fjármunum í að rökstyðja að beitarréttur sé til staðar á hinu eignarnumda landi en hann er knúinn til þess af eignarnema.

 

Beitarrétturinn hefur verið mikilvægur fyrir Selskarð og er það enn. Gestarétturinn 1920 tekur fram að Selskarð geti ekki verið jörð nema hafa land til að yrkja og beita á. Beitarlandið er Garðakirkjuland og í því liggja mikil verðmæti.

 

Eignarnámsþolar krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði þeim fullt verð fyrir þann beitarrétt á því landi sem fer undir breikkun Reykjanesbrautar þar sem hann á beitarrétt.

 

Við ákvörðun bótanna telja eignarnámsþolar að meta eigi verðmæti þess lands sem þeir hafi verið sviptir beitarrétti á út því hvað myndi kosta að kaupa annað sambærilegt land á höfuðborgarsvæðinu til beitar, þ.e. að leita skuli eftir enduröflunarverði sambærilegs lands.

 

Til stuðnings sjónarmiðum sínum um enduröflunarverð sambærilegs lands til beitar og verðmæti þess lands sem undir breikkun Reykjanesbrautar vísa eignarnámsþolar til 72. gr. stjórnarskrárinnar og að skýra beri ákvæði hennar um fullt verði þannig að hagstæðasta aðferðin við mat á eignarskerðingu eignarnámsþola skuli beitt hverju sinni. 

 

Einnig vísa eignarnmálsþolar til verðmat Jóns Hólm Stefánssonar frá 18. ágúst 2006 og verðmat Jóns Guðmundssonar, löggilts fasteignasala, dags. 10. júlí 2006. Um þróun verðlags á landi á höfuðborgarsvæðinu vísa eignarnámsþolar einnig til frétta af viðskiptum með land í Kópavogi.

 

Í punktum sem eignarnámsþolar lögðu fram við fyrirtöku málsins þann 27. febrúar 2007 telja þeir að verðmæti lands á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað mikið frá því að þeir lögðu fram greinargerð sína og telja að miðað við síðustu sölur sé fermetraverð á landi, sem handhafi hefur leigu- eða afnotarétt af sé um kr. 68.000,- pr. fermeter.

 

Við mat á tímabundnu tekjutapi telja eignarnámsþolar rétt að taka mið af ávöxtunarkröfu ríkisvíxla eða ríkisbréfa, sem hafi hækkað úr 13,5% í september 2006 í 16,8% í janúar 2007, þegar þarf að ákveða bætur fyrir missi leigu eða afgjald fyrir liðið tímabil. Þótt Garðabær hafi staðið fyrir eignaspjöllum á beitarlandi eignarnámsþola telja þeir að það hafi verið gert til að efna loforð til Vegagerðarinnar um land fyrir Reykjanesbraut og þar með var eignarréttarsviptingin gerð í þágu eignarnema.  Einsýnt er að Vegagerðin er sá aðili sem skal greiða eignarnámsbætur, hvort sem það eru bætur fyrir varanlega eignaskerðingu eða tímabundna.  Ekki er gerð krafa um tímabundna skerðingu fyrir annað land en það sem Vegagerðin er að taka þótt vissulega hafi aðgerðir Garðabæjar (í þágu eignarnema) leitt til frekara tjóns fyrir eignarnámsþola, þ.e. hann var hrakinn frá að nýta beitarrétt sinn.

 

VII. Sjónarmið eignarnema:

 

Aðalkröfu sína um frávísun málsins byggir eignarnemi á því að eignarnámsþolar geti ekki átt aðild að máli þessu vegna ákvæða laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms geta eigandi og aðrir rétthafar eignar krafist fyrirtöku máls hjá matsnefnd eignarnámsbóta enda hafi sá sem heimild hefur til eignarnáms tekið umráð eignarinnar. Ekki verður séð að eignarnámþolar í máli þessu uppfylli kröfur fyrrnefndar 6. gr. til þess að kallast “aðrir rétthafar” þar sem meint réttindi þeirra féllu niður vegna vanlýsingar sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr.113/1952 um lausn ítaka af jörðum sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 92/1955.

 

Þá byggir eignarnemi á því að matsnefnd eignarnámsbóta hafi þegar kveðið upp úrskurð sem tekur til sama ágreinings og er til umfjöllunar í þessu máli, þ.e. í málinu nr. 7/2004. Í því máli var einnig um að ræða kröfu um bætur fyrir meinta skerðingu á beitarrétti eignarnámsþola vegna vegagerðar þ.e. færslu Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Í þessu máli er um að ræða kröfu um bætur vegna meintrar skerðingar sama beitarréttar vegna tvöföldunar á Reykjanesbraut í Garðabæ. Þannig hefur matsnefndin þegar fjallað um ágreininginn þ.e. um hinn meinta beitarrétt eignarnámsþola og skiptir engu í því sambandi þótt um sé að ræða land í öðru sveitarfélagi enda eru málsástæður eignarnámsþola hinar sömu að öllu leyti. Nægir í því sambandi að benda á að í báðum tilfellum er um að ræða land sem Hafnarfjarðarbær keypti af landsjóðnum sbr. afsal dags. 30. ágúst 1913. Ber því að vísa málinu frá matsnefndinni.

 

Þá byggir eignarnemi á því varðandi aðalkröfu sína um frávísun málsins að hann sé ekki réttur aðili að málinu. Hann hafi fengið leyfi allra hlutaðeigandi eigenda landsins og þar til bærra yfirvalda til þess að leggja veg um landið. Ef eignarnámsþolar séu ósáttir við það, hljóti þeir að snúa sér að þessum aðilum en ekki eignarnema. 

 

Varakröfu sína um að hafnað verði öllum kröfum eignarnámsþola, styður eignarnemi við eftirfarandi málsástæður og lagarök.

 

Verði ekki fallist á fávísun málsins frá matsnefndinni, styður eignarnemi kröfu sína um að hafnað verði öllum kröfum eignarnámsþola, við sömu málsástæður og lagarök og byggt er á hér að framan varðandi frávísunarkröfuna þ.e. að hinn meinti beitarréttur hafi fallið niður vegna vanlýsingar sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum og því geti ekki komið til neinna greiðslna fyrir hann. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi í samskonar máli (nr. 7/2004) ekki talið efni til greiðslu bóta til eignarnámsþola. Vísar eignarnemi til forsendna matsnefndar í niðurstöðum úrskurðarins.

 

Þá byggir eignarnemi á því að þegar Hafnarfjarðarkaupstaður eignaðist jörðina eða landspilduna með afsali frá landsjóðnum hinn 30. ágúst 1913, þá hafi afsalsgjafi mátt gera ráð fyrir því að nýting og skipulag landeiganda, afsalshafa, á jörðinni til framtíðar, hlyti smám saman að takmarka hin óbeinu eignarréttindi (afnotaréttindi / beitarréttindi) beitarréttarhafa. Önnur niðurstaða leiði til þess að hin óbeinu eignarréttindi gangi framar hinum beina eignarrétti landeigenda.

 

 

Byggir eignarnemi á því að hið umdeilda landsvæði sé innan skipulags þéttbýlissvæðis og því séu þegar af þeirri ástæður  litlar eða engar líkur á að hægt sé að nýta beitarréttinn. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, annist viðkomandi sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Íbúar viðkomandi sveitarfélags séu bundnir af þeim og óheimilt sé að stofna til framkvæmda sem ganga í bága við samþykkt skipulag sbr. t.d. 56.gr. s.l. Hinu umdeilda svæði sé ráðstafað undir veg samkv. gildandi skipulagi. Reykjanesbraut í gegnum Garðabæ (áður Garðar) kom fyrst inn á aðalskipulag á árinu 1968 sbr. meðfylgjandi uppdráttur dags. í júní 1968 frá skipulaginu (Skipulagi ríkisins) sem breytt var 13. október 1969. Á uppdrættinum er Reykjanesbraut sýnd með mislægum gatnamótum bæði við Vífilstaðaveg og Arnarnesveg og er hún teiknuð á sama hátt og Hafnarfjarðarvegur. Síðan þetta var hefur hún verið sýnd í öllum gögnum. Í aðalskipulagi fyrir Garðabæ 1985 til 2005 kemur m.a. fram að framkvæmdir við Reykjanesbraut séu á lokastigi. Skipulagstillögur þessar og aðrar sem fjalla um sama svæði og sem hafa verið samþykktar af þar til bærum aðilum, byggja á lögmætum grunni, og koma þannig í veg fyrir nýtingu eignarnámsþola á hinni umdeildu spildu, án atbeina eignarnema.

 

Byggir eignarnemi á því að eigendur hins umdeilda lands hafi afhent það eignarnema í samræmi við skipulagsáætlanir samkv. framangreindu og hafi eignarnemi fengið framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórna sbr. framkvæmdaleyfi Garðabæjar dags. 21. október 2005 vegna tvöföldunar á Reykjanesbraut í Garðabæ. Þannig hafi eignarnemi öll leyfi þar til bærra aðila til framkvæmdanna.    

 

Þá byggir eignarnemi á því að í samþykkt um búfjárhald í Garðabæ sé sett með heimild í lögum nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., og komi í veg fyrir mögulega nýtingu eignarnámsþola á beitarréttinum á hinu umdeilda svæði enda hafi yfirvöld í Garðabæ þegar bannað beitarhólf sem eignarnámþolar settu þar upp nýlega eins og fram kemur í greinargerð eignarnámsþola. Byggir eignarnemi á því að beitarhólf komi ekki til greina á þrætusvæðunum vegna skipulags á svæðunum og nálægðar við hinar miklu umferðaræðar í miðju þéttbýli. Þannig verða eignarnámþolar ekki fyrir tjóni vegna aðgerða eignarnema.

 

Byggir eignarnemi einnig á því að lögreglusamþykkt fyrir Garðabæ nr. 171/1988 vísi til samþykktarinnar um búfjárhald. Kemur m.a. fram í 36. gr. lögreglusamþykktarinnar, að ef maður heldur búfé án heimildar, skuli lögreglustjóri hlutast til um að það sé tekið úr vörslu hans  og er þá heimilt að selja það á uppboði eða lóga því. Þá kemur fram að búfénað svo sem hesta, nautgripi og sauðfé, sem er látinn ganga laus í kaupstaðnum gagnstætt fyrirmælum lögreglusamþykktarinnar, skuli handsama. Þetta sýni einnig að eignarnámþolar geti alls ekki nýtt beitarrétt sinn á hinum umdeilda svæði jafnvel þótt hann væri talinn virkur.

 

Þá byggir eignarnemi á því að lög um dýravernd nr. 15/1994 setji líka hinum meinta beitarrétti þröngar skorður. Samkv. 4. gr. laganna skal sjá til þess að vetri til, “þegar búfé er haldið til beitar eða látið liggja við opið, skal sjá til þess að á staðnum sé húsaskjól eða annað öruggt og hentugt skjól í öllum veðrum” eins og það er orðað. 

 

Við hugsanlegt mat á réttindum eignarnámsþola hafnar eignarnemi öllum samanburði við sölu lóða í Kópavogi og leggur áherslu á að í þessu máli sé verið að fjalla um beitarréttindi, þ.e. afnotaréttindi af landinu, sem eiga ekkert skylt við verðmæti lóða undir mannvirki í þéttbýli. Tekur eignarnemi undir með  matsnefnd eignarnámsbóta  í úrskurði í matsmálinu nr. 7/2004 að “ekki fáist með neinu móti séð að umfangsmikil nýting umræddra réttinda svo sem hún birtist í skjölum eignarnámsþola, m.a. með mannvirkjagerð o.fl., sé í nokkru samræmi við efnislegt inntak umræddra réttinda” eins og það er orðað. Framangreindri niðurstöðu til stuðnings vísar eignarnemi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 51/2004 þar sem talið var að í orðalaginu “til ræktunar með venjulegum skilmálum”  fælist sú takmörkun á rétti lóðarhafa að einungis hafi verið heimilt að reisa þau mannvirki á landinu sem tengdust ræktun á því, en ekki heimild til að búta landið niður í lóðir undir íbúðarhús eða önnur mannvirki. Voru eignarnámsbætur ákveðnar á grundvelli þessarar niðurstöðu.        

 

Eignarnemi byggir ennfremur á því að ekki sé með öllu ljóst hvað felist í hinum meinta beitarrétti eignarnámsþola samkv. fyrirliggjandi afsölum. Í afsalinu frá 30. ágúst 1913 kemur fram að “núverandi ábúendum Garðakirkjujarða  í Garðahverfi og jörðinni Selskarði, er áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu svo sem verið hefur” eins og það er orðað. Í afsalinu frá 29. maí 1912 segir hins vegar að jörðinni fylgi “hagbeit fyrir jarðarfénaðinn í hinu óskipta beitilandi Garðahverfisbúa, og er jarðeiganda skylt að sætta sig við hver þau skipti hins óskipta lands sem gerð kunna að verða af réttum hlutaðeigendum milli núverandi Garðkirkjujarða að Selskarði meðtöldu.”

 

Þannig virðist ekki vera fullt samræmi á milli afsalanna eða a.m.k. vekja þau upp jafn margar eða fleiri spurningar en þau svara. Samkv. afsalinu frá 1912 er um að ræða réttindi til beitar í hinu “óskipta beitilandi” en jarðeigenda gert að “sætta sig við hver þau skipti hins óskipta lands sem gerð kunna að verða af réttum hlutaðeigendum”  en samkv. afsalinu frá 1913 er jörðinni “áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu svo sem verið hefur.”  Ekki er með öllu ljóst hvað felst í orðalaginu “svo sem verið hefur.”  Þá er heldur ekki með öllu ljóst hvað felst í orðalaginu í afsalinu frá 1912 um að jarðeigandi verði að “sætta sig við hver þau skipti hins óskipta lands sem gerð kunna að verða af réttum hlutaðeigendum”, en það gefur óneitanlega til kynna að við skipti hins óskipta lands, yrði jarðeigandi að gefa eftir hvers konar eignarráð / eignaréttindi sín í því landi.  Það gerðist með afsalinu frá 1913 þegar Hafnarfjarðarkaupstaður keypti landspildu úr hinu óskipta landi. Vísast í þessu sambandi til dóms gestaréttar Reykjavíkur frá 29.desember 1920 þar sem niðurstaðan var m.a. grundvölluð á því að eigandi Selskarðs yrði að sætta sig við sölu á hluta úr hinu óskipta landi vegna hins tilgreindra orðalags í afsali til hans. Segir orðrétt í dómnum:

 

“Takmörkun þessi gerir það að verkum að stjórnarráðinu verður að telja hafa verið frjálst að selja Hafnarfjarðarkaupstað hinn umrædda hluta af hinu óskipta Garðakirkjulandi án þess að stefnandi geti gert nokkurt tilkall til nokkurs hluta af andvirðinu, þar sem nægilegt óskipt land er eftir til þess, að Selskarð fái þann hluta af landinu, er eigandi þess verður að sætta sig við eftir framansögðu.” 

 

Þótt deila megi um hvaða fordæmisgildi dómurinn hefur, slær hann því föstu að eigendur Selskarðs þyrftu að sætta sig við söluna á landspildunni til Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna hins tilgreinda ákvæðis í afsali til þáverandi kaupanda Selskarðs, þar sem nægilegt óskipt land væri ennþá eftir til þess að eigandi Selskarðs fengi þann hluta af landinu sem honum bar. Ef beitarréttur eiganda Selskarðs féll ekki niður við fyrrgreint afsal til Hafnarfjarðarkaupstaður, þá a.m.k. hlaut hann að takmarkast af nýtingu hins nýja eiganda á landinu. Hér á við að  “ekki verður bæði sleppt og haldið.”  Sérstaklega ber að hafa í huga í þessu sambandi að fullt kaupverð var greitt fyrir landspilduna sem þáverandi eigandi Selskarðs krafðist hlutdeildar í.

 

Þá byggir eignarnemi á því að eignarnámsþolar hafi ekki sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Fyrir liggur í gögnum málsins að jörðin Selskarð er eyðijörð og þar hefur ekki verið stundaður neins konar búskapur eða skepnuhald í áratugi en það er eðli málsins samkvæmt forsenda þess að beitarrétturinn verði nýttur.

 

Það styrkir síðastgreinda ályktun, að hinn meinti beitarréttur tekur til 3.230 hektara lands (sjá úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 7/2004) en land það sem landeigendur fengu eignarnema tekur aðeins til 6.8 hektara lands í Hafnarfirði og ca 5,5 hektara í Garðabæ. Landið meðfram Reykjanesbrautinni er auðvitað síst fallið til beitar af öllu því landssvæði sem hér um ræðir vegna nálægðar við mikla umferðaræð og þéttbýli. Það verður því ekki séð að nýting eignarnema á landinu hafi áhrif á nýtingu meints beitarréttar eignarnámsþola. 

 

Að því er varðar nýtingu og mat á verðmæti meints beitarréttar, verður að taka tillit til þess að þrátt fyrir að beitarrétturinn taki til svo stórs landsvæðis sem að framan greinir, hafa eignarnámsþolar ekki getað sýnt fram á nýtingu hans á hinu viðáttumikla svæði.

 

Þá byggir eignarnemi á því að eignarnámsþolar hafi ítrekað sýnt tómlæti varðandi meintan beitarrétt sinn. Engin gögn liggi fyrir um að þeir hafi nýtt þennan rétt sinn a.m.k. síðustu 4-5 áratugi eða jafnvel lengur. Þá hafi þeir heldur ekki mótmælt þeim skipulagsáætlunum og skipulagstillögum sem samþykktar hafi verið af þar til bærum yfirvöldum varðandi nýtingu á svæðinu. Byggir eignarnemi á því að bæði hlutaðeigandi yfirvöld sem og hann sjálfur, hafi mátt gera ráð fyrir vegna tómlætis eignarnámsþola, að nýting landsins til vegagerðar hafi verið eignarnámþolum að meinalausu. Í þessu sambandi vill eignarnemi vekja athygli á því, að Reykjanesbraut eins og hún var fyrir tvöföldun hennar, hefur legið í gegnum Garðabæ í yfir 20 ár og Reykjanesbraut í Hafnarfirði, vestan Kirkjugarðs, í marga áratugi, án athugasemda af hálfu eignarnámsþola.

Þrautavarakröfu sína um að eignarnema verði gert að greiða mun lægri bætur en krafist er, að álitum, styður eignarnemi við þá staðreynd að eignarnámsþolar eigi aðeins beitarrétt í jörðinni og því beri aðeins að greiða verð sem svarar til verðs fyrir beitarrétt annars staðar. Matsnefndin verði því að kanna hversu mikið þurfi að greiða fyrir að setja sauðfé á beit annars staðar í sambærilegu landi að frátöldum kostnaði vegna girðinga á landinu.

Þá byggir eignarnemi á því til stuðnings þrautavarakröfu sinni, að taka verði tillit til þess að Reykjanesbraut hafi legið í gegnum Garðabæ í meira en 20 ár. Ef bætur yrðu ákveðnar vegna missis á beitarréttindum á svæðunum, yrði til frádráttar að taka tillit til þeirra vega sem fyrir voru og áhrifasvæðis þeirra sbr. 1. mgr. 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 og hæstaréttardómur í málinu nr. 349/2004.   

 

Eignarnemi styður kröfu sína um að honum verði úrskurðaður málskostnaður  við þau lagarök sem búi að baki 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Greinin geri ráð fyrir að eignarnemi greiði bæði kostnað af starfi matsnefndar og kostnað eignarnámsþola þegar gild rök séu fyrir því að mál fari fyrir nefndina. Því sé ekki að heilsa í þessu tilviki. Í fyrsta lagi hafi þegar gengið úrskurður í matsmálinu nr. 7/2004 um mat á fjártjóni eignarnámsþola vegna missi beitarréttar eins og hér að framan er greint. Í öðru lagi sé atvikum háttað þannig að engin þörf hafi verið fyrir eignarnámsþola að leggja málið fyrir matnefndina, þar sem eignarnemi hafi haft öll tilskilin leyfi landeigenda og yfirvalda til framkvæmdanna. Af þessu leiði að hvorki sé eðlilegt að eignarnemi greiði kostnað af starfi matsnefndarinnar né kostnað eignarnámsþola af rekstri málsins. Við þessar kringumstæður sé eðlilegt að eignarnámsþolar greiði kostnað eignarnema af málinu. Vísar eignarnemi í þessu sambandi til þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í matsmálinu nr. 7/2004 um þessi atriði.

 

Ef eignarnema verður gert að greiða málskostnað til eignarnámsþola, þá mótmælir hann því að við ákvörðun þess kostnaðar sé tekið tillit til meints vinnuframlags þeirra Björns Erlendssonar og Jóns Lárussonar sem samkv. fullyrðingum í greinargerð eignarnámsþola nemur þúsundum klukkustunda. Vekur eignarnemi athygli á að þessir menn eru sjálfir ekki aðilar að málinu. Telur eignarnemi að stærstur hluti þeirrar vinnu tengist matsmáli þessu ekki nema að litlu leyti, heldur sé um að ræða saman safnaðar vinnustundir þeirra í þágu jarðarinnar. 

 

Eignarnemi gerir einnig eftirfarandi athugasemdir við helstu málsástæður og lagarök eignarnámsþola að svo miklu leyti sem ekki hefur verið fjallað um það hér að framan.

 

Eignarnemi mótmælir því að beitarréttur hafi verið nýttur á hinu umdeilda landsvæði a.m.k. síðustu 4-5 áratugina. Hafa eignarnámsþolar sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið. Geti þeir hins vegar sannað það, skorar eignarnemi á þá að leggja fram gögn um það,  þannig að hægt sé að átta sig á hver verðmæti hafi falist í þeim beitarrétti.

 

Í málatilbúnaði sínum reyna eignarnámþolar að gera sér mat úr bókun sem gerð var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. apríl 2004 þegar mál Jóns Lárussonar gegn Vegagerðinni og Hafnarfjarðarkaupstað til réttargæslu, var fellt niður.

 

Eignarnemi byggir á því að í umræddri bókun felist ekki annað en það, að eignarnemi viðurkenni að eignarnemi hafi átt beitarrétt samkv. hinu tilgreinda afsali án þess að afstaða hafi verið tekin til þess hvers eðlis hann var. Í því felst hins vegar alls ekki viðurkenning á því að sá beitarréttur sé ennþá til staðar eins og málatilbúnaður eignarnámsþola byggir á.

 

Eignarnemi telur að þau möt sem eignarnámþolar hafa lagt fram, annars vegar frá Jóni Guðmundssyni löggiltum fasteignasala og hins vegar Jóni Hólm Stefánssyni, séu því marki brennd að ekki sé gerður skýr greinarmunur á beinum eignarráðum og beitarrétti. Þannig er engin tilraun gerð til þess að meta beitarréttin sem slíkan til fjár.

 

Eignarnámsþolar halda því fram í greinargerð sinni að málið varði mikla atvinnulega og fjárhagslega hagsmuni þeirra. Jörðin Selskarð, þ.m.t. beitarréttur hennar séu lífeyriseignir og lífeyrisréttindi eigenda Selskarðs. Hafi eignarnámsþolar ekki tök á að afla sér sambærilegrar eignar til beitar, þá séu atvinnumál þeirra í uppnámi í framtíðinni og þeir þar með sviptir atvinnu sinni. Eignarnemi mótmælir þessu sem röngu og ósönnuðu.

 

Varðandi eignarhald á landi því sem fer undir breikkun Reykjanesbrauta á því svæði sem um er deilt byggir eignarnemi á því að hann hafi fengið leyfi eigenda landsins til að leggja veginn og eigi í viðræðum við eigendur jarðarinnar Urriðavatns um bætur fyrir breikkunina. Í þeim tilvikum sem bæjarfélög hafa látið land undir vegi eins og Garðabær og Hafnarfjörður í þessu tilviki, kveður eignarnemi að ekki hafi verið gengið frá formlegum samningum milli eignarnema og viðkomandi bæjarfélags og sérstakt endurgjald fyrir landið hefur ekki verið greitt. Eignarnemi telur þó að vísbendingar séu um það að þetta land sé háð eignarrétti eignarnema þótt ekki liggi fyrir afsal eða eignarnámsúrskurður heldur aðeins heimild viðkomandi bæjarfélags til vegagerðar. Samkv. 1. mgr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 eru landeigendur skyldaðir til að láta land af hendi undir veg gegn fullum bótum. Orðalag greinarinnar bendi til þess að eignarrétturinn falli til eignarnema, Vegagerðarinnar. Orðalag 2. mgr. 47. gr. vegalaga bendir einnig til hins sama en þar er kveðið á um að meta eigi gamalt vegsvæði sem fellur aftur til landeiganda og draga frá bótum til hans. Eignarnemi telur með vísan til framangreinds, að hann fari með beinan eignarétt á þessu landi eins og öðru landi þar sem hefðbundið eignarnám hefur farið fram.

 

VIII.  Niðurstaða:

 

Óumdeilt er að land sem deilt er um í máli þessu fór undir breikkun á Reykjanesbraut og stækkað helgunarsvæði vegna þeirrar breikkunar. Í málinu liggur ekki fyrir tilkynning um eignarnám eða afsal fyrir hinu umdeilda landi, en Vegagerðin byggir á því að það felist í eignarnámsheimild, skv. 1. mgr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994, að hún teljist eigandi þess lands sem fari undir vegi á hverjum tíma óháð tilkynningum og því hvenær samningar um bætur fyrir hið eignarnumda land takast. Í því sambandi sé nægilegt að landeigandi samþykki vegaframkvæmd, líkt og liggi fyrir í máli þessu, eða skipulagsyfirvöld gefi úr framkvæmdaleyfi. Er fallist á þá skýringu með Vegagerðinni og verður að telja, m.a. með vísan til  6. gr. laga nr. 11/1973, að Vegagerðin hafi tekið hið umdeilda landsvæði eignarnámi í síðasta lagi við umráðatöku landsins. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hófust framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar á þeim kafla sem hér um ræðir í byrjun árs 2006. Vegagerðin telst því eignarnemi á því landi sem mál þetta varðar og verður á því byggt að hún hafi þegar tekið umráð hins eignarnumda lands þegar eignarnámsþolar lögðu fram beiðni sína þann 22. mars 2006.

 

Eignarnámsþolar byggja heimild sína til þess að leggja málið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta á ákvæðum 6. gr. laga nr. 11/1973, þar sem kveðið er á um að eigandi eða annar rétthafi geti krafist fyrirtöku máls, skv. 5. gr. sömu laga, í þeim tilvikum sem eignarnemi hefur tekið umráð hins eignarnumda. Eignarnámsþolar telja að skilyrði um aðild að máli fyrir matsnefnd eignarnámsbóta skv.  6. gr. sé uppfyllt þar sem þeir telja sig hafa átt beitarrétt á landi því sem tekið var eignarnámi. Eignarnemi hefur mótmælt því.

 

Af gögnum sem lögð hafa verið fram hjá matsnefnd eignarnámsbóta verður ráðið að þegar kirkjujörðin Selskarð var seld ábúanda hennar, skv. heimild í lögum nr. 50/1907, með afsali dags. 29. maí 1912 var jörðinni áskilin “hagbeit fyrir jarðarfénaðinn í hinu óskipta beitilandi Garðahverfisbúa”. Einnig liggur fyrir að með afsali dags. 30. ágúst 1913 var Hafnarfjarðarkaupstað seldur hluti af hinu óskipta beitilandi Garðahverfisbúa. Í umræddu afsali til Hafnarfjarðarkaupstaðar var kveðið á um beitarrétt til handa jörðinni Selskarði með eftirfarandi orðum:

 

 „Núverandi ábúendum Garðakirkjujarða í Garðahverfi og jörðinni Selskarði er áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu svo sem verið hefur.“

 

Það er mat nefndarinnar að orðalagið „svo sem verið hefur” vísi til þess beitarréttar sem ábúendur kirkjujarðarinnar Selskarð höfðu notið í hinu selda landi og kveðið var á um í afsali við sölu hennar til þáverandi ábúanda hennar dags. 29. maí 1912.  Við nánari afmörkun á inntaki þess beitarréttar sem ábúendur Selskarðs nutu í hinu óskipta beitarlandi telur matsnefndin að styðjast megi við lýsingu í umsögn Jens Pálssonar, umráðamanns kirkjujarðarinnar Selskarðs, dags. 28. febrúar 1912 og merkjalýsingu, dags. 7. júní 1890, en þar segir m.a. að jarðir Garðakirkju hafi allar “afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliðanota, en ekki úrskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhúsum sömuleiðis.”

 

Verður af þessum heimildum ráðið að jörðin Selskarð hafi notið beitarréttar á landi því sem um er deilt í málinu eftir kaup Hafnarfjarðarkaupstaðar á landinu. Beitarréttur þessi virðist hins vegar hafa verið takmarkaður annars vegar við “hagbeit fyrir jarðarfénað” og svo af samnotum með öðrum beitarréttarhöfum.

 

Málsaðila greinir á um það hvort beitarréttur jarðarinnar hafi verið ítak í skilningi 1. gr. laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum og hvort lögin hafi tekið til þess lands sem Hafnarfjarðarkaupstaður keypti úr sameiginlegu beitarlandi Garðahverfisbúa.

 

Það er mat nefndarinnar að réttur gerðarþola til beitar á landinu hafi verið ítak skv. 1. gr. laga nr. 113/1952. Varðandi það álitaefni hvort lögin hafi átt að ná til lands eins og þess sem Hafnarfjarðakaupstaður keypti bendir nefndin á að samkvæmt 2. gr. laganna taka þau ekki til annarra fasteigna en jarða. Í greinargerð með frumvarpi til laganna er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu jörð, en tekið er fram að  lögin taki ekki til ítaka í aðrar fasteignir en jarðir og taki því ekki til ítaka í kaupstaðarlóðir eða í afrétti, sem sveitarfélög eiga. Þá er einnig umfjöllun í greinargerðinni um tilgang laganna og aðdraganda þeirra og m.a. vísað til lagaákvæða, sem geyma heimildir til að koma hlunnindum, sem frá jörðum hafa verið skilin, aftur undir þær, sbr. t.d. fyrirmæli vatnalaga og lax- og silungsveiðilaga, sem og fyrirmæli laga um bann við að skilja tiltekin réttindi frá fasteign. Þá segir orðrétt: “Heimild sú sem frumvarp þetta veitir til lausnar ítaka af jörðum, er spor í þessa átt.”

 

Þó ekki sé að finna nánari skilgreiningu á hugtakinu jörð í lögum nr. 113/1952 má ráða af frumvarpi til laganna að þeim sé ætlað að taka til jarða, sem nytjaðar séu í sambandi við notkun þeirra, þ.e. til landbúnaðar. Við mat á því hvort um jörð sé að ræða í skilningi laganna er þ.a.l. unnt að hafa til hliðsjónar skilgreiningu á hugtakinu jörð í þágildandi lögum um kauprétt á jörðum nr. 40/1948, en þar sagði í 1. gr.:

 

“Jörð merkir í lögum þessum hvert það býli, heimajörð eða hjáleigu utan kaupstaða og kauptúna, sem sérstaklega er metið til verðs samkvæmt fasteignamati og talið er í fasteignamatsbók eða metið sem jörð í millimati.”

 

Í ljósi framangreinds telur nefndin verulegan vafa uppi um það hvort umrædd landspilda falli undir lög nr. 113/1952, enda benda ákvæði greindra laga til þess að þau taki fyrst og fremst til bújarða, þ.e. það sem í dag er kallað lögbýli, en ekki jarðarhluta eða spildna utan jarðanna sjálfra, sbr. fyrirmæli 2. gr. laganna.  Er eðlilegt að skýra þann vafa eignarnámsþola í vil í þessu samhengi. Það er afstaða matsnefndar að ekki sé hægt að slá því föstu að lög nr. 113/1952 taki til þessarar tilteknu fasteignar og því verður ekki byggt á því að beitarréttur jarðarinnar Selskarðs hafi  fallið niður vegna vanlýsingar á grundvelli þeirra.

 

Samkvæmt framlögðum samningi milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Garðabæjar, gerðum í mars 1978, um breytt lögsögumörk þeirra á milli, afsalaði Hafnarfjörður u.þ.b. 33 hektara landspildu til Garðabæjar. Innan marka þeirrar landspildu er landsvæði það sem mál þetta varðar. Samkvæmt samningi milli Garðabæjar og eiganda jarðarinnar Urriðavatns, frá nóvember 1986, afsalaði Garðabær til eiganda Urriðavatns stærstum hluta þess lands sem fór undir Reykjanesveg og breikkun hans nú og áður var hluti þess lands sem Hafnarfjarðarkaupstaður fékk með afsalinu 1913. Með þeim samningi varð land það sem mál þetta varðar að mestu leyti hluti af landi Urriðavatns. Í fyrrgreindum samningum er ekki getið um beitarrétt jarðarinnar Selskarðs eða annarra á landinu. Það er mat nefndarinnar að veruleg óvissa sé fyrir hendi um það hvort beitarréttur eignarnámsþola, á þeim landskika sem skipt hefur um hendur með þeim hætti sem fyrr er lýst, hafi haldist þannig að hann sé skuldbindandi fyrir núverandi eigendur landsins. Er afstaða þessi sett fram með þeim fyrirvara að ekki hafi verið upplýst um afstöðu fyrri landeigenda til beitarréttar eignarnámsþola á landi því sem eignarnám eignarnema nær til.

 

Eignarnámsþolar hafa byggt á því að eignarnemi hafi með bókun í þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. apríl 2004, viðurkennt beitarrétt eignarnámsþola með almennum hætti og að sú viðurkenning nái einnig til þess landsvæðis sem nú sé deilt um. Með fyrrgreindri bókun var fellt niður mál sem Jón Lárusson höfðaði á hendur eignarnema. Tilefni þeirrar málshöfðunar voru framkvæmdir við færslu og breikkun Reykjanesvegar í Hafnarfirði. Í framhaldi af fyrrgreindri bókun og niðurfellingu málsins fyrir héraðsdómi og í samræmi við efni hennar, var ágreiningur aðila um bætur vegna umræddra framkvæmda í Hafnarfirði lagður fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og úr honum leyst í máli nr. 7/2004. Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að umrædd bókun í þingbók þann 14. apríl 2004 feli í sér viðurkenningu af hálfu eignarnema á beitarrétti eignarnámsþola á þeirri landspildu sem nú er deilt um og var á þeim tíma sem bókunin var gerð ekki í umráðum eða eignarhaldi eignarnema. Er bókunin ekki nægilega skýrt orðuð til þess að hægt verði að leggja svo víðtæka merkingu í hana, gegn andmælum eignarnema.

 

Þrátt fyrir ítarlega gagnaöflun í málinu hafa eins og áður segir ekki verið lögð fram gögn er upplýsa um afstöðu þeirra aðila, sem áttu þann grunneignarrétt sem tekinn var eignarnámi, til beitarréttar eignarþola á landinu. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að eignarnámsþolar hafi beint kröfum að Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ eða eigendum Urriðavatns um heimild til nýtingar á beitarrétti eða kröfum um bætur fyrir missi beitarréttar, ef frá er talin tilraun fulltrúa eignarnámsþola sumarið 2005 til þess að setja upp beitarhólf innan bæjarmarka Garðabæjar. Var umrædd tilraun stöðvuð af bæjaryfirvöldum í Garðabæ og beitarhólfið fjarlægt umsvifalaust.

 

Er það mat nefndarinnar að hörð viðbrögð bæjaryfirvalda í Garðabæ gegn tilraun eignarnámsþola til að setja upp beitarhólf sumarið 2005 sé ótvíræð vísbending þess að það sé afstaða bæjaryfirvalda í Garðabæ að gildandi skipulag Garðabæjar standi því í vegi að eignarnámsþolar geti nýtt beitarréttindi þau sem þeir telja sig njóta innan bæjarmarka Garðabæjar, a.m.k. að því er tekur til þess svæðið sem um er deilt í máli þessu. Samkvæmt aðalskipulag Garðabæjar 1995-2015, sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar þann 15. júlí 1997, er það svæði sem um er deilt í málinu skipulagt undir stofnbraut og helgunarsvæði stofnbrautar. Í sama aðalskipulagi kemur fram að aðliggjandi svæði norðan megin við Reykjanesbraut sé skipulagt sem iðnaðar- og verslunarsvæði, en svæðið sunnan megin njóti bæjarverndar vegna lífríkis og útivistagildis. Í umræddu aðalskipulagi kemur jafnframt fram að í landi Garðabæjar sé beitarfriðunargirðing sunnan við Húsfell og Búrfell og sé nær allt bæjarland Garðabæjar friðað fyrir beit.

 

Í skipulags- og byggingalögum nr. 73/1997 er sveitarstjórnum veittar víðtækar heimildir til þess að ákvarða landnot innan lögsögumarka sveitarfélagsins. Leiði ákvarðanir skipulagsyfirvalda um breytta landnotkun eða takmarkanir á landnotum, s.s. um beitarfriðun lands, til tjóns fyrir þriðja aðila á sami aðili rétt til bóta, skv. 33. gr. laganna.  Kröfur um bætur skv. 33. gr.  skipulags- og byggingalaga skal beint að viðkomandi sveitarfélagi en mat á þeim á ekki undir lög nr. 11/1973 og er engin afstaða tekin til þessa atriðis í úrskurði nefndarinnar.

 

Matsnefndin telur að ekki verði annað ráðið að fyrirliggjandi gögnum um afstöðu bæjaryfirvalda í Garðabæ og aðalskipulag Garðabæjar, en að gildandi aðalskipulag og friðun þess lands sem hér um ræðir fyrir beit, sem hefur a.m.k. staðið frá setningu aðalskipulagsins þann 15. júlí 1997, hafi staðið því í vegi að eignarnámsþolar gætu nýtt beitarrétt sinn, hafi hann enn verið til staðar, á árinu 2006 er landið var tekið eignarnámi af eignarnema.

 

Það er hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að úrskurða um bætur fyrir eignarréttindi sem tekin eru eignarnámi. Sá sem leitar úrskurðar nefndarinnar um bætur fyrir missi réttinda vegna eignarnáms ber sönnunarbyrði fyrir því að hann eigi þau réttindi sem bóta er krafist fyrir og að þau hafi fallið niður eða skerst við eignarnám eignarnema.

 

Það er mat nefndarinnar, með vísan til þess sem áður hefur verið rakið, að eignarnámsþolum hafi ekki tekist að sýna fram á að þeir hafi notið beitarréttar á því landi sem um er deilt í málinu, þegar til eignarnáms eignarnema kom á árinu 2006 og því séu ekki fyrir hendi skilyrði 6. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 11/1973 til þess að matsnefndin taki til úrlausnar kröfur þeirra um bætur úr hendi eignarnema fyrir missir beitarréttar.  Er því máli eignarnámsþola á hendur eignarnema vísað frá.

 

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skal greiða kostnað af starfi matsnefndar úr ríkissjóði, en matsnefnd ákveði hverju sinni í úrskurði sínum, þegar ríkið er ekki eignarnemi, hverja greiðslu eignarnemi skuli inna af hendi til ríkissjóðs. Þá segir í sömu grein að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar um að ósannað sé að eignarnámsþolar hafi notið beitarréttar í hinu umdeilda landi, sem og með vísan til þess að matsnefndin hefur áður fjallað um kröfur um eignarnámsbætur til handa einum eignarnámsþola fyrir missi beitarréttar vegna færslu og breikkunar á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, máli nr. 7/2004, þykja engin efni til þess að gera eignarnema að greiða kostnað vegna starfa matsnefndar. Þá telur nefndin óhæfilegt, eins og úrslit máls þessa eru, að gera eignarnema að greiða kostnað eignarnámsþola vegna máls þessa og skal hann bera sjálfur kostnað sinn vegna reksturs máls síns fyrir nefndinni.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Málinu er vísað frá.

 

Kostnaður matsnefndar eignarnámsbóta 1.840.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

 

                                                                      

Jóhannes Bjarni Björnsson (sign)     

 

Jóhannes Karl Sveinsson (sign)

 

Óskar Sigurðsson (sign)

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum