Hoppa yfir valmynd
8. mars 1978 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 8. mars 1978

Ár 1978, miðvikudaginn 8. mars, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Bæjarsjóður Ísafjarðar
                  gegn
                  Skipasmíðastöð M. Bernharðssonar hf.
                  Ísafirði

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.
Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 30. ágúst 1977 sendi eignarnemi Matsnefnd eignarnámsbóta ljósrit af bréfi félagsmálaráðuneytisins dags. 12. nóvember 1976, þar sem heimilað var eignarnám á fasteignum og mannvirkjum í eigu skipasmíðastöðvar M. Bernharðssonar h.f. á Torfnesi, Ísafirði. Ennfremur fylgdi beiðni þessari útskrift úr fundargerðarbók bæjarráðs Ísafjarðar 17. ágúst 1977, en þar segir á þessa leið: "Til fundarins kom Guðmundur Marsellíusson framkv.stj. hjá Skipasmíðastöð M. Bernharðssonar h.f. fyrir hönd stjórnar Skipasmíðastöðvarinnar til viðræðna við bæjarráð um rýmingu lóðar á Torfnesi, vegna bygginga menntaskólans á þessu svæði o.fl.

Eftir umræður um málið eru aðilar sammála um að bæjarstjórn óski nú þegar eftir framkvæmd eignarnámsmats skv. fyrirliggjandi heimild félagsmálaráðherra. Jafnframt eru aðilar sammála um að ræða möguleika til samninga meðan málið er í meðferð eignarnámsnefndar og nefndin óski slíkra viðræðna, og eins er eignamat nefndarinnar liggur fyrir.

Viðræður sem fram fara milli aðila skuli þó ekki verða til þess að tefja rýmingu lóðarinnar eftir að vettvangsskoðun er lokið af hálfu eignarMatsnefndar".

Eignir þær sem beðið er um mat á eru byggingar og mannvirki gamallar dráttarbrautar, sem eignarnámsþoli á en verða nú að víkja vegna byggingar menntaskólahúss. Eignarnemi tekur fram að lóðarsamningar fyrir dráttarbrautinni séu útrunnir.

Eignarnemi skýrir svo frá, að tveir dómkvaddir menn hafi metið eignir þessar fyrir nokkrum árum, en ekki hafi náðst samkomulag um uppgjör við eignarnámsþola á þeim grundvelli. Matsgjörð þessi hefur verið lögð fram í málinu og segir í henni á þessa leið:

"Undirritaðir, dómkvaddir matsmenn, hafa skoðað og metið eignir Skipabrautar Ísafjarðar, Torfunesi, Ísafirði. Mat okkar á eignum þessum er sem hér segir:

-Spilhús
Byggingarár 1921.
Timburskúr, sökklar hlaðnir úr grjóti, timburgólf, veggir timburgrind klædd að utan með borðvið. Þak borið uppi af timburbitum og klætt bárujárni. Húsið er óeinangrað. Spil stendur á steyptum sökkli.

Stærð hússins er 4x17 = 68 m², 145 m3.

A.   Matsverð:   360.000.-

Spilið er ekki innifalið í þessari upphæð né flutningur á því.

-Skúrbygging áföst við spilhús.
Byggingarár 1921 og 1945.

Timburskúr, sökklar hlaðnir, timburgólf í eldri hluta en steypt gólf í nýrri hluta, veggir timburgrind klædd að utan með borðvið. Þak borið uppi af timburbitum. Klætt bárujárni. Húsið er óeinangrað.

Stærð hússins 4x25 m² = 100 m², 200 m3.

B.   Matsverð:   740.000.-

-Bogabraggi
Byggingarár 1948.

Bogabraggi á steyptum sökkli, sem nær 1 m upp úr jörð og er grafinn ca. 1 m niður fyrir gólf, gólf er malargólf, bogar eru úr stáli klæddir bárujárni. Bragginn er óeinangraður.

Stærð: 324 m², 1458 m3.

C.   Matsverð:   1.670.000.-

-Trésmiðja
Byggingarár 1925 og 1962.

Sökklar eru steinsteyptir, gólf steypt en óhúðað. Aðalvinnusalur er einangraður með 2" plasti, múrhúðaður og málaður, þak er borið uppi af timburkraftsperrum klætt niður með trétexi, þak er annars klætt með borðviði pappa og bárujárni. Upphitun er lofthitun (25 kkal ketill). Raflýsing að mestu með einf. fluorlömpum. Nokkur raflögn er fyrir vinnuvélar. Eldri hluti hússins er innréttaður fyrir kyndingu, geymslu og V.S. Innveggir eru yfirleitt úr timbri, útveggir eru ýmist ófrágengnir innan eða klæddir með timbri. Í þaki er innréttuð kaffistofa yfir eldri hluta hússins. Tæki og verkfæri eru ekki innifalin í matsupphæð.

Stærð: 240 m², 960 m3.

D.   Matsverð:   6.300.000.-

-Dráttarbraut, varnargarðar og fyllingar
Byggingarár 1921, 1946 og 1948.

1921:   Upphífingarbraut 120 m löng þar af 50 m á landi, hlaðin brautarspor stálbrautarteinar.
1921:   Hliðargarðar 52 m langir steinsteyptir með timburbraut.
1946:   Varnargarður 20 m langur steyptur.
1948:   Hliðargarður 48 m langir steinsteyptir með timburbraut.
1921:   Malar- og grjótfyllingar (sem næst 2000 m3).

E.   Matsverð:   3.800.000.-

Gerð er ráð fyrir að eigendur taki með sér sleða úr dráttarbraut og brautarteina.

Heildarmatsupphæð er því:

A.   Spilhús      360.000.-
B.   Skúrbygging   740.000.-
C.   Bogabraggi      1.670.000.-
D.   Trésmiðja      6.300.000.-
E.   Dráttarbraut o.fl.   3.800.000.-
         Samtals   12.870.000.-

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta 23. sept. 1977. Var málið þá tekið fyrir á Ísafirði og voru þar mættir f.h. eignarnema Árni Guðjónsson, hrl., Magnús Reynir Guðmundsson, starfandi bæjarstjóri, Gunnar Jónsson, bæjarfulltrúi og Jón Ólafur Þórðarson, bæjarfulltrúi. Af hálfu eignarnámsþola mættu þeir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hrl., og Guðmundur Marsellíusson, framkvæmdastjóri.

Var þá gengið á vettvang og mannvirkin skoðuð og aðstæður á staðnum. Að lokinni fyrstu skoðun fóru matsmenn einir aftur á staðinn og skoðuðu mannvirkin og alla staðhætti þar.

Á fundi Matsnefndarinnar 11. nóvember 1977 var í málinu gerð svofelld bókun: "f.h. eignarnema mætir Árni Guðjónsson, hrl. Hann gerir þá kröfu með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi fái nú þegar umráð þeirra mannvirkja, ásamt lóð, sem mál þetta fjallar um.

Lögmaður eignarnámsþola mótmælir því að eignarnema verði veitt umráð eigna þessara nú. Ef fallist verði á beiðni eignarnema krefst lögmaðurinn að eignirnar verði ekki afhentar nema gegn tryggingu að mati nefndarinnar. Eignarnemi mótmælir því að eignarnema, sem sveitarfélagi, verði gert að setja tryggingu fyrir framkvæmd málsins. Lögmennirnir skýrðu þetta mál frekar munnlega fyrir nefndinni og lögðu málið í úrskurð. Atriðið tekið til úrskurðar".

Hinn 14. nóvember 1977 var í Matsnefndinni kveðinn upp úrskurður um framangreint atriði og segir í honum á þessa leið:

"Við vettvangsgöngu þá, sem áður er getið kynntu matsmenn sér rækilega mannvirki þau og land það, sem hér um ræðir. Matsmenn líta svo á, eftir þessa skoðun, og eru um það sammála, að það muni ekki á neinn hátt torvelda framkvæmd efnismats í málinu, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola þótt eignarnema verði veitt leyfi til þess nú, að taka umráð þeirra eigna, sem hér um ræðir og sem lýst hefir verið hér að framan. Ekki hefur heldur, að áliti matsmanna, af hálfu eignarnámsþola verið bent á nein sérstök efnisrök, sem geti mælt því í gegn að eignarnema verði veitt heimild til, með hliðsjón af 14. gr. laga nr. 11/1973, að taka nú þegar umráð þessara eigna.

Að svo vöxnu máli samþykkir Matsnefndin með samhljóða atkvæðum og með tilvísun til 14. gr. laga nr. 11/1973, að leyfa eignarnema, að taka nú þegar umráð allra þeirra mannvirkja, sem um ræðir í máli þessu, svo og tilheyrandi lóðarréttindi, allt til þeirra nota, sem eignarnemi hefur nú þegar fyrirhugað á þessum stað.

Eignarnámsþoli hefur krafist tryggingar af hálfu eignarnema vegna þessarar umráðatöku. Af því efni þykir rétt að benda á, að í 14. gr. laga nr. 11/1973 segir á þá leið, að þótt mati sé ekki lokið geti Matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins. Ef krafa komi fram um það af hálfu eignarnámsþola skuli eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum og ákveði Matsnefndin trygginguna.

Eins og mál þetta horfir við og án þess að bera brigður á gjaldþol eignarnema til greiðslu þeirra bóta, sem kunna að verða metnar í máli þessu, telur nefndin ekki fært eins og málið horfir við, að víkja frá ákvæði lagagreinarinnar um trygginguna.

Að svo vöxnu máli voru matsmenn sammála um, að leyfa eignarnema að taka nú þegar umráð allra þeirra eigna, sem um ræðir í máli þessu, með tilvísun til 14. gr. laga nr. 11/1973 gegn 20.000.000.- króna bankatryggingu fyrir væntanlegum bótum.

Hæfilegar skaðabætur til eignarnámsþola vegna eignarnáms þess, sem hér um ræðir, verða úrskurðaðar á síðara stigi málsins. Einnig verður þá kveðið á um kostnað af málinu skv. 11. gr. laga nr. 11/1973."

II.

Í skýrslu forseta bæjarstjórnar Ísafjarðar um lóðamál Menntaskólans á Ísafirði dags. 13/11 - 1975 segir á þessa leið:

"Lóðarréttindi M. Bernharðssonar á Torfnesi eru sem segir:

1.   Fjörulóð undir skipabraut á Torfnesi, 365 fermetrar, samningur til 50 ára frá 1. jan. 1923 - útrunnin 1. jan. 1973.

2.   Viðbótarfjörulóð á Torfnesi 2170 fermetrar, samningur til 50 ára, frá 1. jan. 1925, vegna starfsemi skipabrautar. - Útrunnin 1. jan. 1975.

3.   Viðbótarland undir birgðaskemmu á Torfnesi 1564 fermetrar frá 3. ágúst 1945.

4.   Viðbótarland norðan til við skipabrautina á Torfnesi fyrir garða til hliðarsetningar (bátastæðis) 385 fermetrar, frá 26. ágúst 1946.

Um tvo síðastnefndu liðina, viðbótarland frá 1945 og 1946, er það að segja, að þær byggja á fundargerðum hafnarnefndar frá sama tíma. Hins vegar er ekki vitað til þess, að um þá hafi verðir gerðir sérstakir lóðarsamningar. Bæjarstjórn lítur því svo á, að gildistími þessarar lóðaúthlutunar sé hinn sami og fjörulóðarsamningsins, enda sé þetta viðbótarúthlutun, er falli undir sömu samninga. Það skal tekið fram að þessar upplýsingar eru nýkomnar í hendur bæjarfulltrúa. Áður var ætlað, að til væru sérstakir lóðarsamningar frá 1945 með sama gildistíma. Þess vegna var ætlað, að lóðarréttindi M. Bernharðssonar væru ekki öll útrunnin, þótt gömlu fjörulóðarsamningarnir væru útrunnir. Þetta hefur haft áhrif á þau tilboð, sem eignaraðila voru gerð á samningatímanum, t.d. um tækjaflutning, úthlutun á jafnstóru landi annars staðar, og hugsanlega bætur vegna rekstrarstöðvunar.

SAMNINGAUMLEITANIR VIÐ M. BERNHARÐSSON HF. ÁRIÐ 1972.

13. apríl 1972 eru gerðir tveir samningar milli bæjarstjórnar Ísafjarðar og M. Bernharðssonar skipasmíðastöðvar hf. Tilefni þessarar samningsgerðar var að hluti af fasteignum M. Bernharðssonar á Torfnesi, þ.e. svokölluð járnsmiðja, stóð þá í vegi fyrir framkvæmdum við annan áfanga menntaskólabygginganna. Sérsamningur er gerður um heimild til bæjarsjóðs um að fjarlægja hana, enda taki bæjarsjóður að sér veðskuld eða veðskuldir, sem hvíla á eignum M. Bernharðssonar að upphæð kr. 600.000.00 sem sína skuld. Þess má geta, að við þessa skuldbindingu hefur ekki verið staðið af hálfu bæjarsjóðs. Samningur þessi er undirritaður af málsaðilum, og er til frekari skýringar á framkvæmdaatriðum samkvæmt 4. grein aðalsamnings bæjarstjórnar og M. Bernharðssonar um yfirtöku eigna á Torfnesi, en þessi aðalsamningur var af einhverjum ástæðum aldrei undirritaður. Aðalatriði aðalsamningsins eru þessi:

1.   Bæjarsjóður greiði M. Bernharðsson skipasmíðastöð h.f. fyrir eignir og lóðir skv. mati tveggja dómkvaddra manna.

2   Verði yfirmat skuli það fara eftir reglum laga 61/1917 um sérstakt yfirmat.

3   Greiðsluform verði í því fólgið að bæjarsjóður yfirtaki skuldir M. Bernharðssonar h.f. við Útvegsbanka Íslands, Ísafirði og fleiri, jafnháar og matsverð fasteigna og umbóta á lóðum verður.

4   M. Bernharðsson skipasmíðastöð h.f. afhendi eignir allar til ráðstöfunar bæjarsjóðs 1. maí 1973.

DÓMKVADDIR MATSMENN

Með bréfi dagsettu 16. mars 1972 óskar bæjarstjórinn á Ísafirði eftir því við bæjarfógeta að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að meta til peningaverðs fasteignir og mannvirki M. Bernharðssonar h.f. á Torfnesi.

17. apríl 1972 eru þeir verkfræðingarnir Guðmundur Einarsson og Guðmundur Gunnarsson dómkvaddir til þessa verks.

Matsmenn luku ekki störfum sínum fyrr en þann 17. febrúar 1975. Matsgerðin barst bæjarráði Ísafjarðar í marsbyrjun 1975. Matsgerðin er aðalfylgiskjal þessa máls. Niðurstöðutala þess var kr. 12.870.000.00. Athygli skal vakin á forsendum matsgjörðarinnar.

NIÐURSTÖÐUR MATS OG FORSENDUR ÞESS

Eins og áður segir var niðurstaða mats á fasteignum og mannvirkjum M. Bernharðssonar á Torfnesi kr. 12.870.000.00. Þessi niðurstöðutala á einungis við um fasteignir og mannvirki í því ástandi sem þau eru.

Jafnframt taka matsmenn fram, að ýmsir aðrir þættir hafi ekki verið teknir inn í matið, samkvæmt þeim forsendum sem þeim voru gefnar. Þeir taka fram, að í matsgjörðinni sé ekki tekið tillit til eftirfarandi:

1.   Að leigusamningar um fjörulóð séu útrunnir.
2.   Að semja þurfi sérstaklega um bætur vegna rekstrarstöðvunar.
3.   Að samið verði sérstaklega um flutning á tækjum sem verði áfram í eigu "skipabrautar Ísafjarðar" (M. Bernharðsson skipasmíðastöð h.f.)
4.   Að Ísafjarðarkaupstaður veiti "skipabraut Ísafjarðar"sambærilega aðstöðu fyrir slipp og verkstæði og þá sem fyrir eru.

Þessar forsendur þarfnast nánari athugunar við.

1.   Á þeim tíma, sem matið fer fram, liggur ekki ljóst fyrir að allir lóðarsamningar M. Bernharðssonar á Torfnesi séu útrunnir. Þ.a.l. er sérstaklega gert ráð fyrir bótum vegna rekstrarstöðvunar.

2.   Vegna þess að fyrir lá samningsuppkast milli aðila frá 13. apríl 1972, sem Árni Guðjónsson hrl. mun hafa haft milligöngu um að gera, gefa matsmenn sér þá forsendu, að bæjarstjórn hafi boðið jafnstórt land fyrir slipp í Suðurtanga, sbr. 7. gr. umrædds samningsuppkasts.

3.   Þegar rætt er um flutning á tækjum er rétt að fram komi sá skilningur matsmanna, að þar sé einungis átt við lausan búnað. Allt naglfast og óhreyfanlegt telst hins vegar vera inni í matinu.

Þessar forsendur matsins gerbreytast hins vegar við það, að málið dregst svo á langinn að fjörulóðarsamningar á Torfnesi eru allir runnir út, sem og við það að samningaleið er reynd til þrautar, en ber ekki árangur, þá standa boð, sem gerð hafa verið í góðri trú á samningstímabilinu, ekki lengur sem skuldbindingar".

Kröfur lögmanns eignarnema:

Lögmaður eignarnema í máli þessu er Árni Guðjónsson hrl. Í greinargerð lögmannsins er þess farið á leit að Matsnefndin meti óskert heildarsannvirði eignanna eins og hann hefur lýst þeim í framlögðum málsskjölum.

Einnig óskar lögmaðurinn þess að Matsnefndin taki til mats þær aðrar eignir, sem matsaðilar kynnu að verða sammála um að draga beri undir matið þegar á staðinn sé komið og málið hafi verið túlkað fyrir Matsnefndinni.

Eignarnemi bendir á, að í matsgjörð hinna dómkvöddu matsmanna verkfræðinganna, Guðmundar Einarssonar og Guðmundar Gunnarssonar, dags. 17. febr. 1975 séu talin upp þau hús og mannvirki, sem meta skuli, en þau séu:

1)   Spilhús
2)   Bogaskemma
3)   Áföst skúrbygging við spilhúsið
4)   Trésmiðja
5)   Dráttarbraut, varnargarður og fyllingar.

Eignarnemi telur að öllum framangreindum eignum sé nákvæmlega lýst í matsgerðinni frá 1975.

Hann tekur fram, að upphaflega hafi einnig verið þarna járnsmiðja, sem búið sé að rífa og bæta skv. samkomulagi. Einnig hafi verið þarna hitakista fyrir bátasmíðar og viðgerðir og hafi hún einnig verið bætt. Komi þetta því ekki til mats nú.

Lögmaðurinn tekur fram að lóðarsamningar fyrir skipabrautina séu útrunnir og beri því ekki að meta neinar bætur fyrir afnotamissi landsins eða lóðarinnar.

Lóðarsamningarnir um skipabrautina frá 23. desember 1922 og 30. júní 1925 hafi verið til 50 ára og séu því nú útrunnir. Síðari samningar hafi verið um viðbót við lóð skipabrautarinnar og því til sama tíma og með sömu skilmálum.

Eignarnemi tekur fram að í samningunum frá 1922 og 1925 séu ákvæði um að bætur fyrir mannvirki að leigutíma loknum skuli fara eftir fjörulóðarreglugerð fyrir Ísafjörð frá 5. desember 1919, en þar sé mælt svo fyrir að bæta skuli sannvirði mannvirkja með 2/3 hlutum sannvirðis, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar en hún sé svohljóðandi:

"Leigutaki hefur forgangsrétt til leigu að leigutíma liðnum.

Nú vill leigusali ekki framlengja leiguna og er honum þá skylt að kaupa umbætur á lóðinni og öll mannvirki fyrir 2/3 sannvirðis án tillits til legu og afrásar eftir eignarnámsmati, nema öðruvísi semjist".

Eignarnemi tekur fram að ekki sé ætlast til að Matsnefndin taki afstöðu til þessa ákvæðis ef ágreiningur kunni að rísa um það. Af þeim sökum sé þess farið á leit að Matsnefndin meti áskert heildarsannvirði eignanna.

Lögmaður eignarnema heldur því fram að skipasmíðastöð þessi sé nú úr sér gengin og úrelt. Þar sem lóðarsamningar séu nú runnir út beri ekki að greiða flutningskostnað á tækjum né rekstursstöðvun fyrirtækisins. Þar sem meining eignarnámsþola sé að nota teinana og sleðann beri ekki að borga fyrir þau tæki né flutningskostnað á þeim, þar sem samningar séu útrunnir.

III.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþola Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hrl. Kröfur eignarnámsþola í málinu eru þær, að eignarnemi verði úrskurðaður til að greiða eignarnámsþola kr. 65.730.168.00 ásamt kostnaði við matið skv. reikningi og þóknun til lögmanns eignarnámsþola skv. mati Matsnefndarinnar.

Krafa eignarnámsþola er um mat á eftirfarandi eignum:

1)   Spilhús ásamt viðbyggðri skúrbyggingu
2)   Bogaskemma
3)   Trésmiðja ásamt viðbyggðu sagarhúsi.
4)   Dráttarbraut, varnargarðar, fyllingar, festarhöld að undanteknum brautarteinum og sleða.
5)   Járnsmiðja (nú rifin)
6)   Kostnaður við flutninga á vélum, brautarteinum, sleða og undirbyggingu fyrir þessa hluti, auk rekstrarstöðvunnar.

Eignarnámsþoli telur það ágreiningslaust með aðilum, að meta eigi liði 1-4, en að auki telur hann að meta eigi liðina 5 og 6.

Eignarnámsþoli telur það ekki rétt, að járnsmiðjan sé nú þegar bætt, skv. sérstöku samkomulagi. Gert hafi verið samkomulag um smiðjuna, sbr. mskj. nr. 35. Eignarnemi hafi greitt umsamdar bætur kr. 230.000.00 fyrir flutninginn á tækjabúnaði úr járnsmiðjunni, sbr. 2. gr. samningsins á mskj. nr. 35, en eignarnemi hafi ekki staðið við að greiða veðskuldirnar, sem hvíldu á járnsmiðjunni kr. 600.000.-, en þessi fjárhæð hafi átt að ganga upp í bæturnar fyrir sjálft húsið, sbr. 4. gr. samningsins, þar sem gert hafi verið ráð fyrir sérstöku mati á húsinu, sem aldrei hafi farið fram. Eignarnámsþoli telur allt þetta viðurkennt af eignarnema sbr. skýrslu hans á mskj. nr. 31, bls. 5. Matsnefndin verði því að meta húsið á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir liggja í málinu. Upplýsingar séu um að byggingarefnið hafi verið timbur og stærð 172 rúmm., sbr. mskj. nr. 27 og 28 og upplýsingar á mskj. nr. 12 bls. 3, en á þessu síðasta skjali séu villandi upplýsingar um stærð smiðjunnar. Smiðjan sé talin 96 rúmm. en eigi að vera 172 rúmm., svo sem fasteignamat ríkisins hafi vottað.

Hins vegar segir eignarnámsþoli það rétt, að eignarnemi hafi bætt svokallaða svitakistu. Hafi það verið gert með kr. 100.000.-, sbr. samning aðila frá 27.9.1972.
Eignarnámsþoli bendir á, að dráttarbrautin, varnargarðar og fyllingar séu í matinu á mskj. nr. 5, en festarhöld hafi ekki verið metin sbr. athugasemdirnar á mskj. nr. 32 tl. 6.

Matsmönnum hafi verið bent á þessi festarhöld er vettvangsgangan fór fram 23.9.1977. Þessi festarhöld sjáist á teikningunni á mskj. nr. 13, merkt sem svartir ferningar alls 23 að tölu. Eignarnámsþoli bendir á kortið á mskj. nr. 23, þar sem sjáist hvernig grafin hafi verið í sjávarbotninn renna fyrir brautarteina dráttarbrautarinnar. Bendir hann á 2ja m. og 3ja m. dýptarlínuna. Ennfremur bendir hann á upplýsingarnar á mskj. nr. 24, en þar er talað um reitlagningu milli garðanna í slippnum. Það merki, að allt svæðið milli garðanna hafi verið lagt grjóti til að losna við vatnsaga.

Eignarnámsþoli bendir á, að í mati verkfræðinganna á mskj. nr. 5 séu malar og grjótfyllingar taldar sem næst 2000 rúmm. Í bréfi lögmannsins til eignarnámsþola sé athygli hans vakin á þessari magntölu. Svar við þessu sé í bréfi eignarnámsþola á mskj. nr. 12 bls. 2 neðst. Magntölu verkfræðinganna sé ekki mótmælt, enda sé erfitt um vik þ.e. handbærar glöggar upplýsingar liggi ekki fyrir um landið áður en slippurinn var settur þarna upp. Eignarnámsþoli telur ekki óeðlilegt, að reikna með því að rúmmetrinn af fyllingarefni komið á staðinn sé í dag, um kr. 1500.-. Hann bendir á, að lögmaður eignarnema hafi talið að meta mætti rúmmetran af fyllingarefni á Torfnesi kr. 1000 sbr. mskj. nr. 8 í eignarnámsmálinu: Bæjarsjóður Ísafjarðar gegn Niðursuðuverksmiðjunni h/f, en mál þetta sé nú til meðferðar hjá Matsnefnd eignarnámsbóta.

Þá bendir lögmaður eignarnámsþola á teikninguna á mskj. nr. 13, sem segi sína sögu um varnargarða, uppfyllingar, hliðargarða, undirstöðu undir brautarteina og annan frágang, en allt fari þetta í súginn nema brautarteinarnir og sé allt þetta því bótaskylt.

Varðandi upplýsingar um önnur mannvirki, sem bæta á bendir lögmaður eignarnámsþola á mskj. nr. 27 og 28, vottorð fasteignamats ríkisins, mskj. nr. 5, matinu frá verkfræðingunum, mskj. nr. 32 og athugasemdum við matinu á mskj. nr. 5. Teikningar séu því miður ekki til af þessum húsum, en upplýsingar séu úr fasteignamatsvottorðum um byggingarefni, byggingarár og stærð í rúmmetrum.

Varðandi flutning á vélum og rekstrarstöðvun bendir lögmaðurinn á mat eignarnámsþola sjálfs á mskj. nr. 12 bls. 3, sbr. mskj. nr. 25. Einnig bendir hann á tilboð eignarnámsþola á mskj. nr. 33 og 34. Tapið af rekstrarstöðvuninni sé erfitt að meta þar eð starfsemi, sem fari fram í dráttarbrautinni á Torfnesi hafi ekki verið haldið aðgreindri í bókhaldi eignarnámsþola, en eins og Matsnefnd sé kunnugt um reki eignarnámsþoli umfangsmikla starfsemi á Ísafirði og sé starfsemi dráttarbrautarinnar á Torfnesi aðeins hluti af allri starfseminni. Mskj. nr. 25 veiti þó upplýsingar um starfsemina að nokkru, þar með talið mannahald. Hins vegar sé það augljóst að tjón verði í formi tekjutaps meðan verið sé að koma upp samskonar aðstöðu annars staðar á Ísafirði fyrir dráttarbraut. Hins vegar sé ekki vitað, hversu lengi þessi rekstrarstöðvun varir vegna þess að ekki hafi enn verið gengið frá lóðarúthlutun til eignarnámsþola fyrir dráttarbrautina. Hugsanleg lausn sé að slá á frest mati vegna rekstrarstöðvunar og flutning sbr. 16. gr. laga nr. 11/1972, en ekki sé það æskileg leið. Eignarnámsþoli óski þess, að Matsnefnd leggi mat á þennan lið, enda eigi að vera hægt að áætla með sennileika flutningskostnað og tap vegna rekstrarstöðvunar. Álit eignarnámsþola er, að bætur fyrir þennan lið eigi að nema kr. 21.051.828.-.

Eignarnámsþoli hefur á mskj. nr. 12 reiknað út bótakröfu sína og er grunnmat bótanna þar síðara tilboð eignarnámsþola á mskj. nr. 34, miðað við 1. desember 1974, eins og verkfræðingarnir gerðu í mati sínu. Vísitala byggingarkostnaðar var þá 1455 stig, en var í júlí 1977 2737 stig og telur eignarnámsþoli því hækkunina 88.11%. Lögmaður eignarnámsþola miðar hins vegar vísitöluna við það er hann skrifar greinargerð sína eða 3148 stig. Hækkunina telur hann þá 1693 stig eða 116.36%. Samkvæmt því verður sundurliðun bótakröfu hans þessi:

1)   Hús og eignir, kr. 19.9 milljónir
   x 116.36% eða ...........................................................   kr.   43.055.640.-

2)   Járnsmiðjan, kr. 750 þús.
   x 116.36% eða ...........................................................   "   1.622.700.-

3)   Stöðvun og flutningur
   kr. 9.830.000.- x 116.36%   "   21.051.828.-
      Samtals   kr.   65.730.168.-

Nánari sundurliðun eignarnámsþola á bótaþætti málsins setur hann þannig upp: "Hús og eignir, sem getur í 6.0 að framan, fer hér á eftir, byggð á sundurliðuninni á skj. nr. 33. Járnsmiðjan er þó dregin frá (kr. 27.760.000.- mínus kr. 600.000.- : kr. 27.160.000.-). Samkvæmt þessu verður t.d. hlutdeild dráttarbrautar þessi:

100 x 15.000.000
   27.160.000   : 55.23%

Hlutdeild bogaskemmu:   100 x 2.500.000
            27.160.000   : 9.20%

Dráttarbrautin:   kr.   43.055.640   x   55.23%   eða   kr.   23.779.630.-
Bogaskemma:   "   "   x   9.20%   "   "   3.961.119.-
Trésmiðja:   "   "   x   31.30%   "   "   13.476.415.-
Spilahús og
skúrbyggingin:   "   "   x   4.27%   "   "   1.838.476.-
      Samtals:      100.00%      "   43.055.640.-   "

Eignarnámsþoli telur ástand mannvirkja á Torfnesi í dag annað og verra en það hefði verið ef ekki hefði komið til að mannvirkin þyrftu að víkja af skipulagsástæðum. Vegna óvissunar um það hversu lengi eignarnámsþoli mætti vera á Torfnesinu með starfsemi sína hefði viðhaldið orðið minna auk þess sem nærvera heimavistar menntaskólans hafi boðið upp á aukna umferð um athafnarsvæði eignarnámsþola, rúðubrot og önnur spell, sem gjarnan fylgi unglingum. Telur hann því eðlilegt að miða mat við ástand eigna 1974/1975 eins og verkfræðingarnir hafi gert, þótt þeir hins vegar væru of lágir í mati sínu.

Bendir eignarnámsþoli á að mat verkfræðinganna hljóði upp á kr. 12.870.000.- og sé þá miðað við byggingarvísitöluna 1455. Miðað við vísitöluna í dag 3148 stig, sem geri 116.36% hækkun, þá ætti matið að nema kr. 27.845.532.- Eignarnámsþoli telur ýmsu ábótavant við mat verkfræðinganna. Þeir hafi þannig ekki tekið inn í mat sitt járnsmiðjuna, fyllingar, festarhöld, rekstrarstöðvun og kostnað við flutning, svo það helsta sé nefnt.

Eignarnámsþoli bendir á misræmi í stærð lóðar í fasteignamatinu mskj. nr. 17 og á mskj. nr. 27 komi ekki heim og saman. Samkvæmt mskj. 17 eigi lóðirnar að vera samtals 4662 m², en í fasteignamati séu lóðirnar taldar 2240 m². Að áliti eignarnámsþola séu upplýsingar fasteignamatsins rangar að þessu leyti.

Eignarnámsþoli bendir á, að hann hafi ætíð verið krafinn um fasteignagjöld þar með talin lóðaleigugjöld af fasteignum á Torfnesi, sbr. gjaldaseðilinn á mskj. nr. 30, og hafi hann ætíð greitt þessi gjöld. Mætti því líta þannig á, að samningarnir um lóðirnar framlengdust um jafn langan tíma og samningarnir segðu til um. Verði að túlka það skv. kenningum samningsréttarins hvers eðlis réttur eignarnámsþola sé til lóðanna. Hann hafi alla vega samninga um lóðirnar og þessum samningum hafi ekki enn verið sagt upp. Á þessu byggir eignarnámsþoli það, að bæta eigi honum tjón það sem stafar af því, að hann missir réttinn til lóðanna fyrirvaralaust og án uppsagnar. Telur eignarnámsþoli þetta atriði eiga að hafa áhrif á matið til hækkunar.

Í sambandi við hækkun fasteigna frá 1.12.1974 bendir eignarnámsþoli á, auk hækkunar á byggingarvísitölu, að skv. auglýsingu nr. 386/1974 hafi fasteignamat hækkað um 100%. Skv. auglýsingu nr. 482/1975 hafi það verið hækkað um 36.5% og samkvæmt auglýsingu nr. 383/1976 um 23.1%.- Þessar hækkanir hafi staðið í sambandi við notkun sveitarfélaga á fasteignamatinu sem grundvöll gjalda til sveitarfélaganna.

Til stuðnings bótakröfu sinni bendir lögmaður eignarnámsþola á ritið Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, bls. 464, grein W.E. V. Eyben í Úlfljóti 1961, 3. tbl. bls. 114 og dóm í Hæstarétti Danmerkur 8. nóvember 1961. Til stuðnings kröfu sinni um tap á leiguréttindum vísar hann í dóm í Hæstarétti Danmerkur 2. febrúar 1961.

Lögmaður eignarnámsþola tekur fram að hann hafi ekki getað fengið upplýsingar um gangverð fasteigna á Ísafirði, er nota mætti við viðmiðunar í þessu matsmáli.

IV.

Matsnefndin hefur farið á vettvang eins og áður getur, ásamt aðilum og umboðsmönnum aðila, og skoðað rækilega mannvirki þau, sem hér um ræðir og allar aðstæður á staðnum. Lýsing fyrri matsmanna á mannvirkjum var til staðar við vettvangsgönguna og bar Matsnefndin þá lýsingu saman við skoðun sína. Dráttarbraut, varnargarðar og fyllingar voru einnig athugaðar.

Aðilar hafa lagt fram greinargerðir og ýtarleg gögn í máli þessu og munnlegur málflutningur fór fram í málinu 1. desember 1977. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 27. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og heimild Félagsmálaráðuneytisins í bréfi dags. 12. nóv. 1976 til handa bæjarstjórn Ísafjarðar, að taka eignarnámi fasteignir og mannvirki í eigu skipasmíðastöðvar M. Bernharðssonar h.f. á Torfnesi, Ísafirði.

Ekki er ágreiningur með aðilum um heimild eignarnema til þess að taka eignir þær, sem hér um ræðir eignarnámi. Með leigulóðarsamningi 23. des. 1922 selur bæjarstjórn Ísafjarðar Bárði G. Tómassyni og fleirum á leigu fjörulóð liggjandi á Torfnesi á Ísafirði, svonefnt Skipabraut, skv. útmælingu og teikningu dags. 16. júlí 1920. Leigutíminn var 50 ár frá næstu áramótum að telja. Í samningi þessum segir, að leigusali og leigutaki skuli báðir í öllu hlíta samþykkt um leigu fjörulóða á Ísafirði frá 5. des. 1919 og brjóti leigutaki einhver ákvæði hennar eða standi ekki í skilum með greiðslu á leigunni, geti leigusali sagt leigunni slitið og sé hann þá ekki bundinn við ákvæði 7. gr. nefndrar samþykktar.

Með samningi dags. 30. júní 1925 selur bæjarstjórn Ísafjarðar Bárði G. Tómassyni o.fl. á leigu fjörulóðir Skipabrautarinnar á Torfnesi, sem sé lóð sunnan brautarteinanna að nokkru leyti í sjó, lengd strandlengis sé 40 metrar, á breidd 32 metrar eða alls 1280 m², svo og lóð ofan dráttarbrautinnar að lengd strandlengis 40 metrar, á breidd 24 metrar eða 960 m² (en þar inní að neðan gengur spilda, sem áður er útmæld og metin 70 m²). Leigutíminn er talinn 50 ár og telst frá síðastliðnum áramótum. Leigusali og leigutakar skuldbinda sig báðir í öllu til að hlíta samþykkt um fjörulóðir á Ísafirði frá 5. des. 1919 og brjóti leigutaki einhver ákvæði hennar eða standi ekki í skilum með greiðslu á leigunni getur leigusali sagt leigunni slitið og er hann þá ekki bundinn við ákvæði 7. gr. nefndrar samþykktar.

Samkvæmt fundargerð hafnarnefndar Ísafjarðar 1. júní 1945, er þá tekið fyrir erindi frá Marsellíusi Bernharðssyni um að fá leigt land á kambinum fyrir norðan Íshúsið í Neðstakaupstað til að setja þar upp birgðaskemmu af þeirri tegund, sem setuliðið hefur haft og sé nú til sölu hjá Sölunefnd setuliðsviðskipta. Skemman er 10 x 33 m. að flatarmáli, 7 m. há, með bogamynduðu þaki. Ennfremur sækir Marsellíus um að fá að reisa samskonar skemmu á Torfnesi og fá leigt land inn af Skipabrautinni og leyfi til að setja skemmuna niður innan við svonefnt lagerhús, við lóðatakmörk Arngríms Fr. Bjarnasonar og snúi gafl að sjó. Þá bað Marsellíus í sama erindi um aukna lóð fyrir norðan Skipabrautina og um leyfi til að lengja smiðjuna um 6 m. til austurs.

Fyrsta atriðinu í erindi Marsellíusar lagði hafnarnefndin til að yrði leyft og skemman sett niður eftir nánari tilvísun síðar og yrði þá stærð lóðarinnar ákveðin. Sérstakur samningur verði gerður um leiguna og leiguskilmála og lagður fyrir hafnarnefnd síðar. Um hin atriðin í erindi Marsellíusar frestaði hafnarnefndin að taka ákvörðun.

Á fundi hafnarnefndar Ísafjarðar 3. ágúst 1945 var aftur tekið fyrir erindi Marsellíusar Bernharðssonar um lóð á Torfnesi fyrir birgðaskemmu o.fl. Hafnarnefnd lagði til að Marsellíusi yrði leigð lóð á Torfnesi milli húss Arngríms Bjarnasonar og Sagarhússins upp að garðlöndum og til sjávar í beina línu í framhaldi af girðingu Arngríms Bjarnasonar. Var hafnarnefndin fyrir sitt leyti samþykk því, að Marsellíus setti þarna upp birgðaskemmu eins og byggingarnefnd hafði þegar samþykkt fyrir sitt leyti. Á fundi hafnarnefndar 26. ág. 1946 var tekin fyrir beiðni Marsellíusar um að fá leigt land norðan til við Skipabrautina á Torfnesi fyrir garða til hliðarsetnings (bátstæðis) út af lóðartakmörkum Gunnars Kristinssonar og Fiskimjöls h/f. Hafnarnefnd samþykkti beiðnina.

Með bréfi dags. 29. okt. 1969 vottaði bæjarsjóður Ísafjarðar, að firmað M. Bernharðsson h.f. hefði í leigu hjá Ísafjarðarkaupstað eftirtaldar lóðir:

"1.   Frá 21. desember 1960 til 55 ára 10.000 m² land undir skipabraut í Suðurtanga.

2.   Leiga á lóð undir skipasmíðastöð í Neðstakaupstað skv. samningi 12/2 1940. Lóðarstærð 1394 m².

3.   Leigulóð undir skipadráttarbraut í Suðurtanga neðan við lóð Niðursuðuverksmiðjunnar skv. samningi 6/7 1944. Lóðarstærð í Suðurtanga 1700 fermetrar auk þess Smiðjulóð 150 m² alls 1860 m², en vegna umferðarkvaðar greiðist leiga aðeins af 1560 fermetrum.

4.   Leigulóð undir birgðaskemmu í Neðstakaupstað skv. samþykkt hafnarnefndar 1/6 1945. Lóðarstærð, er skv. fasteignamati frá 1946, 866 fermetrar. Fasteignamat á lóðinni er kr. 9.100.00.

5.   Viðbótar fjörulóð undir smiðju í Neðstakaupstað skv. samþykkt hafnarnefndar 22/8 1950. Lóðarstærð 260 fermetrar.

6.   Fjörulóð undir skipabraut á Torfnesi 365 m² til 50 ára frá 1. jan. `23.

7.   Viðbótarfjörulóð á Torfnesi 2348 m² til 50 ára frá 1. jan. 1924, vegna starfsemi skipabrautar.

8.   Land undir birgðaskemmu í Neðstakaupstað 330 m² frá 1. júní 1945.

9.   Land undir birgðaskemmu á Torfnesi 1564 m² frá 3. ágúst 1945.

10.   Viðbótarland norðantil við skipabrautina á Torfnesi fyrir garða til hliðarsetningu (bátastæðis) 385 m² frá 26. ágúst 1946.

11.   Fjörulóð við smiðjuhús í Neðstakaupstað 395 m² frá 22. ágúst 1950."

Eins og að framan er rakið, er leigutími á lóðum þeim, sem eignarnámsþoli upphaflega fékk á Torfnesi til starfsemi sinnar þar útrunninn og líta matsmenn svo á, að leigusamningarnir hafi ekki endurnýjast, enda eignarnámsþola verið kunnugt um, að ekki yrði um endurnýjun á þeim að ræða. Seinni lóðarsamningar eru, að áliti matsmanna, viðbót við fyrri samninga til sama reksturs á Torfnesi. Upplýst er, að þegar á árinu 1970 yrðu byggingarnar að víkja, þar sem bæjarstjórn Ísafjarðar hafi gefið vilyrði um lóð undir menntaskóla á þessu svæði.

Er því ekki efni til, að meta eignarnámsþola fébætur vegna missis lóðanna, rekstursstöðvunar eða flutnings fyrirtækisins frá Torfnesi.

Matsmenn hafa fengið fasteignamöt og brunabótamöt á eignum þeim, sem hér um ræðir. Einnig hafi verið aflað upplýsinga um fólksfjölda á Ísafirði frá 1940 til 1975. Upplýsingarnar eru í málinu um skipafjölda, sem sett hafa verið upp í dráttarbrautinni 1963-1974, stærð þessara skipa o.fl. Fjölmörg önnur gögn og upplýsingar hafa einnig komið fram í málinu, og matsmenn reynt eftir föngum að kynna sér þetta málsefni.

Með hliðsjón af framangreindu og öðru sem matsmenn telja skipta máli sbr. 29. grein skipulagslaga þykir matsmönnum rétt, að ljúka matinu, sem hér segir.

Þær eignir sem til mats koma eru þær sömu og á matsk. nr. 5, nema hvað við bætist járnsmiðjan. Forsendur þær, sem í því mati eru nefndar "Matsgrundvöllur" koma hér ekki til.

Í framlögðum skjölum eru margskonar upplýsingar um stærð og gerð mannvirkjanna, en húsateikningar vantar. Matsskj. nr. 13 sýnir gerð dráttarbrautarinnar og er uppdráttur hennar málsettur. Á þessu matsskj. er einnig afstöðumynd allra mannvirkja árið 1972 í mælikv. 1:1000. Uppdrátturinn er gerður af M. Bernharðsson, skipasmíðastöð h/f., dags. 13/10 1977.

Við athugun gagna kom í ljós, að samræming náðist ekki í stærð húsa, og var því óskað eftir uppmælingu og útreikningi þessarar stærða, sem báðir aðilar stæðu að og samþykktu. Niðurstöður mælinga bárust Matsnefnd í bréfi dags. 15. febr. 1978. Bréfið er undirritað af Gunnari Erni Gunnarssyni fh. M. Bernharðssonar h/f og Bjarna Jenssyni fh. Bæjarsjóðs Ísafjarðar, og er svohljóðandi:

"Varðandi húseignir M. Bernharðssonar h.f. á Torfnesi Ísafirði.

Samkvæmt beiðni Matsnefndar eignarnámsbóta ríkisins höfum við undirritaðir framkvæmt eftirfarandi uppmælingu á neðangreindum eignum M. Bernharðssonar h.f.

      m²   m3
   Bogaskemma   254.0   1342.6
   Sagarhús   78.4   348.9
   Smíðahús   167.2   718.8
   Spilhús   20.5   52.3
   Smíðaskúr   50.0   127.6   "

Niðurstöður þessar eru lagðar til grundvallar mati þessu hvað stærðum húsa viðvíkur.

Talið er eðlilegt að skipta matsatriðum á sama hátt og gert er í fasteignamatinu frá árinu 1970, matsskjöl nr. 27 og 28.
Matsatriði eru:

1.   Trésmíðaverkstæði
   Hér er átt við sambygginguna sagarhús og smíðahús.

2.   Spilhús o.fl.
   Hér er átt við sambygginguna spilhús og smíðaskúr.

3.   Járnsmiðja.

4.   Bogaskemma.
   Er í sumum skjölum nefnd bogabraggi.

5.   Dráttarbraut
   Hér með talið varnargarðar, fyllingar og festarhöld. Undanskildir mati eru einungis brautarteinar.

Hér fer á eftir lýsing mannvirkja í höfuðdráttum. Slík lýsing getur ekki verið tæmandi og þó einhvers atriðis sé ekki getið þarf það ekki að þýða að ekki hafi verið tekið tillit til þess við mat til fjár.

1.   Trésmíðaverkstæði

Sambyggð hús. Í fasteignmati er smíðaár talið 1924 og gæti þar verið átt við fyrrihluta byggingarinnar þ.e. sagarhús, en trésmiðjan var byggð allmiklu síðar, líklega á árunum 1962-1963.

Sagarhúsið snýr gafli að götu og er trésmiðjan byggð þvert aftan við það. Báðir hlutarnir eru risbyggðir með sömu mænishæð. Þök beggja klædd bárujárni. Sökklar sagarhúss eru steyptir. Hliðar þess og nokkuð inn á gafl er úr steinsteypu, fínpússaðri að utan. Miðhluti götugafls er úr timbri, (nokkuð fornlegu) og þar andspænis á sameiginlegum vegg húsanna er timburþil en sá veggur annars steyptur. Á götuhæð, á vinstra horni framhliðar, er afþiljað herbergi með sérinngangi og anddyri. Nokkrar sérinnréttingar eru í herberginu. Milli herbergis þessa og trésmiðju er brunaeinangraður kyndiklefi með steyptum reykháf, kynditækjum fyrir lofthitun (25 k.kal ketill) og liggja frá þeim loftstokkar um bygginguna. Hægra megin á götuhæð var staðsett bandsög á undirstöðum og í einu horni þar var V.S. Vatns og skolplagnir því fyrir hendi. Stigi er upp í rishæð hússins en þar er afþiljuð kaffistofa. Trésmiðjan er eins og áður segir byggð þvert á sagarhúsið. Sökklar hennar og útveggir eru steinsteyptir og fínpússaðir að utan. Í þaki eru timburkraftsperrur klæddar borðvirði, pappa og bárujárni. Neðan á sperrurnar er klætt af með trétexi. Byggingin er einn geimur. Einangrun er 2" plast múrhúðað og málað. Gólf er steypt en óhúðað. Inngangsdyr eru vinstra megin við sagarhús en hægra megin þess eru þrískiptar innkeyrsludyr.

Lýsing er að mestu með fluorlömpum. Rafmagnstafla í húsinu sýndi raflögn fyrir 220/380 v.
Viðhald húsanna virtist yfirleitt gott.
Lokastærðarflötur málsaðila:

Flatarmál sagarhúss 78,4 m², flatarmál smíðahúss 167,2 m² eða samtals 245,6 m².

Rúmmál sagarhúss 348,9 m3 og smíðahúss 718,8 m3 samtals 1067,7 m3.

Matsverð kr. 12.800.000.-

2.   Spilhús o.fl.

Í gögnum málsins er smíðaár spilhúss víðast talið 1921 en þó er í fasteignamati 1970, sbr. matsskjöl nr. 27 og 28 smíðaárið talið 1924. Byggingarnar eru timburgrind á hlöðnum grjótsökklum klædd borðviði og tjörupappa. Skúrþak úr timburbitum, borðviði og tjörupappa. Timburveggur aðskilur spilhús frá skúrbyggingunni. Byggingarnar óeinangraðar.

Í spilhúsi er sérsteypt undirstaða spils og berghald þess, gólfið að öðru leyti steypt. Gólf í hluta skúrbyggingar steypt.

Hús þessi eru meira og minna úr lagi gengin að utan og innan. Við jöfnun á lóð menntaskólans hefur jarðefnum verið rutt upp að austurhlið og norðurgafli bygginganna er hefur orsakað skemmdir á þeim.

Ekki verður annað af gögnum ráðið en að byggingar þessari hafi verið í eðlilegu viðhaldi er byggingarframkvæmdir á grannlóð hófust.

Lokastærðartölur málsaðila: spilhús 20,5 m² og smíðaskúr 50 m² samtals 70,5 m². Rúmmál spilhúss 52,3 m3 og smíðaskúrs 127,6 m3,, samtals 179,9 m3.

Matsverð kr. 1.100.000.-

3.   Járnsmiðja

Staðsetning járnsmiðju kemur fram á matsskj. nr. 13.

Bygging þessi var rifin árið 1972. Nokkuð má ráða af gögnum um gerð og stærð þessa húss. Skv. fasteignamati er smíðaár 1924 og rúmtak hússins talið 172,5 m3. Skv. matsskj. nr. 9 var smiðjan fyrir árið 1944 talin 96 m3 að rúmtaki en síðar var hún stækkuð um ca helming. Á matsskj. nr. 13 mælist grunnflötur smiðjunnar 4,0 m x 14,0 m = 56 m².

Af ljósmyndum að dæma var smiðjan risbyggð. Framangreint mælir ekki gegn því að rúmmálsstærðartala fasteignamatsins sé nærri lagi og verður því sú stærð lögð til grundvallar við matið.

Telja má víst að smiðjan hafi verið úr timbri og gólfið steypt.

Ekki er ástæða til að ætla annað en að smiðjan hafi verið í viðunandi ástandi þegar hún var rifin árið 1972.

Matsverð kr. 1.400.000.-

4.   Bogaskemma

Smíðaár er talið skv. fasteignamati 1947. Bogaskemman er byggð á steyptum sökkli sem nær 1 m upp úr jörð og ca 1 m niðurfyrir gólf. Bogar eru úr stáli klæddir bárujárni. Gólfið úr jarðefnum, skemman óeinangruð. Stórar rennihurðir eru á götugafli. Lýsing með stórum lugtum. Viðhald skemmunnar viðunandi. Lokastærðir málsaðila: flatarmál 254 m², rúmmál 1342,6 m3.

Matsverð kr. 4.000.000.-

5.   Dráttarbraut.

Uppdráttur á matsskj. nr. 13 af Skipabraut Ísafjarðar sýnir sleðabrautina ásamt hliðagörðum og umhverfi. Mannvirkin voru byggð í áföngum á árunum 1921, 1946 og 1948. Sleðabrautin er alls 120 m að lengd með þrem samsíða brautarteinum með innbyrðis fjarlægð 2 m. U.þ.b. helmingur brautarinnar er uppúr um fjöru. Þar var undirbygging teinanna þannig gerð, að grafnir voru skurðir sem fylltir voru með grjóti og steypu og reitlagt á milli þeirra. Neðri helmingur brautarinnar hvílir á þvertrjám.

Steypt var í bilið milli spils og brautarenda (nú undir vegi).

Hliðargarðar eru 5 hvorumegin brautar, steinsteyptir með áboltuðum feitisplönkum og samanlögð lengd þeirra 100 m, þar af eru byggðir 52,0 m árið 1924 og 48,0 m árið 1948. Reitlagt er á milli garðanna. Festarhöld eru bæði á landi og í sjó eins og uppdrátturinn sýnir.

Malar og grjótfylling var gerð árið 1921 (U.þ.b. 2000 m3).

Varnargarður um 20 m að lengd að hluta steyptur var mjög laskaður.

Matsverð kr. 9.500.000.-.

Matsverð samtals kr. 28.800.000.-, og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir að eignarnemi greiði eignarnámsþola skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kr. 400.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 700.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, bæjarsjóður Ísafjarðar, greiði eignarnámsþola, Skipasmíðastöð M. Bernharðssonar h.f., Ísafirði, kr. 28.800.000.- og kr. 400.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 700.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum